Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Er ríkisstjórnin að ranka við sér?

Guðni Ágústsson formaður Framsóknarflokksins hefur ítrekað kallað eftir því að ríkisstjórnin vaknaði og tæki alvarlega váboða í fjármálalífi þjóðarinnar og alþjóðlega fjármálamarkaðnum. Nú hefur ríkisstjórnin svarað kalli eftir að meir en árs þjóðarframleiðsla hefur gufað upp af hlutabréfamarkaðnum og gengi krónunnar hefur fallið mikið frá áramótum.

En hvað ætlar ríkisstjórnin að gera? Seðlabankinn situr við sinn keyp og heldur ofurstýrivöxtum. Ég sé ekki vitræna skýringu á því að halda ofurstýrivöxtum Seðlabankans svona háum nema ef vera skyldi til að koma í veg fyrir verulegt fall íslensku krónunnar. En háir stýrivextir munu ekki endalaust ná að vernda hágengisstefnu sem engin innistæða er fyrir.

Hvað ætlar þá ríkisstjórnin að gera. Seðlabankinn kemur í veg fyrir að hægt sé að veita hagstæð lán til venjulegra íslendinga en á meðan talar forsætisráðherra um stöðu mála á alþjóðlegum fjármálamarkaði. Skyldi slíkt ylja þeim sem sjá lánin sín hækka og hækka vegna ofurvaxta og verðtryggingar. Alla vega skilar það ekki árangri.

Mér sýnist því að fundur forsætisráðherra til að ræða stöðuna á fjármálamarkaðnum hafi verið friðþægingarfundur. Orð án athafna. 

Ríkisstjórnin er ekki að ranka við sér.


mbl.is Ræddu stöðu á fjármálamarkaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meirihlutinn vill flotkrónuna burt.

Það er athygliverð niðurstaða sem kemur fram í skoðanakönnun Fréttablaðsins í dag að 63% vilja aðra mynt en krónuna. Ég skil þá niðurstöðu þannig að fólk sé í sjálfu sér ekkert á móti krónunni sem slíkri en óttist að hafa flotkrónu sem sveiflast eftir geðþóttaákvörðun erlendra fjárfesta.

Væntanlega sér fólk hvað það er hættulegt að hafa gjaldmiðil sem getur sveiflast um 20-30% vegna efnahagsástands í öðrum löndum en okkar. Slík gengisstefna tekur ekki mið af íslenskum aðstæðum eða hagsmunum framleiðslufyrirtækjanna.

Lítil myntsvæði er viðkvæm fyrir sveiflum og það gildir allt annað um þau en stór myntsvæði en þetta virðist yfirseðlabankastjóri ekki skilja. Það skiptir venjulegan Bandaríkjamann litlu og yfirleitt engu máli þó að dollarinn falli i verði miðað við Evru eða Evrópumanninn hvort Evran fellur miðað við dollara. Yfir 90% og iðulega nánast allt sem fólk kaupir á stórum myntsvæðum eins og dollara- og evrusvæðinu er í dollurum eða evrum. Verðið sveiflast því ekki að neinu leyti á almennum neysluvörum. 

Hér á landi aftur á móti í minnsta myntkerfi heims sveiflast stór hluti af neysluvörunum eftir því hvort krónan hækkar eða lækkar gagnvart erlendum gjaldmiðlum.  Það er ósköp eðlilegt að venjulegt fólk sé orðið þreytt á gælugjaldmiðli sem hefur þá helstu þýðingu að fela mistök í hagstjórn en þjónar hvorki hagsmunum fólks eða fyrirtækja e.t.v að sumum fjármálafyrirtækjum undanskildum.

Það eru brýnir hagsmunir  almennings að taka upp Evru eða tengjast evru t.d. í gegn um dönsku krónuna til að vera með gjaldmiðil sem er viðmiðun í öllum viðskiptum fólks og viðskiptin geti þá orðið gegnsærri og auðveldara að átta sig á fyrir neytendur hvort að verðbreytingar eru vegna ofurverðlagningar eða eiga rétt á sér.

Mér finnst undarlegt að hvorki ríkisstjórn né Seðlabankastjórar skuli sjá hættuna sem efnahagslífinu getur stafað af djúpum sveiflum flotkrónunnar.


Sérkennileg stjórnsýsla 2.

Það er óneitanlega sérstakt svo ekki sé meira sagt að pólitískt kjörnir fulltrúar í borgarstjórn skuli setjast saman í nefnd til að gera úttekt á REI málinu og semja um það hvað má koma og hvað má ekki koma í skýrslunni.  Mér sýnist  að um margt þá sé verið að reyna að bera sökina á einn einstakling en fríja aðra. Þannig beinast öll spjót að fyrrverandi borgarstjóra Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni en hlutur þeirra sem sátu í stjórn Orkuveitunnar þegar allar meiri háttar og umdeilanlegar ákvarðanir voru teknar gleymast að því er virðist. Með hvaða hætti komu fulltrúar Samfylkingarinnar eins og t.d. Dagur B. Eggertsson að málinu? Hvaða athugasemdir voru gerðar við ferlið fyrr en Svandís Svavarsdóttir gerði athugasemd við lögmæti fundar.  Þær voru engar.  Kaupréttarsamningarnir og Bjarni Ármannsson runnu ljúflega niður hjá spilltum fulltrúum borgarstjórnar í stjórn Orkuveitunnar.

Það var hins vegar stór hluti borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins sem sagði stopp og þess vegna kaus Björn Ingi Hrafnsson að segja sig úr þeim meirihluta og ömurleiki stjórnkerfis Reykjavíkur birtist betur en áður en það vara bara byrjunin aðrir og ekki betri atburðir áttu eftir að sjá dagsins ljós.

Það er óneitanlega óheppilegt að hluti borgarfulltrúa skuli taka að sér að vera dómarar í eigin sök og semja skýrslu þar sem samið er um hvað má koma og hvað ekki. Slík skýrsla og slík vinnubrögð geta aldrei verið trúverðug. Að mörgu leyti vekur skýrslan athygli fyrir það hvað það er lítið í henni en það hefur hugsanlega þurft til að bræðingurinn í úttektarnefndinni gæti komið sér saman um málið. Það sem mér leikur t.d. forvitni á að vita er með hvaða hætti og hvernig kom Bjarni Ármannsson að málum. Hver kom með hann eða bauð hann sig fram sjálfur með milljarðinn sinn. Af hverju þótti þeim sem sátu í stjórn Orkuveitunnar ekki athugavert að einn einstaklingur skyldi valinn sem fjárfestir í REI? Með hvaða hætti og hvernig kom FL Group og eftir atvikum Geysir Green Energy að málum? Hver var hlutur stjórnar Orkuveitunnar í klúðrinu? Hvaða embættismenn gætu hugsanlega borið ábyrgð? Bera núverandi og fyrrverandi forstjórar Orkuveitunnar ekki megin ábyrgð í málinu? 

Margra fleiri spurninga væri þörf á að spyrja en það sannast enn einu sinni við lestur skýrslunnar að enginn er dómari í sjálfs sín sök. Af hverju var gamli borgarstjórnarmeirihluti Dags og Svandísar ekki tilbúinn til að setja úttektina í nefnd valinkunnra sómamanna og kvenna. Af hverju að dæma sjálf í sjálfs sín sök? Er það ekki ótrúverðugt.

Einhvern veginn þá sýnist mér sem ýmsir hafi ætlað sér að hagnast verulega á REI og samruna við Geysi Green en það var ekki Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson eftir því sem ég best fæ séð. Það voru forkólfar Orkuveitunnar og ef til vill einhverjir huldumenn á þeirra vegum og annarra. Hver var sök Dags B. Eggertssonar í málinu og hver var sök Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar? Tóku þeir ekki sameiginlega ákvarðanir í stjórn Orkuveitunnar. Höfðu þeir persónulega hagsmuni? Ekki er mér kunnugt um það. Bera þeir þá ekki sem og sjálfsagt fleiri í borgarstjórninni sömu sök ef um sök er að ræða?


Sérkennileg stjórnsýsla.

Borgarstjórinn þáverandi fékk ekki álit þess embættismanns borgarinnar, borgarlögmanns, sem eðli máls samkvæmt átti að gefa álit um umboð borgarstjóra og hæfi.  Hann leitaði til aðila sem átti ríka hagsmuni af því að samningar tækjust og borgarstjórinn þáverandi samþykkti þá.  Bæði borgarstjóri og álitsgjafinn, sem eru lögfræðimenntaðir vissu að álitsgjafinn var ekki til þess bær að gefa álit í þessu efni og álitið var einskis virði.  Spurningarnar sem eftir standa eru: Af hverju leitaði þáverandi borgarstjóri ekki til þess embættismanns sem á að gefa álit í málum eins og þessum? Af hverju gaf Hjörleifur Kvaran álit í máli þar sem honum mátti vera ljóst að hann var vanhæfur? Enfremur má spyrja mátti þeim Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni og Hjörleifi Kvaran ekki vera ljóst á grundvelli menntunar sinnar og þekkingar að Vilhjálm skorti fullnægjandi umboð?

Er það ekki sérkennileg stjórnsýsla að borgarstjórn Reykjavíkur skuli ákveða að gera úttekt á REI málinu m.a. aðkomu eða skorts á aðkomu borgarstjórnar og skuli telja eðlilegt að úttektin sé unnin af borgarfulltrúum sjálfum eða á þeirra vegum og samið sé um það hvað komi í skýrsluna og hvað ekki. Hefði ekki verið eðlilegra að vísa málinu til skoðunar hjá óháðum aðilum til að fá hlutlæga niðurstöðu?

Sýnir þetta ekki að það er rík þörf á að endurskoða og breyta stjórnkerfi borgarinnar í grundvallaratriðum? Sýnir þetta e.t.v. að þeir sem sitja í borgarstjórn í dag skortir sýn á hvað eru eðlilegir starfshættir?  


mbl.is Forstjóri OR álitsgjafinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Almenningur á líka rétta á bótum.

Dómur Hæstaréttar í bótamáli Reykjavíkurborgar gegn Olíufélögunum gefur góðar vonir um að prófmálið sem Neytendasamtökin hafa höfðað til að láta á það reyna hvort einstaklingar sem urðu fyrir tjóni vegna ólögmæts verðsamráðs olíufélaganna fá bætur eins og Reykjavíkurborg hefur nú fengið samkvæmt þessum dómi.

Verðsamráð olíufélaganna sem Samkeppnisstofnun upplýsti var með þeim hætti að olíufélögin komu sér saman um verð á oíuvörum ekki bara bensíni og díselolíu heldur allt niður í verðlagningu á frostlegi. Þeir sem að þessu stóðu vissu nákvæmlega að þeir voru að brjóta samkeppnislög eða eins og varaformaður Samfylkingarinnar orðaðið það einu sinni að um væri að ræða samsæri þeirra gegn almenningi í landinu. Þar sem flett var ofan af samsærinu gegn almenningi þá skulum við vona að sá hluti almennings sem hefur höfðað mál til að krefja olíufélögin um bætur vegna ólögmæta samráðsins hafi á endanum fullan sigur.


mbl.is Olíufélög greiði bætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tímabært að gæta hagsmuna sumarhúsaeigenda.

Jóhanna Sigurðardóttir hefur lagt fram á Alþingi frumvarp um frístundabyggð þar sem er að finna ýmis ákvæði sem vernda hagsmuni sumarbústaðaeigenda eins og frístundabyggðir hafa hingað til verið nefndar. Það er raunar réttara að nefna þessar byggðir frístundabyggðir. Miðað er við að þeir sem eiga hús í slikri byggð geti framlengt lóðarleigusamningi skv ákveðnum skilyrðum sem nánar er mælt fyrir um í lagafrumvarpinu.

Hvað sem því líður þá verður samþykkt þessa lagafrumvarps til þess að eigendur frístundahúss sem reist hefur verið á leigulóð á nú eðlilegan rétt til að framleigja en þarf ekki að sæta afarkostum eins og margir eigendur sumbarbústaða/frístundahúsa hafa þurft að sæta á unanförnum árum eftir að ákveðnir aðilar fóru að gera út á að kaupa land í þeim helsta tilgangi að geta neytt eigendur frístundahúsa til að kaupa leigulóðina undir húsinu á uppsprengdu  verði.

Það er tími til kominn að hagsmuna þess fólks sem hefur lagt mikla fjármuni og vinnu í frístundahús sín og umhverfi þeirra sé gætt með fullnægjandi hætti.


Meirihluti á Alþingi fyrir breytingum á kvótakerfinu

Ekki verður annað séð en í fyrsta skipti frá því að núverandi kvótakerfi var komið á sé meirihluti þingmanná á Alþingi sem vill breytingar á kvótakerfinu. Í umræðum um um fiskveiðistjórnarmál fyrir rúmri viku kom fram hjá þingmönnum Frjálslynda flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna vilji til að fara að áliti Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna og gera breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu.

Í gær lýsti formaður Framsóknarflokksins því yfir að Framsóknarmenn vilji gera þær breytingar sem nauðsynlegar eru á fiskveiðistjórnarkerfinu þannig að gætt sé réttlætis og almennra mannréttinda svo sem álit Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna segir.  Þá liggur fyrir að aðeins einn stjórnmálaflokkur á Íslandi Sjálfstæðisflokkurinn sker sig úr og vill að því er virðist kyrrstöðu í málinu.

Nú reynir á hvort þingmenn standa við sannfæringu sína og knýja á um að farið verði að áliti Mannréttindanefndarinnar. Ekki verður annað séð miðað við yfirlýsingar þingmanna úr öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokknum að það verði gert.


Burt með kvótakerfi í landbúnaðinum.

Það var ánægjulegt að sjá hvað haft var eftir Haraldi Benediktssyni formanni Bændasamtaka Íslands í Morgunblaðinu í dag. Haraldur talar um að við eigum að feta okkur frá kvótakerfi í mjólkurframleiðslu líkt og aðrar Evrópuþjóðir séu að gera. Haraldur bendir á að kvótakerfið hamli bæði hagræðingu og framförum í landbúnaði.

Ég tel að Haraldur hafi rétt fyrir sér þegar hann bendir á vankanta kvótakerfisins í mjólkurframleiðlsu og ég er sammála honum um að það sé nauðsynlegt að afnema það sem allra fyrst. Ég er líka sammála Haraldi um það að eðlilegt sé að styðja bændur líkt og gert er við alla bændur  í hinum vestræna heimi.  En við eigum ekki að miða við að sá stuðningur verði um aldur og ævi.

Það mikilvægasta er að landbúnaðurinn fái að þróast sem atvinnugrein sem án mikilla ríkisafskipta og án kvótasetningar og hafta. Ég hef þá trú að bæði bændur og neytendur mundu hagnast á auknu frelsi í landbúnaði.


Sjálfstæðisflokkurinn klofinn um myndun meiri hluta í Reykjavík?

Ragnheiður Ríkharðsdóttir alþingismaður sem stýrði bæjarmálum í Mosfellsbæ með myndarskap þar til fyrir skömmu síðan er greinilega hugsi yfir nýja meirihluta Sjálfstæðismanna í borgarstjórn miðað við það sem haft er eftir henni í Fréttablaðinu í dag. Þá verður ekki annað séð en varaformaður Sjálfstæðisflokksins Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sé ekki alls kostar ánægð heldur en hún segir í þessu sama blaði að Sjálfstæðisflokkurinn hafi beðið hnekki vegna borgarmálanna og segir að fólk virðist hafa misst trúna að nokkru leyti og Sjálfstæðismenn fái einna helst að súpa seyðið af því.

Þær Ragnheiður og Þorgerður virðast þannig sammála mér um það að með aðgerðum sínum hafi borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins og þeir aðrir sem stóðu að árás á gamla meirihlutann og myndun þessa meirihluta, að þá hafi skammtímahagsmunir verið teknir fram yfir langtímahagsmuni. Raunar held ég að allt velviljað og heiðarlegt fólk hljóti að viðurkenna að þær aðgerðir voru ósæmilegar óháð því hvort aðrir höfðu gert eitthvað ósæmilegt áður. 

Eitt atriði sem ekki hefur verið skoðað nægjanlega í sambandi við ruglið í Reykjavík er fjöldi borgarfulltrúa. Borgarfulltrúar í Reykjaví eru of fáir. Það væri betra fyrir lýðræðið í borginni að borgarfulltrúar væru a.m.k. helmingi fleiri.  Það mundi gera vægi hvers og eins minna og auka aðhald. Ég held að það gæti þjónað þeim tilagangi að draga úr þeirri spillingu sem allir flokkar í borgarstjórn standa að og þykir orðið sjálfsögð. Bíll og bílstjóri fyrir þrjá borgarfulltrúa. Launakjör borgarfulltrúa langt umfram vinnuframlag í flestum tilvikum. Há laun fyrir nefndarstörf  og síðast en ekki síst laun til varamanna þrátt fyrir að þeir séu aldrei kallaðir til. Það er brýnt að Reykvíkingar kynni sér hvernig þetta sómafólk sem skipar meiri- og minnihluta í borgarstjorn Reykjavíkur hefur sammælst um að sóa skattpeningum okkar í sjálft sig.

 


Svona umfjöllun verður að taka alvarlega.

Umfjöllun eins og sú sem er um íslenska efnahagskerfið í Sunday Telegraph verður að taka alvarlega. Sunday Telegraph sunnudagsútgáfa Daily Telegraph er blað sem nýtur virðingar og þykir hallt undir sjónarmið íhaldsmanna í enskum stjórnmálum og því eins konar Morgunblað þar í landi.

Þrátt fyrir að taka verði fréttir eins og þessar alvarlega þá verður samt að benda á að það er ekki einsdæmi að erlend blöð birti fréttir sambærilegar þessari í Sunday Telegraph. Sem betur fer haf þær fréttir ekki reynst vera réttar. Það er hins vegar ljóst að í fjármálastarfseminni þá hafa íslensku bankarnir og fjárfestarnir gengið hratt um gleðinnar dyr og öll merki benda til þess að niðursveifla sé í efnahagslífi Bandaríkjanna og Bretlands sem getur haft afdrifarík áhrif fyrir okkur.

Það má ekki gleyma því að fjármálastarfsemi hefur verið helsti vaxtabroddur íslensks efnahagslífs undanfarin ár og niðursveifla á þeim markaði og enn alvarlegri hlutir mundu hafa verulega afdrifarík áhrif til ills fyrir okkur. Það verður því að gera allt til að koma í veg fyrir að spár eins og þessar rætist.

Hitt er svo annað mál að forustumenn í íslensku fjármálalífi hafa hagað sér með ólíkindum í ýmsum tilvikum. Ofurlaun sem eru langt umfram það sem sæmilegt er, kaupaukar og bruðl sem hefur um of einkennt starfsemi sumra fjármálastofnana eru óeðlileg og fráleitt annað en brugðist sé við með hátekjuskatti á ofurlaun.  Bruðl og ofurlaun sem hafa viðgengist undanfarin ár í fjármálastofnununum eru ósæmileg og enn verri ef í ljós kemur að engin innistæða var fyrir slíku.


mbl.is Er allt á niðurleið á Íslandi?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 125
  • Sl. sólarhring: 334
  • Sl. viku: 3066
  • Frá upphafi: 2294685

Annað

  • Innlit í dag: 117
  • Innlit sl. viku: 2795
  • Gestir í dag: 111
  • IP-tölur í dag: 110

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband