Leita í fréttum mbl.is

Saklaus þangað til sekt hans er sönnuð

Hreiðar Már Sigurðsson var settur í gæsluvarðhald í dag. Af ummælum á vefmiðlum að dæma þá ríkir fögnuður yfir handtöku og kröfu um gæsluvarðhald mannsins. Flestir sem tjá sig telja það jafnbrýna því að sök sé sönnuð að krafist hafi verið gæsluvarðhalds yfir manninum. Þannig er það ekki.

Í réttarríkinu er við það miðað að hver maður sé saklaus þangað til sekt hans er sönnuð. Þáverandi Bandaríkjaforseti fékk m.a. bágt fyrir að kalla ákveðinn mann glæpamann þar sem hann hafði ekki verið dæmdur fyrir ódæði  sem hann framdi.

Því má ekki gleyma að þess eru mörg dæmi að fólk hafi verið hneppt í gæsluvarðhald án þess að ákæra væri síðar birt á hendur því. Í Bretlandi þá heyrði ég einhvern tíma talað um það þegar maður fór í gæsluvarðhald að þá var talað um það í fjölmiðlum þannig: A man is helping the police etc. Maður er að hjálpa lögreglunni við upplýsingaöflun. Það fannst mér snyrtilega gert í samræmi við þau gildi sem réttarríkið byggir á.

Ekki veit ég hvort ástæða er til að hneppa ofangreindan mann í gæsluvarðhald en það er óneitanlega nokkuð sérstakt að maður sé settur í gæsluvarðhald vegna meints brots, sem varða sýnileg gögn, meir en 20 mánuðum eftir að meint brot var framið. 

Hvað svo sem okkur finnst um þennan eða hinn þá megum við aldrei hvika frá þeim gildum sem gerir okkur að siðuðu þjóðfélagi. Þar skiptir miklu að hvika ekki frá gildum réttarríkisins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Friðrik Jónsson

Það er með ólíkingum að menn sem telja sig vel gefna skuli láta út úr sér að hér sé virkt réttarríki.

Ísland hefur verið undanfarin ár eins og versta bananalýðveldi og það er mikil vinna eftir áður en við höfum rétt á að kalla okkur réttarríki.

Friðrik Jónsson, 6.5.2010 kl. 17:48

2 identicon

Alveg sammála í prinsippinu ... en maður bara getur ekki annað en glaðst yfir því að einhver rekspölur virðist kominn á þessi mál. Ástæðan fyrir gleðinni er samt fyrst og fremst sú að maður þráir að sjá íslensku þjóðina komast yfir þessi mál öllsömul sem allra fyrst og handtaka Hreiðars er liður í því ferli, hver sem sök hans er.

Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 6.5.2010 kl. 17:54

3 identicon

Þú veist eins vel og ég að þess eru mörg dæmi á Íslandi að menn hafa verið í gæsluvarðhaldi um langa tíð, mánuðum saman, en aldrei sökum bornir. Margir hafa farið í mál við yfirvöld, unnið og fengið (stórar) greiðslur í skaðabætur. Þetta er íslenska sýstemið.

Annars er þetta að "maður skal kallast saklaus þar til hann er sekur fundinn" bara staðhæfing á stöðu sakbornings í sýsteminu. Þetta kemur lögmönnum og dómurum við, en ekki almennum borgurum, sem mega sakfella og dæma menn meiningarlaust og sín á milli eins og hverjum og einum sýnist.

Ég lái engum Íslendingi að hlakka yfir handtöku Hreiðars Más. Ég óska honum réttlætis.

Kristján Gunnarsson (IP-tala skráð) 6.5.2010 kl. 18:44

4 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Ég er búinn að vera að fylgjast með umræðunni á Internetinu frá því að fyrsta fréttin kom um þetta í dag. Viðbrögðin eru misjöfn eins og fólkið er margt.

Hins vegar sýnist mér flestir vera ánægðir með að það eru komnar sýnilegar aðgerðir í rannsóknina. Það er augljóst að íslenska þjóðin var rænd. Spurningin er bara hverjir gerðu það. Kannski verður þetta til þess að þeir sem vita eitthvað og vilja ekki dúsa í gæsluvarðhaldi gefi sig fram við sérstakan ríkissaksóknara og segi allt af létta.

Þessi dómari sem þarf að taka ákvörðun um 2ja vikna gæsluvarðhald þarf að taka mjög stóra ákvörðun. Ef dómarinn sleppir honum þá verður allt vitlaust í samfélaginu. En á móti þarf ríkið að greiða einhverja lágar fébætur til Hreiðars í miskabætur ef honum er haldið í þessar tvær vikur.

Sumarliði Einar Daðason, 6.5.2010 kl. 20:14

5 identicon

Já það er magnað að hvað sem gert er, eru allir sem handteknir eru svakalega saklausir, sönnunarbyrði ákæruvaldsins er fyrir löngu orðin þvæla hér sem í flestum vestrænum ríkjum.  Og fyrir bragðið er traust þegnanna til dómskerfsins nánast engin.  Öllu er áfrýjað til hæstaréttar og héraðsdómur þar með í raun óþarfur.

itg (IP-tala skráð) 6.5.2010 kl. 21:01

6 identicon

Það virðast sumsé ekki gilda sömu reglur um Jón og séra Jón, eða hvað?  Hjá sýslumanninum í Rvk. er sú iðja iðkuð að hvaða stofnun eða fyrirtæki sem er geta lagt á almenning kröfu.  Sýslumaðurinn tekur kröfuna gilda, jafnvel þótt ekkert liggi að baki henni.  Þetta hef ég sjálfur fengið að kenna á, þegar RÚV setti á mig innheimtu fyrir sjónvarpsafnot í íbúð sem ég bjó ekki í.  Sýslumaðurinn neitaði að trúa útskýringum mínum, og gerði mér að afla gagna sem myndu sýna fram á sakleysi mitt.  Ég varð við þeirri ósk og sannaði sakleysi mitt, þrátt fyrir að það væri lögum samkvæmt hlutverk sýslumanns að athuga lögmæti krafna.  Við það var þessi krafa felld úr gildi.  Sýslumaður bar við tímaskorti, honum bærust u.þ.b. 25.000 aðfararbeiðnir á ári og hann gæti bara hreinlega ekki orðið við þessu ákvæði laganna. 

Finnst þér réttlátt að annað gildi um stóreignarmenn en hinn almenna borgara hér í þessu landi okkar?

Árni Sveinn (IP-tala skráð) 6.5.2010 kl. 22:02

7 Smámynd: Dexter Morgan

O-boy, ætla nú Sjálfstæðismenn að fara að "verja" aðal gerendur í Hruninu, sem þeir útbjuggu og færðu glæpamönnunum í gjafapappír. Eða ert þú bara að snapa þér verkefni.

Breyting hefur verið gerð í íslenskum orðabókum: Siðblinda = Sjálfstæðismaður.

Dexter Morgan, 6.5.2010 kl. 23:00

8 Smámynd: Jón Magnússon

Þetta er ekki rétt Friðrik sem betur fer. Það þarf vissulega margt að laga en við stöndum samt vel hvað þetta varðar.

Jón Magnússon, 6.5.2010 kl. 23:12

9 Smámynd: Jón Magnússon

Grefill. Þó fyrr hefði verið. Mér hefur fundist rannsóknir hjá sérstökum saksóknara ganga ansi hægt og undarlegt að engar ákærur skuli hafa verið gefnar út af embættinu nú þegar.

Jón Magnússon, 6.5.2010 kl. 23:13

10 Smámynd: Jón Magnússon

Kristján þetta er að mörgu leyti rétt hjá þér. Hitt er annað að almenningur þó ólöglærður sé á aðeins að slaka á dómhörkunni meðan mál eru á rannsóknarstigi.

Jón Magnússon, 6.5.2010 kl. 23:15

11 Smámynd: Jón Magnússon

Sumarliði dómarinn verður að sjálfsögðu að fara að í samræmi við sannfæringu sína og gera það sem hann telur vera rétt óháð því hver viðbrögð geta orðið við niðurstöðu hans. Annað væri embættisafglöp dómarans.  Ég vona að dómarinn komist að hinn einu réttu niðurstöðu.

Jón Magnússon, 6.5.2010 kl. 23:17

12 Smámynd: Jón Magnússon

Itg það er ekkert nýtt að hafa þessa sönnunarreglu og það kerfi virkar best af þeim sem mennirnir hafa enn komið á.  Það er ekki hægt að falla frá kröfunni um lögfulla sönnun ákæruvaldsins á meintri sök.

Jón Magnússon, 6.5.2010 kl. 23:20

13 Smámynd: Jón Magnússon

Árni Sveinn það á að gilda það sama fyrir Jón og sr. Jón í þessu efni. Innheimtur eru ekki sakamál þannig að þú ert ekki að bera saman sambærilega hluti. Ég get hins vegar verið sammála þér varðandi innheimtur RÚV sem eru óþolandi þar sem sönnunarbyrðinni er nánast snúið við það er gjörsamlega fráleitt.  En það breytist með nefskattinum þá áttu ekkert val þú verður bara að borga hvort sem þú vilt horfa eða hlusta eða ekki.

Jón Magnússon, 6.5.2010 kl. 23:22

14 Smámynd: Jón Magnússon

Ekki veit ég hver þú ert sem kallar þig Dexter Morgan. Færsla mín er ekki til að verja einn eða neinn heldur til að benda á alkunnar staðreyndir sem gleymast allt of oft og þú hefur greinilega ekki tiltækar og það er slæmt. Til að réttlæti sé í einu þjóðfélagi þá verður að virða grunnreglur og mannréttindi.  Þá hefur færsla mín ekkert með pólitík að gera. Ég veit t.d. ekkert um pólitíska afstöðu mannsins sem ég var að skrifa um og hún kemur málinu ekkert við. Þá hef ég hingað til ekki þurft að leita að verkefnum og reikna ekki með að gera það þau ár sem ég  á eftir að gegna lögmannsstörfum. Svo eiga menn ekki að vera hræddir við að gera grein fyrir sér undir sínu rétta nafni. Getur verið Dexter að það sé ákveðin siðblinda fólgin í því að þora ekki að horfast í augu við sjálfan sig? 

Jón Magnússon, 6.5.2010 kl. 23:27

15 Smámynd: Friðrik Jónsson

Það má horfa á þetta frá mörgum hliðum Jón.

1.hvar er réttarríkið fyrir litla manninn sem er búinn að strita allt sitt líf margir í 2 vinnum og missir allt sitt því það fór í fasteign,þarf svo að horfa uppá og borga tryggðar bankabækur peningafólks.

2.hvar er réttarríkið fyrir eftirlaunþega sem lenda í skerðingu og eiga ekki fyrir mat?

3.hvar er réttarríkið fyrir öryrkja sem ná ekki endum saman?

4.hvar er réttarríkið fyrir fólkið í landinu sem stendur í hverri viku og þiggur matargjafir í hverri viku?

Svo þarf lýðurinn að horfa uppá að menn séu að fá frá himinhá laun,himinhá eftirlaun fyrir vanhæfi í starfi.Þetta fólk sér seint réttarríki og það er ekki nóg að kalla það réttarríki,ef óréttlæti á að ganga yfir stóran hluta þjóðarinnar.

Og hvað er það kallað þegar lítill hluti þjóðar belgir sig út af auð og stór hluti lepur dauðann úr skel ég bara spyr?

Friðrik Jónsson, 7.5.2010 kl. 08:05

16 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Saklaus uns sekt er sönnuð. Vissulega hljómar þetta vel, staðreyndin er hinsvegar sú að þetta er ekki virkt á Íslandi. Ríkisstofnanir, bankastofnanir og nánast hver sem er getur rukkað fé af fólki, það verður síðan að sanna sakleysi sitt ef það telur á sér brotið. Það eru til mörg dæmi um þetta, því virðist sem sá frasi að fólk sé saklaust unns sekt er sönnuð ekki vera í gildi hér. Að minnsta kosti ekki gagnvart almenning.

Hitt er svo annað mál að sérstakur saksóknari hefur varla farið út í þessar aðgerðir nema að vel hugsuðu máli og telji sig vera með öruggt mál í höndum.

Þér er vissulega heimilt að hafa þá skoðun Jón, að telja Hreiðar Má saklausan, en okkur hinum er jafn frjálst að telja hann sekan.

Gunnar Heiðarsson, 7.5.2010 kl. 10:38

17 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Góður punktur hjá þér með því að benda á hvort ákveðin siðblinda geti verið fólgin í því að þora ekki að horfast í augu við sjálfan sig.

Þetta finnst mér nefnilega vera aðal málið hér á landi. Það eru svo margir hræddir við að líta í eigin barm og axla ábyrgð. Þetta er mjög alvarlegur kvilli hjá stjórnendum lífeyrissjóða.

Ég hef lesið flesta pistla sem þú hefur skrifað eða flutt í útvarpi undanfarin ár. Þú ert nákvæmur og varfærinn.

Sumarliði Einar Daðason, 7.5.2010 kl. 10:59

18 Smámynd: Jón Magnússon

Friðrik ég get verið sammála þér um óréttlætið sem þú vísar til og hef iðulega talað um það hversu óréttlátt lánakerfi almenningur býr við. En það má ekki rugla saman þjóðfélagslegu óréttlæti eða rangri stefnu og meðferð sakamála.

Jón Magnússon, 7.5.2010 kl. 12:04

19 Smámynd: Jón Magnússon

Gunnar það er ekki rétt að fólk hafi ekki og geti ekki haft uppi allar varnir gagnvart kröfuhöfum þar með töldum bönkum. Réttarríkið er einmitt vörn einstaklinganna gegn röngum kröfum og svo framvegis.  Síðan er öllum frjálst að hafa sína skoðun Gunnar að sjálfsögðu.

Jón Magnússon, 7.5.2010 kl. 12:07

20 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka þér fyrir Sumarliði. Það er því miður þannig að verulega skortir á að einstaklingar og þjóðin horfist í augu við sjálfa sig.  Þakka þér fyrir þessa greiningu Sumarliði  ég reyni að standa undir þessu mati þínu.

Jón Magnússon, 7.5.2010 kl. 12:08

21 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Jón, ég sagði ekki að fólk gæti ekki haft uppi varnir gegn kröfuhöfum, ég benti á að fólk yrði að sanna sakleysi sitt. Það segir að kröfuhafar eru álitnir hafa rétt fyrir sér en sá krafði rangt. Því á sá farsi að "menn séu saklausir uns sekt er sönnuð" ekki við um almenning. Þetta eru eins og hver önnur falleg orð sem höfð eru uppi við hátíðleg tækifæri. Raunveruleikinn er annar.

Gunnar Heiðarsson, 7.5.2010 kl. 14:15

22 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Eg set spurningamerki við þetta.  Maður veit náttúrulega ekki hvaða konkret forsendur eru að baki - en það er náttúrulega hystería í gangi.  Það er alltaf hættulegt - og dæmin sýna ma. á íslandi.

12 vikur í gæsluvarðhald og einangrun (efir því sem manni skilst) 

Hva - á að þvinga manninn og mennina til að játa eitthvað eða - Nei eg bara spyr.

Einangrun er ekkert grín og hafa margar rannsóknir sýnt fram á það.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 7.5.2010 kl. 16:06

23 identicon

Jón þú hefur sýnt með störfum þínum og orðum vandaðan, varfærinn og hlutlausan málflutning, svona einskonar réttsýni ef svo má að orði komast . Það eru góðir mannkostir enda verða menn dæmdir af verkum sínum, orðum og gerðum.

Réttsýni krefst ákveðins meðalhófs, sanngirnis og umburðarlyndis.  Enda er til dæmis megininntak kristinnar trúar fyrirgefning syndanna (kasti sá yðar sem syndlaus er fyrsta steininum etc.).

Þú sem löglærður maður mættir gjarnan útskýra fyrir okkur hinum, ólöglærðum, í stuttu máli,  hver tilgangur gæsluvarðhalds er og hvort að tíminn (20 mánuðir) sé ekki afstæður, þ.e.a.s. meint afbrot uppgötvast yfirleitt ekki í núinu, þau koma í ljós löngu seinna og er ekki rannsókn skák eða púsluspil sem að lokum endar með ákæru og sekt eða sýknu og gæsluvarðhald er þáttur í þessu ferli ?

Reiði og óánægja múgsins er ekki síst á ábyrgð stjórnvalda sem brugðust, sjáðu hvað er að gerast í Grikklandi. Hvað er rétt eða rangt verður hver og einn að dæma um fyrir sig en það er í mannlegu eðli að tjá tilfinningar og reiði, ekki síst þegar á móti blæs eða óréttlæti á sér stað. 

Það hafa margir ofangreindir hér margt til síns máls og því miður er það sem gerðist hérlendis ein sorgar saga sem allir tapa á. Það er margt óskiljanlegt og tormelt. Hvers vegna yfirtók græðgi í peninga og völd yfir og siðferði, samkennd, samhugur, hógværð, nægjusemi og aðrar góðar dyggðir voru látnar fjúka út í veður og vind ?

Hallgrímur Gunnarsson (IP-tala skráð) 7.5.2010 kl. 16:27

24 Smámynd: Jón Magnússon

Gunnar þú ert að blanda saman fjárkröfum á hendur einstaklingum eða félögum og sakamálum. Ef fólk er ranglega krafið um fjárkröfu þá á það að mæta og taka til varna og verður að gera það eins og fram kemur í öllum stefnum sem fólk fær sent. Það er síðan kröfuhafa að sanna að hann eigi kröfuna á hendur viðkomandi.

Jón Magnússon, 7.5.2010 kl. 17:24

25 Smámynd: Jón Magnússon

Ómar Bjarki ég er alveg sammála nema að það er talað um 12 daga gæsluvarðahld ekki 12 vikur.

Jón Magnússon, 7.5.2010 kl. 17:24

26 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka þér fyrir góð orð Hallgrímur ég reyni að standa undir þeim. Gæsluvarðhald er ekki refsing heldur réttarúrræði fyrir ákæruvaldið venjulega til að koma í veg fyrir að sakargögnum sé spillt, grunaður láti sig ekki hverfa eða grunaðir geti borið sig saman við aðra grunaða eða vitni. Þetta er í höfuðatriðum.  Þegar ég vísa í að 20 mánuðir séu liðnir frá hruninu þá ber að hafa það í huga að þau meintu brot sem Hreiðar Már er sakaður um eru með þeim hætti að það eiga að vera til sýnileg sönnunargögn eins og skjöl sem varða brotið. Þess vegna finnst mér skrýtið að þessu úrræði skuli beitt, en tek það fram að ég þekki ekki málavexti.

Þeir sem brugðust voru þeir sem lánuðu stóru lánin án trygginga og ryksugðu bankakerfið af peningum. Stjórnvöld hér hefðu e.t.v. getað komið að málum fyrr og takmarkað tjónið að einhverju leyti. En bankahrunið er á ábyrgð stjórnenda bankanna og stærstu eigendanna. Fram hjá þeirri staðreynd verður ekkert komist.

Eðlilega er fólk reitt þegar lífskjör þeirra og framtíðarhorfur versna gríðarlega. Mér hefur fundist skrýtið hvað fólk lætur yfir sig ganga hér eins og verðtryggingu og gengislán auk gríðarlegra launalækkana.

Ég er svo alveg sammála síðustu málsgreininni hjá þér og við ættum einmitt að átta okkur á að samkennd, hógværð, samhugur og nægjusemi sem og aðrar góðar dyggðir er einmitt það sem þjóðin þarf á að halda núna. Þakka þér fyrir það.

Jón Magnússon, 7.5.2010 kl. 17:32

27 identicon

Jón,

Hver er að tala um að ekki eigi að vera sönnunarregla?.  En þessi regla er mannanna verk eins og annað.  Það er ekki af ástæðulausu að efnaðir einstaklingar í hinum vestræna heimi virðast tæplega vera dæmdir.

itg (IP-tala skráð) 7.5.2010 kl. 17:37

28 identicon

Segðu mér nú eitt Jón Magnússon.

Heldur þú að það sé eitthvað í þessum pistli þínum, sem sérstökum saksóknara er ekki kunnugt um?

Heldur þú að dómarinn þurfi líka á fræðslu þinni að halda?

Þetta er ekkert annað en sjálfumglaður formalismi hjá þér.

Vitanlega eru landar okkar ánægðir að heyra af handtökum bankamanna. Nema hvað?

Þú getur svo vitanlega haldið þig við að þeir séu í raun tæknilega saklausir, þangað til sekt þeirra er sönnuð.

Í raun er það svo, að takist ákæruvaldinu ekki að sýna fram á sekt þeirra (þó þeir séu vissulega tæknilega saklausir), þá er eitthvað verulega brogað við lögin.

bugur (IP-tala skráð) 7.5.2010 kl. 22:08

29 identicon

Það sem þú ert smár í sniðum, Jón Magnússon.

bugur (IP-tala skráð) 7.5.2010 kl. 23:04

30 Smámynd: Tómas Waagfjörð

Fólk er sekt um leið og það brýtur af sér, sektin er enn til staðar ef einstaklingurinn er sýknaður vegna einhverra formsgalla.

 Ég veit, þú veist, allir vita hverjir eru sekir og hverjum ber að refsa fyrir að skuldsetja landið áratugi fram í tímann og setja þúsundi fjölskyldna á götuna.

En þú getur notað orð eins og þú vilt, þegar allt kemur til alls þá eru þessir menn siðspilltir landráðsmenn sem eiga ekkert annað skilið en líftíðardóm.

Og skammastu þín fyrir að tala máli þeirra.

Tómas Waagfjörð, 8.5.2010 kl. 15:26

31 identicon

Ég held að Eva Joly hafi séð ég gegnum vanhæfni sérstaks ríkissaksóknara enda hafa erlendir sérfræðingar staðfest að án hennar hefði ekkert gengið.  Hugleysi fylgir honum líka því ekki þorði hann að handtaka eða lögsækja neinn fyrr en að skýrslan kom út, gott að hafa kött til að kenna um ef eitthvað fer illa.  Hvernig væri svo að hann gæfi eitthvað upp í viðtölum heldur en alltaf að koma sér undan svörum. Tvö árin sem hann hefur tekið sér í þetta sýna vanhæfni, hann hefur gefið "sakborningum" nægan tíma til að koma undan peningum og ég efast um að SE láti sjá sig í skýrslutöku núna. Svo væri kannski athugandi hvar í flokkspólitíkinni maðurinn stendur því að gömlu kratarnir, samfylkingarfólk í dag er látið í friði???

Arni G Magnusar (IP-tala skráð) 8.5.2010 kl. 17:18

32 Smámynd: Jón Magnússon

Itg  þetta er röng ályktun hjá þér réttarríkið er helsta vörn þeirra sem minna mega sín.  Það er svo annað að það þarf að skoða galla á kerfinu á hverjum tíma.

Jón Magnússon, 9.5.2010 kl. 12:29

33 Smámynd: Jón Magnússon

Bugur þú getur kallað athugasemdir mínar hvað sem er en þær voru fyrst og fremst settar fram vegna umræðunnar í þjóðfélaginu en ekki vegna þess að ég teldi mig sérstaklega umkominn um að fræða sérstakan saksóknara eða dómstólinn. Umræðan í þjóðfélaginu lýsti hins vegar mikilli gleði á handtökunum og þess vegna finnst og fannst mér rétt að gera þær athugasemdir sem ég geri með því sem þú kallar þennan sjálfumglaða formalisma.

Jón Magnússon, 9.5.2010 kl. 12:31

34 Smámynd: Jón Magnússon

Tómas þetta er mikill misskilningur þinn. Ég er ekki að taka svari eins eða neins. Ég er að benda á grunngildi réttarríkisins þannig að það fái allir borgarar rétt á því að taka til varna og skuli taldir saklausir þangað til sekt þeirra er sönnuð. Það gildir líka Tómas um þá sem eru teknir fyrir morð og allt bendir til sektar viðkomandi að þá nýtur hann þessa réttar eins og aðrir eiga að njóta hvað sem líður því hvað hver telur sig vita.

Jón Magnússon, 9.5.2010 kl. 12:33

35 Smámynd: Jón Magnússon

Árni ég get ekki dæmt um hæfni eða vanhæfni sérstaks saksóknara en ég get tekið undir það með þér að mér finnst hægt ganga.

Jón Magnússon, 9.5.2010 kl. 12:34

36 identicon

Já Jón það þarf að skoða hlutina.  En staðreyndin er sú að það er lítið gert meira.  Jóhanna Sig skoðunarmaður er áhugamanneskja um skoðun t.d. er virðist lítið gera meir.

Núverandi sönnunarreglur hafa verið í þróun í marga áratugi í flestum löndum.  Hver segir að þær séu réttar?.  Allavega þarf maður ekki að lesa margar greinar frá vestrænum miðlum til að komast að því að beinlínis er hæðst að þessum reglum í flestum ríkjum.  Lögmenn fundu ekki upp tilveruna.

itg (IP-tala skráð) 9.5.2010 kl. 15:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 122
  • Sl. sólarhring: 123
  • Sl. viku: 4305
  • Frá upphafi: 2296095

Annað

  • Innlit í dag: 112
  • Innlit sl. viku: 3944
  • Gestir í dag: 101
  • IP-tölur í dag: 98

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband