Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Að gefa annarra manna fé.

Afabróðir formanns Sjálfstæðisflokksins, Pétur Benediktsson, bankastjóri, sendiherra og alþingismaður, gaf út kver sem hét "Milliliðir allra milliliða.".

Í kverinu kom fram skörp gagnrýni á niðurgreiðslur ríkisins á neysluvörum og á það bent, að með því væru peningar fólks teknir með sköttum og endurgreiddir með niðurgreiðslum. Sjálfstæðismenn þess tíma börðust hatrammlega gegn þessari stefnu fáránleikans.

Í kverinu var mynd af ræfilslegum glorsoltnum hundi, sem kom að veisluborði akfeits manns og renndi til hans biðjandi augum og dillaði rófunni. Feiti maðurinn tók upp hníf, skar af rófunni og stakk upp í hundinn, sem labbaði alsæll í burtu. Þessi mynd sýndi vel fáránleika niðurgreiðslna og millifærslna ríkisins.

Náðst hefur þjóðarsátt á vinnumarkaði, þar sem aðilar sömdu um að ríkið tæki upp víðtækara kerfi millifærslna og ríkisafskipta. Ríkisstjórn samþykkti hátt í hundrað milljarða auknar niður- og millifærslur. 

Þeir sem greiða skatta á Íslandi eru launafólk og atvinnurekendur. Með einum eða öðrum hætti munu því aðilar vinnumarkaðarins greiða framlag ríkisins og því á myndin í kveri Péturs Bendiktssonar um svanga hundinn einstaklega vel við um nýgerða kjarasamninga.

Víðtæk þjóðarsátt allra flokka og aðila vinnumarkaðarins ríkir um að leið aukinna ríkisafskipta og aukinnar skattheimtu skuli farin og trónum við nú samt á toppi OECD ríkja hvað það varðar.

Þrátt fyrir að skuldastaða ríkisins sé komin á hættulegt stig, skal halda áfram stefnu fyrrverandi fjármálaráðherra, sem góð þjóðarsátt virðist ríkja um, að:

"tryggja góð lífskjör með hallarekstri ríkissjóðs." 

 

 

 

  

 


Hvert fóru allir Sjálfstæðismennirnir?

Fyrir nokkru kom út bókin "Where have all the Democrats gone? The soul of the party in the age of extremes", þar er m.a. fjallað um grundvallarbreytingar sem hafa orðið á Demókrataflokknum í Bandaríkjunum, sem valda því, að flokkurinn er annar í dag og stendur fyrir allt önnur gildi en áður. 

Gott væri ef fjallað væri um Sjálfstæðisflokkinn eins og gert er í Bandaríkjunum um Demókrataflokkinn. 

Þegar horft er til verka ríkisstjórnarinnar og fyrir hvað hún stendur væri nær að spyrja hvar voru Sjálfstæðismennirnir?

Af hverju hafa ríkisskuldir aukist svo gríðarlega að hlutfall þeirra er nú 102.3% af þjóðarframleiðslu. Af hverju er  hallarekstur ríkissjóðs viðvarandi. Af hverju tróna íslenskir tekjuskattsgreiðendur nú á toppnum allra skattgreiðenda í OECD?

Af hverju örlar ekki á viðleitni til ráðdeildar og sparnaðar í ríkisrekstrinum? 

Af hverju sýnir sjálfstæðisflokkurinn ekkert hugmyndafræðilegt viðnám gegn woke og vinstri hugmyndum Vinstri grænna t.d. kynrænu sjálfræði, hatursorðræðu og  loftslagsbreytingum. 

Brýnt er að spurt sé hvar eru allir sjálfstæðismennirnir? Gæti verið að breytingarnar séu svo miklar að Sjálfstæðisflokkurinn standi fyrir allt önnur gildi og pólitík en áður? 

 


Stríð, vopnahlé og friður.

Í gær samþykkti Öryggisráð Sameinuðu Þjóðanna að vopnahléi skyldi komið  á í stríði Ísrael við hryðjuverkasamtök Hamas á Gasa. Vonandi gengur eftir að meðan vopnahléð stendur náist samningar um að Hamas láti af stjórn á Gasa þannig að hægt sé að semja um varanlegan frið svo þjáningum almennings á Gasa linni.

Utanríkisráðherra fagnaði vopnahléinu í færslu á fésbók, en var á sama tíma að undirrita samninga um að Ísland greiddi fyrir vopn fyrir Úkraínu til að drepa þar mann og annann. Það er frávik frá utanríkisstefnu Íslands frá því að við urðum frjálst og fullvalda ríki árið 1918. Mörgum þar á meðal þeim sem þetta ritar finnst miður að Ísland skuli blanda sér í vopnakaup fyrir stríðsaðila í stað þess að takmarka stuðning við hjálparstarfsemi og annað því tengt, svo sem verið hefur. 

En á sama tíma og Vesturlönd fagna vopnahléi á Gasa, þá er ekkert þeirra að tala fyrir vopnahléi og friðarsamningum í kyrrstöðustyrjöldinni í Úkraínu. Þjáningar óbreyttra borgara, sem verða fyrir drónaárásum og flugskeytum er gríðarleg. Þrátt fyrir það fá þeir sem tala fyrir vopnahléi eða friði í því stríði bágt fyrir meira að segja páfinn og utanríkisráðherra Íslands finnst í lagi að tala fyrir vopnahléi á Gasa á sama tíma og hann kaupir vopn fyrir Úkraínuher.

Hvernig skyldi standa á því að heimurinn fagnar vopnahléi á Gasa en telur það ekki eiga við í Úkraínu?


Við skulum senda samúðarkveðjur til Rússa.

Föstudaginn 22. mars var framið hræðilegt hryðjuverk í tónlistarhöll í Moskvu. Íslamskir hryðjuverkamenn ÍSIS voru að verki og myrtu unga fólkið, sem var að fylgjast með tónleikum, með köldu blóði. Tala látinna er nú 137 manns. 

Hryðjuverk eru alltaf fordæmanleg og ekki skiptir máli á hverjum þau bitna. ÍSIS hafa tvisvar áður framið mannskæð hryðjuverk í tónlistarhúsum annars vegar í Bataclan í París og hins vegar í Manchester á Englandi. 

Þegar hryðjuverkin voru framin í Bataclan og Manchester sendu íslenskir ráðamenn strax samúðarkveðjur til ríkisstjórna og/eða forseta viðkomandi landa.

Nú að kvöldi dags tveim dögum eftir þetta hryllilega hryðjuverk ÍSIS í Rússlandi, hafa íslenskir ráðamenn ekki hafi haft döngun í sér til að senda Rússum samúðarkveðjur. Það er þeim til skammar. Vonandi verður úr þessu bætt strax.  

 

 


Líkið gengur aftur og aftur

Bankasýsla ríkisins er skondið fyrirbæri, en lífdagar hennar voru ákveðnar með lögum. Þrátt fyrir dánardægrið, hélt líkið áfram, enda hagkvæmt fyrir fjármálaráðherra að geta skammtað Lalla frænda og öðrum handgengnum góðan bitling.

Í kjölfar klúðurs við sölu hluta í Íslandsbanka tilkynnti síðan forsætisráðherra ábúðarmikil, að bankasýslan væri lögð niður. 

Nú bregður svo við, að bankastjóri Landsbankans, sem er í eigu allra landsmanna telur rétt að þjónusta fyrrum útrásarvíkinga og þeirra líka með því að kaupa tryggingarfélag, sem bankinn hefur ekkert með að gera, til að kynda undir nýjan gleðileik í fármálalífinu a la 2007 og fjárfestisins George Zoros.

Fjármálaráðherra var að vonum ofboðið og lýsti því yfir á Podcasti, samskiptamiðlun fína fólksins, að hún telji rangt að ríkisbankinn kaupi tryggingarfélag og peningunum yrði betur varið með því að hún geti sólundað þeim til að stoppa upp í fjárlagagatið í stað sparnaðar eða aukinnar ráðdeildar.  

Bankastjóri banka allra landsmanna svaraði um hæl á fjölmiðlum og sagði ráðherranum ekki koma þetta við. Landsbankinn væri ekki ríkisbanki. Bankinn starfaði á einhverju Astral plani,að geðþótta bankastjóra og bankaráðs og hún ætlaði hvað sem ráðherrann segði að kaupa tryggingarfélag fyrir offjár. 

Gætnir menn og raunagóðir í fjármálalífi og dyntum bankakerfisins, sáu að þetta gat ekki gengið skv. öllum eðlilegum viðmiðunum í fjármálalífinu hefði Landsbankanum borið að upplýsa eiganda sinn með fullnægjandi hætti um meiriháttar fjárfestingu eins og þá að kaupa tryggingarfélag, sem kom bankarekstrinum ekkert við. Jafnvel hefði verið eðlilegt að bankastjórinn pantaði viðtal hjá fjármálaráðherra til að upplýsa hana um málið og falast eftir hennar skoðunum sem eiganda bankans. Hægt er um vik þar sem innan við 300 metrar eru á milli skrifstofu bankastjórans og fjármálaráðherra. Varla hefðu síðan gullhringirnir dottið af fjármálaráðherra eða bankastjóranum með því að biðja aðstoðarmenn sína um að hringja í gagnaðila um leið og það lá fyrir að einhver meiningarmunur eða ágreiningur væri uppi.

 

En þessi tegund mannlegra samskipta virðast hafa verið þeim ofraun og því var rykinu dustað af Bankasýslunni, líkinu, sem forsætisráðherra hafði tilkynnt rúmu ári áður að heyrði sögunni til.

Eftir því sem næst verður komist miðlaði líkið ekki upplýsingum sem því barst og þurfti nokkurn að undra það. Lík eða uppvakningar eru almennt ekki notuð til boðmiðlunar í nútíma þjóðfélagi, sem fetað hefur sig inn á gervigreind þegar þeirri mannlegu sleppir.

Þannig liggur þá málið fyrir að spurningin er um hver sagði hvað við hvern hvenær eða hver sagði ekki hvað við einhvern aldrei. Í þessu gruggi syndir síðan fyrrum Bankadrottningin Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar sem fékk 100 milljónir í meðgjöf frá Kviku banka og hefur eðlilega skoðun á þessu og þá aðeins formlega um hver hefði átt að segja hvað við hvern hvenær en ekki efnislega hvort þjóðbankinn eigi að kaupa tryggingarfélag eða ekki og henni fer eins og var með Ketil skræk frænda hennar, sem sagði forðum: "Sáuð þið hvernig ég tók hann"  þegar Skugga Sveinn hafði lagt andstæðinga þeirra að velli.

Bankastjóri vill kaupa. Eigandinn vill ekki kaupa og foringi stjórnarandstöðunnar vill beita umræðustjórnmálum um það sem ekki skiptir máli lengur. 

Ekki verður séð að feðraveldið hafi haft nokkra aðkomu að málinu og þessvegna er það e.t.v. í þessum farvegi. 

 


Enn eitt hryðjuverk ríkis Íslam

Ríki Íslams tókst enn einu sinni að drepa fjölda fólks og særa enn fleiri þegar liðsmenn þeirra gerðu fólskulega árás á tónleika í tónlistarhúsi við Moskvu í Rússlandi. Vonandi sjá forseti Íslands og utanríkisráðherra sóma sinn í því að votta Rússum samúð sína vegna hryðjuverkaárásarinnar þar sem fjöldi saklauss ungs fólks lét lífið.

Haft er fyrir satt, að lögregla í Evrópu komi í veg fyrir meira en 90% ætlaðra hryðjuverka Íslamista, þó að þessi ógnaröfl nái ekki að framkvæma nema brot af því sem þau ætla að framkvæma, þá er þau hryðjuverk þó svo skelfileg, að það hvetur til þess að öll ríki Evrópu, Rússland þar með talið standi saman um að vinna gegn þessari óværu.

Því miður geisar stríð á milli  Úkraínu og Rússlands með miklum mannfórnum á báða bóga og miklu tjóni á mannvirkjum og öðrum innviðum. Brýnasta verkefni leiðtoga Evrópu er að koma á friði milli þjóðanna til þess að Evrópa geti sameinuð beitt sér fyrir þeim brýnustu verkefnum og gegn þeim vandamálum sem steðja að Evrópu í stað þess að bræður haldi áfram að berjast í Úkraínu.

 

 

 


Ógnarmenningin

Ásmundur Friðriksson alþingismaður gerði úr ræðustól Alþingis athugasemd við skrílslæti hælisleitenda frá Palestínu og taglhnýtinga þeirra við Alþingishúsið. Þingmaðurinn sagði:

"Mótmæli hafa byrjað í upphafi hvers þingdags og staðið fram undir kvöld. Fjöldi Palestínumanna og stuðningsmanna þeirra hefur barið og lamið þinghúsið að utan, lamið á glugga og slegið á trumbur, blásið í flautur og valdið ónæði, ótta og óþægindum.

Ljóst er að hér er um ótvírætt brot á 3.gr. og 6.gr. lögreglusamþykktar Reykjavíkur og e.t.v. fleiri greinum. Af hverju heldur lögreglan ekki upp lögum og reglu við þinghúsið?

Ásmundur bendir á, að skattgreiðendur beri allan kostnað af veru þessara mótmælenda "húsnæði, heilbrigðisþjónustu og fjölskyldusameiningu".

Síðan bendir þingmaðurinn á það aguljósa, sem öllum átti að vera ljóst miðað við reynslu annarra þjóða.

"Við erum að kalla yfir okkur fólk sem ber með sér þessa ógnarmenningu, fólk sem beitir hótunum til að ná fram kröfum sínum, hefur ráðist að þingmanni og gerir sig líklegt til að vinna okkur sem hér störfum líkamlegt tjón.“ 

Í ljósi þessa sem þingmaðurinn nefnir, er manni spurn: Hversvegna framdi ríkisstjórn Íslands það hermdarverk gegn þjóðinni, að flytja nú á áttunda tug þessa fólks til landsins og ætlar að flytja annað eins til viðbótar. Er ráðherrum þjóðarinnar ekki sjálfrátt?

Vissulega er þetta óviðunandi ástand og slæmt ef lögregluyfirvöld eru svo beygð vegna ógnarmenningarinnar, að þau þora ekki að halda uppi lögum og reglu í miðbæ Reykjavíkur. 

Umburðarlynt þjóðfélag fær ekki staðist og verður eyðilagt ef gefið er eftir fyrir ofbeldisöflunum, sem virða ekki siði okkar menningu eða lögin í landinu. Gegn slíkri óværu verður að bregðast strax af fullri hörku.

 

 


Orkuskortur og vindmyllur

Í áratugi hafa Vinstri grænir barist gegn vistvænum vatnsafslvirkjunum. Fyrrverandi formaður VG hafði ekki erindi sem erfiði þegar hann hrópaði aftur og aftur að verið væri að drekkja landinu, því hann var áhrifalaus og áfram haldið í uppbyggingu vistvænna orkuvera landi og þjóð til góðs. 

Núverandi formaður VG hefur haft meiri áhrif til ills í þessum málum, þó lítið fari fyrir henni og í tíð ríkisstjórnar hennar hafa engar nýjar vistvænar virkjanir verið reistar. Afleiðingin er orkuskortur, sem hamlar framþróun og dregur úr möguleikum landsmanna til betri lífskjara.

Afleiðingin er líka sú, að nú hafa stórgróðapungar séð sér hag í því að eyðileggja óbrenglað útsýni í landinu og reisa viðamikla vindmyllugarða. Gerð er grein fyrir því í dag með hvaða hætti meiningin er að eyðileggja óbrenglað útsýni og landslag Norðurárdals í Borgarfirði. Önnur svæði landsins munu fylgja á eftir.

Vindmyllur eru vondur og dýr kostur til orkuöflunarþ Vegna þvergirðingsháttar stjórnmálamanna,sem haldnir eru sömu firrum og VG í loftslagsmálum hafa margir slíkir risið vítt um Evrópu og iðulega valdið tímabundnum straumrofum og það sem verra er að verð á raforku til neytenda hefur hækkað gríðarlega. 

Það á ekki að leyfa VG að eyðileggja landið með þvergirðingshæatti í orkumálum og koma því til leiðar í skjóli Evrópusambands reglna að neytendur þurfi að greiða mun hærra verð fyrir orkuna en áður.

Það er óskiljanlegt hvernig Sjálfstæðisflokkurinn hefur getað hengslast í ríkisstjórn með VG og bera nú ásamt VG ábyrgð á orkuskortinum. 

Eftir að hafa verið undir pilsfaldinum hjá VG í tæpan áratug er trúverðugleiki Sjálfstæðisflokksins sem flokks frelsis, framfara og takmarkaðra ríkisafskipta ekki lengur til staðar. 

Spurningin er þá góðir Sjálfstæðismenn. Hvað má til varnar verða vorum sóma?

 


Banki allra landsmanna

Ánægjulegt að Þórdís fjármálaráðherra skuli hafa brugðist við til að reyna að koma í veg fyrir kaup "banka allra landsmanna" Landsbankans á tryggingarfélagi. Það voru hins vegar vonbrigði að hún skyldi telja það rétt, að fjármunir til kaupanna gengju í þess stað til þess að fjármagna óhófseyðslu Ríkisins. 

Af hverju ætti Landsbankinn að fjárfesta í tryggingarfélagi? Ekki getur það verið til að rekstur bankans verði betri og skilvirkari hvað þá að viðskiptavinir bankans njóti þess. 

Í stað þess að Landsbankinn reki áhættusama fjárfestingastefnu að hætti íslenskra fjármálafyrirtækja fram að Hruni,þá væri eðlilegra að ríkisbankinn einbeitti sér að þjónustu við almenning í landinu m.a. með því að stuðla að betra lána- og vaxtaumhverfi fyrir viðskiptavini sína.

Taka má undir með þeim sem hafa gagnrýnt stjórnendur Landsbankans fyrir að vanrækja eðlilegt samráðsferli við hluthafa bankans, en framganga stjórenda bankans í því efni er óafsakanleg. Að sjálfsögðu bar yfirstjórn Landsbankans að greina hluthöfum og Bankasýslu með formlegum hætti um fjárfestingu í fyrirtæki á samkeppnismarkaði upp á tæpa 30 milljarða. Það hefði verið mannsbragur af því ef Kristrún Frostadóttir hefði undirstrikað það í stað þess að vera með orðhengilshátt í Kastljósi í gærvköldi. 

Rétt væri að sú stefna yrði mótuð varðandi Landsbankann, að hann verði þjónustubanki fyrir viðskiptavini sína, en vogunarsjóðsdeild uppkaupa og sölu að hætti útrásarvíkinga árið 2007 ásamt yfirstjórn bankans yrði seld og/eða útvísað til þeirra sem vilja reka slíka starfsemi.

 

 


Fals, lygi og óboðleg vinnubrögð.

Í Mbl.í dag greinir frá röngum upplýsingum Hamas um mannfall á Gaza. Jake Wallis Simons ritstjóri ræddi þetta í blaðagrein í DT fyrir nokkru og segir sérkennilegt að alþjóðlegar fréttastofur skyldu ekki kanna málið, en taka upplýsingum frá Hamas, sem heilögum sannleika.

Hamas segir, að yfir 31.000 hafi fallið og 70% þeirra séu konur og börn. Abraham Wyner, tölfræðiprófessor við Pennsylvaníu háskóla, hefur skoðað upplýsingarnar og séð að þær standast ekki tölfræðilega. Sem dæmi nefnir hann að upplýsingar um fjölda fallinna og samsetningu þeirra (konur, börn, karlmenn) séu nánast þær sömu dag eftir dag. Skv. upplýsingunum frá 29. október, hefðu 26 karlmenn átt að lifna við skv. skýrslunum og marga daga létu bara konur lífið. Semsagt falsfréttir.

Í febrúar viðurkenndi Hamas að hafa misst 6.000 vígamenn eða um 20% þeirra sem eiga að hafa fallið. Væri sú staðhæfing rétt, að 70% þeirra sem hefðu dáið væru konur og börn, væru tveir kostir. Enginn karlmaður,sem óbreyttur borgari hefði dáið í átökunum eða að allir karlmennirnir sem hefðu fallið væru Hamas vígamenn.

Prófessor Wyner telur, að þeir sem hafa særst eða dáið í átökunum séu ekki aðallega konur og börn, heldur sé meirihluti fallinna, vígamenn Hamas.

Í Financial Times þ. 14.mars s.l. segir, að Hamas hafi haft um 40 þúsund vígamenn undir vopnum í byrjun átakanna, en um helmingur þeirra séu fallnir alls 20.000. Þegar þessar tölur eru skoðaðar þá sést að ályktanir prófessors Wyner og rannsóknir eru réttar og fjölmiðla- og stjórnmálaelítan hefur verið að hneykslast á fölskum forsendum yfir hlutum sem þessir aðilar áttu að sjá að gátu ekki staðist.

Mestur hluti fallinna eru vígamenn Hamas og hlutfall óbreyttra borgara sem hafa fallið á Gasa er lítið miðað við stríðið við ISIS t.d. í borgunum Raqqa og Aleppo. Prófessor Wyner segir að þetta bendi til að varnarsveitum Ísrael hafi tekist að koma í veg fyrir hlutfallslega hátt hlutfall óbreyttra borgara fallinna í átökum við illa sýnilega óvinahermenn(Hamas) sem skýla sér á bakvið óbreytta borgara.

Alþjóðlegar fréttastofur hafa heldur betur látið annað í veðri vaka, allt byggt á falsfréttum Hamas. Allt tal um þjóðarmorð er því della.

Þegar Hamas réðist á Ísrael 7.okt. s.l, drápu Hamas liðar eingöngu almenna borgara og misþyrmdu konum og börnum og drápu með viðbjóðslegum hætti, nauðguðu konum, drápu þær og svívirtu lík þeirra. Merkilegt að fólk á Vesturlöndum skuli afsaka slíkar gerðir um leið og það fordæmir varnarviðbrögð Ísrael, sem beinast að vígamönnum Hamas.

Hamas ætlar hinsvegar að drepa alla Gyðinga hvar sem þeir finnast. Það er yfirlýsing og vilji til þjóðarmorðs.

Í ljósi þessara staðreynda er með ólíkindum, að fjölmiðlar og stjórnmálamenn á Vesturlöndum skuli standa fyrir skefjalausum áróðri gegn Ísrael og aðgerðum þeirra til að tryggja öryggi sitt á fölskum forsendum áróðursvélar Hamas.

Það er líka dapurlegt að horfa upp á bandamenn Ísrael hvika og blakta eins og strá í vindi þegar gefur á bátinn vegna falsfrétta Hamas.

Það er síðan hryllilegt að horfa upp á að vofa Gyðingahatursins skuli enn á ný rísa í Evrópu, sporin ættu að hræða. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 400
  • Sl. sólarhring: 453
  • Sl. viku: 3456
  • Frá upphafi: 2295134

Annað

  • Innlit í dag: 361
  • Innlit sl. viku: 3148
  • Gestir í dag: 358
  • IP-tölur í dag: 354

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband