Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2012

Hálfsannleikur og stolnar fjaðrir

Áramótaboðskapur forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar er athyglisverður. Steingrímur J. Sigfússon minnir á árangur sem hafi náðst, en gleymir að nefna að flestar mikilvægustu ráðstafanirnar voru gerðar áður en hann varð ráðherra. Jóhanna Sig. flytur hefðbundinn reiðilestur um Sjálfstæðisflokkinn og frjálshyggju.

Jóhanna hefur aldrei skilgreint hvað hún á við með frjálshyggju. Helst má skilja að í því felist stuðningur við frjálst markaðshagkerfi. Hvort sem Jóhönnu líkar betur eða verr, þá hefur frjálst markaðshagkerfi sannað kosti sína með þeim hætti að engum málsmetandi stjórnmálamanni í Evrópu dettur í hug að hallmæla því sem slíku eða tala fyrir því að hverfa frá því nema e.t.v. Jóhönnu á tyllidögum.

Jóhanna miklast af því að ójöfnuður ráðstöfunartekna í landinu hafi minnkað um tæpan helming frá árinu 2007. Hvernig skyldi standa á því?  Tekjur og afkoma láglauna- og millitekjufólks hafa ekki batnað. Árangur til jafnaðar hefur því náðst með því að fleiri hafa nú lakari kjör en áður og færri góð kjör. Er það jákvæður árangur?

Þrátt fyrir allar þær upplýsingar sem nú liggja fyrir um bankahrunið telur Jóhanna að rætur bankahrunsins liggi aðallega í einkavæðingu bankanna. Þeir sem halda þessu fram hafa annað hvort ekki kynnt sér staðreyndir um bankahrunið og fjármálakreppuna í heiminum árið 2008 eða ekki skilning á viðfangsefninu. Sennilega á hvoru tveggja við um Jóhönnu.   

Óneitanlega er það ömurlegt að forsætisráðherra ríkisstjórnar sem kallar sig velferðarstjórn skuli halda því fram að skuldir heimilanna hafi lækkað verulega og 200 milljarðar verið afskrifaðar af lánum heimilanna. Þetta er ósatt. Skuldir heimilanna hafa ekki lækkað. Þær hafa hækkað.  Afskriftirnar sem Jóhanna talar um eru aðallega vegna leiðréttingar á ólöglegum gengislánum. 

Engar afskriftir hafa verið gerðar á lánum venjulegs fólks sem reisti sér ekki óleysanlegar skuldabyrðar.  Skuldir þess fólks hafa hækkað og hækkað. Verðtryggingin sem Jóhanna lofaði að afnema heldur svo áfram að éta upp eignir þess fólks. Sú  staðreynd er dapurleg arfleifð Jóhönnu Sigurðardóttir og versta dæmið um svik hennar við fólkið í landinu.


Íbúðarlánasjóður og verðtrygging

Íbúðarlánasjóður verður ítrekað að fá tugi milljarða frá skattgreiðendum til að fara ekki í þrot.

Af hverju er Íbúðalánasjóður í stöðugum vandræðum? Íbúðalánasjóður tekur verðtryggð lán til endurlána. Verðtryggingin étur upp eignir hans eins og annarra sem taka verðtryggð lán.

Ýmsum hefur verið brigslað um misfellur vegna málefna Eir. Eir byggði og byggði og tók verðtryggð lán. Lánin hækkuðu en verð fasteigna stóð í stað eða lækkaði. Á endanum á Eir á ekki fyrir skuldum ekki frekar en Íbúðalánasjóður eða aðrir sem skulda verðtryggð lán.

Verðmætasköpun verður ekki með verðtryggingu. Verðtryggingin færir eignir frá skuldurum til fjármagnseigenda. Íbúðalánasjóður og Eir eru þess vegna gjaldþrota vegna verðtryggingar.

Hver sagði annars þetta endemis bull: "Það er ekki verðtryggingin sem er vandamálið heldur verðbólgan."   Verðtryggingin er verðbólguhvetjandi það ættu þeir að gaumgæfa sem vitna í þetta bull.


Gengisfelling og verðbólga

Evran kostar 170  krónur og dollarinn 129. Í ágúst kostaði Evran 146 og dollarinn 118 krónur. Áður fyrr hefði verið talað um 12% gengisfellingu.  Þrátt fyrir gjaldeyrishöft tekst ekki að skapa stöðugleika í gengismálum. 

Mikil lækkun krónunar og nýir neysluskattar ríkisstjórnarinnar á áfengi og tóbak munu auka verðbólguna. Innflutt verðbólga verður meiri á næsta ári vegna seðlaprentunar í Bandaríkjunum, Bretlandi og Evrulandinu.  Þrátt fyrir þessa seðlaprentun erlendis gefur krónan samt eftir.

Vísitala neysluverðs til verðtryggingar mun taka stökkbreytingum upp á við einu sinni enn. Svik stjórnmálaflokkana að hafa ekki þegar afnumið verðtryggingu á lánum til neytenda mun því enn á ný leggja auknar byrðar á fólkið í landinu og gera hóp eignafólks að öreigum.

Hvað lengi enn ætlar valdastéttin á Íslandi að reyna sérleið verðtryggingar á neytendur?

Hvað lengi enn ætla neyendur að láta bjóða sér þetta óréttlæti?


Lausung og ábyrgðarleysi

Einu sinni var miðað við að sá sem hefði réttindi bæri líka skyldur.  Samfylkingin er sá stjórnmálaflokkur á Íslandi sem hefur hvað harðast berst fyrir því að allir skuli fá allt á annarra kostnað. 

Við formannskjörið núna er spurningin, hvort að þeir einir hafi kosningarétt sem hafa staðið við félagslegar skyldur sínar gagnvart flokknum eða allir eigi að fá allt fyrir ekkert. Báðir formannsframbjóðendurnir og annað málsmetandi fólk í Samfylkingunni og segir ekki koma til greina að réttindum fylgi skyldur. Allir skuli fá að kjósa óháð því hvort þeir hafa greitt til flokksins það sem þeim ber að greiða. 

Samfylkingin er því miður ekki eini flokkurinn sem hefur þau viðhorf að réttindum fylgi ekki ábyrgð eða skyldur. Stjórnmálaflokkar eru almennt hættir að innheimta félagsgjöld eftir að þeir voru ríkisvæddir. Flokksskrár eru því að verulegum hluta ómarktækar. Prófkjörin og  stjórnmálin í landinu ganga síðan í takt við marktæki flokksskránna.  

Afnema verður þá spillingu sem felst í því að stjórnmálaflokkar taki milljarða á ári frá skattgreiðendum og þeim gert að standa undir rekstri sínum sjálfir. Það er óneitanlega öfugsnúið að allir aðrir eigi að greiða fyrir starfsemi stjórnmálaflokka en þeir sem eru í flokkunum.


Ofsóknir

Í fyrstu miðstöðvum kristinnar trúar í Mið-Austurlöndum er talin hætta á að kristnir söfnuðir þurkist út. Kristið fólk býr við meira hatur og ofsóknir en nokkur annar trúarhópur. Meira en helmingur kristins fólk í Mið-Austurlöndum hefur flúið eða verið drepið á síðustu áratugum.

Stjórnmálamenn í kristnum löndum hafa leitt hjá sér ofsóknir sem kristið fólk sætir í Afríku, Asíu og Mið-Austurlöndum. Í nýlegri skýrslu Civitas segir að stjórnmálamennirnir séu hræddir við að taka á þessum ofsóknum af ótta við að vera kallaðir "rasistar".

Þeir sem snúast frá Íslam til kristinnar trúar eiga það á hættu að vera drepnir í Saudi Arabíu, Máritaníu og Íran og geta búist við hörðum refsingum í öðrum löndum í Mið-Austurlanda. Í skýrslu Civitas segir að um 200 milljónir kristins fólks eða einn af hverjum 10 búi við ógn, refsingar, kúgun eða þjóðfélagslegt ójafnrétti vegna trúar sinnar. 

Það er brýnt að afhjúpa glæpi og brot á mannréttindum gagnvart kristnu fólki. Það ætti að vera pólitískt forgangsverkefni. Sú staðreyn að svo er ekki segir okkur sérstaka sögu um skrýtinn fórnarlambakúltúr sem hefur hreiðrað um sig á Vesturlöndum og í Bandaríkjunum.

Því má ekki gleyma að trúfrelsi-skoðanafrelsi er grundvöllur og undirstaða almennra mannréttinda.

Við sem höldum upp á mestu trúarhátíð kristins fólks þessa daga ættum að minnast trúarsystkina okkar sem sæta grimmilegum ofsóknum víða um heim. Við eigum að gefa þeim til hjálpar. Það er þörf á slíkum jólagjöfum. Kristið fólk þarf að mynda samtök til varnar mannréttindum kristins fólks og sóknar fyrir kristni og kristileg viðhorf.

Þau viðhorf eru hornsteinar þeirra mannréttinda sem við berjumst fyrir og teljum sjálfsögð-en eru það ekki án baráttu.


Nigella og uppskriftin að friðsælum jólum

Nigella Lawson sjónvarpskokkur segist hafa uppskriftina að góðum og friðsælum jólum. Hún býður alltaf einhverjum utanaðkomandi  til að taka þátt í hátíðarhöldunum  með fjölskyldunn.

"Það verður alltaf að vera einhver  til staðar sem fólk vill ekki líta illa út gagnvart." Það á heldur ekki að skipa fólki til sætis og það er mikilvægt segir hún. Ef fólki er skipað til sæti þá lítur fólk á mikilvægi sitt í samræmi við það hvað það er sett langt frá gestgjafanum. Svo segir hún það líka vera rugl að það eigi að skipa fólki til sætist eftir kynferði þ.e. stelpa, strákur og stelpa strákur.  Á hvaða öld haldið þið eiginlega að við lifum segir Nigella.

Ef uppskriftin er ekki flóknari til að eiga góð og happasæl jól sameiningar og friðar í fjölskyldum þá ættu allir að geta notið þess.

Svo er spurning hvort að sjónvarpskokkur veit betur en aðrir um atriði sem eru ótengd eldamennsku.

Alla vega skiptir máli að við skipum málum þannig að jólin verði sem gleðilegust, skemmtilegust og friðsælust.


Fátækt

Fréttir frá Mæðrastyrksnefnd, Fjölskylduhjálpinni og fleiri hjálparstofnunum eru fyrirferðarmiklar. Talsfólk hjálparstofnana talar um vaxandi neyð og aukna fátækt.

Af hverju er neyð í velferðarþjóðfélaginu Íslandi?

Ég ætla ekki að minnast á ríkisstjórnina sem kallar sig norrænu velferðarstjórnina. Það er óviðkomandi þessum þanka.

Fólk í neyð fær hjálp frá ríki og sveitarfélögum. Þar er um miklar fjárhæðir að ræða. Er þeim fjármunum þá svona misskipt? Getur verið að sumir fái margfalt meðan aðrir fá lítið?

Getur verið að velferðarkerfið þarfnist umbyltingar frá grunni þannig að um raunverulega velferð allra geti verið að ræða? Á ekki velferðin fyrst og fremst að vera fyrir fátæka?  Er það eðlilegt velferðarkerfi þar sem milljarðamæringurinn nær í ellilaunin sín frá ríkinu á sama tíma og sonur hans nær í námslánið frá ríkinu?

Flestir vilja hjálpa fátækum en hvenær er fólk fátækt? Allir ættu að vera sammála um að fólk sem hefur ekki viðunandi húsnæði og fær ekki nóg að borða er fátækt og það er þjóðarsátt um að velferðarkerfið komi í veg fyrir að nokkur sé án húsnæðis eða fái ekki nóg að borða. Ef sú staðhæfing mín er rétt að það sé þjóðasátt um að tryggja fólki a.m.k. þá lágmarksvelferð að hafa viðunandi íverustaði og mat. Af hverju er þá þessi vandi sem talsmenn hjálparstofnana lýsa?

Það er eitthvað bogið við velferðarkerfið? 


Eldspúandi dreki eyðileggingarinnar

Í ævintýrum er sagt frá því hvernig vaskir riddarar og jafnvel heilar byggðir glímdu við eldspúandi dreka sem eyðilögðu hús, önnur mannvirki og uppskeru bænda. Þegar unnið hafði verið á drekanum færðist líf og velmegun yfir svæðið.

Við höfum eldspúandi dreka eyðileggingar, sem rænir húsum, mannvirkjum og festir fólk í skuldafjötra. Þessi dreki er verðtrygging neytendalána sem hefur gert heila kynslóð íslendinga gjaldþrota. Afleiðingin er aukin fátækt og örbirgð. Kreppuskýið stækkar af því að þessi dreki er ekki lagður af velli.

Jafnvel stofnanir eins og Íbúðalánasjóður verður ítrekað gjaldþrota vegna verðtryggingar og vaxtabyrði verðtryggðra lána sem sjóðurinn endurlánar. Það gleymist varðandi Eir sem mikið er talað um og maður eftir mann sakfelldur án dóms og laga að dreki eyðileggingarinnar er þar að verki. Stærsti orsakavaldur eignarýrnunar og greiðsluerfiðleika.

Leggja verður þennan dreka eyðileggingar og kreppu að velli. Afnema verðtryggingu og endurgreiða ránsfenginn. Þá fyrst geta landsmenn haldið gleðileg jól og stórum hluta fátæktar og örbirgðar verðru vísað á bug vegna gróandi þjóðlífs og aukinnar atvinnu.


Burt með sérfræðinga

Lýður Árnason læknir, sem sat í stjórnlagaráði birtir grein í Fréttablaðinu. Meginniðurstaðan er sú að Alþingi verði að samþykkja tillögur stjórnlagaráðs og megi ekki láta sérfræðinga koma að málinu.

Orðrétt segir: "Ruglumbull er að láta sérfræðinga tefja för þess frekar." Síðar segir læknirinn "Þinginu ber því  skylda til að standa við sinn hlut og samþykkja nýja stjórnarskrá óbreytta fyrir þinglok."´

Lýður telur ranglega að stjórnlagaráð hafi fengið umboð til að taka stjórnarskrármálið í eigin hendur og þeir sem þvælist fyrir séu óvinir þjóðarinnar. Sérstaklega á það við sérfræðinga að mati læknisins, sem geti sullumbullast við að ruglumbullast gegn heilögum tillögum stjórnlagaráðs.  

Stjórnlagaráðsliðar voru hvorki alvitrir né óskeikulir. Einn sérfræðingur bendir  t.d. á,  að yrðu tillögur stjórnlagaráðs samþykktar þá mundu útlendingar fá aðgang að auðlindum þjóðarinnar til jafns við Íslendinga. Heldur læknirinn að það sé þjóðarvilji að framselja auðlindirnar til útlendinga eins og stjórnlagaráð leggur til?

Af grein læknisins má ætla, að hann telji að komist grasalæknir sem hluti fólks treystir, að þeirri niðurstöðu að maður sé með hjartasjúkdóm, þá beri að fara að öllum ráðum grasalæknisins. Ekki megi kalla til hjartasérfræðinga eða sérhæft hjúkrunarfólk til sjúkdómsgreiningar eða aðgerða.

Læknirinn og frambjóðandi Dögunar vill vísa sérfræði á bug og láta kukl, vangetu og vanþekkingu ráða ferð.


Þorvaldur í framboð fyrir Dögun

Ég hef það frá þrem heimildarmönnum sem ég tel áreiðanlega að Þorvaldur Gylfason ætli í framboð fyrir Dögun.  Aðrir öfgafyllstu stjórnlagaráðsmennirnir munu einnig ætla að munstra sig í áhöfnina.

Það er því ljóst að það fjarar hratt undan Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra, sem hefur gengið erinda þessa fólks af ótta við að það mundi annars valda usla fyrir Samfylkinguna í næstu kosningum. 

 Þá er spurning hvort að bestu menn Samfylkingarinnar taki ekki völdin af Jóhönnu og leiti samninga við stjórnarandstöðuna um þær breytingar  á stjórnarskrá sem samkomulag ætti að nást um t.d. auðlindaákvæði, þjóðaratkvæðagreiðslur og valdsvið forseta lýðveldisins.Tillögum stjórnlagaráðs yrði síðan sturtað niður eins og vera ber við vandað löggjafarstarf.

Þorvaldur er öfgafullur Evrópusinni vill leggja landbúnaðarkerfið niður. Meðframbjóðendur hans í Dögun,  Guðjón Arnar, Þór Saari og Gísli Tryggvason eru eindregið á móti þessu og Pétur Gunnlaugsson útvarpsmaður fjandskapast út í allt og alla sérstaklega Evrópusambandið.  Flottur málefnagrundvöllur?  

Kjósendur geta þá séð hilla undir Dögun nýrrar ósamstöðu fari svo ólíklega að þessi söfnuður nái Þorvaldi á þing.


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 109
  • Sl. sólarhring: 194
  • Sl. viku: 4699
  • Frá upphafi: 2267843

Annað

  • Innlit í dag: 100
  • Innlit sl. viku: 4339
  • Gestir í dag: 100
  • IP-tölur í dag: 99

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband