Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Mismunandi verðmætamat.

Svo eru menn að býsnast yfir því að það sé hátt verð hundrað milljónir fyrir góðan stóðhest á hestamannamóti þjóðarinnar meðan málverk seljast á hundruðir milljóna.
mbl.is Þrjár teikningar Goya seldar á 610 milljónir króna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Friður í Afghanistan?

NATO blandaði sér illu heilli í átökin í Afghanistan. Þrátt fyrir verulega aðstoð Vesturlanda til stjórnar Hamid Karsai og fjölmennt herlið frá NATO þá gengur hvorki né rekur að koma á eðlilegu ástandi í landinu. Spurning er hvort það sé hlutverk NATO ríkjanna og hvort það sé afsakanlegt að senda ungt fólk frá Evrópu og Norður Ameríku til að vera skotmörk vígasveita og hermdarverkamanna.

Í gærkvöldi barst sú frétt að flugvélar NATO hefðu sprengt brúðkaup í Afghanistan í loft upp. Það er þá ekki í fyrsta skipti sem svo er. Fyrstu viðbrögð frá NATO var að þetta hefðu verið Talibanar. Karsai forseti sagði að þetta yrði rannsakað. Hvað sem því líður þá sýna atburðir eins og þessi hvað það er varhugavert fyrir NATO að blanda sér í átök sem bandalaginu koma í raun ekkert við.

Nú hafa Bandaríkin og NATO ríkin verið lengur í Afghanistan með lið undir vopnum en sem nemur þeim tíma sem seinni heimstyrjöldin tók.  Það hlítur að vera mikið að og nauðsynlegt að endurskoða hvort hafa eigi lið í Afghanistan eða ekki.


mbl.is 41 látinn í Kabul
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skipta réttindi kvenna formann kvennréttindafélagsins ekki máli?

Ég las í dag viðtal við Margréti Sverrisdóttur formann Kvennréttindafélags Íslands í 24 stundum. Þar segir hún frá för sinni til Íran.  Á tveim myndum sem fylgja viðtalinu er formaðurinn með handklæði um höfuðið, tákni kvennakúgunar og ófrelsis. Formanni Kvennréttindafélagsins finnst það greinilega ekkert mál að sveipa höfuð sitt í handklæði að hætti kúgaðra kvenna í Íran.

Annað kom mér einnig á óvart í viðtalinu er haft eftir fromanninum eftirfarandi:

"Almennt er fólk frjálslegt í fasi en þó er mikill munur á stöðu kynjanna, þar sem konurnar fara halloka. Samkvæmt lögum ber þeim að ganga með höfuðklúta og klæðast svörtum fötum, síðbuxum og síðum jakka. Mjög margar sveipa um sig svörtum kuflum (sjador). Konur ganga inn í strætisvagninn að aftan en karlar að framan og víða á opinberum stöðum er sérinngangur ætlaður hvoru kyni fyrir sig."

Þannig lýsir formaður íslenska kvennréttindafélagsins kvennakúguninni í Íran. Ég átti von á að formaðurinn hefði eitthvað um málið að segja og fordæmdi karlaveldið og kvennakúgunina í Íran og hvetti fólk til að aðstoða konur í Íran til að ná rétti sínum. En svo var ekki.  Formaðurinn hafði almennt þetta um máið að segja í framhaldi af ofangreindri lýsingu: " Aðkomufólki finnst líka óneitanlega sérkennilegt að sjá að í þessu sannkallaða sólarlandi skuli enginn njóta sólarinnar á þann hátt sem venja er í suðrænum löndum." Meira var það ekki.

Ég velti fyrir mér eftir að hafa lesið viðtalið við Margréti Sverrisdóttur formann Kvennréttindafélags Íslands hvort hún hefði engan áhuga á kvennabaráttu í raun. Hvort hún gæti haft pólitísk hamskipti í þeim efnum eins og hún hefur sýnt í svo mörgum öðrum málum.?

Konur á Íslandi hafa náð langt í réttindabaráttu sinni og það er gott. Við eigum að stefna að fullri jafnstöðu karla og kvenna.   En baráttan fyrir mannréttindum er ekki bara bundin við túnfótinn hjá okkur. Kvennakúgun er gríðarleg undir klerkastjórninni í Íran.  Það er til skammar fyrir formann Kvennréttindafélags Íslands að setja upp handklæði tákn kvennakúgunar og ræða um kvennakúgunina í Íran eins og það sé sjálfsagt mál.

Hefði ekki verið eðlilegt að kona sem á að berjast fyrir réttindum kvenna hefði alla vega vikið einhverjum orðum að því í viðtalinu að mikilvægt væri að hjálpa írönskum konum að njóta almennra mannréttinda? 

Kemur íslenskum baráttukonum fyrir réttindum kvenna ekkert við réttindaleysi og barátta kvenna í Múhameðstrúarlöndunum? Svo virðist ekki vera miðað við viðtalið og myndirnar af formanni Kvennréttindafélags Íslands.


Mugabe boðinn velkominn.

Róbert Mugabe hefur látið myrða, nauðga og misþyrma pólitískum andstæðingum sínum. Simbabwe var áður en hann tók við völdum í landinu matarforðabúr suður hluta Afríku. Nú hefur fjórðungur landsmanna flúið land vegna hungurs og harðstjórnar Mugabes.

Mugabe tókst að halda völdum með því að láta herinn sinn beita pólitíska andstæðinga hvers kyns nauðung sem hægt er að hugsa sér auk þess sem tæplega 100 af framáfólki í stjórnarandstöðunni var drepið af böðlum Mugabes í kosningabaráttunni.

Mánudaginn 30. júní var haldinn leiðtogafundur Afríkuríkja í Egyptalandi og þar var böðullinn frá Simbabwe, Róbert Mugabe boðinn velkominn og hlýlega tekið sem nýendurkjörnum þjóðhöfðingja lands síns. Nokkrir leiðtoganna gagnrýndu þó Mugabe, en þeir voru fleiri sem létu eins og allt væri í fínasta lagi.  Skrýtið að hvorki Mbeki forsætisráðherra Suður Afríku né Nelson Mandela skuli hafa komið fram og fordæmt ógnarstjórnina í Simbabwe. Það ætti þó að standa þeim nálægt þar sem að meir en milljón Simbabwe búa hafa flúið tli Suður Afríku og þar hafa þeir sætt ofsóknum og drápum og orðið að flýja frá Suður Afríku vegna þess að stjórnvöld hafa ekki gætt réttinda þeirra.

Eru mannréttindabrot gegn svörtum afsakanleg þegar svartir framkvæma þau? Manni dettur það helst í hug miðað við hvernig þjóðarleiðtogar Afríku láta sér fátt um finnast þó að milljónir séu hraktar á flótta og ógnarstjórnin myrði drepi og nauðgi borgurum í Simbabwe sem hafa aðra skoðun en leiðtoginn eða eru af öðrum litarhætti en hann.

Ættum við ekki að slíta nú þegar stjórnmálasambandi við Simbabwe til samræmis við afstöðu okkar á sínum tíma til Suður Afríku þegar apartheid stefnan ríkti þar?


Dregur Kárahnjúkavirkjun að sér ferðamenn?

Það var athyglivert að lesa um það í Fréttablaðinu í vikunni að Kárahnjúkavirkjun hafi jákvæð áhrif á ferðaþjónustu á Austurlandi.  Sagt er frá því að Kárahnjúkavirkjun sé orðin að vinsælum áfangastað ferðamanna innlendra sem erlendra.  Þá er haft eftir ferðamálafrömuðum á Austurlandi að erlendir ferðamenn fari líka töluvert til að skoða Álverið í Reyðafirði. 

Því var ekki spáð að Kárahnjúkavirkjun eða Álverið í Reyðafirði yrði aðdráttarafl fyrir ferðamenn.  Hvað veldur að ferðamann vilja skoða virkjun og álver? 

Það er gaman að skoða mannvirkin við Kárahnjúka hvort heldur fólk er með eða móti.   Þessi umfjöllun bendir þó til að þeir sem hafa haldið því fram að virkjunin og álverið fyrir austan hafi haft rangt fyrir sér. Ferðamennska og stóriðja virðist geta farið saman. 

Vafalaust eru einhverjir sem hafa heyrt af neikvæðum áróðri gegn virkjun og álvinnslu og vilja sjá af eigin raun hvort verið er að drekkja landinu eins og Steingrímur J. Sigfússon hefur haldið fram. Sjón er sögu ríkari og þeir sem fara og sjá mannvirkin fyrir austan sjá að flest sjónarmið og rök harðasta andspyrnufólksins geng virkjun og vinnslu eiga ekki við rök að styðjast.

Annars man ég ekki eftir raforkuveri eða stóriðjuframkvæmd sem að hefur ekki mætt mikilli andstöðu hefðbundinna vinstri mótmælenda.

Hvað með Blöndulón? Er það til mikils skaða í náttúrunni eða varð sá hluti landsins sem var græddur upp í tengslum við Blönduvirkjun og lónið til aukinnar prýði eða til skaða? Hvort skyldu nú koma fleiri ferðamenn núna á þann stað og til að skoða Blöndulónið en fóru þarna um áður en virkjunin var reist?


Stjórnmálaskörungurinn Mogens Glistrup látinn.

glistrupMogens Glistrup var athyglisverður maður. Hann var talinn einn besti lögmaður Dana og sérhæfði sig í skattarétti og benti á veikleika í skattakerfinu. Hann var með tekjuhæstu lögmönnum í Danmörku þgar hann snéri sér að stjórnmálum. Þegar Mogens Glistrup snéri sér að stjórnmálum þá lagði hann megináherslu á lækkun ríkisútgjalda og lækkun skatta.

Mogens Glistrup stofnaði Framfaraflokkinn danska og var formaður hans lengi vel en lenti í því að þurfa að gjalda skoðana sinna og var ákærður og sakfelldur fyrir skattsvik. Þar varð hann að gjalda fyrir skoðanir sínar. Mogens Glistrup hafði bent á hvað væri auðvelt að nýta sér veikleika skattakerfisins einkum hvað varðar undanþágur. Þessi atriði urðu til þess að skattayfirvöld í Danmörku fóru í lúsarleit hjá Glistrup og uppskáru að koma Mogens Glistrup út úr pólitík um nokkurt skeoð. Eftir það náði Mogens Glistrup sér aldrei á strik aftur í pólitík því miður.

Ég átti þess kost fyrir margt löngu að hitta Mogens Glistrup í matsal danska þjóðþingsins og eiga við hann orðastað í rúma klukkustund. Þá var hann á sínu fyrsta kjörtímabili. Mogens Glistrup var einstaklega skemmtilegur maður. Hann reitti af sér brandaranna og var greinilega vel heima í mjög mörgum hlutum. Mogens Glistrup er einn athyglisverðasti stjórnmálamaður sem ég hef hitt.  Því miður hafa sjónarmið hans um minni ríkisumsvif og minni skattheimtu ekki náð fram að ganga ennþá.

En að því verður að vinna.


Hakakross og hamar og sigð.

Hakakrossinn tákn nasistanna hefur verið bannaður í mörgum löndum  frá stríðslokum. Nú hefur þing Litháen bannað sovésk tákn eins og hamarinn og sigðina og sovésku kommúnistastjörnuna.

Hvað á að ganga langt í að banna? Mörgum kann að finnast meira spennandi að nota tákn sem eru bönnuð. Það er líka spurning um önnur merki og tákn hvort ekki eigi að banna þau eða taka úr umferð.

Ofan á Alþingishúsinu trónir merki dansks arfakonungs. Ekki er vilji til að taka það niður og setja íslenska skjaldarmerkið í staðinn. Þessi danski arfakonungur var andsnúinn þingræði merki hans er tákn um ófrelsi Íslands. Samt höldum við í það. 

Ég velti fyrir mér hvort það sé eðlilegt að banna merki eins og þessi og afmá spor sögunnar.  Hver tími verður að hafa frelsi til að aðlaga hlutina að eigin veruleika. Þess vegna vil ég losna við merki danska arfakonungsins af Alþingishúsinu. Það má þó nota annarsstaðar.

Hin merkin sem minna á ófrelsi, mannhatur og ógnarstjórnir hafa gildi til að minna okkur á. Er rétt að banna hakakrossinn og hamarinn og sigðina?


« Fyrri síða

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 445
  • Sl. sólarhring: 464
  • Sl. viku: 4235
  • Frá upphafi: 2295970

Annað

  • Innlit í dag: 417
  • Innlit sl. viku: 3883
  • Gestir í dag: 391
  • IP-tölur í dag: 385

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband