Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2014

Nú er ljóst hvert er vandamál Alþingis

Lengi hafa menn krapað um það hvað valdi því að þjóðin beri ekki sérlega mikið traust til Alþingis og sérfræðingar háskólasamfélagsins hafa skrifað lærðar fræðigreinar um hvað valdi því að traust almennings á Alþingi Íslands sé langum langtum minna en á þingum nágrannalandanna.

Nú hefur Óttar Proppé þingmaður Bjartrar Framtíðar hins vegar hitt naglann á höfuðið og bent á hver hinn raunverulegi vandi Alþingis sé. Það vantar  trommuleikara á þing segir hann.

Þá hefur Björt Framtíð  eignast eitt verðugt baráttumál sem sé að fá kosinn trommuleikara á þing en þar með væru vandamálin leyst. Raunar gæti flokkurinn bætt um betur og farið fram á að fá kosna nokkra dansara þannig að íslenska þjóðin gæti þá státað sig af því að eiga þingmenn sem gætu spilað, sungið og dansað.

Björt framtíð er greinilega með það á hreinu til hvers er ætlast af löggjafarþinginu.  


Obama forseti kærður

Í gær horfði ég á klukkutíma viðtal í norska sjónvarpinu við Edward Snowden.  Snowden kom vel fyrir, yfirvegaður og klár. Hann sagði að Rússland hefði ekki verið draumalandið heldur það eina sem hann hefði fengið að komast til en hann hafi sótt um landvist í mörgum Evrópuríkjum en vildi ekki nefna önnur en Þýskaland, Bretland og Frakkland. Hann fékk hvergi inni. Hann sagðist tilbúinn til að koma fyrir dóm í Bandaríkjunum við almennan dómstól en ekki fyrir herdómstól.

Uppljóstranir Snowden hafa upplýst marga um snautlegt og löglaust framferði þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna sem njósnar m.a. um þjóðhöfðingja sem eru í góðu vinfengi við Bandaríkin. Þá sagði Snowden að þarna færu líka fram víðtækar viðskiptanjósnir.

Vegna þessarar lögleysu hefur öldungardeildarþingmaðurinn Rand Paul ákveðið að höfða mál gegn Obama forseta vegna njósna og símhlerana hjá almennum borgurum í Bandaríkjunum.  Paul vill fá hópmálssókn á hendur Obama forseta og þeim opinberu starfsmönnum hjá þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna (NSA) fyrir hönd allra Bandaríkjamanna sem njóta símþjónustu.  Rand Paul heldur því fram að framferði Obama og embættismannanna sé brot á stjórnarskrá Bandaríkjanna.

Eftir að upp komst um þessar víðtæku njósnir NSA með óbreyttum almennum borgurum í Bandaríkjunum og víða um heim þá hefur Obama verið óttalega gufulegur varðandi þetta mál raunar eins og önnur.  Hann getur hvorki sýnt fram á nauðsyn víðtækra persónunjósna um venjulegt fólk heima og erlendis og hann gerir  ekki neitt til að koma hlutum í viðunandi horf. Áfram er haldið eins og nánast ekkert hafi ískorist. Því miður virðist þessi einn lélegasti Bandaríkjaforseti frá upphafi vega ekki geta neitt annað en flutt tækifærisræður skammlaust.


Hatursáróður og algild mannréttindi

Fréttatímar ríkisútvarpsins og fréttaskýringar í aðdraganda vetrarolympíuleikanna fjölluðu án afláts um réttleysi samkynhneigðra í Rússlandi.  Sjálfsagt er að vekja athygli á því. Allir einstaklingar  skoðana og trúarhópar eiga rétt á vernd og tilhlýðilegri virðingu. Þess vegna hefur mér oft fundist undarlegt hvernig fréttamiðlar velja úr ákveðna hópa sem ekki má anda á en gleyma að vekja athygli á hatursáróðri og svívirðingum gagnvart öðrum.

Breski leikarinn Rowand Atkinson(Mr. Bean) vakti athygli á því að oft væri farið of langt þar sem að eðlilegt grín þyrfti að víkja fyrir hreinlínustefnu hvað hatursáróður varðar. Það er slæmt. En vakin hefur verið athygli á því að það megi alltaf gera grín af kristnum og Gyðingum en aldrei samkynhneigðum eða múslimum.

Í grein Damian Thompson í Daily Telegraph fyrir skömmu sagði hann m.a. frá því að fyrir síðustu jól hafi ung kona komið inn í kirkjuna La Madeleine í París. Hún klæddi sig úr að ofan og framkvæmdi sýndarfóstureyðingu á altarinu og notaði blóðuga kálfslifur sem fóstrið. Myndatökulið fylgdi konunni eðlilega þar sem um skipulagt atriði „aðgerðarsinna“ var að ræða. Á baki konunnar var skrifuð „ Jólunum er aflýst“ .

Um þetta guðlast og viðbjóð  var nánast ekkert fjallað í fjölmiðlum.  Ef svipað hefði gerst í mosku í París hefðu eldar verið kveiktir um allt Frakkland og ríkisstjórnin hefði  fordæmt þetta guðlast og harmað aðgerðina og ákveðið að grípa  til sérstakra ráðstafan.  Hollande forseta og ríkisstjórn hans kemur það hins vegar ekki við þegar ráðast er á friðsamt kristið fólk.

Þeir sem stóðu fyrir árásinni á Madeleine kirkjuna voru samtök sem kalla sig „Femen“  fjölmiðlaóð alþjóðleg kvennahreyfing.  Það er raunar athyglisvert að margir fjölmiðlamenn  sem hrópa hæst um réttindi samkynhneigðra og drógu ekki af sér þegar nokkrar úr „Pussy Riot“  sem tengjast Femen, voru dæmdar fyrir helgispjöll,  láta sér oftast fátt um finnast þó mannréttindi hefðbundinna skoðanahópa séu svívirt.

Síðasta haust réðist Femen á Notre Dame kirkuna í París þegar kona úr hreyfingunni hljóp hálfnakin á altarinu. Við hámessu í Kölnardómkirkju í Þýskalandi fyrir nokkru flutti önnur kona úr Femen stutta ræðu um kynfæri sín og sagðist vera Guð.  

Þessar uppákomur valda Hollande forseta Frakklands engum áhyggjum, þvert á móti. Á síðasta ári veitti ríkisstjórn hans  forustukonu Femen, Inna Shevchenko pólitískt hæli í Frakklandi. Hún hafði  eyðilagt stóran kross sem reistur var til minningar um þær milljónir manna  sem dóu úr hungri á Stalínstímanum í Úkraínu, í skipulagðri útrýmingu hans á kristnum, Gyðingum og fleirum.  Hollande forseti  valdi ímynd af forustukonu Femen  á frímerki sem gefið var út sem „ímynd æskunnar-sköpuð af æskunni-valin af æskunni.“  Hún þakkaði fyrir sig með því að lýsa því yfir hvað hún væri ánægð með að rasistar og „hommmahatarar“  þyrftu að sleikja á henni rassinn í hvert skipti sem þeir sendu bréf. Virðingu franska sósíallistalýðveldisins er greinilega ekki misboðið við það.

Sósíalísk ríkisstjórn Frakklands og aðrir sem hugsa eins og þeir átta sig vonandi á því fyrr heldu en síðar að það borgar sig ekki að  sættast við hatursáróður, meingerðir og móðganirnar.

Veikleiki Kristinna lýðræðisríkja í dag er skortur á að viðurkenna að mannréttindi séu algild ekki bara fyrir suma. Tjáningarfrelsið varð tilefni reiði margra Múslima þegar teiknimyndir af Múhammeð voru birtar í dönsku blaði árið 2005 þær voru fyrst og fremst kjánalegar, en meiðandi vegna trúarskoðana múslima varðandi bann við að teikna ímynd spámannsins og að sjálfsögðu á að virða það. Það má hins vegar segja hvað sem er um Jesús eða teikna hann hvernig sem fólki dettur í hug og jafnvel prestur þjóðkirkjunnar lætur sér vel líka að Jesús sé sagður  samkynhneigður og tekur þar undir með Jóni Gnarr borgarstjóra, sem hefur sett fram sjónarmið sem eru í ætt við það sem öfgasamtökin Femen boða.   

Aftur og aftur verða þeir sem halda í viðhorf og skoðanir sem hafa viðgengist um langa  hríð í kristnum samfélögum helst fyrir barðinu á hatursáróðri og verða að þola að níðst sé á skoðunum þeirra. Fjölmiðlum finnst almennt ekki mikils um vert þegar um það er að ræða. En það er hins vegar mikilvægt að leggja hvern frétta- og fréttaskýringatímann á RÚV um brot gegn samkynhneigðum  í Rússlandi þegar fjallað er um vetrar olympíuleikanna.

Átakalínurnar í þjóðfélaginu eru milli þeirra sem ógna því frelsi og almennum mannréttindum sem við þekkjum og var komið á eftir mikla baráttu á 19. og 20.öldinni og okkar sem teljum mannréttindi algild og þau eigi að vernda óháð hver í hlut á. Fjölmiðlar mega ekki skerast úr leik í þeirri baráttu.

(Grein mín í Morgunblaðinu 12.2.2014.) 


Mannréttindi of course Mr Chang.

Utanríkisráðherra landsins gat þess sérstaklega í tilefni af fríverslunarsamningi Íslands og Alþýðulýðveldisins Kína að vissulega mundi hann tala um mannréttindi við Kínverska ráðamenn og Elín Hirst þingmaður taldi miklu skipta að við hefðum áhrif til bóta á ráðamenn Kommúnistaflokks Kína að samið væri um bestu viðskiptakjör milli landanna.

Fróðlegt væri að hlusta á utanríkisráðherra ræða við Mr. Chang sendifulltrúa Kínverja um þessi mál. Það gæti verið eitthvað á þessa leið: 

Well Mr. Chang we in the government of Iceland think it very important that we do business with you and dont forget the human rights thing.

Of course not Mr. Gúndar we Chinese think it is very important that the Icelandic Government acts within the framework of the UN decisions on Human Rights which you have not in one case from the year 2008. Do you want to take that matter further?

No Mr Chang this is actually not a very big issue the business is all that counts.

Of course mr Gúndar you are not a naturally born joker even though you look like one.

 


Núna.

Frosti Sigurjónsson alþingismaður vill afnema verðtryggingu á neytendalánum strax. Að sjálfsögðu á að gera það sé ætlunin að afnema hana á annað borð. Þess vegna var með ólíkindum að skipuð skyldi nefnd í málið í stað þess að lagafrumvarp yrði gert um afnám verðtryggingar á neytendalánum.

Stjórnarflokkarnir höfðu báðir markað sér þá stefnu að verðtryggingu á neytendalánum bæri að afnema.  Það kann því ekki góðri lukku að stýra að fá eitthvað fólk úti í bæ til að taka sér marga mánuði til að boða eitthvað allt annað en stefnu ríkisstjórnarinnar í málinu.

Afskipti stjórnmálamanna af lánamálum hafa sjaldnast verið til góðs. Þó getur myndast sú staða á markaðnum að nauðsyn beri til að vernda veikari aðilann í fjármálaviðskiptum, neytandann, en það hefur heldur betur ekki verið gert. Hingað til hafa stjórnmálamenn ráðslagast í þessum málum með þeim afleiðingum að íslenskir neytendur eru í hópi  skuldugusta fólks Norðan Alpafjalla.  

Verðtryggðu lánin voru búin til af stjórnmálamönnum og eru óhagkvæmustu neytendalán sem þekkjast. Ávöxtunarkrafa lífeyrissjóðanna sem er gjörsamlega óraunhæf var búin til af stjórnmálamönnum og lífeyrisaðlinum. Þar var líka vegið að hagsmunum hins veikari, neytandans, í fjármálaviðskiptum og fjármálafyrirtækjum tryggðir hærri vextir en almennt gerist í okkar heimshluta.

Þrátt fyrir það er vörnin sterk fyrir þessari óhæfu og því er haldið fram m.a. af verðtryggingaraðlinum í ASÍ að með afnámi verðtryggingar yrði heldur betur vá fyrir dyrum vegna þeirra gríðarlegu vaxtahækkunar sem mundi fylgja í kjölfarið og aukinnar greiðslubyrðar í upphafi lánstíma.

En er það þannig? Ef einhver staðreynd er til varðandi peningamarkaðinn þá er hún sú að þeim mun meira framboð sem er á peningum þeim mun lægra verð er á þeim. Verðið á peningum eru vextir. Óverðtryggð húsnæðislán í nágrannalöndum okkar bera nú iðulega lægri vexti en verðtryggð íbúðarlán hér.  Óhagkvæm lánakjör á Íslandi eru ekki náttúrulögmál eins og hagfræðingur ASÍ og meirihluti verðtryggingarnefndarinnar virðast telja.

Verðtryggingin og vaxtaokrið er afleiðing af mistökum stjórnmálamanna við lagasetningu til hagsbóta fyrir þá fáu á kostnað hinna mörgu.

 


Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 19
  • Sl. sólarhring: 114
  • Sl. viku: 4609
  • Frá upphafi: 2267753

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 4254
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband