Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Menntun og skóli

Af hverju er húsnæðisskortur

Hagstofan segir að 7.371 útlendingur umfram brottflutta hafi sest að í landinu fyrstu 6 mánuði ársins. Úkraínumenn eru innan við 1000 þeirra. Þetta er álíka fjöldi og allir íbúar Akranes.

Gríðarlegur aðflutningur útlendinga veldur ofurálagi á heilbrigðis-, skóla- og húnsæðiskerfið 

Íslensk stjórnmálastétt sér enga ástæðu til að bregðast við og takmarka aðkomu fólks, þó ekki væri nema til að tryggja fólkinu í landinu góðan aðgang að læknisþjónustu, skólagöngu svo ekki sé talað um húsnæði. 

Eðlilega verður húsnæðisskortur þegar álíka margir og búa á Akranesi flytjast til landsins á 6 mánaða fresti. 

Íslensk stjórnmálastétt virðist ætla að halda áfram að fljóta sofandi að feigðarósi í stað þess að stjórna landamærunum.

 


Að vita og gleyma

Í þrætubókalist fáránleikans og rökfærslu sem kennd er við sófista frá því 400 árum fyrir okkar tímatal var hægt að setja fram kenningar sem voru vinsælar á menntaskólaárunum, sbr. 

"Þeim mun meira sem þú lærir, því meira veistu. Þeim mun meira sem þú veist, því meiru gleymir þú. Þeim mun meiru sem þú gleymir, því minna veistu. Ergo mikill lærdómur leiðir til minni þekkingar."

Að sjálfsögðu fannst okkur þessi rökfærsla bara aðhlátursefni.

Í grein Michael Deacon í DT í dag fjallar hann um þekkingarleysi unga fólksins á sögunni. Meiri hluti nemdenda veit t.d. ekki hver Mozart var eða hvar London er á landakortinu. 

Síðan bendir hann á, að við þurfum e.t.v.ekki að hafa miklar áhyggjur af þekkingarleysi unga fólksins, þar sem vísindamenn hafi komist að þeirri niðurstöðu í febrúar á þessu ári, að mikil lærdómur og þekking á stuttum tíma geti verið orsök minnistaps á eldri árum, þar sem heilinn hafi ekki lengur svið eða svæði til að geyma alla þekkinguna og þessvegna gleymist og hverfi dýrmætar persónulegar minningar úr vitund okkar. 

Sé það staðreynd, að unga fólkið og komandi kynslóðir fái minni fræðslu en fólk fékk á árum áður á það semsagt síður á hættu að lenda í okkar sporum varðandi minnistap og getur því búið sig undir elli með meiri vitund en við sem þurftum jafnvel að læra Latínu. 

Svo virðist því greinilega að ekki sé öll vitleysan eins eða af hinu illa. 


Er íslenskan ekki nothæf?

Hafi fólk haft áhyggjur af vexti og viðgangi íslenskrar tungu, þá má ætla að fólki hafi brugðið í brún við að lesa þær fréttir, að ferðaiðnaðurinn hér á landi, teldi sér hentast, að nota ensku.  

Þegar ég heimsótti fjölsóttann ferðamannastað fyrir Covíd, þar sem brýn þörf var á að gera góða grein fyrir hlutunum, þá var það óttalega kauðskt, að 60 manna íslenskum ferðahópi skyldi bara boðið upp á að fá útskýringar á ensku.  Óneitanlega skortir á eðlilegan þjóðlegan metnað þegar skipulagið er þannig. 

En þetta er ekki það eina. Við lestur dagblaða og annarra opinberra miðla kemur í ljós, að fjöldi fólks kann ekki skil á einföldustu reglum íslenskrar setningaskipunar og stafsetningu, jafnvel þó um fjölmenntað fólk sé að ræða.

Þannig mátti sjá í dag í einu og sama blaðinu eftirfarandi texa í auglýsingum þar sem um er að ræða sérhæfða starfsemi: 

Ný flýsalögn og Hluturinn er þvoður.

Ef til vill ekki stórvægilegara villur, en leiðir hugann að því hvort við höfum ekki slakað óhæfilega mikið á íslenskunámi og leggjum ekki neina rækt við að fólk geti tjáð sig á íslensku máli með íslenskri setningaskipun en ekki enskri.

Því miður er ekki um neina Pisa greiningu á kennslu í íslensku hér á landi og ekki nokkur samanburður af neinu tagi enda verður honum ekki við komið. Hræddur er ég um að væri hann til staðar þá riði íslenska skólakerfið ekki feitum hesti frá slíkum samanburði frekar en öðrum. 

Raunar sýnir það metnaðarleysi menntamálayfirvalda, að bregðast ekki við þegar ítrekað er skrifað á vegginn ár eftir ár, að fræðsla í íslenska skólakerfinu sé ekki fullnægjandi. 

Ekki er við góðu að búast þegar sjálfur menntamálaráðherra áttar sig ekki á hvað um er verið að tala eins og kom í ljós, í sérstakri umræðu um skóla án aðgreiningar á Alþingi nokkru fyrir þinglok í vor. 


Hvað börnin mega vita

Væntanlegur forustumaður Kristilegra demókrata stærsta stjórnmálaflokks Þýskalands, Armin Lanchet, hefur verið beraður af því að gefa Íslömskum, tyrkneskum harðlínutrúarbragðasamtökum kost á því að ráða hvað fái að standa í skólabókum sem kenndar eru í Þýskalandi og hvað ekki. Allt er þetta gert hjá Lanchet til að fá stuðning tyrkneska minnihlutans við flokk sinn. 

Þetta er raunar það, sem svonefndir öfgahægri menn og þjóðernispópúlistar hafa bent á að mundi gerast í kjölfar innflytjendastefnu Angelu Merkel og félaga.

Það er dapurlegt til þess að vita, að ekki megi kenna þýskum skólabörnum annað en það sem fær náð hjá þröngsýnum íslömskum trúarsamtökum, sem byggja heimsýn sína á miðaldahugmyndafræði Íslam. 

Með sama áframhaldi mun þetta líka gerast hér þegar skammsýnir, hugsjónalausir, stjórnmálamenn reyna að vinna stuðning fyrir einmenningu og miðaldasýn Íslam, þegar atkvæðastyrkur þeirra gefur hugsjónalausu valdastreitufólki tilefni til. 

Það er e.t.v. ekki skrýtið að nú skuli AfD (Alternative für Deutschland) sem er talinn yst á hægri vængnum og mótmælir stefnu Merkel í innflytjendamálum mælast stærsti flokkurinn í komandi sveitarstjórnarkosningum þ. 3. júní n.k.

En er ekki ráð að við byrgjum brunninn áður en það verður of seint?

 

 


I don´t speak Icelandic

Góðan daginn sagði ég við afgreiðslumanninn. Sá tók ekki undir kveðjuna og þegar ég falaði ákveðinn hlut til kaups, sagðist hann ekki tala íslensku, þannig að ég varð að endurtaka kauptilboðið á ensku. 

Enginn kippir sér upp við það lengur, þó fólk í þjónustustörfum á Íslandi tali ekki íslensku. Viðskiptamálið enskan er óðum að taka yfir í samskiptum fólks. Þeir sem ekki kunna góð skil á enskri tungu lenda iðulega í vandræðum. 

Íslenskan lifir góðu lífi meðal þjóðarinnar vegna þess, sem vel var gert á árum áður. Nú hallar hinsvegar verulega undan fæti. Við höfum því miður ekki sýnt þann þjóðlega metnað að gera kröfu til þess, að þeir sem sinna þjónustustarfsemi á Íslandi fyrir Íslendinga tali íslensku. Af hverju ekki? Er okkur ekki annt um að íslenskan fái að dafna og vera áfram lifandi mál á Íslandi?

Án tungumálsins fjarar undan íslenskri menningu og íslenskri þjóðarvitund. Það skiptir því máli, að við gerum sjálfsagðar kröfur til þess að neytendur eigi undantekningarlítið rétt á því að þjónustuaðilar tali íslensku.

Löggjafinn getur gert ráðstafanir í þessu sambandi og ætti að hafa þjóðlegan metnað til að gera það. 

 


Eru Pólverjar vondir við konur?

Í tæpa viku hafa beljað þær fréttir í RÚV, að Pólverjar ætluðu að segja sig frá samningi Evrópuráðsins um ofbeldi gagnvart konum. Fréttunum hefur jafnan fylgt fordæming á hægri stjórn Póllands og illsku þeirra gagnvart konum. Fréttin eins og RÚV segir hana er röng. Hún hallar réttu máli og skilur útundan það sem máli skiptir og er inntak þessa máls. 

Sú afstaða Pólverja að segja skilið við sáttmálann hefur ekkert með illsku gagnvart konum að gera eða andstöðu við réttindi þeirra. Pólverjar segja sig frá sáttmálanum vegna þess, að í honum eru ákvæði sem skylda aðildarþjóðirnar til þess, að í grunnskólum sem öðrum skólum sé börnum kennd kynjafræði undir þeim formerkjum að allt tal um líffræðilegt kyn sé úrelt. 

Dómsmálaráðherra Póllands segir eðli slíkrar hugmyndafræði vera skaðlega auk þess sem hún sé röng og þessvegna geti Pólland ekki verið aðili að þessum svonefnda Istanbul sáttmála. 

Þetta veldur íslensku ríkisstjórninni og stjórnmálamönnum hér engum vandamálum þar sem þeir samþykktu samhljóða gölnustu löggjöf sem samþykkt hefur verið á þessu kjörtímabili um "kynrænt sjálfræði".

Íslenskum stjórnmálamönnum finnst það sjálfsagt eðlilegt að í íslenskum grunnskólum sé börnum kennt, að kyn hafi ekkert með líffræðilega hluti að gera, heldur fari það eftir viðhorfi hvers og eins og þjóðfélagslegum aðstæðum. Sá er munurinn á stjórnmálastéttinni hér og í Póllandi. 

Mikilvægasta spurningin er að velta fyrir sér hversvegna stjórnmálamenn í Evrópu vilji standa  með lyginni um að tal um líffræðilegt kyn sé úrelt og það skuli algjörlega vanta barnið til að benda á að þessi keisari er ekki í neinum fötum þar sem - hvað svo sem fyrirbrigðið kann að nefnast stendur berstrípað í sínu kynræna sjálfræði.


Þriðja bylgjan

Bókin "Þriðja bylgjan" eftir Alvin Toffler kom út fyrir réttum fjörutíu árum. Framtíðarspár bókarinnar og þess sem síðar hefur komið frá höfundinum eru athyglisverðar.

Fyrsta bylgjan er í huga höfundar þegar landbúnaður ýtti til hliðar þjóðfélagi veiðimanna og safnara. Önnur bylgjan er þjóðfélag iðnbyltingarinnar. Þjóðfélag fjöldaframleiðslu, ofurneyslu, miðstýringar og skrifræðis.

Þriðju bylgjuna kallar Toffler tímabilið að lokinni iðnbyltingu. Hann sér fyrir sér þróun vísinda-og tæknisamfélags okkar tíma. Horfið yrði frá skrifræði, miðstýringu og samþjöppun vinnuafls á stórum sem smáum skrifstofum í miðborgarsamfélagi. 

Mér fannst athyglisvert að kynnast þeim framtíðarspám Tofflers, að heimavinna fólks mundi aukast til muna með tölvubyltingunni. Ekki yrði lengur þörf á að fólk væri á endalausum ferðalögum til og frá vinnu eða til fundarhald, heldur gæti það sinnt daglegum störfum heima. Við tæki að hluta það sem engilsaxar kalla "cottage economy" (sjálfsþurftarbúskapur heima við)og Global village. 

Með þriðju bylgjunni yrði dagleg þörf mikilvirkra samgöngutækja mun minni og fólk gæti notið tímans sem slík ferðalög tækju, til að hugsa um sjálft sig og notið þess að versla og njóta þjónustu í nágrenni við heimilið. Orkusparnaður yrði gríðarlegur. 

Hugmyndir Toffler um framtíðina eru heillandi. Til yrðu margir bæir í borginni, þar sem fólk mundi vinna heima og hverfin yrðu lifandi hverfi og híbýli fólks yrði staður þar sem mestur hluti vinnunar yrði framkvæmdur auk þess sem að stutt yrði að sækja í þjónustu og frístundastarf. 

Eftir því sem tölvutæknin, rafrænar undirskriftir og fjarfundarbúnaður ýmis konar hafa tekið stórstígum framförum er furðulegt hvað hægt hefur gengið að þjóðfélagið aðlagaði sig að þriðju bylgjunni. Fólk yrði  meira heima og ofurskrifstofurnar heyrðu sögunni til.

Hvernig stendur á því, að það þurfi að marséra börnum og unglingum á hverjum virkum degi í skóla til að hlusta á það sem vel má nýta tölvutæknina til að miðla fróðleik með fullkomnara hætti. 

Stöðnunin og andstaðan stafar e.t.v. af því að iðnríki okkar tíma reynir að halda í óbreytt ástand, af ótta við að yrði miðstýringu hætt og skrifræðið einfaldað, mundu borgararnir fá meira frelsi til sjálfstæðs þroskaferlis án stöðugrar mötunar ofurfréttamennskunar sem reynir að tryggja meðvitaða eða ómeðvitað hugmyndafræði alræðisríkisins sem og þeim hagsmunum að halda fólki við ofurneyslu, sem það hefur enga þörf fyrir.

Nú á tímum hræðslunnar og aðgerða stjórnvalda vegna Covid veiru faraldursins þarf fjöldi fólks að vinna heima og fær þá reynslu af því hvaða hagræði er fólgið í því. Þetta hafa skáld, rithöfundar, sem og margir fleiri áttað sig á um árabil. Nauðsynlegt er að fleiri og fleiri geri sér grein fyrir þeim kostum að stund vinnu sína að heiman. 

Ef til vill munu þessar ráðstafanir vegna Covid reynast sú blessun í þessu dulargervi, að þriðja bylgjan sem Toffler spáði fyrir um árið 1980 nái í auknum mæli fótfestu í veröldinni, öllum til góðs. 


Af hverju svona fáir?

Fréttastofa Stöðvar 2 gerði ítarlega grein fyrir væntanlegum mótmælum og kröfugöngu námsmanna gegn loftslagsbreytingum og hvatti fólk til að mæta. Kröfugangan var í gær frá Skólavörðholti niður á Austurvöll. Það sem kom á óvart við þessi mótmæli er hvað fáir tóku þátt í þeim. Námsmannahreyfingar grunn- og framhaldsskóla og háskólanema stóðu fyrir mótmælunum og kröfugöngunni. Ef til vill hafa um 1% þeirra sem tilheyra þessum samtökum mætt í mótmælin. 

Er ekki eðlilegt að spurt sé hvar eru hin 99%, sem sáu ekki ástæðu til að mæta í loftslagsmótmælin. 

Fram kom af viðtölum við þáttakendur í mótmælunum, að ungt fólk væri hrætt við loftslagsbreytingar og teldu að framtíð þeirra væri ógnað. Í ræðum sem fluttar voru var gengið út frá því að stöðugt vaxandi hlýnun væri í heiminum vegna aukningar koltvísýrings í andrúmsloftinu. 

Það er slæmt að ungt fólk sé hrætt. En þannig hefur það verið í þekktri sögu mannkynsins. Fólk er alltaf hrætt við eitthvað.Sé það ekki raunverulegt þá býr fólk það til. Á árum áður var haldið að ungu fólki sögur um tröll, Grýlu, drauga og forynjur. Getur verið að trúin á "hamfarahlýnun" sem muni eyða öllu lífi á jörðinni sé álíka galin og stöðugt fleira ungt fólk átti sig á því. 

Í þessu tilviki er það ekkert vafamál að það sem fólk þarf að óttast í sambandi við loftslagsbreytingar, er óttinn sjálfur eins og Franklin Delano Roosevelt Bandaríkjaforseti orðaði það.

Væri vá fyrir dyrum í loftslagsmálum, væri það verðugt verkefni námsmmannahreyfingar og stjórnmálamanna að berjast fyrir því að við segðum okkur frá Parísarsamningnum um loftlagsmál, sem veitir m.a. Kínverjum og Indverjum frjálsar hendur um að auka losun koltvísýrings gríðarlega fram til ársins 2030 auk þess að leggja þungar álögur og gjöld m.a. á okkur, sem búum við eitt hreinasta loft og minnstu mengun af mannavöldum, sem um getur í heiminum. Síðan ættum við að einhenda okkur í að gera kröfur á mestu mengunarvaldana, Kínverja og Indverja, að taka til hjá sér og berjast gegn gríðarlegri mengun og bjóða þeim aðstoð við það.

  

 


Það er ljótt að hræða börn

Þrátt fyrir að sú staðreynd ætti að vera alkunnug, að það er ljótt að hræða börn, þá hefur það viðgengist um aldir. Grýla átti að borða óþekk börn og víða um heim voru börn hrædd með forynjum og jafnvel refsimætti almættisins ef vikið væri af vegi dyggðanna.

Nú hefur tekið við ný tegund af hræðsluáróðri gagnvart börnum, en þeim er talin trú um að heimurinn sé að farast vegna þess, að hlýnun jarðar sé slík að það muni enda með helvítislogum á jörðu innan fárra ára ef þau og aðrir tileinki sér ekki vegi dyggðarinnar og jafnvel þó það verði gert, þá sé spurning hvort jörðinni verði bjargað.

Í umfjöllun blaðsins Daily Telegraph í dag er sagt frá því að vaxandi fjöldi barna og unglinga eigi við mikla vanlíðan að stríða og þurfi að fá hjálp, sálfræðinga og geðlækna vegna ótta við hamfarir og/eða heimsenda vegna hamfarahlýnunar.

Í greininni segir að það sem valdi helst vanlíðan unga fólksins sé áróður samtaka eins og Extincition Rebellion, skógarelda í Amason, en síðast en ekki síst heimsendaspá unglingsins Gretu Thunberg, sem segir í boðskap sínum við unga fólkið "Við munum öll deyja" vegna loftslagshlýnunar af mannavöldum.

Þá spáði ríkisarfinn Karl Bretaprins fyrir um endalok jarðar fyrir mögrum árum. Skv. spá hans þá áttu endalokin að verða fyrir rúmu einu og hálfu ári. Nú hefur hann birt nýja spá, þar sem hann framlengir tímann fram að heimsenda um 3 ár frá miðju árinu 2019. 

Harry sonur hans lætur sitt ekki eftir liggja á sama tíma og hann flýgur með einkaþotum nokkrum sinnum í mánuði, segir hann börnum á Bretlandi, að við séum eins og froskar í sjóðandi vatni og það verði bara verra.

Í grein DT er sérstaklega vikið að því að foreldrar verði að segja börnum sínum hvað séu staðreyndir og hvað sé áróður. Þannig verði þeir að gera börnum sínum grein fyrir því að það sé algjör óvissa um hugsanlegar afleiðingar meintrar loftslagshlýnunar. 

Hér á landi hafa unglingar verið hvattir til að skrópa í skólanum og mótmæla hamfarahlýnun og það með velvilja og jafnvel hvatningu kennara. Fjöldi skólamanna hefur tekið þá afstöðu að það sé í lagi að skrópa í skólanum í þágu baráttu fyrir að þeirra mati góðu málefni. Sem nú er komið í þann farveg vegna heimsendaspánna að börn og unglingar eru algjörlega ráðvillt vegna öfgaáróðursins og þurfa að leita sér lækninganna vegna lygaáróðursins sem að þeim er ítrekað haldið af leikbrúðum eins og Gretu Thunberg, forréttindaaðlinum eins og þeim Karli og Harry, óábyrgjum stjórnmálamönnum og fréttaelítunni. Þar fer fréttastofa RÚV framarlega í flokki. 

Staðreyndin er sú, að jafnvel þó að fallist yrði algjörlega á sjónarmið hlýnunarsinna um að hiti geti aukist á jörðinni með óbreyttum lífsháttum mannsins um 2-4 gráður á næstu hundrað árum, þá er engin vá fyrir dyrum. Líf og starf yrði með svipuðum hætti og verið hefur, en fólki hér á landi mundi sennilega líða betur og njóta sambærilegra hlýinda og landnámsmennirnir gerðu. 


Mainstream stjórnmálaflokkar, fasistar og pópúlistar

Eiríkur Bergmann kennari og Samfylkingarmaður var enn einu sinni fengin sem fréttaskýrandi til að fara yfir ítölsku kosningarnar. 

Stjórnmálafræðiprófessornum var eins og svo oft áður tíðrætt um pópúlískar og fasískar hreyfingar, sem hann skilgreindi sem ruslflokk stjórnmálanna sem væru á móti því sem prófessorinn kallar "the mainstream flokkum" eða flokkum sem styðjast við ríkjandi viðhorf, meirihlutaflokkum. 

Í yfirferð sinni tókst prófessornum að tala um Norður Bandalagið sem fasískan flokk og ásamt 5 stjörnu hreyfinunni báða sem pópúlíska flokka og í andstöðu við mainstream prófessorsins. 

Það sem þeir flokkar eiga sameiginlegt sem prófessorinn kallar pópúlíska og fasíska er að þeir eru á móti ríkjandi innflytjendastefnu og hafa efasemdir um Evrópusambandið og evruna. Það virðist í huga prófessorsins vera nóg til að flokkar verðskuldi þá skilgreiningu hans að vera pópúlíska og jafnvel fasíska. 

Nú er það svo að 5 stjörnu hreyfingin og Liga Nord unnu um helming atkvæða og gætu myndað ríkisstjórn saman. Eru þeir þá ekki samkvæmt eðlilegri orðaskýringu "mainstream" eða meirihlutaflokkar. Einhver mundi segja að með því að kunna skil á einfaldri samlagningu og frádrætti þá kæmist fólk að rökréttari niðurstöðu en prófessorinn kemst að með sinni flóknu sósíalísku nálgun.

Sú skoðun að vilja breyta Evrópusambandinu, fara úr Evrópusambandinu og takmarka aðgengi innflytjenda að löndum eru eðlilegar pólitískar skoðanir, sem allar eiga rétt á sér ekkert síður en hjónabönd samkynhneigðra eða velferðarkerfið. Þeir sem hafa aðra skoðun en sósíalistarnir á Evrópusambandinu og innflytjendamálum verða ekki við það hægri öfgafólk eða pópúlistar. Það fólk er fólk sem hefur skoðanir sem eru aðrar en sósíalistarnir og þær skoðanir eiga jafn mikinn rétt á sér og það án merkimiða og uppnefninga eins og sósíalisminn sem raunar er sú pólitíska stefna, sem hefur misheppnast hvað hrapalegast frá lokum síðara heimsstríðs. 

Það er mál til komið að sósíalistar eins og Eiríkur Bergman átti sig á að þeir eru ekki mainstream og síður en svo merkilegri en það fólk sem er á móti Evrópusambandinu, Evrunni og óheftu aðgengi innflytjenda. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 161
  • Sl. sólarhring: 229
  • Sl. viku: 3102
  • Frá upphafi: 2294721

Annað

  • Innlit í dag: 151
  • Innlit sl. viku: 2829
  • Gestir í dag: 138
  • IP-tölur í dag: 137

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband