Leita í fréttum mbl.is

Alþingi ályktar að örvhentir séu rétthentir

Lögð hefur verið fram á Alþingi sérkennilegasta þingsályktunartillagan sem þar hefur séð dagsins ljós um árabil og er þá langt til jafnað.  Flutningsmenn virðast ekki gera sér grein fyrir valdmörkum milli löggjafarvalds og dómsvalds og ákæruvalds.

Mörður Árnason og meðflutningsfólk leggur til að Alþingi komist að þeirri niðurstöðu að árás svokallaðra níumenninga á Alþingi hafi ekki verið árás og alla vega hafi því eða sjálfræði Alþingis ekki verið hætta búin. Þetta leggja þingmennirnir til þrátt fyrir það að Ríkissaksóknari hafi ákært í málinu og það sé nú til meðferðar hjá dómstólum.  Þetta leggja þingmennirnir til þrátt fyrir að árásarliðið sem réðist inn í Alþingi hafi slasað starfsfólk þingsins.

þessi tillöguflutningur er flutningsmönnum þeim Merði Árnasyni, Álfheiði Ingadóttur, Margréti Tryggvadóttur, Birni Val Gíslasyni, Birgittu Jónsdóttur, Lilju Mósesdóttur, Þráni Bertelssyni og Valgerði Bjarnadóttur til skammar.

Af hverju vilja flutningsmenn reyna að grípa fram fyrir hendur dómsvalds og ákæruvalds í landinu. Á það að vera hlutverk Alþingis eða ríkisstjórna að segja dómurum og ákæruvaldi fyrir verkum.  Fer það ekki á svig við það sem boðað hefur verið af flestum sem tjáð hafa sig um stjórnarskrármál að skerpa þurfi skilin á milli framkvæmdavalds, dómsvalds og löggjafarvalds.

Hvað svo ef Alþingi samþykkir nú þessa þingsályktunartillögu, en síðan fellur dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur og síðar í Hæstarétti að þetta hafi samt verið árás á Alþingi. Hvað á þá að gera? Getur Alþingi eitthvað gert með það? Nei einmitt ekki, en það sýnir hversu gjörsamlega fráleit þessi tillöguflutningur er og til skammar þeim sem að standa. Það er nú í verkahring dómsvaldsins að fjalla um þetta mál en ekki Alþingis. Það ætti öllum þingmönnum að vera ljóst, líka Merði Árnasyni.

Auk þess má benda flutningsmönnum á, að Alþingi getur ályktað á þá lund að örvhentir séu rétthentir eða engin ofbeldisverk hafi verið framin á Íslandi árið 2008. Samt sem áður breytir það ekki staðreyndum ekki frekar en sú samþykkt á fyrri öldum að sólin snérist í kring um jörðina.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Rétt Jón Magnússon, þetta mál er nú í höndum dómstóla og þaðan getur eingin, nema þá hryðjuverka hópur tekið það. 

Það hefur eingin heimild til að ganga inn í mitt hús án þess að ég eða hún Helga mín höfum boðið til þess.  Það hefur eingin heimild til að ryðjast inn í alþingishúsið okkar nema til þess bærir hafi boðið þar inn og hverjir voru það? 

Það er með ólíkindum ef lög og réttur gildir ekki jafnt um ærlegt fólk og skríl.  Það vísar á eitthvað mjög annarlegt ef dómsvaldið á ekki að fá frið til að vinna úr þeim málum sem það hefur fengið til að fá niðurstöðu í. 

Hvað er það sem þetta fólk óttast svo mjög við rannsókn þessa máls að það er tilbúið til að gera sig að fíflum til að reyna að stöðva það?

   

Hrólfur Þ Hraundal, 11.11.2010 kl. 13:50

2 Smámynd: Jón Magnússon

Það er alveg rétt Hrólfur. En maður veltur því fyrir sér hvort eitthvað af þessu fólki sem þarna leggur til að löggjafarvaldið taki fram fyrir hendurnar á dómsvaldinu og ákæruvaldinu telji sér einhverra hluta vegna skylt að gera allt sem það getur til að koma í veg fyrir að málið fái eðlilegar lyktir hjá dómstólum.  Merkilegt að þetta lið skuli telja þetta mikilvægara heldur en skuldavanda heimilanna.

Jón Magnússon, 11.11.2010 kl. 15:47

3 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Ekki vænkast hagur Alþingis við svona tillöguflutning.  Geta þingmenn virkilega flutt tillögur um allt milli himins og jarðar og meira að segja mál, sem þingið má í raun ekki skipta sér af?

Þessi tillöguflutningur hlýtur að teljast með því lægsta, sem þingmenn geta komist í lágkúru og er þá langt til jafnað.  Jafn vel þó svona vitleysisleg tillaga yrði samþykkt, þá hefur hún auðvitað ekkert gildi, annað en að verða þeim, sem hugsanlega myndu samþykkja hana, til skammar.

Hugsanlega gætu þingmennirnir flutt frumvarp til laga, sem heimilaði innrásir í Alþingishúsið, refsingarlaust, svo framarlega sem ekki væru slasaðir nema örfáir starfsmenn í hvert skipti og jafnræðis yrði gætt milli þingflokka varðandi meiðingar á þingmönnum.

Axel Jóhann Axelsson, 11.11.2010 kl. 16:23

4 Smámynd: Gústaf Níelsson

Mér er nú eiginlega alveg óskiljanlegt hvers vegna héraðsdómur hefur ekki lokið þessu máli og kveðið upp dóm. Þessi furðulegi dráttur á málslyktum og ennfurðulegri háttsemi eins verjandans Ragnars Aðalsteinssonar í málinu, kann að benda til þess að dómurinn sé ekki alveg að ráða við málið - af stjórnmálaástæðum.

Gústaf Níelsson, 11.11.2010 kl. 20:41

5 Smámynd: Skeggi Skaftason

Jón og Hrólfur:

Einstaklingarnir níu sem eru ákærðir fyrir árás á Alþingi voru að fara inn í SITT hús.

"Árás svokallaðra nímenninga" var ENGIN árás! Það sér hver sem skoðað hefur upptökur úr öryggismyndavél frá bakdyrainngangi Alþingis þennan dag, lesið viðtöl við nímenninganna og frásagnir þeirra og fylgst með réttarhöldunum yfir þeim.

Vonandi þarf ekki þessa þingsályktunartillögu til að fella niður málið. Vonandi dregur saksóknari ákæruna tilbaka, eða dómari vísar því frá, svo ungmennin níu, foreldrar þeirra, börn, og vinir og ættingjar þurfi ekki að óttast að þeim verði stungið í FANGELSI fyrir að grípa til aðgerða og tjá hug sinn, gegn lömuðu Alþingi haustið 2008.

Skeggi Skaftason, 11.11.2010 kl. 21:37

6 Smámynd: Kristinn Ásgrímsson

Ef þetta fólk hefði verið her, þá hefðu þau sennilega kallast "liðhlaupar" en að mínu mati þá er þetta "lögleysi" og það er sár raun að því að horfa upp á löggjafarþingið snúast upp í andhverfu sína.

Kristinn Ásgrímsson, 11.11.2010 kl. 22:03

7 Smámynd: Jón Magnússon

Já það gætu þeir gert Axel þeir geta lagt fram nánast hvað sem er. En það ber bara þeim einstklingum vitni sem bullukollast með þessum hætti.  En því miður dregur þetta allt úr trúverðugleika Alþingis sem stofnunar og greiðir götu Gnarrismans, sem er eftir á að hyggja ekkert verri en þetta bull.

Jón Magnússon, 11.11.2010 kl. 22:45

8 Smámynd: Jón Magnússon

Ég hygg Gústaf að enn njóti Ragnar Aðalsteinsson hrl. þess að vera senior í lögmannastétt og fyrrverandi formaður LMFÍ. En þolinmæði dómstóla hlítur að vera komin að þrotum gagnvart honum. En saksóknarinn hefur líka sitt að segja um framgang málsins ekki bara dómstóllinn. Saksóknarinn gæti t.d. gert kröfur vegna málatilbúnaðar lögmannsins Ragnars, sem hún hefur ekki gert.

Jón Magnússon, 11.11.2010 kl. 22:47

9 Smámynd: Jón Magnússon

Skeggi sé þetta svona er þá nokkurt vandamál að láta málið ganga til dóms? Er ekki best að málið fái sína eðlilegu réttarfarslegu meðferð. Er það ekki betra heldur en að pólitíkin sé að grípa fram fyrir hendur dómstólanna.  Vilt þú virkilega þjóðfélag þar sem pólitíkin stjórnar dómstólunum og sekt eða sakleysi fer eftir pólitískum flokksskírteinum?

Jón Magnússon, 11.11.2010 kl. 22:53

10 Smámynd: Jón Magnússon

Mér finnst verst Kristinn að þessir þingmenn skuli ekki átta sig á eðlilegum valdmörkum milli löggjafarvalds og dómsvalds. 

Jón Magnússon, 11.11.2010 kl. 22:55

11 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Ég sé að þú átt ekki í neinum vandræðum Jón.   Mig langar þó að benda Skeggja á, að þrátt fyrir að við þjóðin eigum alþingishúsið og Þingvelli sem og önnur hús og aðrar eignir eins og tildæmis fangelsi og skóla,  þá gilda reglur um það hvernig  og hverjir ganga þar um.  Það getur verið að stjórnleysingjar séu ósáttir við þetta en meirihluti Íslendinga eru ekki stjórnleysingjar.   Mér skilst að umræddur inngangur hafi átt að vera læstur, veist þú hversvegna svo var ekki?

Hrólfur Þ Hraundal, 11.11.2010 kl. 23:18

12 Smámynd: Skeggi Skaftason

Var ég að tala um pólitísk flokksskírteini? Hvað áttu við???

Nei nei, "ekkert vandamál" að láta málið ganga til dóms. Eru þau ekki bara að baða sig í athyglinni, eins og ýmsir bloggarar hafa fullyrt?

Hvað ef þetta væru ÞÍN börn sem væru ákærð af RÍKINU fyrir brot sem varða að lágmarki 1 árs fangelsi?

Hvað ef það væri þín barnabörn sem vissu af mömmu sinni á sakamannabekk í dómstól? Og mamman reynir að hugga barn sitt, telja því trú um að þetta sé bara misskilningur, að það sé bara "best að málið fái sína eðlilegu réttarfarslegu meðferð".

Skeggi Skaftason, 11.11.2010 kl. 23:18

13 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka þér fyrir Hrólfur þetta er góð athugasemd og ábending. Níumenningarnir hefðu t.d. ekki getað vaðið inn á Litla Hraun eða réttarsali héraðsdómstólanna eða Hæstaréttar eða sjúkrahús eða annað með látum eins og um var að ræða um aðför þeirra að Alþingi. En við höfum þá reglu að hver maður sé saklaus þangað til sekt hans sé sönnuð. Þess vegna er best að bíða með sakfellingu eða sýknu þangað til dómstólar hafa unnið sitt verk. 

Jón Magnússon, 12.11.2010 kl. 11:42

14 Smámynd: Jón Magnússon

Ef þetta væru mín börn þá mundu þau líka verða að svara til saka vegna þess sem þau gera. Það á ekki að fara í manngreinarálit hvað það varðar.  Ég átta mig síðan ekki á hvaða erindi þetta síðara á Hrólfur.  Það geta allir leitað huggunar og það bannar enginn að hugga ef með þarf en hvað kemur það þessari vitlausu tillögu við.

Jón Magnússon, 12.11.2010 kl. 11:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 82
  • Sl. sólarhring: 488
  • Sl. viku: 2748
  • Frá upphafi: 2298273

Annað

  • Innlit í dag: 72
  • Innlit sl. viku: 2568
  • Gestir í dag: 70
  • IP-tölur í dag: 68

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband