Ísland hefur jafnan staðið sterkast þegar fólkið í landinu bregst þannig við erlendri ásókn, ágjöf og andbyr, að það stendur saman. Þetta er mikilvægast þegar að þjóðinni er sótt af stórþjóðum og þjóðréttindi sjálfstæðs fullvalda ríkis virt að vettugi. En þá er líka mikilvægt að eiga ríkisstjórn og stjórnmálamenn sem þora. Landhelgisbaráttan; og síðar Icesave-kúgunin þar sem alþýðu manna var ætlað að borga skuldir einkabanka og óreiðumanna var felld í þjóðaratkvæðagreiðslu í tvígang. Þessi úrslit eru merkilegir lýðræðissigrar, ekki bara okkar heldur alþýðu manna um allan heim. Stórt skref gegn ofurvaldi græðginnar og fjármagnsins. Heimssögulegur atburður eftir að ríkisstjórnin hafði látið Bretana kúga sig aftur og aftur.

 

Hryðjuverkaárásin á Ísland

Við töldum brýnt að þjóðin stæði saman í októberbyrjun árið 2008 gegn fólskulegri aðför breska stórveldisins, þegar ríkisstjórn Verkamannaflokksins breska ákvað að beita hryðjuverkalögum gagnvart Íslandi. Hryðjuverkalögin voru sett á ríkisstjórn Íslands – Seðlabankann og héngu uppi í fjármálastofnunum heimsins í níu mánuði. Tilkynningin til umheimsins var í raun þessi að Bretland hafði sett Ísland, Íslendinga, á lista með hryðjuverkamönnum, Al-Kaída og talíbönum. Hér bjó hættuleg þjóð og umheiminum var tilkynnt það. Án allra andsvara af ráðamönnum Íslands sem lutu í gras, þar til forseti Íslands brást við og hóf gagnsókn.

Okkur var ljóst um leið og fréttir bárust af fólskubragði Breta, að beita hryðjuverkalögum gegn Íslandi þegar verst stóð á eftir fall tveggja stærstu viðskiptabanka þjóðarinnar, að þessi aðgerð mundi skaða orðstír þjóðarinnar og eyðileggja möguleika þeirra fjármálafyrirtækja sem enn störfuðu, enda féll þriðji stóri bankinn í kjölfar aðgerðanna. Auk þess var okkur ljóst að beiting hryðjuverkalaga frá fjármálalegu stórveldi eins og Bretlandi mundi einnig valda ómældu öðru fjárhagslegu tjóni vegna álitshnekkis þjóðarinnar, valda vantrú á íslenskum einstaklingum og fyrirtækjum, sem mundi leiða til þess að fjölmörg viðskiptatækifæri mundu glatast auk þess sem við þyrftum að sæta verri viðskiptakjörum en ella.

Fólskubrögð breskra stjórnvalda gegn Íslandi og ekki síður fjölmiðlaupplýsingar frá Bretlandi ollu Íslandi verulegu fjárhagslegu tjóni. Inn- og útflytjendur lentu í því að samningum var kippt til baka. Krafist var staðgreiðslu. Erfiðleikar voru með bankaábyrgðir. Erfiðleikar í greiðslumiðlun jukust verulega. Ímyndartjónið gagnvart Íslandi varð gríðarlegt þegar verst stóð á.

 

Krafa um slit á stjórnmálasambandi við Bretland

Í þingræðu um þetta mál þ. 15. október 2008 sagði Guðni Ágústsson m.a.

„Ég verð að gagnrýna ríkisstjórnina og forsætisráðherrann sérstaklega fyrir það að hafa ekki þegar snúist af fullri hörku og ákært þegar breska forsætisráðherrann og bresku ríkisstjórnina fyrir fólskulega og hatramma árás á íslensku bankana í Bretlandi, á íslenska þjóð. Þeir beittu hryðjuverkalögum þegar þeir réðust inn í Landsbankann þar vegna Icesave-innlánsreikning-anna. Þeir réðust jafnframt inn í Kaupþingsbankann þar með sama hætti sem var breskur banki á EES-svæðinu í góðri stöðu og fullum rétti. Hryðjuverkalög eru fáheyrð aðferð gegn lítilli vinaþjóð.“

„Þessi fólska gerði það að verkum að íslenska ríkisstjórnin fékk alla bankana þrjá í fangið með þeim ofvöxnu fjárfestingum sem þeim tilheyrðu. Risavaxið verkefni. Allt benti til þess að Kaupþingsbankinn mundi standa af sér bankakreppuna.“

„Við framsóknarmenn teljum að Bretana eigi að kæra strax, kæra þá sem samstarfsþjóð á hinu evrópska efnahagssvæði, kæra þá fyrir ólögmæta og einstaka aðför að lítilli vinaþjóð og fyrir að úthrópa Ísland gjaldþrota. Það gerði forsætisráðherra þeirra. Slík yfirlýsing hafði lamandi áhrif á framsækin íslensk fyrirtæki.“

„Við verðum að sækja okkar rétt og sýna bresku ríkisstjórninni að drenglynd og heiðarleg þjóð ver mannorð sitt með kjafti og klóm. Við framsóknarmenn óttumst að ómarkviss og taugaveikluð vinnubrögð af hálfu íslenskra stjórnvalda kunni að valda því að íslenska ríkið verði að taka á sig óbærilegar byrðar horft til framtíðar.“

Við sömu umræðu á Alþingi sagði Jón Magnússon m.a.

„Varðandi ummæli hv. þm. Guðna Ágústssonar, formanns Framsóknarflokksins, um aðgerðir Breta, um aðgerðir Gordons Browns, flokksbróður hæstv. iðnaðarráðherra, þá er með ólíkindum að íslensk stjórnvöld skyldu ekki hafa beitt sér af alefli og leitað allra færra leiða. Af hverju tókum við það ekki upp hjá Atlantshafsbandalaginu þegar bandalagsþjóð beitti hryðjuverkalögum gagnvart bandalagsþjóð sinni? Af hverju tókum við þetta ekki upp í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna? Af hverju slitum við ekki stjórnmálasambandi við Breta þegar þeir beittu okkur hryðjuverkalögum? Það var engin ástæða til að leggjast á hnén gagnvart Bretum.“

 

Ríkisstjórn Jóhönnu lagðist hundflöt fyrir Bretunum

Í viðræðum við ráðamenn og umræðum síðar fórum við ítrekað fram á það að stjórnmálasambandi við Breta yrði slitið og beiting þeirra á hryðjuverkalögum gagnvart Íslandi yrði tekin upp á öllum þeim fjölþjóðlega vettvangi sem við ættum aðgang að. Þá kröfðumst við þess að þegar í stað yrði reynt að meta tjónið sem Ísland, Íslendingar og íslenskir hagsmunir hefðu orðið fyrir vegna þessara löglausu fólskuverka Breta.

Þáverandi forsætisráðherra tók undir það með okkur að þessi fantatök Breta sköðuðu okkur og væru í raun óafsakanleg, en hann var ekki tilbúinn til að gera þær ráðstafanir sem við kröfðumst að yrðu gerðar til að tryggja hagsmuni Íslands.

Þó ríkisstjórn Geirs H. Haarde sýndi linkind gagnvart Bretum í málinu þá óraði okkur ekki fyrir að sú ríkisstjórn sem tæki við þá, eða ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, mundi leggjast hundflöt niður fyrir Bretum og semja ítrekað um meinta Icesave-skuld án þess að halda á hagsmunum Íslands varðandi bótagreiðslur fyrir ólögmæta og bótaskylda aðför Breta að íslenskum hagsmunum.

 

Réttlæting Darlings á hryðjuverkalögunum er saknæm

Í bók sinni „Back from the brink“ sem kom út á síðasta ári segir þáverandi fjármálaráðherra Breta, Alistair Darling, frá samskiptum sínum við íslenska ráðamenn haustið 2008 og hvað það var sem að hans mati réttlætti beitingu hryðjuverkalaga gagnvart Íslandi. Hann segir m.a. „Sem betur fer höfðum við vald til að beita afli ef aðgerðir Landsbanka Íslands og stjórnvalda væru líklegar til að valda efnahag Bretlands meiriháttar tjóni (be to the detriment of the UK economy). En þetta gat þýtt um 4,5 billjóna punda tap fyrir sparifjáreigendur í Bretlandi.“

Á öðrum stað í bókinni segir Darling að íslensku bankarnir hafi verið hlutfallslega lítill hluti vandans sem við var að glíma. Hann talar í því sambandi um Edge-reikningana sem hafi verið um 3 billjónir punda. Í því sambandi er það tekið úr samhengi að þeir reikningar voru í enskum banka og lutu regluverki Breta að öllu leyti og komu því þessu máli ekki við; og síðan Icesave-reikningana sem hafi verið um 4 billjónir punda eða nokkru lægri en sú fjárhæð sem hann nefnir sem réttlætingu þess að hryðjuverkalögunum var beitt gagnvart Íslandi.

Vandinn var hlutfallslega lítill, segir Darling en réttlætir beitingu hryðjuverkalaganna með því að hefði ekki komið til þessa hrottaskapar af hálfu Breta þá hefði enska efnahagskerfið orðið fyrir meiriháttar tjóni. Sem sé með því að slá litla Ísland rothögg bjargaði Stóra-Bretland sjálfu sér.

Þetta stenst síðan ekki þegar önnur ummæli í bók Darling eru skoðuð en hann talar á einum stað um kröfu breskra stjórnvalda um að 600 milljónir punda vantaði en ef sú fjárhæð yrði greidd þá yrði allt í lagi og bætti síðan við að hann hefði sagt viðkomandi íslenskum ráðherra að þetta væri lítill bjór fyrir Breta og því ekki annað að skilja en þetta mál skipti Breta harla litlu máli þó það skipti Ísland miklu máli.

 

Darling skýlir sér bak við óhæfuverk Alþingis

Hvergi í bók sinni færir Darling fram samtíma réttlætingu á beitingu hryðjuverkalaganna gagnvart Íslandi. En síðari tíma réttlæting hans er merkileg. Í bókinni sem er skrifuð árið 2011, eins og fyrr segir, þá er réttlætingin sú að í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis komi margt fram sem hafi bent til glæpsamlegs atferlis íslenskra bankamanna og Alþingi hafi höfðað mál á hendur þáverandi forsætisráðherra Íslands.

Þessi réttlæting Darling er athyglisverð vegna þess að frá henni má gagnálykta sem svo að hann og félagi hans Gordon Brown hafi ekki haft nein haldbær rök eða ástæður fyrir beitingu hryðjuverkalaganna þegar þeim var beitt en sæki nú réttlætingu með því að vísa til galgopa-legrar umfjöllunar í Rannsóknarskýrslu Alþingis og þess óhæfuverks sem unnið var með því að ákæra Geir H. Haarde.

Samtímaréttlæting var engin. Enda er hún ekki til. Enn er lag og brýn krafa að kæra Bretland og munum við rekja það hér í blaðinu í annarri grein.

Guðni er fyrrv. formaður Framsóknarflokksins. Jón fyrrv. alþingismaður Sjálfstæðisflokksins.