Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Menning og listir

Mekka íslenskrar tónlistar

Harmur er nú kveðinn að íslenskum tónlistarmönnum þar sem talað er um að loka skemmtistaðnum Nasa við Austurvöll í Reykjavík.

 Ástsælasti hljómlistamaður þjóðarinnar samkvæmt fréttum RÚV, Páll Óskar Hjálmtýsson, segir að Nasa við Austurvöll sé Mekka íslenskrar tónlistar og ómissandi eigi íslensk tónlist að þrífast.

Synd að Páll Óskar skyldi ekki upplýsa þjóðina um þetta áður en lagt var út í þá vitfirringu að byggja tuga milljarða músikhúsið á Austurbakka Reykjavíkurhafnar.

Harpan er semsagt mistök. Nasa er málið.


Bjartsýnismaður allra tíma

Í sögu sinni Candide segir Voltaire  frá  bjartsýnismanninum Dr. Pangloss, sem trúði kenningum heimspekingsins Leibnitz sem eru: "Þessi heimur er sá besti af öllum mögulegum heimum. Þar sem Guð er algóður og almáttugur þá hlýtur jörðin sem Guð skapaði að vera fullkomin." 

Dr. Pangloss benti á sbr. kenninguna, að þrátt fyrir að hörmungar og þjáningar finnist víða, að þá hafi allt verið skapað til þess að það geti komið sem best út. Þess vegna var nefið skapað til að við gætum sett gleraugu á það. Þess vegna erum við með gleraugu.  Fæturnir voru skapaðir fyrir sokkana. Þess vegna  erum við í sokkum.

Þeir félagar Dr. Pangloss og Candíde lentu í mörgum vondum málum. Candide var rekinn að heiman og Dr.Pangloss varð að betla og smitaðist af sýfilis, en hann sagði að hefði Kólumbus ekki fengið sýfilis þá hefðu Evrópubúar aldrei kynnst súkkulaði. 

Loks urðu þeir skipreika við Lisabon og lentu í jarðskjálfta. Nokkru síðar stóð Dr. Pangloss dæmdur af rannsóknarréttinum frammi fyrir því að vera hengdur en tókst að flýja og lenti á galeiðu. Candide spurði "þegar þú hafðir verið hengdur, smáður, pyntaður og bundinn við árina, taldir þú alltaf að að allt leiði til bestu niðurstöðunnar?"  Dr. Pangloss sagði já, þetta hlýtur að vera svona af því að Leibnitz getur ekki haft rangt fyrir sér.

Mér datt þessi saga í hug þegar ég sá að enn styður þriðjungur kjósenda ríkisstjórnina. Veruleiki þeirra er sá sami og Dr. Pangloss að breyttum breytanda, að Jóhanna geti ekki haft rangt fyrir sér.


Glæsileg setning Landsfundar

Setning Landsfundar var bæði þjóðleg og virðuleg. Ræða formanns Sjálfstæðisflokksins var vel uppbyggð og sterk. Ef til vill fór formaðurinn  þó aðeins fram úr sér þegar hann fjallaði um Landsdómsákæruna á hendur Geir H. Haarde.

Það var eftirtektarvert og ánægjulegt að formaðurinn skyldi ekki nota setningaræðuna til að fjalla um formannskjör í flokknum heldur flytja Landsfundarfulltrúum og öðru Sjálfstæðisfólki jákvæða og framsækna stefnu í þjóðmálum.

Bjarni Benediktsson hefur ekki áður flutt jafn sterka ræðu á Landsfundi og nú.

Það var gaman að sjá þjóðlega umgjörð og yfirbragð við setningu fundarins og gamla trausta ræðustólinn í stað tildurstólsins sem var á síðasta Landsfundi.  En það vantaði eitt. 

Þjóðfánann vantaði. Það má ekki henda aftur að íslenski fáninn sé ekki í öndvegi við setningu Landsfundar. 

Því má ekki gleyma að Sjálfstæðisflokkurinn er íslenskur flokkur sprottinn úr íslenskum jarðvegi  á grundvelli íslenskrar menningar og kristilegra mannúðargilda.


Rafbækur og íslenskt mál

Samningur um útgáfu íslenskra rafbóka var undirritaður í gær. Á morgun er dagur íslenskrar tungu. Það hefði verið gaman að samningurinn hefði verið gerður þann dag.

Rafbækur munu í vaxandi mæli koma í stað pappírsbóka. Kostirnir við rafbókina eru margir m.a. að hægt er að vera með þess vegna 1000 bækur í lítilli lestölvu. Bókapöntun er afgreidd samstundis og rafbókartölvan er léttari en pappírsbókin.  Samt erum við bara á upphafstíma rafbókarinnar.

Rafbókin er líka umhverfisvænni en pappírsbókin.

Ég hef notað næst einföldustu gerð af Kindle lestölvu í rúmt ár. Hægt er að nota þá leturstærð sem hver kýs. Algengt verð á rafbókum er um eða undir 1000 krónur. Þegar bók Alistair Darling "Back from the brink" kom út keypti ég hana og byrjað að lesa á Kindlinum á sömu klukkustund og hún kom út.

Sé það vilji stjórnvalda að styðja íslenskt mál og málkennd þá er ljóst að okkar fámenna málsvæði verður að bregðast við rafbókinni með því að auðvelda útgáfu rafbóka á íslensku.


200 innheimtulögfræðingar

Meiri hluti ríkisstjórnarinnar á Alþingi, Þráinn Bertelsson fór mikinn í ljósvakamiðlum í kvöld vegna Kvikmyndaskóla Íslands og gerði kröfu til að hann fengi rekstrarfé úr ríkissjóði og sagði það merkilegra en mennta 200 innheimtulögfræðinga.

Kvikmyndaskóli Íslands er allra góðra gjalda verður  og vel getur verið rétt að skólinn fái aukið fé úr ríkissjóði. Það er óviðkomandi námi annars fólks.  Ég veit ekki til þess að nokkur skóli á Íslandi mennti innheimtulögfræðinga eða það sé sérstök námsbraut.  Þráni Bertelssyni finnst hins vegar rétt að gera lítið úr lögfræðinámi og það er  í samræmi við aðra sleggjudóma þessa manns.

Ekki er hægt að áfellast Þráinn Bertelsson fyrir vanþekkingu í skóla-og menntamálum en hitt ætti hann að vita, að hann er í sama stjórnmálaflokki og menntamálaráðherra og gæti því borið erindi Kvikmyndaskóla Íslands beint undir hana. Hann gæti komið fordómum sínum varðandi lögfræðinám á framfæri milliliðalaust og gert kröfur varðandi Kvikmyndaskólann. Þráinn er altént líftaug gjörspilltrar ríkisstjórnar, sem mundi vafalaust ekki muna um einn kepp í sláturtíðinni þegar svo mikilvægur maður á í hlut.

Þráinn getur því sparað sér þann pópúlísma og sýndarmennsku sem hann viðhafði í sjónvarpi í kvöld en unnið vinnuna sína á þingflokksfundum Vinstri grænna en undir þá heyra þessi mál.

Skrýtið að þessi heiðurslaunþegi skuli aldrei geta opnað munninn án þess að veitast að öðru fólki og reyna að gera lítið úr því.


Tómarúm í miðborginni

Miðborg Reykjavíkur er fátækari eftir að bókabúð Máls og menningar lokaði.  Það var ekki að ástæðulausu að bókabúðin var valin ein af bestu bókabúðum í Evrópu.  Bókabúðin var kærkomin menningarleg vin í þessari miðstöð Mammons í Reykjavík.

Sú var tíðin að bókabúð Máls og menningar var merkisberi ákveðinnar pólitískrar hugmyndfafræði sem mér hefur alltaf verið í nöp við. Samt sem áður var gott að koma í búðina til að ná í bækur sem gátu nýst í baráttunni gegn þeim sem aðhylltust þau sjónarmið sem bókabúð Máls og menningar stóð fyrir.

Það var ef til vill kaldhæðni örlaganna að síðasta bókin sem ég keypti í bókabúð Máls og menningar var bók um ógnarstjórn kommúnista í Norður Kóreu. Þannig geta hlutirnir og tilgangurinn breyst í tímans rás. Bókabúðin varð fyrir löngu góð bókabúð án sérstakrar skírskotunar til þeirrar helstefnu sem margir af stofnendum hennar vildu að hún héldi á lofti.

Lokun bókabúðar Máls og menningar leiðir hugann að tvennu. Í fyrsta lagi að því að á Íslandi ríkir ekki eðlileg samkeppni lengur í verslun, m.a. vegna ríkishafta og afskipta en þó meir vegna stórreksturs banka og  fjármálafyrirtækja. Ójöfn barátta Máls og mennigar gegn ofurvaldi bankarekinna samkeppnisaðila varð bókabúðinni m.a. að falli. Það er enn kaldhæðni örlaganna að fall bókabúðarinnar megi rekja til skorts á samkeppni. Bókabúðin barðist einmitt gegn markaðs- og samkeppnisþjóðfélaginu í árdaga.

Í öðru lagi þá leiðir maður hugann að því hver verður framtíð hefðbundinna bókaverslana. Eins gaman og mér þykir af bókum og bóklestri þá á ég stöðugt minna erindi í bókabúðir vegna þess að nú er einfaldara og ódýrara að kaupa erlendar bækur á netinu. Tölvubókin er síðan enn ein bylting sem hlítur að hafa mikil áhrif. Í dag kaupi ég bók á Amason lestölvuna mína og hún er tilbúin til lestrar innan 5 mínútna frá því að ég ýtti á takkann um að kaupa bókina.

Unnendur bóka og bóklestrar verða að leiða hugann að því hvernig á að bregðast við í breyttum heimi bókarinnar. Ef að líkum lætur  mun frjálsi markaðurinn finna sér eðlilegan farveg í þessu efni ef hann fær þá að vera til í þessu sérkennilega miðstýrða Hörmangaraveldi viðskipta á Íslandi.


Hvað þýðir orðið jól?

Undanfarna daga höfum við óskað öðrum aftur og aftur gleðilegra jóla. En hvað þýðir það? Hver er merking orðsins jól?

Jólin eru haldin í kristnum löndum til minningur um fæðingu Jesús í samræmi við helgisöguna. En af hverju köllum við þessa hátíð jól?

Maður á tíræðisaldri spurði mig í gær hver væri merking orðsins jól. Ég hélt að það væri ekki flókið að finna út úr því, en komst að hinu gagnstæða. Uppruni orðsins er óviss og umdeildur. Samkvæmt íslenskri orðsifjabók Ásgeirs Blöndals Magnússonar þá eru ýmsar getgátur en af þeim hallast ég helst að því að um gamalt germannskt orð sé að ræða eða hljóðfirringarmyd af því þannig að upphafleg merking hafi verið hjól eða vetrarsólhvörf eða árstíðarhringur. Þá hefur gömul germönnsk sólhvarfahátíð verið yfirtekin af kristnum mönnum eða hvað?

Viti einhver betur þá væri gaman að fá upplýsingar um það. 

Þá er líka spurning hverjir nota þessa orðmynd eða líkingu hennar fyrir utan Norðurlöndin. Í ensku er til Yule þó það sé sjálfsagt lítið notað í því tungumáli. Getur e.t.v. verið að Noel í frönsku og vallónsku sé sama orðmyndin?  Spyr sá sem ekki veit nógu mikið.

Merkilegt að merking orðsins jól skuli ekki vera á hreinu. 


Gróði skattgreiðenda?

Fulltrúar hagsmunaaðila halda jafnan fram, að leggi ríkið þeim til peninga þá muni þjóðfélagið græða. Gróði skattgreiðenda er að borga þessi arðbæru verkefni núna til að geta notið þeirra síðar.

Í meir en 50 ár hafa skattgreiðendur greitt gríðarlega fjármuni árlega til að tryggja markaðssókn í sauðfjárrækt. Ekkert hefur skilað sér til baka og enn nýtur sauðfjárræktin meiri styrkja skattgreiðenda en aðrar landbúnaðargreinar í Evrópu.

Talsmenn músíkhússins við höfnina í Reykjavík halda því fram að húsið muni ekki kosta skattgreiðendur neitt því að þjóðhagslegur hagnaður af músíkhúsinu vegna grósku í söng- og öðru listalífi muni skila sér í auknum tekjum þ.á.m. gjaldeyristekjum. Fróðlegt verður að sjá hvernig á að rökfæra það að ná megi inn hagnaði þó ekki sé nema bara á móti rekstrarkostnaði við músíkhúsið sem verða rúmir 8 milljónir á dag, hvað þá byggingarkostnaðinum.

Annað ferlíki er norður á Akureyri sem minnir á rómverskt hringleikahús, þar sem menning og menntun á að vera í öndvegi.  Þessi Circus Maximus átti að vera lyftistöng í menningarstarfsemi og draga til sín ferðamenn þannig að  gróði yrði af öllu saman. Er þar ekki sama og með músíkhúsið?

Talsmenn háskóla hafa bæst í hóp þeirra sem benda á þjóðhagslegan hagnað háskólastarfs. Ísland ætti að vera betur sett en nokkuð annað land í veröldinn með flesta háskóla fyrir hvern íbúa.  Á grundvelli þjóðhagslegrar hagkvæmni ber því enn að auka háskólakennslu vafalaust einkum á þeim  námsbrautum þar sem engin eftirspurn er fyrir menntuninni á markaðnum. Vafalaust má rökfæra það með sömu rökum og með músíkhúsið, sauðaketið og hringleikahúsið norðan Helkunduheiðar að þetta muni vera gríðarlegur vaxtabroddur og færa skattgreiðendum mikið hagræði.  

Í framtíðinni geta því skattgreiðendur horft fram á góða daga með því að standa undir okursköttum í núinu og samþykkja hallarekstur ríkissjóðs í núinu vegna þeirra gríðarlegu tekna sem myndast í frjósömu listalífi landsmanna tengdum músíkhúsinu og hringleikahúsinu, markaðssókn sauðaketsins og aukinni kennslu í kynjafræðum á háskólastigi. Eða er ekki svo?


Músikhúsið við höfnina

Okkur er sagt að ofan á alla milljarðana sem búið er að setja í músikhúsið við höfnina þá vanti 800 milljónir í viðbót til að klára það og veita rúmlega hundrað Kínverjum vinnu við húsið næstu misserin. Sjálfsagt veitist ríkisstjórninni, sem gerir ekkert til að leiðrétta stökkbreytta höfuðstóla húsnæðislána, ekki erfitt að grafa upp þessar 800 milljónir til að greiða Kínverjunum verklaunin.

Þegar er ljóst að engir peningar eru til að reka húsið en rekstrarkostnaðurinn mun nema yfir 4 milljónum á dag frá ríkinu og 4 milljónum á dag frá Reykjavíkurborg.  Fróðlegt er að vita hvort rekstraraðilarnir Jón Gnarr og Jóhanna vandræðist eitthvað með það á tímum niðurskurðar.

Til hvers þá að setja 800 milljónir í þessa atvinnubótavinnu fyrir Kínverja?

Er þetta e.t.v. ein af skýringunum á því að Gylfi forseti ASÍ skuli vera alveg brjálaður þessa dagana út í ríkisstjórnina fyrir aðgerðarleysi í atvinnumálum og heimtar að engir starfsmenn upprunnir utan Evrópska efnahagssvæðisins komi að íslenskum vinnumarkaði? 


Nýtt Þjóðleikhús

þjoðleikhusið.jpg.Á forsíðu Fréttablaðsins er sagt frá því að Þjóðleikhúsið sé að hruni komið auk þess sem tækjabúnaður sé gamall úreltur og jafnvel hættulegur. Þá sé vinnuaðstaða ófullnægjandi og brunavörnum verulega áfátt.

Ekki er svo ýkja langt síðan kostnaðarsömum viðgerðum og endurbótum lauk á Þjóðleikhúsinu. Nú þarf marga milljarða í viðbót. Mér er ljóst að margir hafa viðkvæmar taugar til gamalla bygginga. Þjóðleikhúsið er þó ekki eldra en 59 ára sem telst ekki mikið þegar um hús er að ræða. 

Ég tel mikilvægt að búa íslenskri leiklist góð skilyrði. Spurningin er þá hvernig á að gera það. 

Er skynsamlegt að endurbyggja Þjóðleikhúsið?

Er e.t.v. skynsamlegt að skoða möguleika á samvinnu við Borgarleikhúsið?

Væri hugsanlega mesta þjóðráðíð að setja þá fjármuni sem ella færu í endurbyggingu og viðhald Þjóðleikhúss í músikhúsið við höfnina og gera það að  Þjóðleikhúsi?

Ég er hræddur um óháð því hvaða tilfinningar fólk ber til Þjóðleikhúsbyggingarninar að það borgi sig ekki að halda áfram að tjasla upp á það. Aðrar lausnir séu líklegri til að hlúa að og örva gott og nútímalegt leiklistarstarf  og listastarf í landinu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.5.): 20
  • Sl. sólarhring: 1135
  • Sl. viku: 7235
  • Frá upphafi: 2312883

Annað

  • Innlit í dag: 20
  • Innlit sl. viku: 6697
  • Gestir í dag: 20
  • IP-tölur í dag: 20

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband