Leita í fréttum mbl.is

Obama, Baroso og Google

Hvað skyldu Barack Obama Bandaríkjaforseti, José Baroso forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og leitarvefurinn Google eiga sameiginlegt?

Að hvika fyrir kröfum Íslamista um takmörkun á skoðana- og tjáningarfrelsi.

Obama biðst afsökunar á því að það skuli vera tjáningarfrelsi í Bandaríkjunum sem felst m.a. í því að menn mega gera lélegar kvikmyndir án þess að Bandaríkjaforseti biðjist almennt afsökunar. Auk þess hefur framleiðandi umræddrar kvikmyndar verið handtekinn.

Gamli Maoistinn og kommúnistaleiðtoginn Baroso hefur sennilega aldrei skilið mikilvægi tjáningarfrelsis. Það þvælist ekki fyrir honum að beygja sig í duftið fyrir óeirðaröflum Íslamista og biðjast afsökunar á bandarískri kvikmynd eins og honum komi hún eitthvað við.

Samskipta- og upplýsingavefurinn Google samþykkir að láta undan kröfum Íslamista og takmarka upplýsingastreymi að kröfu þeirra.

Skelfing er þetta lið ómerkilegt.

Þegar Danir máttu þola aðsókn og viðskiptaþvinganir vegna mynda sem birtust af Múhameð spámanni í Jótlandspóstinum þá sagði þáverandi forsætisráðherra að í Danmörku væri tjáningarfelsi og honum hvorki kæmi við né hefði með það að gera hvað fólk skrifaði. Smáríkið Danmörk mátti þola mótmæli Íslamista en kiknaði ekki í hnjáliðunum eins og Obama og Baroso gera nú og Google ef það hefur þá.

Fyrir 23 árum var breska skáldið Salman Rushdie dæmdur til dauða af Írönskum stjórnvöldum fyrir að skrifa bókina "Söngvar Satans" Nú hefur þessi dómur Khomeni erkiklerks verið staðfestur  vegna myndarinnar "The Innocence of Muslims". 

Hassan Sanei erkiklerkur í Íran segir að hefði dauðadómnum yfir Rushdie verið framfylgt þá hefði síðari móðganir eins og teikningar, blaðagreinar og kvikmyndir aldrei orðið til. Til þess að koma í veg fyrir að fólk leyfi sér mál- og skoðanafrelsi þegar Múhameðstrú er annars vegar hafa verðlaun fyrir að myrða Salman Rushdie verið hækkuð í 3.3.milljónir Bandaríkjadala.

Tilgangur Íslamistanna er augljós. Að hræða fólk frá því að setja fram skoðanir sem þeim er ekki að skapi. Útiloka tjáningarfrelsi í raun.  Mikið eiga þeir gott að eiga jafn öfluga bandamenn og Obama og Baroso.

Að sama skapi er það íhugunarefni fyrir unnendur mannréttinda að svo illa skuli komið fyrir okkur að forustumenn í Evrópu og Bandaríkjunum skuli ekki skilja mikilvægi þess að gefa ekki afslátt á mannréttindum.

Mannréttindi eru algild. Baráttan fyrir þeim endar aldrei.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Akkúrat eins og á að segja það Jón Magnússon og þakka þér fyrir.  En það mættu fleiri þora að segja skoðun sín á þessum málum.  En þetta með málfrelsið liggur í augum uppi.  Þeir sem hafa lélegan mástað að verja verða að drepa andstæðinga sína því málfarsleg rök þeirra halda ekki.   

Hrólfur Þ Hraundal, 17.9.2012 kl. 15:32

2 Smámynd: Torfi Kristján Stefánsson

Gaman að sjá fasistann Jón Magnússon stíga aftur fram eftir að hafa leikið góða drenginn nú um skeið.

Torfi Kristján Stefánsson, 17.9.2012 kl. 20:12

3 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka þér fyrir Hrólfur.

Jón Magnússon, 17.9.2012 kl. 21:17

4 Smámynd: Jón Magnússon

Þú greinilega skilur ekki hvað fasismi stendur fyrir Torfi. Það er það sem ég er að berjast gegn. Alræðishyggju í hvaða mynd  sem hún birtist. Það var fasisminn sem kæfði frelsið m.a. tjáningarfrelsið. Alræðisríkið var fyrst skilgreint af Mussolini.

Jón Magnússon, 17.9.2012 kl. 21:19

5 Smámynd: Jón Magnússon

Ég birti allar athugasemdir sem eru málefnalegar og jafnvel sumar sem eru það ekki eins og þessi frá Torfa Kristjáni Stefánssyni hér að ofan. En ég heimila ekki athugasemdir sem eru lengri en sá pistill sem um er að ræða. Athugasemdir eiga að vera stuttar og málefnalegar.

Jón Magnússon, 17.9.2012 kl. 21:21

6 Smámynd: Valdimar H Jóhannesson

Málfrelsið er veigamesta grundvallaatriðið í borgaralegum réttindum Vesturlanda. Þekktasta  viðbótargrein stjónarskrár Bandaríkjanna er 1. amendment í Réttindaskránni (Bill of Rights) og er það ákvæði sem Bandaríkjamenn eru hvað stoltastir af og það með réttu.

Þegar Obama forseti beygir sig fyrir kröfum aumustu hugmyndafræði heimsins, íslam, um að takmarka þennan grundvöll  vestrænnar menningar  sem hefur þróað samfélag okkar frá samfélagi ótta, fátækar, fáfræði og heimsku, þá er afar illt í efni. Nú ríður á að viti bornir menn taki höndum saman og standi fast á tjáningarfrelsinu. Málfrelsið skiptir mestu máli við að gagnrýna hvað eina og sópa óhreinindum út úr hverju horni.

Engum þarf að koma það á óvart að gamli Maóistar eins og Barrosó aðhyllist takmörkun málsfrelsis. Allir sem aðhyllast alræðisstefnur eru þar á einu máli.

Valdimar H Jóhannesson, 17.9.2012 kl. 21:49

7 Smámynd: Jón Magnússon

Það er vissulega rétt Valdimar.

Jón Magnússon, 17.9.2012 kl. 21:54

8 Smámynd: Jóhann Kristinsson

Góður pistill Jón.

Við vorum að ræða þetta í öðrum pistli og athugasemdum en þetta var hertekið af svipuðum commentum eins og Torfa hér að ofan.

Fyrirsögn pistilsins er "Múslimar og málfrelsi eiga enga samleið." þetta hefur verið sannað í gegnum tíðina með dauða hótunum og jafnvel dauða fyrir þá sem segja, skrifa eða mynda eitthvað sem krítiserer Íslam.

Það er eins og benzín á glóðir það sem Obama og Baroso eru að gera. Undirgefni á tjáningafrelsi er stór hættuleg, og kemur til með að verða litið á sem normal ef ekki er staðið á móti svona yfirgangi eins og eru að gerast í dag.

Danir eru þeir einu sem hafa staðið upp á móti þessum yfirgangi og ástralar hafa yfirlýst; ef inflytjendur eru óánægðir með lög og siðvvenjur ástrala þá geta þeir farið heim til sín aftur.

Kanski vakna vesturlöndin upp af þessari martröð áður en það er of seint?

Kveðja frá Las Vegas

Jóhann Kristinsson, 18.9.2012 kl. 00:40

9 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Jón. Af hverju birtir þú ekki athugasemdina mína frá því í gær? Er það eitthvað viðkvæmt fyrir þig þegar bent er á þann tvískinnung þinn að á sama tíma og þú styður það að það sé refsivert að særa trúartilfinningar manna eins og kemur skýrt fram í skrifum þínum um mál Pussy Riot þá skulir þú tala um það sem árás á tjárningarfrelsi að fordæma þann sora, fullan af fordómum, rangfærslum og hreinu trúarhatri gagnvart Islam sem þetta myndband er?

Eru fordæmingar Obama, Clinton og Baroso á þessu myndbandi ekki líka hluti af tjáningarfrelsi þeirra? Er það ekki líka hluti af tjáningarfrelsinu að segja sína skoðun á því sem aðrir segja og fordæma það sem þeir telja verðskulda fordæmingu?

Bara til að hafa eitt á hreinu. Er það þín skoðun að það eigi að vera refsivert að tala illa um Jesú eða Kristna trú en sé hluti af eðlilegu tjáningarfrelsi að fá að tala illa um Múhameð eða Islam?

Sigurður M Grétarsson, 18.9.2012 kl. 09:23

10 identicon

Sæll Jón.
Ertu til í að koma með heimildir fyrir því að Obama hafi beðist afsökunar á tjáningarfrelsinu?
Beina tilvitnun helst.

Anton (IP-tala skráð) 18.9.2012 kl. 10:55

11 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Öll bóksatfstrú er af hinu illa. annars er þetta stundum skondið með blessað málfrelsið. Munið þið hvenær spaugstofan var kærð fyrir klám og guðlast...?

Haraldur Rafn Ingvason, 18.9.2012 kl. 12:53

12 Smámynd: Skeggi Skaftason

Hvenær hefur Obama "beðist afsökunar" á málfrelsi?

Ég hef bara séð vitnað í orð hans þar sem hann biðst afsökunar á lélegri og ómerkilegri mynd, sem er gerð í þeim eina tilgangi að særa tilfnningar og espa menn upp.

Svona svipað og að taka Kristslíkneski og kúka á það. (Slíkt telst raunar líklega bannað á Íslandi skv. lögum sem banna guðlast, þó svo lögin séu varla lengur virk í praxis.)

Ég held að það sé rangt hjá þér Jón Magnússon, að Obama hafði beðist afsökunar á málfrelsinu sem slíku. En leiðréttu mig, hafi ég rangt fyrir mér.

Skeggi Skaftason, 18.9.2012 kl. 13:04

13 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka þér fyrir Jóhann ég vona að fólk vakni fljótlega ekki veitir af.

Jón Magnússon, 18.9.2012 kl. 15:19

14 Smámynd: Jón Magnússon

Ástæðan Sigurður er sú að ég leyfi ekki mjög langar athugasemdir eins og fram kom í athugasemd hér í gær. Ég hleypi að öllum málefnalegum sjónarmiðum en ekki athugasemdum sem eru mun lengri en færslan eða að því. Það er sitt hvað að styðja málfrelsi eða helgispjöll. Þannig máttu vinkonur þínar í Pussy Riot mótmæla því sem þær vildu og þær hefðu getað sent myndband eða kvikmynd þar sem þær hæddust að kirkju og kristni. En þær máttu ekki gera það í höfuðkirkjunni í Moskvu ekki frekar en að hægt væri að samþykkja það að fólk færi inn í Mosku og gerði sig sekt um helgispjöll. Við eigum að virða kirkjur, bænahús, synagógur, moskur o.s.frv. og þar erum við komin út fyrir mörk þess frelsis sem John Stuart Mill talar um t.d. ef þú hefur kynnt þér það.

Jón Magnússon, 18.9.2012 kl. 15:23

15 Smámynd: Jón Magnússon

Ekki sem slíku en ummæli hans verða ekki skýrð með öðrum hætti sbr. og ummæli forseta Egyptalands um samtal þeirra vegna málsins.

Jón Magnússon, 18.9.2012 kl. 15:24

16 Smámynd: Jón Magnússon

Ég man það Haraldur. Það var gjörsamlega ástæðulaus og kjánaleg ákæra fannst mér og reynt að takmarka málfrelsið varðandi kæruna á Spaugstofuna á sínum tíma Haraldur.

Jón Magnússon, 18.9.2012 kl. 15:25

17 Smámynd: Jón Magnússon

Skeggi sá sem setur eitthvað fram verður að bera ábyrgð á því. Þannig eru ákvæðin um málfrelsið. En hann hefur rétt á því að gera það. Hvort heldur með þeim smekklega hætti sem þú nefnir eða öðrum. En hann ber ábyrgðina og getur gerst brotlegur við lög t.d. vegna helgispjalla. Þó ég vilji viðhalda slíkum ákvæðum þá vil ég fara mjög varlega í þau og takmarka mjög slík ákvæði og hatursákvæði o.s.frv. 

Jón Magnússon, 18.9.2012 kl. 15:27

18 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Það er reyndar alveg rétt að það er ekki mín sterka hlið að vera stuttorður en athugasemdin mín frá því í gæt sem þú birtirt ekki getur á engan hátt talist löng.

Það getur ekki á nokkurn hátt talist verra svo ekki sé talað um fangelsissök að flytja mótmli í kitkju eða mosku heldur en að gera það í leikhlusi eða íþrótteleikvagi. Kitjur og moskur eru bara hús eins og önnur hús.

Tjáningarfrelsið er mikilvægt en menn verða að bera ábyrð á því sem þeir tjá sig um og þola gagnrýni á það og einnig fordæmingu. Það er nefnilega líka hluti af tjáningarfrelsinu að gagnrýna það sem er gagnrýnivert og fordæma það sem þeir telja verðskuda fordæmingu. Obama baðst ekki afsökunar á umræddu myndbandi heldur fordæmdi gerð þess sem hann hefur fullan rétt á að gara.

Framleiðandi myndbandsins hefur verið fangelsaður fyrir fjársvik og blekkingar en ekki fyrir gerð myndbansins.

Sigurður M Grétarsson, 18.9.2012 kl. 22:35

19 Smámynd: Jón Magnússon

Jú Sigurður hún var rosalega löng. Langar athugasemdir drepa niður eðlilega umræðu á síðu. Það skiptir engu máli hvort framleiðandi myndbandsins sé svona eða hinseginn. Ekki heldur hvort myndin sé góð eða léleg. Það er síðan grundvallarmunur á hvort um  er að ræða tjáningu sem ryðst ekki inn á neinn heldur er valkvæð fyrir fólk að sjá eða skoða og það að ráðast inn í helgidóma.

Jón Magnússon, 19.9.2012 kl. 00:01

20 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Jón Magnússon, finnst þér þá að rétturinn til að guðlasta (eins og þessi kvikmynd var eflaust) sé hluti af tjáningarfrelsi?

Mig minnir nefnilega endilega að þú hafir áður sagst vera fylgjandi íslenska guðlastsákvæðinu.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 19.9.2012 kl. 00:30

21 Smámynd: Snorri Hansson

Ég skynja þessa „viðkvæmni“ Múslima sem uppsafnaða þreytu og gremju á því hvernig áratugum saman vesturlandabúar ösla yfir þá á skítugum skónum.Hvað líf þeirra er metið lítils virði. Ef þjóðhöfðingi er ljótur,vondur og leiðinlegur og ræður yfir olíu er komin væn ástæða til að sprengja þetta land í rúst. Gjöreiða her landsins með stæl og drepa 100.000 mans. Aðal ástæðan á þessum ósköpum reynist svo sá að varaforseta USA vantaði olíuréttindi.

Snorri Hansson, 19.9.2012 kl. 02:47

22 Smámynd: Jón Magnússon

Ég er fylgjandi tjáningarfrelsinu eins og það er í íslensku stjórnarskránni Hjalti. Ég er hins vegar á móti túlkun svonefndra hatursákvæða í refsilögum.  Á sama tíma og allir eiga rétt á að tjá sig verða þeir að bera ábyrgð á orðum sínum.

Jón Magnússon, 19.9.2012 kl. 11:54

23 Smámynd: Jón Magnússon

Ég er ekki að afsaka það Snorri hvernig Vesturlönd komu fram við ríki hins svonefnda þriðja heims á árum áður og jafnvel enn í dag sbr. Írak og Líbýu. Ég hef gagnrýnt það oft og mörgum sinnum. En það má ekki rugla árás á mannréttindi saman við það.

Jón Magnússon, 19.9.2012 kl. 11:56

24 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Hvaða mannréttindi er verið að brjóra á þeim sem gerði myndbandið? Eins og þú sjálfur segir þá þurfa allir að bera ábyrð á orðum sínum. Það felst meðal annars í því að þeir þurfa að þola gagnrýni og jafnvel fordæmingu á þeim. Það er hluti af tjáningarfrelsi þeirra sem gagnrýna og fordæma orð annarra að gera það. Það er því mákvæmlega ekkert athugavert við fordæmingu Obama, Baroso og Clintons á efni myndbandsins.

Tjáningarfrelsið gengur heldur ekki út á að menn eigi rétt á því að upplýsingaveitur eins og Google dreifi orðum manna. Þeir hafa því fullan rétt á að neita að birta orðin alfarið eða að takmörkuðu leyti.

Fangelsun frameiðanda myndbandsins er vegna fjársvika en ekki fyrir gerð myndbandsins.

Það að trfla messu í tæpa mínútu til að koma mótmælum á framfæri getur ekki á nokkurn hátt talist glæpur hvað þá að fangelsun geti talist eðlileg afleiðing. Það getur heldur ekki talist til helgispjalla frekar en ef leiksýning eða íþróttaviðburður væri truvlaður í tæpa mínútu til að koma mótmælum á framfæri.

Sigurður M Grétarsson, 19.9.2012 kl. 21:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 170
  • Sl. sólarhring: 939
  • Sl. viku: 3960
  • Frá upphafi: 2295695

Annað

  • Innlit í dag: 162
  • Innlit sl. viku: 3628
  • Gestir í dag: 160
  • IP-tölur í dag: 156

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband