Leita í fréttum mbl.is

Svona umfjöllun verður að taka alvarlega.

Umfjöllun eins og sú sem er um íslenska efnahagskerfið í Sunday Telegraph verður að taka alvarlega. Sunday Telegraph sunnudagsútgáfa Daily Telegraph er blað sem nýtur virðingar og þykir hallt undir sjónarmið íhaldsmanna í enskum stjórnmálum og því eins konar Morgunblað þar í landi.

Þrátt fyrir að taka verði fréttir eins og þessar alvarlega þá verður samt að benda á að það er ekki einsdæmi að erlend blöð birti fréttir sambærilegar þessari í Sunday Telegraph. Sem betur fer haf þær fréttir ekki reynst vera réttar. Það er hins vegar ljóst að í fjármálastarfseminni þá hafa íslensku bankarnir og fjárfestarnir gengið hratt um gleðinnar dyr og öll merki benda til þess að niðursveifla sé í efnahagslífi Bandaríkjanna og Bretlands sem getur haft afdrifarík áhrif fyrir okkur.

Það má ekki gleyma því að fjármálastarfsemi hefur verið helsti vaxtabroddur íslensks efnahagslífs undanfarin ár og niðursveifla á þeim markaði og enn alvarlegri hlutir mundu hafa verulega afdrifarík áhrif til ills fyrir okkur. Það verður því að gera allt til að koma í veg fyrir að spár eins og þessar rætist.

Hitt er svo annað mál að forustumenn í íslensku fjármálalífi hafa hagað sér með ólíkindum í ýmsum tilvikum. Ofurlaun sem eru langt umfram það sem sæmilegt er, kaupaukar og bruðl sem hefur um of einkennt starfsemi sumra fjármálastofnana eru óeðlileg og fráleitt annað en brugðist sé við með hátekjuskatti á ofurlaun.  Bruðl og ofurlaun sem hafa viðgengist undanfarin ár í fjármálastofnununum eru ósæmileg og enn verri ef í ljós kemur að engin innistæða var fyrir slíku.


mbl.is Er allt á niðurleið á Íslandi?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Þór Hafsteinsson

Þessi umfjöllun birtist fyrir nokkrum dögum í Aftenposten í Noregi:

http://e24.no/utenriks/article2210232.ece

Magnús Þór Hafsteinsson, 3.2.2008 kl. 13:06

2 identicon

Nákvæmlega Jón!! En hvernig er hægt að koma vitinu fyrir forkólfana án þess að vera sagður öfundsjúkur ?

Jónína Benediktsdóttir (IP-tala skráð) 3.2.2008 kl. 13:48

3 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Takk fyrir þetta!

Ásgeir Rúnar Helgason, 3.2.2008 kl. 13:56

4 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sæll Jón. Flott grein hjá þér. Ég undrast hvað fjölmiðlar velta sér lítið upp úr þessari græðgi hjá bönkunum og stórfyrirtækjum en fjölmiðlaumfjöllun er  það eina sem getur haft áhrif á þróun þessara mála. Eins og Jónína bendir á þá fær maður bara öfundarstimpilinn á sig ef maður er að fjasa út af þessu og því verður það áhrifalaust tal.

Kolbrún Stefánsdóttir, 3.2.2008 kl. 15:43

5 Smámynd: Jóhann

Svona umfjöllun verður að taka varlega.

Jóhann, 3.2.2008 kl. 15:57

6 Smámynd: Árni Gunnarsson

Bankarnir voru seldir og að lokum fannst öllum það sjálfsagður hlutur nema mér. Ég var einlægt að tuða um að ef það væri hægt að græða svona mikið á þessum bönkum ætti ríkið að gera það. Menn brostu góðlátlega að þessum aulahætti mínum og sögðu að ríkið ætti ekki að vera að vesenast í rekstri. "Það sjá nú allir" fylgdi með og þetta svar var svo staðlað að það minnti á upphrópunina "Guð hjálpi þér!" þegar maðurinn við hliðina hnerrar.

En það var einlægt verið að ræða um að þarna yrðu að vera "kjölfestufjárfestar!" Þetta orð skildi ég ekki til fulls í fyrstu en fannst það magnað þegar ég áttaði mig á merkingunni og stórum skiljanlegra en "vergar tekjur" sem ég hef aldrei almennilega botnað mikið í.

En ég þráaðist við og spurði hversvegna ríkið gæti ekki barasta verið þessi kjölfestufjárfestir með svona 25% eignarhlut.

Þá var nú hlegið, skal ég segja ykkur.

Ég gekk með þetta steinfóstur í maganum í nokkur ár.

Svo var það í fyrrasumar að góðkunningi minn bauð mér upp á kaffi á Café París. Þessi maður er einn af lykilmönnum í útrásarverkefnum annars ríkisbankans fyrrverandi, en nafni hans mun ég skýla.

Nú tók ég á mig rögg og stundi þessa spurningu upp við félaga minn fullviss um að hann myndi ekki bera þessa fávisku mína út á meðal sameiginlegra kunningja okkar. Ég hrökk upp við svarið:

"Auðvitað átti ríkið að halda eftir hlut við sölu bankanna og verða kjölfestufjárfestirinn í dæminu. Svona aulalegir viðskiptahættir eru einsdæmi og hefðu hvergi tíðkast nema á Íslandi."

Ég hækkaði all verulega í sætinu, þarna var ég að ræða við mann sem hafði komið að kaupum á öðrum bankanna með beinum hætti og fylgt,-og staðið sjálfur að metnaðarfullri útrás hans og milljarðagróða frá fyrstu dögum. Meirihlutinn, hagspekingarnir á götunni og í fjölmiðlum höfðu´verið að bulla en ég haft rétt fyrir mér allan tímann.

Nú á dögunum heyrði ég í fréttum eitthvert rykti um að líklega væru umsvif bankanna orðin íslenska ríkinu bagaleg í tilliti efnahagslegs trúverðugleika landssjóðsins. Hlutfall skulda þessara banka í samanburði við eignir og veltu ríkissjóðs væri farið að hringja viðvörunarbjöllum í útlandinu.

Og nú stendur Davíð Oddsson skjálftavaktina í Seðlabankanum, skíthræddur um að kraftaverk hans í viðskiptum á glæstri ráðherratíð birtist honum einn slæman veðurdag í efnahagslegu stórslysi.

Megi allar góðar vættir forða því að svo fari. Það er nefnilega ofvaxið Framkvæmdasjóði aldraðra að taka við þeim skelli, þó oft hafi nú verið gott að grípa til hans.    

Árni Gunnarsson, 3.2.2008 kl. 16:56

7 Smámynd: Ari Guðmar Hallgrímsson

Fyrirtakspistill og orð í tíma töluð,Commentið hans Árna athyglisvert innlegg í umræðuna.

Bloggaði um þetta í morgun,og komst að líkri niðurdtöðu

Mér sýnist þeir sem hér hafa commentað vera á svipuðu máli..Kveðja

Ari Guðmar Hallgrímsson, 3.2.2008 kl. 17:27

8 identicon

Fyrir nokkrum mánuðum benti ég á þessa nauðsyn að setja á hátekjuskatt á ofurlaun og að setja á þrepaskatt hér á landi, en fékk ekkert nema svívirðingar á blogginu (sennilega frá hátekjufólki sem hefur ekkert annað að gera en að vera á netinu). Ég sá mig tilneydda til að eyða þessari færslu þar sem það "fór í brjóstið hjá hátekjufólkinu", enda fékk ég þó nokkrar nafnlausar færslur um hvað ég væri "vond manneskja" að tala um að auka skattheimtu á þetta fólk !

Brynja D (IP-tala skráð) 3.2.2008 kl. 18:37

9 identicon

Úrdráttur úr grein eftir undirritaðan ''Lýðveldið Ísland og Evrópusambandið''sem birtist í Morgunblaðinu á sjómannadaginn 6.júni 2004. Það hafa margir hugsandi menn hér á landi varað við þessu lengi að svona hagkerfi gæti ekki gengið á lýginni einni saman svo að sjá þessa umfjöllum í stórblöðum erlendis er ekkert sem kemur þeim á óvart. Kveðja, Baldvin Nielsen

,,Annað ákvæði í EES- samningnum um frjálst fjármangsflæði milli aðildarríkjanna skipti sköpum og fullveldissinnar treystu því ekki að okkar litla hagkerfi stæðist ágang erlends fjármagns og myndi því hreinlega sogast inn í hringiðu hagkerfis Evrópusambandslandanna. Þetta myndi leiða til þess að Íslendingar misstu efnahagslegt sjálfstæði sitt í framtíðinni.

Eins og sjá má á þjóðmálaumræðunni í dag hafa erlendar skuldir landsmanna vaxið langt umfram getu okkar litla hagkerfis eftir inngönguna í EES og hafa þær aldrei verið meiri. Góðæriskenningin á sínar rætur frá þessari þróun, skuldir undirstaðan þó þeirra væri aldrei getið í sjálfum málflutningnum þ.e.a.s. þeirra sem studdu EES samninginn. Sannarlega hafa þær verkað sem driffjöður á lífæð hagkerfisins hér á landi, já, hér er verið að tala um skuldir, sem jafnframt hafa verið stór þáttur stöðugleikans, svokallaða.

En hvar er hin raunverulega framleiðni? Uppsveifluna í efnahagslífinu má rekja að mestu leyti til uppbyggingar á Stór- Reykjavíkursvæðinu sem varð til vegna landsbyggðarflóttans sem hefur verið mikill síðustu tvo áratugina. Hornsteinn þessarar þróunar, (landsbyggðarflóttinn annars vegar og fjármagnsstreymið til uppbyggingar hér syðra hins vegar) var lagður með kvótabraskkerfinu sem tryggt var svo í sessi með aðildinni að EES samningnum, áratug síðar. Þetta gerði hinum fáu útvöldu kleift að fjármagna mestu búsyfjan af mannavöldum í sögu þjóðarinnar.

Alls kyns spákaupmennska hefur rutt sér til rúms síðustu árin þar sem arður er gerður úr væntingum og greiddur út í milljörðum til réttra aðila. Þetta hefur verið að gerast í íslensku atvinnulífi og nú síðast í sjávarútveginum á Akureyri, svo tekið sé dæmi. Sameiningarferli íslenskra fyrirtækja undir nafninu ,,Hagræðing” er eingöngu til þess fallið að fyrirtækin geti haldið sjó á meðan þau eru að ná þeim stærðum á markaðinum að þau verði góður fjárfestingarkostur fyrir stóru erlendu fjárfestana sem bíða handan við hornið.

Lykilinn til að ná þessum markmiðum endanlega er innganga okkar í ESB svo að erlendir fjárfestar geti eignast hér áhrif og völd í framtíðinni í okkar annars auðuga landi. Með inngöngunni myndu hinir fáu útvöldu áskotnast mikið fé við að selja auðlindir íslensku þjóðarinar ásamt réttindum til lands og sjávar sem þeir hafa verið að söðla undir sig síðustu misserin geng vilja þorra landsmanna.

Íslenskum útflutningsfyrirtækum er fyrirmunað að stunda sjálfbæran og heilbrigðan atvinnurekstur svo sem í sjávarútvegi og iðnaði. Þau heyja allt að því vonlausa baráttu vegna kvótabraksins og hátt gengis íslensku krónunnar en í staðinn hefur rekstrargrundvelli þeirra verið haldið gangandi með stöðugu flæði af erlendu lánsfé inn í hagkerfið. Gjaldþrot hafa verðið með mesta móti á síðasta ári og sér ekki fyrir endann á þeirri óheilla þróun.

Samtök iðnaðarins hafa staðfest flótta iðnfyrirtækja frá Íslandi. Þreytumerki hafa líka komið fram hjá fyrirtækjum sem framleiða gjaldeyrissparandi vörur fyrir innanlandsmarkað og eru í samkeppni við innfluttar vörur sem eru ódýrari en ella vegna gjaldeyrisútsölunnar. Framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins Sveinn Hannesson vísaði til þeirra staðreynda í Viðskiptablaði Mbl. 26. febrúar s.l. þegar hann sagði að mörg fyrirtæki væru í rekstri þrátt fyrir að í raun væru þau löngu orðin gjaldþrota. Þar kom einnig fram að Samtök iðnaðarins teldu að full aðild að ESB og upptaka evru væri besta vörnin til að bæta markaðsstöðu íslenskra útflutningsfyrirtækja.''

Baldvin Nielsen (IP-tala skráð) 3.2.2008 kl. 19:11

10 identicon

Það er ekki hægt að taka svona frétt alvarlega. Þetta er góð hreinsun í fjármálageiran. Við þurfum að hugsa um hvaðan við komum og sérstöðu Íslands. Mér finnst alvarlegra að við erum missa ýmsa atvinnustarfsemi úr landi. Til dæmis eigum við engin flutningaskip skráð á Íslandi og erum að missa þá þekkingu frá okkur. Held við verðum að huga miklu meira um hag okkar og þann auð sem við höfum hér heima. Það fæst nefnilega ekki allt fyrir peninga.

Smá hugleiðing.

bjössi (IP-tala skráð) 3.2.2008 kl. 20:19

11 Smámynd: Ari Guðmar Hallgrímsson

Þú verður að athuga það Bjösi minn að  hreinsun í "fjármálageiranum" eins og þú kallar það, gæti samt orðið til þess að við misstum mikið  meira en flutningskipin og þá þekkingu sem þeim fylgir.

Kveðja

Ari Guðmar Hallgrímsson, 3.2.2008 kl. 20:28

12 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Árni stendur fyrir sínu og ágætis blogg hjá þér Jón. Ofurlaunin eru því miður bara toppurinn á ísjakanum. Þau endurspegla ákveðna spillingu og minna mig á þessi fleygu orð: "Einkavæðingarsinnum er ekki treystandi með peninga."

Ólafur Þórðarson, 3.2.2008 kl. 20:29

13 identicon

Flottræfilshátturinn í ný-ríkradansi íslenskra bankamanna lítur ekki vel út í augum reyndra og íhaldssamra kollega þeirra í V-Evrópu, né heldur fjölmiðlamanna. 

Bankamenn kunna yfirleitt að fara með peninga, sem er jú forsenda þess að aðrir geti treyst þeim fyrir sínum peningum.   Hefðirnar í þessum bransa eru sterkar og íslenskir bankamenn hafa brotið þær flestar.    Því er ekki skrítið að menn erlendis setji stórt spurningamerki við íslensku bankana, enda byggja þeir á stuttri sögu í alþjóðlegum viðskiptum, með óreynda starfsmenn og stjórnendur og vanþróað viðskiptatengslanet.  

Ofurlaunasamningar æðstu stjórnenda íslensku bankana eru svo kapituli út af fyrir sig og segir manni að eigendur bankana sem sitja í stjórn þeirra séu ekki með gott viðskiptavit.   Auðvitað verða hvatasamningar að vera til staðar, en þegar hver bankastjóri er farinn að kosta milljarða, þá vakna spurningar um hvort ekki hefði verið hægt að ná betri samningum fyrir hönd hluthafa.   

Stundum hafa þessir menn reynt að réttlæta milljarðana með því að segja að það sé samkeppni um þessa hæfu menn.   Það er kjaftæði, því það segir sig sjálft að engin stór erlendur banki myndi bjóða þessum nýgræðingum frá Íslandi bankastjórastöðu hjá sér - segir sig sjálft.  

Og hverslags brandari er það að borga rétt rúmlega þrítugum kettlingi 300 milljónir til að taka við bankastjórastóli?   Var bankastjórastóllinn, launin og hvatarsamningarnir einir sér ekki nógu freistandi fyrir þennan unga mann, sem hvorki hefur merkilega reynslu og varla persónuleg viðskiptatengsl, sem einhvers virði eru? 

Svona má lengi halda áfram og er ég ekki undrandi þó greinar eins og þessi í Sunday Telegraph haldi áfram að birtast í erlendum fjölmiðlum á næstunni.    

Jú að lokum, það verður hörð lending, það er ekki spurning og eina von Íslendinga er að halda áfram að byggja upp orkufrekan iðnað - það er okkar helsti styrkleiki og hann verðum við að nýta okkur til fulls ef ekki á illa að fara.

María J. (IP-tala skráð) 3.2.2008 kl. 22:04

14 Smámynd: Gísli Bergsveinn Ívarsson

Getur verið að þetta sé sami áróðurinn og fór af stað þegar Baugur og fleiri urðu of ágengir í Danmörku?

Gísli Bergsveinn Ívarsson, 3.2.2008 kl. 23:14

15 identicon

Menn sem hegða sér að hætti nýríkra eins og íslenskir bankamenn gera, líta afar illa út í augum bankamanna og auðmanna í hinni gömlu Evrópu, sem byggja fjármagn sitt á gömlum merg.  Það er gjarnan gert góðlátlegt grín að slíkum mönnum og þeir álitnir kjánar út af glysgjörnu háttalagi sínu.   Það eru gömul sannindi að menn kaupa sér ekki virðingu.

Sigurður Jónsson (IP-tala skráð) 4.2.2008 kl. 06:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.5.): 852
  • Sl. sólarhring: 982
  • Sl. viku: 5379
  • Frá upphafi: 2301551

Annað

  • Innlit í dag: 785
  • Innlit sl. viku: 5027
  • Gestir í dag: 759
  • IP-tölur í dag: 740

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband