Leita í fréttum mbl.is

Handbolti og samkynhneigð

Ríkislögreglustjóri hefur mælst til þess að landsleikir Íslands og Ísrael verði háðir fyrir luktum dyrum vegna óútskýrðrar hættu sem væri fyrir hendi ef leikurinn yrði spilaður með fullu húsi af áhorfendum.  Ekki fæst uppgefið hvað er um að ræða, en forusta handknattleiksssambandsins samþykkti þetta eftir að hafa fengið skýringar frá greiningardeild Ríkislögreglustjóra. 

Íslendingar eru ekki þekktir fyrir að láta ófriðlega á landsleikjum. Þarf þá að grípa til ráðstafana vegna ofstopaliðs, sem hingað hefur flust eða verið flutt síðustu misseri? Ríkislögreglustjóri verður að upplýsa það. 

Á sama tíma og loka verður fyrir aðgengi almennings að kappleik, segja fulltrúar samkynhneigðra að þeir verði varir við aukna fordóma í sinn garð, en segja ekki hvað um er að ræða. Getur verið að sama liðið sýni þessa fordóma og þeir sem valda því að nauðsynlegt reynist að loka fyrir áhorf á landsleik. Hvarvetna í Evrópu þar sem fulltrúar Íslamskra fordóma hafa flutt eykst andúð og ofsóknir gegn samkynhneigðum í réttu hlutfalli. 

Hvað svo sem veldur á almenningur rétt á að fá fullnægjandi upplýsingar um hvað er að gerast. 

 


Hægan herra Trump.

Forseti Bandaríkjanna hefur gert tilkall til Grænlands með góðu eða illu. Þannig tala menn ekki við vini sína og Danir sem hafa farið með yfirráð yfir Grænlandi um árabil sárnar að Bandaríkin skuli koma svona fram við eina dyggustu bandalagsþjóð Bandaríkjanna um árabil. Danir voru ötulasta sporgönguþjóð með Bandaríkjunum og Bretlandi þegar illu heilli innrás var gerð í Írak og Saddam Hussein tekinn af lífi. Danir sendu herlið til hjálpar í Afganistan og áfram mætti telja.

Hvað sem líður deilum Dana og Bandaríkjanna um Grænland, þá má ekki gleyma því að Ísland á mun frekar tilkall til Grænlands en nokkru sinni Danir hvað þá Bandaríkin.

Um aldamótin 1900 skrifaði Einar Benediktsson skáld fjölda blaðagreina um tilkall Íslendinga til Grænlands. Árið 1924 stóðu stúdentar fyrir borgarafundi þar sem Einar talaði ásamt Benedikt Sveinssyni,þá þingforseta, og fleirum. Skorað var á ríkisstjórnina að halda kröfunni um „hina fornu nýlendu Íslendinga“ á lofti. „Grænlandsmálið“ var tekið fyrir á Alþingi ári síðar.

Á þessum árum deildu Danir og Norðmenn um Austur-Grænland og fór deilan fyrir Alþjóðadómstólinn í Haag árið 1931. Íslensk stjórnvöld fylgdust með og héldu sinni eigin kröfu fram. Jón Þorláksson, fyrsti formaður Sjálfstæðisflokksins, flutti þingsályktunartillögu um að gæta hagsmuna Íslands. Íslendingar hefðu rétt og hagsmuni af landnytjum á Grænlandi. Var tillagan samþykkt einróma af utanríkismálanefnd þar sem meðal annars sátu Ásgeir Ásgeirsson og Ólafur Thors. Hagfræðingurinn Jón Dúason skrifaði fræðirit um tilkallið til Grænlands með fjárstuðningi frá Alþingi. Pétur Ottesen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins barðist alla ævi fyrir rétti Íslendinga í Grænlandsmálinu og vafalaust var ég undir áhrifum frá honum þegar ég skrifaði mína aðra blaðagrein árið 1960 um tilkall Íslands til Grænlands. 

Við getum sagt að vegna ríkjasambands Íslands og Danmerkur höfum við um árabil falið Danmörku að koma fram fyrir okkar hönd í Grænlandsmálinu en engum vafa sé það undirorpið að Grænland hefði byggst frá Íslandi og væri því að þjóðarrétti íslenskt landssvæði. 

Nú er spurning hvort sá töggur er í Kristrúnu Frostadóttur, að hún hlutist til um að haldinn verði leiðtogafundur Íslands, Danmerkur og Bandaríkjanna til að fjalla um Grænlandsmálið og leiða það til lykta með sóma eins og vinum einum er lagið.

Að sjálfsögðu mundum við á þeim fundi krefjast þess að Bandaríkin afnemi alla tolla á íslenskar vörur og hefji viðræður um aukna hervernd,m.a. með því að byggja flotastöð í Finnafirði og myndarlegan flugvöll á Melrakkasléttu til að gæta sameiginlegra varnarhagsmuna. Það er miklu mikilvægara en að karpa um mál sem allir aðilar hafa hagsmuni af því að leysa í náinni samvinnu.  

 


Orkupakkar og okurverð

Fyrir allöngu ákváðu íslensk stjórnvöld að játast undir regluverk Evrópusambandsins í raforkumálum og raforkusölu. Fullyrt va að þetta skipti neytendur miklu og samkeppni fyrirtækja á smásölumarkaði mundi lækka verð til neytenda. 

Raunin hefur orðið önnur. 

Raforka hækkaði um 13% frá nóvember 2023 til sama tíma árið 2024 eða 8% umfram verðbólgu  Raforkuverð í smásölu hækkaði um 9-37%. Hin meinta samkeppni hefur ekki skilað sér til neytenda heldur þvert á móti. 

Verð á raforku skiptir miklu fyrir neytendur og er ein mikilvægasta nauðsynjaþjónustan sem neytendur geta ekki verið án. Þegar um slíka þjónustu er að ræða,skiptir máli, að þess sé gætt að verðmyndun á smásölumarkaði sé eðlileg. Ofangreindar tölur sýna að svo er ekki. 

Svo er fráleitt að neytendur keppi við stórnotendur um kaup og á raforku. 

Öll hefur þessi glæfraferð stjórnvalda við að tengja okkur reglum Evrópusambandsins með Orkupökkum bandalagsins verið til ills og bætist við helstefnu síðustu ríkisstjórnar vegna þvergirðingsháttar VG gagnvart vatnsorkuverum.

Vindmylluvæðing og aðrar bábiljur munu síðan bæta gráu ofan á svart vegna þess að dýrasta orkuframleiðsla heims getur ekki skilað sér í öðru en hærra verði til neytenda. 

Af hverju ekki að velja almenna skynsemi í stað stefnu Evrópusambandsins í orkumálum og búa svo um íslenska raforkumarkaðinn, að hann virki til að draga úr verðbólgu og framleiðslufyrirtækin og neytendur búi við orkuverð sem á að geta verið það lægsta í Evrópu.  

Raforka er nauðsynjaþjónusta þar sem hagsmunir neytenda eiga að vera í fyrirrúmi. Í þessu tilviki erum við allir neytendur jafnt einstaklingar sem framleiðslufyrirtæki önnur en stóriðja. 


Enn taprekstur hjá RÚV.

Hallarekstur RÚV eru 188 milljón krónur s.l. reikningsár. Hallarekstur RÚV er ekki nýr af nálinni þrátt fyrir að RÚV njóti sérstaks hagræðis m.a. milljarða framlags frá almenningi og mestra auglýsingatekna allra fjölmiðla. Við þær aðstæður er það sérstök snilld að ná að reka RÚV með halla. 

Venjulegt fyrirtæki þarf að endurskoða rekstur sinn og hagræða í rekstri ef um taprekstur er að ræða.  En ekki RÚV, þar á bæ hafa menn árum saman farið á fund viðkomandi ráðherra og vælt út meiri ríkisaðstoð og hann hefur jafnan fengist. 

Er ekki kominn tími til að taka rekstur RÚV til gagngerðrar endurskoðunar og selja þann hluta fyrirtækisins sem er algjörlega á samkeppnismarkaði?


mbl.is RÚV tapar 188 milljónum og stjórnarmenn telja skuldir of miklar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.4.): 292
  • Sl. sólarhring: 732
  • Sl. viku: 3550
  • Frá upphafi: 2508543

Annað

  • Innlit í dag: 269
  • Innlit sl. viku: 3323
  • Gestir í dag: 264
  • IP-tölur í dag: 259

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband