Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Lognið á undan storminum?

Skollið er á póltískt dúnalogn. Að loknum kosningum eru allir að gera hosur sínar grænar fyrir öðrum í von um að komast í ríkisstjórn. Samt sem áður er heimurinn ekki hættur að snúast og sömu vandamálin bíða úrlausnar. Framkoma Ingibjargar og Steingríms J minnir mig á sögu úr einni af bókum Halldórs Laxnes um konuna sem kom reglulega í kirkju á hverjum sunnudegi og hafði þann sið að fussa og sveia og leggja illt til væri nafn hins illa nefnt en signa sig og dásama himnafeðgana væru þeir nefndir. Svo tók prestur allt í einu eftir því að konan er hætt að fussa og sveia þegar nafn hins illa er nefnt og virðist mæla hlýlega til hans. Presti þótti þetta furðu sæta og spurði konuna einhverju sinni að lokinni messu hverju sætti. Jú sagði konan. Maður veit aldrei hvað kann að gerast í viðsjáverðum heimi og kurteisin kostar ekki neitt.

Ofanrituð saga er hér orðuð eftir minni en þetta flökraði að mér vegna þessa pólitíska dúnalogns sem er í þjóðfélaginu. Annars er merkilegt að krónan skuli styrkjast og verðbréfin ná nýjum háhæðum. Það alla vega bendir til þess að markaðurinn telji ekki vávænleg tíðindi framundan í stjórn landsins. Vonum að það gangi eftir.


Nú þarf að koma sér í kraftgöngu.

Sjálfsagt venjast menn á að vera í kosningabaráttu. Ég efa að ég fari í það margar að mér takist að ná þeirri færni sem Dr. Gunnar Thoroddsen náði en ég fór með honum á nokkra kosningafundi vítt og breytt um landið fyrir tæpum 40 árum. Ég var ungur maður og fannst það fyrirkvíðanlegt verkefni að fara með Dr. Gunnari en það var bæði skemmtilegt og lærdómsríkst. Dr. Gunnar kunni að hvíla sig þegar þess gafst kostur. Undirbúa sig þegar þess gafst kostur og umgangast fólk með þeim hætti sem fáum er gefið. Fyrirfram hafði ég talið að Dr. Gunnar væri frekar húmorslaus maður en þar hafði ég heldur betur rangt fyrir mér. 

Sjálfur hef ég ekki náð þeirri andlegu ró sem dr. Gunnar hafði öðlast og þarf að taka út þá líkamlegu timburmenn sem því fylgir að borða óreglulega og sofa óreglulega og missa úr hreyfingu og líkamsrækt. En það skal vera komið í lag fyrir þingsetningu í haust.  Það kosningaloforð gaf ég sjálfum mér og ætla ekki að svíkja það.


Hvaða ríkisstjórn?

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hélt velli hvað þingmannafjölda varðar en fékk minnihluta fylgi meðal þjóðarinnar.  Fréttir berast af því að stórnarflokkarnir ætli sér að halda áfram samstarfi þó þeir hafi ekki nema eins þingmanns meirihluta. Sá meiri hluti er of naumur.  Þessi meiri hluti getur þó haldið þangað til þing verður sett í haust en eftir þingsetningu þegar kemur að afgreiðslu þingmála eins og t.d. fjárlaga þá dugar þessi þingmeirihluti ekki.

Geir Haarde er því í þeirri sérkennilegu stöðu að hann getur haft alla þræði í höndum sér kjósi hann að gera það. Samfylkingin og Vinstri grænir eru búnir að biðla til hans. Vinstri grænir liggjandi á báðum hnjám.  Fróðlegt væri að vita hvaða skilyrði Vinstri grænir setja fyrir stjórnarsamstarfi. Ljóst er að Sjálfstæðisflokkur mun aldrei samþykkja stóriðju og virkjanastopp út kjörtímabilið.

Næstu dagar þurfa ekki að vera spennandi því það getur dregist fram á haust að Geir spili út úrslitatrompspilinu sem hann hefur á hendi.


Græna snaran.

Þar sem engin hefur vitjað Grænu snörunnar sem var hent inn í garðinn heima hjá mér fyrir um mánuði síðan og við erum að hreinsa út úr kosningaskrifstofunni þá verður henni fargað gefi eigandinn sig ekki fram í dag.

Frjálslyndir bættu við sig í 3 kjördæmum.

Frjálslyndi flokkurinn bætti við sig hlutfallslegu fylgi í 3 kjördæmum frá því í kosningunum 2003. Í Reykjavík norður bætti flokkurinn við sig 0.8% fylgi. Í Reykjavík suður 0.2% fylgi og í Norðausturkjördæmi 0.3% fylgi. Það er kaldhæðni örlaganna að þeir sem bættu við sig mesta fylginu hlutfallslega þeir Magnús Þór Hafsteinsson og Sigurjón Þórðarson skuli báðir falla út af þingi. Þeim var báðum ljóst þegar þeir ákváðu að fara í framboð í þessum kjördæmum að það yrði verulega á brattann að sækja sem og varð þó þeim fyndist nauðsynlegt í þeirri þröngu stöðu sem flokkurinn var í að sækja þar sem flokkurinn hafði átt undir högg að sækja.  Slík hugsun og fórnarlund er fátíð í stjórnmálum síðari ára þar sem manni virðist að hver reyni að skara eld að eigin köku.

Frjálslyndi flokkurinn náði því að verða stærri flokkur en Framsóknarflokkurinn í Reykjavíkurkjördæmunum og álíka stór í Suðvestur kjördæmi.

Kosningaúrslitin sýna góðan varnarsigur Frjálslynda flokksins eftir þá ólgu sem skapaðist við tilraun Margrétar Sverrisdóttur til að taka flokkinn yfir, neikvæða umræðu um flokkinn sem hún og stuðningsmenn hennar stóðu fyrir um flokkinn og ákveðan framámenn í flokknum um marga mánaða skeið og ómálefnalegar árásir einstakra fjölmiðla á Frjálslynda flokkinn og stefnumál hans.

Þá kom í ljós að í framkvæmdastjóratíð Margrétar Sverrisdóttur hafði engin flokkleg uppbygging orðið. Það er því mikið verk að vinna því við næstu borgarstjórnarkosningar þarf Frjálslyndi flokkurinn að vinna góðan sigur og standa uppi sem sigurvegari í næstu Alþingiskosningum að 4 árum liðnum.


Hjálparhella ríkisstjórnarinnar

Í Silfri Egils áðan benti ég á að Margrét Sverrisdóttir hefði nú í tvígang bjargað lífi ríkisstjórnarinnar. Fyrir 4 árum með því að hafna að Nýtt Afl byði fram sem FF listi og nú með því að hafna því að Íslandshreyfingin byði fram FF lista. Fróðlegt verður að sjá hvað pólitíska öndunarvél Margrétar Sverrisdóttur, Styrmir Gunnarsson segir núna en í Staksteinum fyrir kosningar kenndi hann Ómari Ragnarssyni mjög ómaklega um slakt gengi Íslandshreyfingarinnar. Í vetur fór Íhaldspressan hamförum gegn Frjálslynda flokknum og mér persónulega en hafði ekki erindi því að Frjálslyndi flokkurin hélt sínu þó æskilegt hefði verið og maklegt að við kæmum fleiri mönnum á þing og það er mikill söknuður af vöskum mönnum eins og Magnúsi Þór Hafsteinssyni og Sigurjóni Þórðarsyni en þeir ná kjöri næst.

Margrét Sverrisdóttir hélt því fram að Frjálslyndi flokkurinn hefði eytt 50 milljónum í kosningabaráttuna. Sú staðhæfing er gjörsamlega úr lausu lofti gripin. Staðreyndin er hinsvegar sú að Frjálslyndi flokkurinn eyddi tæpum 20 milljónum í kosningabaráttu fyrir borgarstjórnarkosningar í fyrra en samt náði Margrét ekki kjöri.

Því miður tókst ekki fyrir þessar kosningar að byggja um stóran Frjálslyndan flokk en það verður gert fyrir næstu kosningar.


Takk fyrir stuðninginn.

Ég þakka fyrir stuðninginn.  Satt best að segja þá átti ég ekki von á því að vakna upp að morgni 13 maí 2007 sem nýkjörinn þingmaður.  Kosningabaráttan er að baki og við tekur að mynda starfhæfa ríkisstjórn.

Það er ljóst að staðan eftir kosningar er sú að Kaffibandalagið svonefnda getur ekki myndað stjórn. Þá verður að telja ólíklegt að núverandi stjórnarflokkar reyni að halda áfram stjórnarsamstarfi þingmeirihlutinn er það naumur. Sjálfstæðisflokkur og Samfylking eiga þess kost að mynda meirihlutastjórn og sömuleiðis Vinstri grænir og Sjálfstæðisflokkurinn.  R lista ríkisstjórn væri líka hægt að mynda miðað við þingmannafjölda.

Ljóst er að Framsóknarflokkurinn kemur verulega laskaður út úr þessum kosningum og vafalaust finnst mörgum Framsóknarmanninum óráðlegt að æða í R lista stjórn.  Það verður hins vegar að koma í ljós.

Við Frjáslynd getum verið ánægð með að hafa unnið góðan varnarsigur. Eftir þær hræringar sem urðu í flokknum við brotthlaup Margrétar Sverrisdóttur og nokkurra fylgifiska hennar, hamaðist íhaldspressan á flokknum og einstökum flokksmönnum. Þrátt fyrir það vinnur Frjáslyndi flokkurinn góðan varnarsigur. Persónulega finnst mér slæmt að ötulir baráttumenn eins og Magnús Þór Hafsteinsson og Sigurjón Þórðarson skuli ekki hafa náð kjöri. En við gerum bara betur næst.

Við Magnús Þór og Sigurjón sóttum í kjördæmum sem flokkurinn átti ekki þingmenn og útkoman er ásættanleg og litlu munaði að við Magnús Þór næðum kjöri sem kjördæmakjörnir.  Sigurjón stóð sig frábærlega í kosningabaráttunni og sýndi að hann er framtíðarmaður í pólitík. Nú er verkefnið okkar að byggja flokkinn upp og sýna hvað í okkur býr og koma margefldir í næstu kosningar.


Munið þetta í kjörklefanum.

Í bók sinni "Aldrei kaus ég Framsókn" eftir Kristján Hreinsson er þessi vísa

Stjórnarherrar hér og þar

af haftaleysi guma

en allt það frelsi er og var

Aðeins fyrir suma.

 Breytum þessu fáum Frjálslynda umbótastjórn: X-F


Til hamingju með daginn.

Kosningabaráttunni er lokið að mestu leyti og nú bíða frambjóðendur úrslita. Mörgum hefur fundist kosningabaráttan rislítil og erfitt hafi verið að gera sér grein fyrir mismunandi áherslurm flokkanna. Sé einhverjum um að kenna þá er það fjölmiðlum sem hafa verið uppteknastir við eigin samkvæmisleiki, skoðanakannanir, í stað þess að einhenda sér í mismunandi málefnaáherslur. Við Frjálslynd höfum markað okkur nokkra sérstöðu. Við viljum gjafakvótann burt, við viljum hafa stjórn á innflutningi fólks, afnema verðtryggingu og lagfæra velferðarhallann með því m.a.að afnema lágtekjuskatta.

Frjálslyndi flokkurinn X-F er skýr valkostur við þessar kosningar.

Vona að kjörsókn verði góð. Vona að þið eigið góðan og gleðilegan kjördag.


Áskorun til Sjálfstæðismanna.

Jóhannes Jónsson sem kenndur er við Bónus birtir heilsíðuauglýsingar í blöðum í dag, áskorun til Sjálfstæðismanna í Reykjavíkurkjördæmi suður.  Þar skorar hann á Sjálfstæðismenn að strika yfir nafn Björns Bjarnasonar og nefnir ástæðu þess. Í auglýsingunni segir. "Sjállfur hef ég ávallt litið á mig sem sjálfstæðismann þó ég hafi átt bágt með að styðja flokkinn síðustu árin í stjórnartíð Davíðs Oddssonar."

Hvað sem segja má um auglýsinguna þá má ekki líta fram hjá aðalatriðinu. Skilaboð auglýsingarinnar eru röng.  Íslensk stjórnsýsla er ekki þannig að Björn Bjarnason einn hafi farið fram með þeim hætti sem farið var við rannsókn á Baugsmálinu en til þess er vísað í auglýsingunni. Þá er það heldur ekki dómsmálaráðherra einn sem tekur ákvörðun um það hver verður ríkissaksóknari það er rætt í ríkisstjórninni og síðan tilkynnir dómsmálaráðherra niðurstöðuna.

Rétta niðurstaðan fyrir sjálfstæðisfólk í Reykjavíkurkjördæmi suður er því  að kjósa ekki Sjálfstæðisflokkinn. Hafna honum sem valkosti en kjósa F listann þar sem ég skipa efsta sætið og get sagt með sama hætti og Jóhannes í Bónus að ég hef litið á mig sem Sjálfstæðismann en hef ekki getað stutt flokkinn í stjórnartíð Davíðs Oddssonar og nú arftaka hans af ýmsum ástæðum.

Sjálfstæðismenn eiga valkost sem þeir eiga að nýta sér og sýna að þeir sætta sig ekki við velferðarhallann, sætta sig ekki við aukin ríkisútgjöld og aukna skattbyrði, sætta sig ekki við óeðlileg afskipti stjórnmálamanna.  Þeir Sjálfstæðismenn sem vilja fá öflugan málsvara mannúðlegrar markaðhyggju, skattgreiðenda og neytenda eiga því að kjosa Frjálslynda flokkinn í Reykjavík suður.  Það er sú eina yfirstrikun sem gildir. Það eru einu skilaboðin sem tekið verður eftir. X-F á morgun.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 1153
  • Sl. sólarhring: 1185
  • Sl. viku: 3563
  • Frá upphafi: 2299536

Annað

  • Innlit í dag: 1087
  • Innlit sl. viku: 3331
  • Gestir í dag: 1051
  • IP-tölur í dag: 1022

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband