Leita í fréttum mbl.is

Frábær hugmynd hjá Friðrik Sóphussyni

Friðrisk Sóphusson forstjóri Landsvirkjunar skrifar frábæra grein í Morgunblaðið í gær. Í greininni bendir Friðrik á það m.a. að á Íslandi sé stærsta eyðimörk í Evrópu.  Þetta er rétt hjá Friðrik.  Þessi ábending sýnir hversu galin staðhæfing Steingríms J. Sigfússonar formanns Vinstri grænna er um að verið sé að drekkja Íslandi með uppistöðulónum. Þá bendir Friðrik á það að gróðurþekja landsins hafi minnkað öldum saman vegna ágangs manns og náttúru.  Friðrik kemur síðan með hugmynd um stórátak í landgræðslu og skógrækt.

Því miður hafa sjálfskiparðir náttúruverndarsinnar og grænir hvort heldur þeir hafa kallað sig hægri eða vinstri séð þá helstu náttúruvá sem fólgin er í byggingu vistvænna og sjálfbærra orkuvera  þar sem fallvötn og jarðhiti hafa verið notuð.  Ekki hefur verið sinnt því sem skiptir mun meira máli. Málflutningur bæði Vinstri grænna og Íslandshreyfingarinnar hefur því verið holur hvað varðar baráttu fyrir raunverulegri náttúruvernd og betra Íslandi.

Það þarf að gera stórátak í landgræðslu og skógrækt. Það þarf að gera stórátak í borgum ekki síst í Reykjavík til að hreinsa og bæta umhverfið. Reykjavíkurborg sem gæti verið fyrirmynd að öllu leyti sem hrein borg sinnir ekki nauðsynlegum þrifum og m.a. þess vegna fer svifryksmengun ítrekað yfir hættumörk.  Ríkisstjórnin gerir ekkert til að hvetja fólk til að aka um á vistvænni ökutækjum. Ég tel að það eigi að afnema öll aðflutningsgjöld og skatta að virðisaukaskatti undanteknum af ökutækjum sem eyða minna en 6 lítrum af bensíni eða díselolíu á hverja hundrað ekna kílómetra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Hvað þýðir að vera "sjálfskipaður náttúruverndarsinni"? Ég hef séð vissan hóp manna nota þetta hugtak, alltaf í niðrandi merkingu, en ég skil það ekki.

Ég hef skrifað talsvert um náttúruvernd og er mjög hlynnt henni. Ég er ekki á launum við það. Ég tengist engum stjórnmálaflokki og heldur ekki neinum náttúruverndarsamtökum. Ég er bara einstaklingur sem læt mig náttúruna varða.

Er ég þá "sjálfskipuð"? Felst eitthvað annað í því en fyrirlitning virkjana- og álverssinna?

Hver skipar náttúruverndarsinna? Hverjir mega tala um náttúruvernd án þess að vera úthrópaðir sem "sjálfskipaðir"? Af hverju er aldrei talað um "sjálfskipaða álverssinna" eða "sjálfskipaða virkjanasinna"?

Hvað veldur því að fólk má ekki vera annt um náttúruna og vilja vernda hana án þess að það sé niðurlægt og talað niður til þess af þeim sem helst vilja virkja hverja sprænu og hvern hver á landinu?

Lára Hanna Einarsdóttir, 10.7.2008 kl. 15:23

2 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka þér fyrir Lára þetta er í sjálfu sér réttmæt athugsemd hjá þér varðandi það að nota hugtakið "sjáflskipaður" náttúruverndarsinni. Þegar ég í fljótheitum notaði þetta orðalag þá var ég fyrst og fremst að vísa til Vinstri grænna og Íslandshreyfingarinnar sem hafa gert baráttuna gegn vatnsafls- og jarðhitavirkjunum að verulegu inntaki í málflutningi sínum.  Það finnst mér vægast sagt sérkennilegur málflutningur.

Annað er að vera á móti byggingu stóriðjuvera og öðru mengandi mannlegu athæfi. Þar finnst mér eðlilegt að fara með gát.

Ég hef öðru hvoru skoðað skrif þín á blogginu Lára og er oft sammála þér en stundum eigum við ekki samleið nema hluta af leiðinni. Ég var ekki að tala til þín þegar ég notaði hugtakið "sjálfskipaður".

Jón Magnússon, 10.7.2008 kl. 15:46

3 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Þetta er alveg hárrétt athugasemd hjá þér og mér fannst einnig greinin frá Friðriki Sophussyni mjög góð.

Það sem gerir málstað sumra umhverfissinna svo ótrúverðugan er að það virðist hvergi lengur mega virkja og sama hvar borið er niður á landinu virðast þeir staðir þar sem virkja á samstundis breytast í náttúruperlur.

Auðvitað er ekki hægt að virkja helstu náttúruperlur landsins, hvort sem um er að ræða fallvötn eða hverasvæði. En stór hluti þessara svæða hlýtur þó að bera einhverjar virkjanir.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 10.7.2008 kl. 17:09

4 Smámynd: Vilhelmina af Ugglas

Ég vil bara benda á að eyðimerkur eru feykilega falleg og merkileg landsvæði sem eru stórlega vanmetin. Ég hef vistast mikið í eyðimörkum norður Afríku og það eru landsvæði sem vert er að vernda. Það sama gildir um svokallaða eyðimörk á Íslandi. Einstakt og fallegt landslag sem á sér fáar hliðstæður.

Að þessu sögðu þá er ég fylgjandi virkjun jökulsáa og mikill aðdáandi Einars Ben.

Steingrímur J. Sigfússon er líka í miklu uppáhaldi hjá mér og tel ég fáa núlifandi íslenska stjórnmálamenn komast með hælana þar sem hann hafði tærnar tveim skrefum áður. Nema ef vera skyldi Davíð Oddsson.

En hvernig ég ætla að sameina þessi átrúnaðargoð er mér fullkomlega fyrirmunað að vita.

Vilhelmina af Ugglas, 10.7.2008 kl. 19:36

5 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

"Annað er að vera á móti byggingu stóriðjuvera og öðru mengandi mannlegu athæfi. Þar finnst mér eðlilegt að fara með gát. "

Þær virkjanir sem ráðist hefur verið í á undanförnum árum, sem og þær sem nú eru á teikniborðinu, hafa þann tilgang einan að fóðra stóriðju (álver). Til þessa hafa menn nú nýtt um helming þeirra virkjunarkosta sem taldir eru hagkvæmir í vatnsafli (15 TV st/ári) og hafa þeir bestu náttúrlega verið teknir fyrst. Það þýðir að virkilega álitlegum kostum fer fækkandi. 

Varðandi jarðvarma þá er verið að tappa mjög hressilega af Hengilssvæðinu núna og ef áætlanir ganga eftir þá stefnir í það sama á Reykjanesi. Töfralausnin sem grípa á til þegar svæðin fara að kólna heitir djúpborun og er fugl í skógi þar sem alls óvíst er hvort hún er framkvæmanleg.

Það er einfaldlega ekki boðlegt að halda þessari stefnu áfram án þess að gera einhverja áætlun um framtíðarorkuöflun þjóðarinnar og forgangsraða virkjanakostum. Það er stóralvarlegt mál að binda hendur framtíðarinnar með þessum hætti - skipulagslaust.

Síðan er það nú þannig að sitt sýnist hverjum um hvað eru náttúruperlur og hvað ekki. Stundum virðast þeir staðir einir komast í þann flokk sem hægt er að keyra að með auðveldum hætti eða eru vel þekktir meðal "almennings". Og varðandi gróður á hálendinu þá eru helstu gróðurvinjar þess nú einmitt þar sem virkjanakostir eru hvað álitlegastir.

Varðandi rök með stóriðju þá eru þau nú á stundum nokkuð skondin. Það var ekkert mál að skella Kárahnjukaverkefninu ofaní mjög gott efnahagsástand en nú þegar allir hamast við að telja kjark úr fólki með krepputali er litið til stóriðju sem björgunarhrings þjóðarinnar...

Sjálfskipaður og óflokksbundinn náttúruverndarsinni.

Haraldur Rafn Ingvason, 10.7.2008 kl. 19:56

6 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Það eru góðar hugmyndir að stuðla að jarðrækt og minni útblæstri með skattaívilnunum.

Sigurður Þórðarson, 11.7.2008 kl. 00:08

7 Smámynd: Valgeir Bjarnason

Rétt er að benda á í þessari umræðu að uppistöðulón virkjana fara mörg yfir gróin svæði. Þannig drekkti Blöndulón tugum ferkm. af grónu heiðarlandi. Það er einnig staðreynd með Hálslón. Lónstæðin eru í lægðum og dalverpum næst ánum. Þar eru jarðvegsskilyrði góð og raki nægur. Á ásunum er hins vegar minni raki og því erfiðara fyrir gróður að ná sér á strik.

Það er rétt fullyrðing hjá Friðrik að ágangur mannsins hefur haft veruleg áhrif á gróðurþekjuna. En sá góði maður verður þá að taka einnig með í reikninginn að fyrirtækið sem hann stjórnar hefur eytt meira gróðurlendi en Landgræðslan hefur unnið.

Þegar áætlanir um Blönduveirkjun hófust var því lofað af Landsvirkjun að bæta hvern hektara gróðurlendis sem færi undir vatn með uppgræddum hektara á móti. Það loforð entist ekki lengi og að lokum var ákveðið að bæta hið tapaða gróðurlendi með því að rækta upp land til beitar. Það var langt í frá sama stærð að flatarmáli. Þarna hófst mikil aðgerð með áburðar og grasfrædreifingu með DC 3, Páli Sveinssyni. Síðan fóru menn að spyrja: Hvers vegna að eyða öllum þessum fjármunum í að græða upp land til sauðfjárbeitar? Dregið var því verulega úr öllum aðgerðum og nú eru þær nánast búnar að vera.

Uppgrædda landið leit vel út meðan á áburðargjöf stóð. En örfoka land á hálendi Íslands þarf mikla áburðargjöf í mörg ár til að mynda stöðuga gróðurþekju. Með hækkandi áburðarverði og minnkaðs framboðs er hér um algera útópíu að ræða.

Landsvirkjun hefur gefist upp á einu slíku verkefni og það er ekki trúverðugt að hún geti staðið fyrir öðru.

Með kveðju,

Valgeir Bjarnason, 11.7.2008 kl. 14:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 11
  • Sl. sólarhring: 421
  • Sl. viku: 4194
  • Frá upphafi: 2295984

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 3843
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 11

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband