Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2010

Hinn þögli meirihluti hefur talað.

Mikill meiri hluti kjósenda hefur engan áhuga á Stjórnlagaþingi. Niðurstaða kosninganna liggur fyrir að því leyti. Um eða undir 40% kjósenda mættu á kjörstað. Það þýðir að 6 af hverjum 10 höfðu ekki áhuga á málinu. Sjálfur taldi ég nauðsynlegt að hvetja fólk til að nýta kosningaréttinn þó ég hafi frá upphafi verið á móti þessari leið og bent á aðra heppilegri.

Frá upphafi hef ég talið þessa leið hið mesta óráð og hrapað væri að máli sem fella yrði í annan farveg. Vinstri sinnaða háskólaelítan, ásamt mörgum fjölmiðlamönnum og lukkuriddurum töldu breytingar á stjórnarskrá hins vegar það mikilvægasta sem gera þyrfti í framhaldi af bankahruninu. Nú hefur þjóðin talað með því að sitja heima og neita að taka þátt í kosningunum. Hinn þögli meiri hluti hefur því tjáð sig þannig að ekki fer á milli mála.

Þann 6.október 2008 við afgreiðslu neyðarlaganna talaði ég um það sem væri mikilvægast að gera í framhaldi af falli bankanna. Það voru atriði eins og að koma lánamálum í eðlilegt horf. Fella niður verðtryggingu, lækka stýrivexti og útlánavexti, auka fiskveiðiheimildir, virkja í neðri hluta Þjórsár og hefja markvisst starf varðandi atvinnuppbyggingu. Mér fannst þá eins og nú þessi atriði skipta mestu máli.

Ríkisstjórnin setti Stjórnlagaþing í forgang. Sennilega sjá það flestir nú að heppilegra hefði verið að einhenda sér í það sem skipti máli, en það er ekki Stjórnlagaþing.

Enn eru öll þau mál óleyst sem ég taldi 2008  og tel  enn vera forgangsverkefni til að leysa þá kreppu sem er í landinu. Þess vegna verður kreppan lengri og illvígari en hún hefði orðið ef réttir hlutir hefðu verið settir í forgang.


Persónuleikalausar kosningar

Óskaplega er leiðinlegt að fylla út kjörseðilinn við kosningar til stjórnlagaþings. Fjórar tölur í fyrsta reit og síðan koll af kolli og maður man ekki lengur hvaða persóna stendur á bak við töluna þegar  neðar dregur á kjörseðilinn. Kosningin er persónuleikalaus og vekur upp minningar úr framtíðarskáldsögum þar sem einstaklingurinn er aukaatriði.

Umbúnaður þessara kosninga er allt annað en það sem kjósendur þekkja og skilja. Í stað þess að kjósa einstaklinga og fylgja hefðbundnum talningareglum um að sá sem fær flest atkvæði í fyrsta sæti er kosinn og sá sem fær flest atkvæði í fyrsta og annað sæti er kjörinn o.s.frv. var búið til kerfi sem er illskiljanlegt  öðrum en innvígðum. Hætt er við að það valdi  því að vilji kjósandans komi síður til skila en fengi kjósandinn að kjósa á grundvelli þeirra leikreglna sem hann þekkir og skilur.

Ég vona að þetta verði fyrstu og síðustu kosningarnar þar sem kjósandinn þarf að lúta lögmálum stjörnustríðsmyndanna þar sem Svarthöfði stjórnar,  en í framtíðinni geti kjósandinn kosið einstaklinga á grundvelli þeirrar germönnsku nafnhefðar sem við höfum tileinkað okkur í landinu í meir en þúsund ár.

 


Stjórnlagaþing

Hugmyndin  um sérstakt stjórnlagaþing í framhaldi af bankahruninu 2008 var ófullburða. Hún var knúin áfram að hluta til af vanþekkingu og lýðskrumi.  Að hluta var hún einnig knúin áfram á grundvelli kröfu um aukið og beint lýðræði og vilja til að breyta æðstu stjórn ríkisins til að gera hana betri og skilvirkari.

Áhugafólk um breytingar á stjórnarskránni hefði átt að geta gert sér grein fyrir að kosning stjórnlagaþings við þær aðstæður sem við erum í núna var ekki líklegasta leiðin til að skila þjóðinni breytingum á stjórnarskránni.  Auk þess kostar stjórnlagaþing óafsakanlega mikla fjármuni einmitt á þeim tímum sem beita þarf aðhaldi og sparnaði.

Sú þjóð sem hefur farið auðveldustu og bestu leiðina við breytingar á stjórnarskrá sinni eru Svíar. Ég hef hvatt til að við færum sömu leið og þeir. Því miður varð það ekki ofan á að þessu sinni en gæti orðið það þegar fólk áttar sig á hvað litlu þessi leið mun skila.

Hvað svo sem líður afstöðu til Stjórnlagaþings, þá liggur fyrir að mikið af heiðarlegu og góðu fólki gefur kost á sér til kjörs og það ber að sýna því fólki fulla virðingu. Það ber ekki ábyrgð á með hvaða hætti til er stofnað af hálfu meiri hlutans á Alþingi.  Þess vegna er nauðsynlegt að sem flestir kjósi. Með því að kjósa ekki erum við að greiða götu þeirra sem við hugsanlega síst viljum að verði kosnir.  Þannig er það alltaf þegar kjósandinn neitar sér um að nýta réttindi sín.

Ég hvet því alla til að kjósa á morgun og reyna að gera eins gott úr málinu og unnt er. Það verður hvort eð er ekki aftur snúið þetta stjórnlagaþing verður haldið.


RÚV og Pravda

Sú var tíðin að austur í Sovét höfðu menn fréttamiðla sem sögðu alltaf það sem stjórnendurnir vildu.  Þar var alræðið og Pravda fréttastofa Sovétstjórnarinnar flutti alltaf þann boðskap og fréttir sem foringjar Kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna vildu.  Þannig er það víða enn í alræðisríkjum að ríkisfjölmiðlarnir flytja bara það sem stjórnendunum er þóknanlegt.

Fyrir nokkru varð opinbert að fjármálaráðherra hafði sent þáverandi félagsmálaráðherra hálfgerð hótunarbréf til að tryggja greiðslur með ákveðnum hætti til kjósenda sinna í Árbót í Þingeyjarsýslu. Málið fékk þóknanlega afgreiðslu félagsmálaráðherra án þess að málið fengi að því er virðist eðlilega stjórnskipulega meðferð.

Fram kom að þingmenn kjördæmisins höfðu fjallað um málið á fundum sínum þar sem helst virðist rætt um með hvaða hætti megi koma sem mestu af skattfé borgaranna heim í hérað.

Það var  nokkuð sérstakt þegar RÚV notaði tækifærið til að ræða Árbótarmálið í Kastljósi að fá til þess tvo þingmenn kjördæmisins annan úr Sjálfstæðisflokknum en hinn úr Vinstri grænum. Ekki gekk hnífurinn á milli Þingmannanna. Skoðanalega féllust þeir í faðma. Ekki var annað að skilja en Árbótarmál væri hið eðlilegasta í alla staði hvernig svo sem því yrði snúið eða endastungið. Óneitanlega beið ég eftir því að pólitíski brúðkaupsvalsinn yrði leikinn þegar þessir samherjar og verjendur Steingríms J. Sigfússonar gengu í andlegu bandalagi úr sjónvarpssal.

Í síðdegisútvarpinu í dag var síðan talað við lögmann Árbótarfólksins sem skýrði mál sitt ágætlega eins og hans er von og vísa. Vel má vera að Árbótarfólkið hafi átt skilið að fá þær greiðslur sem um ræðir en hvorki ég né aðrir útvarpshlustendur höfum forsendur til að dæma um það út frá þeim forsendum sem RÚV hefur boðið upp á.  Hvar voru fulltrúar þeirra sem hafa gert athugasemdir við afgreiðslu málsins? Af hverju voru þeir ekki í Kastljósi eða í síðdegisþættinum? 

RÚV hefur kosið að slá varnarmúr um  Árna Pál og Steingrím J. til að dusta rykið af aðkomu þeirra að Árbótarmálinu.

Af hverju má ekki allur sannleikurinn koma í ljós. Af hverju að standa svona strangan vörð um Steingrím J og stjórnmálalega samspillingu þeirra sem að bera ábyrgð á afbrigðilegri afgreiðslu málsins.

Pravda sannleikurinn heldur aldrei endalaust. En hann getur ruglað fólk tímabundið.


Árni Páll ber stjórnskipulega ábyrgð

Jafnvel þó  fjármálaráðherra hafi beitt sér með ótilhlýðilegum hætti til að færa fjármuni frá skattgreiðendum til kjósenda sinna í Árbót í Aðaldal og einhverjir þingmenn kjördæmisins hafi verið áfram um að misfarið yrði með ríkisins fé, þá ber Árni Páll Árnason þáverandi félagsmálaráðherra stjórnskipulega og pólitíska ábyrgð á málinu.

Árni Páll Árnason heldur því fram að eðlilega hafi verið að málum staðíð af sinni hálfu og það hafi verið ráðlegging sinna embættismanna að ganga frá málinu með þeim hætti sem gert var þ.e. greiða 30 milljónir umfram skyldu.  Eðlilegt er að Árni Páll verði krafinn svara um það hvaða embættismenn ráðlögðu honum þetta og á hvaða forsendu.  Raunar er hæpið að ráðherra sé að segja satt, vegna þess að framkvæmdin er andstæð góðri stjórnsýslu.

Árni Páll sagði einnig að óþarfi hafi verið að leita eftir áliti Ríkislögmanns þar sem hann væri sjálfur lögfræðingur og gæti því dæmt um það hvort greiða ætti bætur í svona máli eða ekki, en bætir svo við að hann hafi ekki tekið neinar ákvarðanir í málinu og einungis gert það sem sínir embættismenn hafi lagt til. Hvað kom menntun hans sem lögfræðings þá málinu við?

Fyrir liggur að fjármálaráðherra skrifaði þáverandi félagsmálaráðherra Árna Páli nánast hótunarbréf vegna málsins. Í einu orðinu segist Árni Páll hafa dæmt um málið sjálfur út frá lögfræðiþekkingu sinni.  Í hinu orðinu að hann hafi í raun ekki gert það heldur það sem embættismenn hans lögðu til.

Hvaða rökræna samhengi er í svona málflutningi ?

Alla vega þegar öllu er á botninn hvolft þá var ekki leitað til rétts aðila í ríkiskerfinu, Ríkislögmanns, til að fjalla um málið. Fram hjá því komast hvorki Árni Páll Árnason né Steingrímur J. Sígfússon

Nú verður ekki hjá því komist miðað við ummæli Árna Páls að þeir embættismenn komi fram eða verði nafngreindir sem Árni Páll segir að hafi í raun afgreitt málið. Verði ekki vísað á neinn eða nokkur gefi sig fram þá eru líkur fyrir því að ráðherra sé ekki að segja satt. Það er raunar ekki einsdæmi með viðskiptaráðherra að þeir geri það.

Eftir stendur hvað sem hótunarbréfi Steingríms J. líður og áliti embættismanna að Árni Páll Árnason ber stjórnskipulega ábyrgð á þessari vafasömu bótagreiðslu.

 

 


Var Ögmundur fjarstaddur?

Á foringjaráðsfundi Vinstri grænna um síðustu helgi var samþykkt að beina því til dómsmálaráðherra að málsókn gegn stjórnleysingjunum sem  ákærðir eru fyrir árás á Alþingi  yrði felld niður.

Nú hefur Ögmundur ráðherra upplýst foringjaráðið og landsmenn alla að hann geti ekki gripið fram fyrir hendur dómstóla í þessu máli eða öðrum. Spurning er þá hvort dómsmálaráðherra var þetta ekki ljóst á foringjaráðsfundinum um helgina eða vitsmunalega fjarstaddur.

Foringjaráðinu mátti vera þetta ljóst. Af myndum af fundinum að dæma þá sóttu fundinn aðallega núverandi eða fyrrverandi þingmenn flokksins og gamla Alþýðubandalagsins.  

Mörgum sýnist að þessi samþykkt sverji sig í sömu ætt og krafa Björns Vals Gíslasonar alþingismanns og skipstjóri hjá Brim. Björn lætur eins og hann viti ekki um gildandi lög um rétt útlendinga til fjárfestingar í íslenskum fyrirtækjum.  Að sjálfsögðu vissi Björn vel um þetta og að sjálfsögðu vissi foringjaráð Vinstri Grænna að samþykktin um níumenningana var glórulaus vitleysa eins og ummæli Björns.

Svona er þetta þegar stjórnmálaflokkur telur betra að veifa röngu tré en engu. Skyldi Steingrímur Árbót  J.Sigfússon formaður Vinstri grænna ekki hafa vitað um þessi grundvallaratriði stjórnarskrár og laga? Sennilega ekki því annars hefði hann sagt foringjaráðinu frá því og sagt samþingmanni sínum að hann færi með bull.  Ef til vill hefur Steingrímur þó  talið ágætt að hafa í frammi  svona lýðskrum og rugl til að dreifa athyglinni frá aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar.


Hvernig hefðu þau brugðist við?

Fyrir um hálfum mánuði skilaði reikningsnefnd forsætirsráðherra útreikningum sínum vegna skuldavanda einstaklinga.

Tæpir tveir mánuðir eru síðan forsætisráðherra skynjaði réttláta reiði fólks vegna aðgerðarleysis ríkisstjórnarinnar. Þá átti hún að skilja að það er ekki hægt að láta fólk sem hefu þola launalækkun og skattahækkun bera síhækkandi skuldabyrðar.  Leiðrétta varð verðtryggðu og gengisbundnu lánin og afnema okurvexti af húsnæðislánum.

Vandinn vegna verðtryggðu og gengisbundnu lánanna hefur verið ljós frá því að ríkisstjórnin tók við völdum. Jóhönnu Sigurðardóttur varð vandinn ljós a.m.k. fyrir tveim mánuðum. Reikningsnefndin skilaði af sér fyrir hálfum mánuði. Ekkert gerist enn þrátt fyrir þetta.

Hvernig hefðu Steingrímur og Jóhanna  brugðist við bankahruninu sem kom óvæn,t þegar þau geta ekki tekið ákvörðun um lausn vanda sem hefur verið ljós og aðsteðjandi í meir en tvö ár.   


Hefðu Írar valið það sama og Ísland væru þeir ekki í vanda

Írar sækja um billjón Evra neyðaraðstoð frá Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum vegna þess að þeir tóku ábyrgð á írskum bönkum í lok september 2008.

Margir íslenskir hagfræðingar og háskólaprófessorar vildu haustið 2008 að við færum sömu leið og Írar og láta skattgreiðendur ábyrgjast bankanna. Hefði verið farið að þeirra ráðum væru skuldir íslenska ríkisins um 8.000 milljörðum meiri en hún er í dag. Ísland væri  gjaldþrota.

Ísland valdi skynsamlegustu leiðina þegar bankarnir riðuðu til falls. Við settum neyðarlög og höfnuðum þeirri leið að láta skattagreiðendur bera ábyrgð á bönkunum.

Í hinni makalausu skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis er þess ekki getið að þeir sem héldu um stjórnvölin á þessum tíma á Íslandi forsætisráðherra, seðlabankastjórar og stjórn og framkvæmdastjóri FME skuli hafa beitt vitrænustu viðbrögðum við bankakreppunni haustið 2008. Þess í stað er hamrað á aukaatriðum. Þeir sem gegndu fyrrnefndum embættum eru ómaklega bornir sökum á forsendum baunatalningar. Sé málið skoðað í heild þá er meginniðurstaða Rannsóknarnefndar Alþingis um viðbrögð stjórnvalda við bankakreppunni röng. Það sýnir sig nú.

Staðreyndin er sú að forustumenn í íslenskum efnahagsmálum haustið 2008 stýrðu þjóðarskútunni betur en aðrir forustumenn í heiminum þar sem eins háttaði til varðandi bankakreppur.

Það er til marks um lánleysi íslensku þjóðarinnar að hún skuli hafa flæmt alla þá úr embætti sem stýrðu þjóðinni giftusamlega frá þeim mistökum sem opinberuð hafa verið í Írlandi. Þau mistök  eiga eftir að koma betur í ljós og bitna hart á skattgreiðendum  í Bretlandi og Bandaríkjunum. 

Þá er það einstakt meðal siðaðra þjóða að forsætisráðherra sem stýrði þjóðinni þegar réttar ákvarðanir voru teknar  á erfiðustu tímum hennar, skuli nú sitja á sakamannabekk fyrir tilstuðlan meiri hluta Alþingis. 

 


Ólíkt höfumst við að Davíð minn

Nokkru eftir að utanríkisráðherra íjaði að skipun rannsóknarnefndar vegna stuðnings Íslands við innrás Bandaríkjanna í Írak, birtist hann glaðbeittur í hópi forustumanna NATO sem lögðu á ráðin um stríðið  í Afghanistan.

Er ástæða til að skipa rannsóknarnefnd til að rannsaka aðkomu Íslands að stríðinu í Afghanistan?  

Afskipti okkar af stríðinu í Afghanistan eru meiri en af Íraksstríðinu. Hvernig skyldu utanríkisráðherrar Samfylkingarinnar afsaka það á sama tíma og deilt er á þá sem tóku óvirka en jákvæða afstöðu til innrásar Bandaríkjanna í Írak vafalaust með hagsmuni Íslands í huga með tilliti til herstöðvarsamnings Íslands og Bandaríkjanna.

Hvernig skyldu taka ráðherrarnir Ögmundur Jónasson og Steingrímur J. Sigfússon því að styðja hernað NATO í Afghanistan. Þeir hafa borið fram tillögur á Alþingi um að hætt verði afskiptum NATO herja af Afghanistan.

Afghanistan stríðið er glórulaus vitleysa eins og innrásin í Írak. Því fyrr sem erlend ríki fara með her úr Afghanistan þeim mun betra.  Íslenskir ráðamenn hefðu átt að spyrja hvað afsakaði blóðfórnir ungs fólks frá Vesturlöndum í fjöllum og dölum Afghanistan. Það sama og afsakaði blóðfórnir rússneskra ungmenna á sínum tíma. Ekki neitt.

Össur Skarphéðinsson, Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon bera nú ábyrgð á því að Ísland skuli styðja glórulausar hernaðaraðgerðir NATO ríkja í Afghanistan. Hvernig væri að þau gerðu þjóðinni fullnægjandi grein fyrir afskiptum sínum og aðkomu að stríðinu í Afghanistan.  Það er að gerast í núinu. Írak er sagnfræði.


Dagdraumar

Samkvæmt grein í breska blaðinu The Daily Telegraph þá eyðum við tæpum helmingi af vökutíma okkar í dagdrauma. Nú hefði maður ætlað að fólk væri hamingjusamast þegar það sökkti sér niður í dagdraumana en því fer öðru nær. Staðreyndin er nefnilega sú að dagdraumarnir gera okkur döpur og valda iðulega hugarvíli.

Þess vegna segir í þessari könnun líður okkur best þegar við erum að gera eitthvað og lifum í núinu.  Það gerum við til dæmis með því að eiga samneyti við aðra, taka þátt í samræðum, fara í líkamsrækt eða út að ganga. Líka ef við einbeitum okkur að vinnunni merkilegt nokk. Þetta færir fólki meiri vellíðan en að horfa á sjónvarp eða gera ekki neitt annað en að sökkva sér niður í eigin dagdrauma.

Athyglivert.


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 12
  • Sl. sólarhring: 119
  • Sl. viku: 4602
  • Frá upphafi: 2267746

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 4250
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 11

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband