Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Sjö milljarðar.

Það var hringt í mig vegna bloggfærslunar um Kamb og mér sagt að kvótaeign fyrirtækisins væri 7 milljarðar en ekki 5 eins og komið hefur fram í fréttum.

Hvað segir Einar Oddur og Einar Kristinn þingmenn kjördæmisins til margra ára. Eru þeir ekki stolltir af störfum sínum fyrir Vestfirðinga. Eða þjóna þér e.t.v. bara kvótagreifum?

 Af hverju skyldi þetta ekki hafa komið fram fyrir kosningar?


Getur nokkur stundað veiðar og vinnslu?

Stjórnandi fyrirtækisins Kambs á Flateyri segir að forsendur rekstrarins brostnar. Fyrirtækið á 5 milljarða í kvóta sem það ætlar að selja. 

Fyrirtæki sem á 5 milljarða virði í kvóta er ágætlega sett. Fyrst það getur ekki haldið áfram rekstri hvað þá sem hina sem minni eða jafnvel engan kvóta eiga?

Eigendur Kambs eru að innleysa kvótagróðann. Siðferðileg ábyrgð á fólkinu sem vinnur hjá fyrirtækinu er engin. Hvað á unga konan að gera sem keypti hús á Flateyri í fyrrahaust af því að hún fékk framtíðaratvinnu hjá Kambi? Hún getur ekki selt húsið eins og Kambur kvótann. Stjórnendur Kambs bera enga ábyrgð á vanda hennar.

Þetta er eitt dæmi um ranglæti kvótakerfisins. Fáir útvaldir fengu auðlindina gefna. Þeir geta farið með hana eins og þeir vilja. Nýtt hana, leigt hana eða selt. Þeir sem vinna við sjávarútveg eiga hins vegar ekkert. Þeim er ekkert gefið heldur frá þeim tekið ef kvótagreifanum hentar.

Það er kominn tími til að afnema óréttlátt kvótakerfi það eru hagsmunir fólksins í landinu.


Um hvað er deilt í stjórnarmyndunarviðræðunum?

Fréttir af stjórnarmyndunarviðræðum eru af fólki sem segist vera í textavinnu og engin vandamál séu á ferðinni. Myndir eru birtar af glaðbeittum foringjum Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins og ástaratlotum þeirra. Þeir sem taka þátt í stjórnarmyndunarviðræðunum virðast hafa það markmið umfram önnur að ná völdum hvað sem það kostar.

Um áratuga skeið hefur sá ósiður viðgengist að þeir stjórnmálamenn sem ráða hafa skipað vini sína og samherja í stöður og launuð ráð og nefndir. Keypt hefur verið sérfræðiþjónusta svokölluð fyrst og fremst til að færa peninga frá skattborgurunum til þóknanlegra einstaklinga í stuðningsliði viðkomandi ráðherra. Biðröðum er ruglað til hasbóta fyrir þá sem eru þóknanlegir en þeir sem áttu fremur skilið að komast að verða áfram út undan.  Íslenska þjóðin er því miður orðin svo samdauna þessu ástandi að fólk er hætt að skilgreina þetta sem spillingu.

Í stjórnarmyndunarviðræðunum er ekki deilt um neitt. Vinnan er fólgin í því að setja saman nógu og loðin fagurgala. Átökin verða um ráðuneyti hvors flokks.

Ég tel að ráðherrar séu of margir og ráðuneyti of mörg. Ráðherrar þyrftu ekki að vera fleiri en 8 jafnvel færri. Fjöldi ráðherra verður fyrsta vísbending um hvort að halda á áfram á braut bruðlsins og óráðssíunar í ríkisrekstrinum. Sumir sögðu að þegar Ingibjörg Sólrún tók við sem borgarstjóri hafi ekkert annað breyst í rekstri borgarinnar en það að stuðningsfólk R listans var skipað í öll embætti, ráð og nefndir. Engin breyting varð á stjórnsýslunni sem Sjálfstæðislfokkurinn hafði byggt upp. Hvaða vandamál ættu þá að vera hugmyndafræðilega milli Ingibjargar og Geirs?


Athugasemdir Björns Bjarnasonar

Í Staksteinum Morgunblaðsins í dag eru rakin ummæli Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra í Viðskiptablaðinu á föstudag þar sem kemur fram að Björn er ekki hrifinn af samstjórn við Samfylkinguna. Það er athyglivert að sjá hvaða orð hann velur Ingibjörgu Sólrúnu í því sambandi. Erfitt er að sjá að góður friður verði í ríkisstjórninni væntanlegu miðað við það.

Margir hafa velt því fyrir sér hvort Björn Bjarnason muni sitja í næstu ríkisstjórn. Ég sé ekki hvernig Geir Haarde getur komist hjá því miðað við auglýsingar Jóhannesar í Bónus. Ef svo fer að Björn verður ekki í ríkisstjórninni þá verður rétt að kalla stjórnina "Baugsstjórnina"

Jóhannes hafði það af að reka það mörg atkvæði yfir til Sjálfstæðísflokksins með fordæmanlegri auglýsingu sinni í dagblöðum tveim dögum fyrir kosningar að hann tryggði Sjálfstæðisflokknum sigur í kosningunum. Geir á bara eitt svar við slíkri auglýsingu og það er að standa með sínum manni.  Hvað sem líður efnislegri afstöðu til þess máls sem Jóannes fjallaði um í auglýsingunni þá var auglýsingin óviðurkvæmileg.


Hvað er framundan hjá Framsókn.

Brigslyrði forustumanna Framsóknarflokksins í garð Sjálfstæðisflokksins eru athygliverð eftir 12 ára samstarf þessara flokka. Ljóst var eftir kosningar að Framsóknarflokkurinn vissi ekki hvert hann ætlaði. Þingmeirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins var of naumur og því var einungis einn kostur í stöðunni vildu þessir flokkar halda áfram samstarfi. Það var að mynda stjórn með Frjálslyndum eða leita eftir samstarfi. Þetta gerðu stjórnarflokkarnir ekki þó að þreifingar hafi verið í gangi. 

Mér er kunnugt um að það eru ekki allir Sjálfstæðismenn sáttir með hugsanlegt stjórnarsamstarf Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins. Sumir áhrifamenn ráku þó mjög ákveðið á eftir því að af þessu stjórnarsamstarfi yrði. Ólyginn sagði mér að þar hafi borgarstjórinn í Reykjavík farið einna fremstur í flokki. Í sjálfu sér ekki óskynsamlegt hjá honum miðað við stöðuna í borgarmálum og sundrungu í meirihluta Sjálfstæðismanna í borgarstjórn. Spurning er þá hvort búast megi víðar við samvinnu Sjálfstæðismanna og Samfylkingar en í ríkisstjórn?


Mikið yrði margur sæll

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar verður sennilega til þess að ríkisútgjöld aukast á meiri hraða en verið hefði í ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins.  Fróðlegt verður að sjá útgjaldapakkann hjá ríkisstjórninni þegar stjórnarsáttmáli liggur fyrir. En fátt er svo með öllu illt eins og einhvern tíman var sagt. Verra hefði það getað verið sér í lagi hefði Samfylkingin myndað stjórn með Framsókn og Vinstri grænum. Nógu slæmt er að Sjálfstæðisflokkurinn skuli hafa valið þann kost að leiða sósíalista til öndvegis.  Hætt er við að einhver geti þá rifjað upp gömlu vísuna sem varð til þegar talað var um að koma á þegnskylduvinnu en hún var eitthvað á þessa leið:

"Ó hve margur yrði sæll

og elska mundi landið heitt,

ef fengi að vera í mánuð þræll

og moka skít fyrir ekki neitt."

Nú lítur út fyrir að skattgreiðendur megi moka skít í hálft ár fyrir hið opinbera haldi útgjöld hins opinbera áfram að vaxa. Björt framtíð fyrir venjulegt fólk?


Jafnaðarstefnan í öndvegi?

Haft er eftir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í tilefni stjórnarmyndunarviðræðna Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar að slík stjórn muni setja jafnaðarstefnuna í öndvegi.  Sjálfstæðismenn hljóta að fagna því að forusta flokksins skuli ætla að mynda ríkisstjórn sem setur sósíalísk gildi í öndvegi eða er það ekki annað orð fyrir jafnaðarstefnu?  Ef til vill passar það Sjálfstæðisflokknum vel eftir að hafa stjórnað samfellt í tæpa tvo áratugi án þess að hafa nokkru sinni farið í hugmyndafræðilega skoðun á sjálfum sér eða stjórnarstefnunni.

Þá hefur Ingibjörg Sólrún líka sagt að Sjálfstæðisflokkur og Samfylking muni mynda Frjáslynda umbótastjórn. Ég hef ítrekað talað um Frjálslynda umbótastjórn hér á blogginu en á eftir að sjá að þau gildi sem slík stjórn þarf að standa fyrir til að standa undir því nafni komi til greina hjá Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki.

Síðan er spurningin. Hvernig getur það orðið að stjórn sé á sama tíma sósíalísk og frjáslynd? Erum við e.t.v. búin að tapa eðliilegum viðmiðunum varðandi skírskotanir til hugmyndafræðilegra heita í pólitík? Eða er það bara Ingibjörg Sólrún sem áttar sig ekki á hvar hún stendur hugmyndafræðilega?


Ingibjörg vill ekki hreina vinstri stjórn.

Yfirlýsing Geirs og Ingibjargar um stjórnarmyndunarviðræður Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks fela í sér að Ingibjörg vill frekar reyna stjórnarmyndun með Sjálfstæðisflokknum en Vinstri grænum og þess vegna Framsóknarflokknum.  Sjálfsagt er það vegna þess að Ingibjörg metur það svo að Vinstri grænir séu ekki samstarfshæfir og þykir því vænlegra að sitja í skjóli Geirs. Fróðlegt verður að sjá hvort flokkarnir ná saman um myndun ríkisstjórnar og um hvernig málefnasamningurinn verður:

Skyldi Samfylkingin krefjast breytinga á kvótakerfinu?

Skyldi Samfylkingin gera kröfu um aðildaviðræður við Evrópusambandið?

Skyldi Samfylkingin standa á kosningaloforðinu um að eyða biðlistum og byggja viðunandi aðstöðu fyrir aldraða.

Skyldi Samfylkingin standa föst á því að skattkerfið verði leiðrétt þeim tekjulágu til hagsbóta.

Svör við þessu og mörgu fleiru verða fróðleg. Nái flokkarnir saman þá kemur í ljós hverskonar hryggjarstykki er í Samfylkingunni og formanni hennar.


mbl.is Formlegar stjórnarmyndunarviðræður hefjast væntanlega á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin fallin.

Það eru stórtíðindi þegar slitnar upp úr ríkisstjórnarsamstarfi eftir samfellda 12 ára samstarf. Sjálfstæðisflokkurinn á þá kost á að mynda ríkisstjórn til vinstri með Samfylkingunni og langt til vinstri með Vinstri grænum eða mynda Frjálslynda umbótastjórn með Frjálslynda flokknum hugsanlega þannig að Framsóknarflokkurinn mundi verja þá ríkisstjórn eða koma að þeirri ríkisstjórn. En valið er alfarið Geirs Haarde eins og staðan er í dag og fróðlegt að sjá hvað kemur upp úr þeim hatti. 

Það er frumskylda stjórnmálamanna að mynda starfhæfa ríkisstjórn sem fyrst. Nútíma þjóðfélag þolir illa að vera með starfsstjórn til lengdar. Sá sem fær umboð forseta væntanlega Geir Haarde ber því mikla ábyrgð á því að unnið sé hratt og allir möguleikar séu skoðaðir.


mbl.is Ekki grundvöllur fyrir áframhaldandi samstarfi stjórnarflokkanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framsóknarmenn funda.

Eftir því sem hægt er að ráða í spilin á stjórnarheimilinu þá hafa Sjálfstæðismenn boðið Framsóknarflokknum upp í dans en Framsóknarmenn átta sig ekki á því hvort þar geti verið um Hrunadans að ræða eða möguleika til endurskipulagningar. Framsóknarmenn þurfa að taka ákvörðun. Eina skynsamlega ákvörðun þeirra sýnist manni vera að halda áfram ríkisstjórnarsamstarfinu en það er engin sem segir að Framsóknarmenn taki skynsamlega ákvörðun.

Framsóknarflokkurinn er illa farinn og það lá fyrir þegar leið á stjórnartíð Halldórs Ásgrímssonar. Jón Sigurðsson sá ágæti maður hefur ekki náð að rétta flokkinn við enda ekki von til þess hafði hann of stuttan tíma og sporin hræddu á svo mörgum sviðum. Nú standa Framsóknarmenn frammi fyrir þeim valkostum að vera utan ríkisstjórnar þetta kjörtímabil eða taka tilboði Sjálfstæðismanna.

Tal um R lista samstarf er óraunhæft. Of mikið ber á milli R lista flokkana svokallaðra til að það sé raunhæft að þeir geti komið sér saman um ríkisstjórn sem hefur einhvern styrk eða er líkleg til að stjórna til góðs. Tækist svo óhönduglega til að R lista stjórn yrði það  þjóðinni dýrkeypt. Vilji Framsóknarmenn ekki fara í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum af hverju ættu þeir að fara í ríkisstjórn með Samfylkingu og Vinstri grænum?

Sumir flokkar eiga þess kost að byggja sig upp í stjórnarandstöðu. Við Frjálslynd eigum t.d. þann kost og munum gera það. Framsóknarflokkurinn á hins vegar ekki þann kost. Í fyrsta lagi þá er flokkurinn búinn að vera svo lengi við völd að hann mun eiga erfitt við núverandi aðstæður að fóta sig í stjórnarandstöðu. Á hvað ætar flokkurinn þá að leggja áherslu. Andstöðu við það sem hann hefur staðið fyrir undanfarin ár? 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 17
  • Sl. sólarhring: 627
  • Sl. viku: 2958
  • Frá upphafi: 2294577

Annað

  • Innlit í dag: 17
  • Innlit sl. viku: 2695
  • Gestir í dag: 17
  • IP-tölur í dag: 17

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband