Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Svo verður sungið og spilað á sítar og mandólín tvö

Morgunblaðið hefur í vetur verið pólitísk öndunarvél Margrétar Sverrisdóttur. Allt var það gert til að fá Margréti til að koma deilum af stað innan Frjálslynda flokksins og koma henni í pólitíska eyðimerkurgöngu. Það tókst, en nú hefur flokkurinn náð vopnum sínum. Óskaframboðið sem átti að sundra Frjálslynda flokknum, draga fylgi frá Vinstri grænum til að ríkisstjórnarflokkarnir héldu meirihluta sínum - hefur ekki náð að gera sig svo sem Morgunblaðsmenn og aðrir Sjálfstæðismenn ætluðust til.

Vonbrigðin leyna sér ekki.

Staksteinar í dag segja að það sé svo sem í lagi að syngja fyrir kjósendur og er þá vísað til Ómars Ragnarssonar en það sé ekki nóg. Þá segir að það dugi ekki fyrir Íslandshreyfinguna að lofa því að gera lífið skemmtilegra og staksteinahöfundur spyr. Hvernig ætlar fylkingin að standa við þetta?

Þetta minnti mig á sólskinsflokk í Danmörku sem fór fram með þau kosningaloforð að lofa betra veðri, styttri vetrum og hamingjusamara þjóðlífi og fallegra fólki. Allir vissu að þetta var í gamni. 

Staksteinahöfundur telur að framboð Ómars og meðreiðarfólks hans í Íslandsfylkingunni sé þannig að ekki sé hægt að taka það alvarlega. "Geir kann líka að syngja"; - segir Staksteinahöfundur.  En í lokin kemst Staksteinahöfundur að kjarna málsins. Pólitík er alvörumál. Talibanísk viðhorf varðandi Kárahnjúkavirkjun eiga ekki erindi í umræðuna í dag. Baráttan um það stóð fyrir 4 árum. Þá tók Ómar Ragnarsson ákvörðun um að sitja hjá. Nú vill hann berjast um fallið vígi með söng og dansi.

Og svo verður sungið og spilað á sítar og mandólín tvö og komdu og höndlaðu Ómar það hefst klukkan rúmlega sjö - eða hvað? 

Hefst það ef til vill ekki?


mbl.is Margrét: Stjórnmál 21. aldar snúast um mannauð, hugvit og nýsköpun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að vera eða vera ekki.

Hvað svo sem Hafnfirðingar gera í kosningum á morgun um álverið þá liggur fyrir að verði tillagan samþykkt þá verður Alcan samt að semja við marga aðra en Hafnfirðinga. Orkusölusamningar eru mér vitanlega ekki frágengnir.  

Stjórnmálamenn eru mismunandi og ég verð að viðurkenna það að ég bar virðingu fyrir Geir Haarde þegar hann svaraði spurningu fréttamanns afdráttarlaust um að hann væri fylgjandi stækkun álversins í Straumsvík. Íslenskir stjórnmálamenn eru ekki vanir að tala umbúðalaust. Þeir sletta í góm og slá úr og í. Helsti foringi Samfylkingarinnar foringi umræðustjórnmálanna fer t.d. allt öðru vísi að í málinu og flokksmenn hennar þora ekki að taka afstöðu jafnvel þó þeir sitji í bæjarstjórn Hafnarfjarðar.

Ég skal segja mína skoðun jafn umbúðalaust og Geir.  Ég er ekki á móti álverum eða virkjunum svo fremi það sé innan skynsamlegra marka. Landnýting í sátt við eðlilega landvernd. Hins vegar finnst mér þessi stækkun álversins vera umfram það sem heppilegt er miðað við þensluna sem er í þjóðfélaginu og er því ekki tilbúinn til að samþykkja stækkun álversins að óbreyttu. Breytist þjóðfélagsaðstæður þá getur þessi mikla stækkun komið á dagskrá en fyrr ekki.


mbl.is Taugatitringur fyrir álverskosningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umskipti í ríkisfjármálum

Í nýjasta hefti peningamála  sem Seðlabankinn gefur út segir að líklegt sé að rekstrarafgangur ríkissjóðs snúist í halla strax á næsta ári og horfurnar fyrir árið 2009 séu enn verri.

Það hefur verið ljóst um nokkurt skeið að gleðileikurinn sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir gæti ekki staðið til langframa. Uppsveiflan í hagkerfinu hefur tryggt ríkissjóði miklar tekjur en ríkisstjórnin hefur verið versta óráðssíustjórn sem nokkru sinni hefur verið í landinu og ríkisútgjöld hafa margfaldast. Engin vinstri stjórn hefur nokkru sinni í Íslandssögunni aukið útgjöld ríkisins jafn hratt og fjölgað ríkisstarfsmönnum jafn mikið og þessi.

Nú er kosningaár og daglega spilar ríkisstjórnin út nýjum tilkynningum um gjafir til félaga eða hópa sem kosta skattgreiðendru milljónatugi eða hundruð. Af hverju er það gert núna? Sumt af þessu er eðlilegt og nauðsynlegt en annað ekki. Ljóst er að kosningabarátta Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins verður aðallega fjármögnuð af skattgreiðendum. Þar hlaupa útgjöld ekki á tugum milljóna heldur hundruðum.

Það er kominn tími til að víkja þessu eyðslu- og ríkishyggjufólki burt úr stjórnarráðinu og fá ábyrga aðhaldssama stefnu. Draga úr ríkisútgjöldum en auka velferð fyrir þá sem þurfa á henni að halda.


Verðlækkun á fasteignum í Bandaríkjunum.

Í nýjasta hefti The Economist segir að verð á íbúðarhúsum sé að lækka í Bandaríkjunum. Margir horfi upp á að húsin þeirra standi ekki undir lánunum. Þá er líka sagt frá því að meginhlutinn af efnahagslega ávinningnum eða góðærinu í Bandaríkjunum hafi runnið til þeirra sem hafa það best og eiga mest. Þá sérstaklega til þeirra sem vinna við fjármálastarfsemi. Hins vegar verði stór hluti í vanda nú þegar verð húsa lækki. Staðan er því svipuð og hér hvað það varðar að það hafa verið of fáir á toppnum og einkum hjá fjármálafyrirtækjunum sem hafa notið góðærisins. Fjármálafyrirtækin hér hafa auk heldur haft mun betri stöðu en fjármálafyrirtæki nokkurs staðar annarsstaðar í heiminum af því að þau hafa bæði axlabönd og belti þar sem verðtryggingin er auk þess sem samkeppni á bankamarkaði fyrir neytendur er sáralítil. Vonandi lækkar verð á fasteignum ekki hér því þá verða heldur betur erfiðleikar í efnahagslífinu.

Þetta sýnir hins vegar hvað það er brýnt að gæta hagsmuna neytenda á lánamarkaðnum þannig að fjármálafyrirtækin taki ekki of stóran hluta af kökunni og skilji viðskiptavini sína eftir í erfiðleikum og jafnvel gjaldþroti þegar harðnar á dalnum. Það verður að rétta af velferðarhallann.


Skattalækkun er krafan.

Í leiðara Fréttablaðsins í dag segir að krafan um skattalækkun ætti að vera á oddinum hjá kjósendum í vor. Ég er leiðarahöfundi sammála. Frjálslyndi flokkurinn er eini flokkurinn sem hefur það sem forgagngsatriði í stefnumörkun sinni að lækka skatta. Við viljum hækka skattleysismörk í 150 þúsund. Það mundi leiða til verulegrar skattalækkunar og færa öllum sérstaklega þeim lægst launuðu mikilvæga kjarabót. Það eru því hagsmunir unga fólksins í landinu sem og aldraðra og öryrkja að styðja Frjálslynda flokkinn. Enginn annar stjórnmálalfokkur en Frjálslyndi flokkurinn hefur það á stefnuskrá sinni að lækka skatta með  þeim hætti sem við viljum. Stefán Ólafsson prófessor hefur bent á að aukinn ójöfnuð í þjóðfélaginu megi m.a. rekja til þess að skattleysismörk hafa ekki hækkað í samræmi við verð- og launahækkanir. Skattbyrðin hefur því lagst þyngst á þá sem minnastar hafa tekjur eða bætur. Þetta skulum við lagfæra. Meðan núverandi skattakerfi er við lýði verður að nota það til að jafna lífskjörin í landinu í stað þess eins og stjórnarflokkarnir hafa gert að refsa láglaunafólkinu en gera best við og bjóða upp á sérkjör fyrir þau 5% þjóðarinnar sem eiga mest og hafa það best efnalega.  Frjálslyndi flokkurinn vill skattalækkun með því að hækka skattleysismörkin og skera niður bruðl og óráðssíu í ríkiskerfinu.

Mótum velferðarþjóðfélag?

Ég var á fundi hjá Sjálfsbjörgu í kvöld ásamt fulltrúum hinna flokkana. Ljóst var að talsmenn stjórnarflokkana höfðu lítið fram að færa. Fatlaðir eins og aldraðir hafa ekki notið þeirrar velferðar sem ríkasta þjóð í heimi hefði átt að sjá sóma sinn í að veita þeim. Fram kom í máli margra sem töluðu á fundinum að bótagreiðslur til þeirra dygðu ekki fyrir mat út mánuðinn. Hvað þá heldur að þau gæti leyft sér að eiga bíl eða fara í bíó eða leikhús. Við getum ekki sætt okkur við að velferðarkerfið sé með þeim hætti á Íslandi að aldraðir og öryrkjar eigi ekki einu sinni fyrir mat. Þessu verður að breyta og búa til raunverulega velferð þeirra sem þurfa á henni að halda. Það verður að lagfæra velferðarhallann í þjóðfélaginu. Velferðarhallann sem Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur bera ábyrgð á.  Ég sagði á fundinum að það væri forgangsmál hjá mér að sinna hagsmunum aldraðra og öryrkja fengi ég til þess umboð að geta fært þeirra mál til betra horfs. Ég sætti mig ekki við að fólk sem þarf á velferð að halda fái hana ekki og líði skort. Það á að móta manneskjulegra þjóðfélag og það er keppikefli okkar Frjálslyndra.

Glæsilegur listi Frjálslyndra í Suðvesturkjördæmi

Frjálslyndir hafa birt framboðslista sinn í Suðvesturkjördæmi. Listann leiðir Kolbrún Stefánsdóttir ritari Frjálslynda flokksins. Kolbrún er framkvæmdastjóri Sjálfsbjargar og hefur hvarvetna getið sér gott orð. Gáfuð, dugleg, sterk og heillandi kona. Kolbrún á erindi á Alþingi. Hún þekkir af eigin raun kjör og aðstæður þeirra sem minna mega sín í þjóðfélaginu og hún tengir saman dreifbýli og þéttbýli með rætur úr dreifbýlinu. Valdimar Leó Friðriksson alþingismaður skipar annað sætið og hefur sýnt það þar sem hann hefur komið fram að hann er vaskur baráttumaður. Helgi Helgason kennari sonur Helga Hallvarðssonar skipherra sem gat sér gott orð á árum áður í þorskastríðum við Breta þá sem skipherra Landhelgisgæslunnar er líka heilsteyptur og góður baráttumaður. Guðrún María sem skipar fjórða sætið er mikill félagsmálaskörungur og heilsteypt kona sem hefur stýrt kjördæmafélaginu myndarlega á erfiðum tímum eftir brotthlaup Margrétar og félaga. Þessir forustumenn listans sem og aðrir sem á listanum eru skipa sterka baráttuheild. Til hamingju með það.

Kosningamiðstöð Skeifunni 7

Við Frjálslynd í Reykjavík opnuðum kosningaskrifstofu  að Skeifunni 7 annarri hæð  í morgun.  Við sem erum í framboði vitum að það þarf virkilega að taka á til að ná árangri og ætlum okkur að gera það. Skrifstofan verður opin frá kl. 10 á morgnana til kl. 10 á kvöldin. Ég hvet ykkur sem eigið samleið með okkur að líta við og taka þátt í baráttunni með okkur.

Morgunblaðið mismunar skoðunum

Áberandi er að Morgunblaðið mismunar skoðunum á boggvefnum. Við Frjálslynd erum aldrei kynnt eða það efni sem við boggum inn á vefinn sett í kassa þannig að lesendur megi sjá hvað við höfum að segja. Svona mismunun verður ekki nema það sé ákveðið á æðstu valdastöðum í blaðinu. Morgunblaðið barðist lengi gegn Kommúnismanum við áttum þar samleið. Eitt af því sem Kommúnistarnir beittu var þöggun. Þöggun var beitt þegar valdstjórnir Kommúnista áttu engin andsvör. Nú beitir Morgunblaðið þessum aðferðum gegn okkur Frjálslyndum.  Pólitísku réttrúnaðarasinnarnir í Hádegismóunum eiga engin svör og kjósa því afðferð kommúnistastjórnanna úr Austur Evrópu.

Tilbúinn útúrsnúningur Hræðslubandalagsins.

Í Silfri Egils í dag vorum við báðir ég og Ágúst Ólafur Ágústsson. Í þættinum sagði Ágúst Ólafur að grundvöllur væri fyrir stjórnarsamstarfi Frjálslynda flokksins og Samfylkingarinnar. Í þættinum gerði hann ekki athugasemdir við minn málflutning en sagði að Frjálslyndi flokkurinn mætti ekki fara yfir línu sem hann taldi flokkinn ekki hafa farið yfir.

Hræðslubandalagið gegn Frjálslynda flokknum reynir hvað það getur til að afflytja hugsjónamál flokksins. Við viljum gjafakvótann burt. Við viljum að íslendingar ráði sjálfir landamærum sínum og hverjum þeir bjóða í heimsókn eða taka til sín. Við viljum afnema lánaokrið og verðtryggingu á útlánum. Við erum í andstöðu við okurflokkana og þau sérhagsmunaöfl sem vilja viðhalda okrinu á almenning í landinu. Þess vegna er Hræðslubandalag stóratvinnrekenda, kvótagreifa og vinstrirétttrúnaðarsinna svo mikið í nöp við okkur.

Samfylkinginn ræður ekki áherslum og stjórnmálastefnu Frjálslynda flokksins. Í öðru lagi þá hefur Frjálslyndi flokkurinn rekið sín mál með málefnalegum hætti fyrir hagsmuni íslensku þjóðarinnar og annarra sem hér búa. Í þriðja lagi á Frjálslyndi flokkurinn á meiri hugmyndafræðilega samleið með Samfylkingunni en Vinstri grænir eiga með Samfylkingunni. Í fjórða lagi eru stjórnendur Morgunblaðsins og ýmsir sérhagsmunaaðilar þeim tengdir að gera sitt ítrasta til að gera lítið úr og afflytja málflutning okkar Frjálslyndra. Það mun þeim ekki takast.  Við stöndum fyrir okkar málstað og þorum þegar aðrir þegja. 


mbl.is Telur skoðanir oddvita frjálslyndra ekki góðan grundvöll til samstarfs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Mars 2021
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.3.): 143
  • Sl. sólarhring: 425
  • Sl. viku: 1151
  • Frá upphafi: 1702964

Annað

  • Innlit í dag: 135
  • Innlit sl. viku: 1069
  • Gestir í dag: 135
  • IP-tölur í dag: 134

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband