Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2009

Icesave, vinir eða óvinir.

Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með umræðu um svonefndar Icesave skuldbindingar.  Þar hafa margir látið stór orð falla ekki síst í garð Evrópusambandsins og einstakra þjóðlanda og ítrekað er talað um að við þurfum ekki að greiða þessar skuldir "óreiðumanna".

Til upprifjunar þetta:

Ríkisstjórn Geirs H. Haarde lagði fyrir Alþingi þingslályktunartillögu í nóvember 2008 þar sem segir m.a. "Aðilar komu sér saman um að tilskipunin um innistæðutryggingar hafi verið felld inn í löggjöfina um Evrópska efnahagssvæðið í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og gildi því á Íslandi með sama hætti og hún gildir í aðilarríkjum Evrópusambandsins. Viðurkenning allra aðila á þessari lagalegu stöðu greiðir fyrir skjótri niðurstöðu samningaviðræðna þeirra sem nú standa yfir um fjárhagsaðstoð við Ísland."

Það er því ljóst að strax í nóvember 2008 var ljóst að lánafyrirgreiðsla til Íslands væri bundin því að tilskipunin um lágmarskinnistæðutryggingar 20.887 Evrur væri virt. Forsenda þess að við fengjum fyrirgreiðslu frá Norðurlöndum eða Alþjóðagjaldeyrissjóðnum var afgreiðsla þessa máls.

Í samræmi við það skrifuðu  Árni Mathiesen þáverandi fjármálaráðherra og Davíð Oddsson þáverandi Seðlabankastjóri bréf til Dominique Strauss-Kahn yfirmanns Alþjóðagjaldeyrissjóðsins  þ. 15.11.2008 þar sem talað er um að Ísland muni virða þessar skuldbindingar. Þar segir í tl. 9

"We will be working constructively towards comparable agreements with all international counterparts for the Iceland deposit insurance scheme in line with the EEA legal framework. Under its deposit insurance system Iceland is committed to recognize the obligations to all insured depositors. We do so under the understanding that prefinancing for these claims is available by respective foreign governments and that we as well as these governments are committed to discussions within the coming days with a view to reaching agreement on the precise terms for this prefinancing."

Samhliða lagði þáverandi ríkisstjórn fram þingsályktunartillögu í nóvember 2008 um að gengið yrði til samninga um Icesave skuldbindingarnar.

"Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leiða til lykta samninga við viðeigandi stjórnvöld vegna innistæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu á grundvelli þeirra sameiginlegu viðmiða sem aðilar hafa komið sér saman um"  þskj. 219. 177 mál 136 löggjafarþing:

Í byrjun desember 2008 var þessi þingsályktunartillaga samþykkt af meirihluta Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks eða eins og segir í lok nefndarálits meirihluta utanríkismálanefndar þar sem mælt er með samþykki tillögunnar. "Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið telur meiri hlutinn óhjákvæmilegt að ráðast í samningagerð sem tillagan gerir ráð fyrir og leggur til að hún verði samþykkt óbreytt.

Samningar fóru síðan fram og ég hef lýst því hér í bloggfærslu að ég tel að illa hafi tekist til og fjármálaráðherra beri ábyrgð á því að skipa samninganefndina svo sem hann gerði og það hafi haft þá þýðingu að við fengum verri samninga en ella hefði verið.

En staðan er sú að í október 2008 fyrir rúmum 9 mánuðum síðan þá var ljóst að semja þyrfti um Icesave skuldbindingarnar. Það var líka ljóst þá að forsenda lánafyrirgreiðslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Norðurlandanna að Færeyjum undanskildum væri sú að samið yrði um innistæðutryggingarnar.

Í október 2008 áður en fallist var á að semja lá fyrir að allar lánalínur til landsins voru lokaðar. Þess vegna taldi ríkisstjórnin þáverandi eins og ég gat best skilið að brýnt væri vegna hagsmuna þjóðarinnar að ná samkomulagi um máið og þess vegna sendu Árni Matt og Davíð Oddsson bréf til Strauss-Kahn og þess vegna fékk ríkisstjórnin samþykkta þingsályktunartillögu um að  gengið yrði til samninga.

Þetta Icesave mál kemur Evrópusambandinu ekki við að öðru leyti en því að Ísland er aðili að samningi um að tryggja neytendum lágmarksinnistæður á bankareikningum viðskiptabanka og krafan er sú Ísland standi við þann samning. Icesave málið kemur Alþjóðagjaldeyrissjóðnum heldur ekki við að öðru leyti en því að samningurinn um lánafyrirgreiðslu til Íslands er í uppnámi og ekki er farið að tl. 9 í bréfi þeirra Árna Matt og Davíðs frá miðjum október. 

Það er mikilvægt að hafa þetta í huga þegar rætt er um Icesave skuldbindingarnar.

Ég hef alla tíð talið óhjákvæmilegt að ganga ti samninga um svonefndar Icesave skuldbindingar en hafði verulega fyrirvara við meðferð ofangreindrar þingsályktunartillögu á Alþingi og greiddi henni því ekki atkvæði. Nú er staðan sú að fyrri ríkisstjórn skuldbatt sig með ákveðnum hætti. Núverandi ríkisstjórn er búin að skuldbinda sig með undirritun samnings. Alþingi þarf að afgreiða málið með þeim hætti að hagsmunum Íslands sé best borgið.

Fái Icesave samningur Steingríms J ekki meirihluta fylgi á Alþingi þá sé ég ekki annað en ríkisstjórnin verði að segja af sér þar sem hún hefur þá ekki í raun starfhæfan meirihluta til að koma brýnustu málum sínum í gegn um þingið. Þá hefur forsætisráðherra ekki leitað eftir því að fá úr því skorið hvort viðsemjendur okkar fallast á þá fyrirvara sem stór hluti Alþingismanna vill gera áður en þeir fallast á að ríkissjóður ábyrgist þær skuldbindingar sem um ræðir.

Icesave samningurinn er svo alvarlegt mál að það er ekki tækt fyrir formann Framsóknarflokksins eða aðra þingmenn að stunda málflutningsæfingar í ræðustól Alþingis. Það skiptir máli að meiri hluta vilji Alþingis komi fram og málið verði afgreitt frá Alþingi sem allra fyrst með þeim afleiðingum sem það mun hafa í för með sér. En stundaglas Alþingis til afgreiðslu málisins er raunar runnið út og því skiptir máli að bretta upp ermar og ljúka afgreiðslu málsins.


mbl.is Icesave tefur endurskoðun AGS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flýtur meðan ekki sekkur.

Forsætisráðherra er sögð í sumarfríi þó að Steingrímur J. Sigfússon segi hana tiltæka sér þegar nauðsyn krefur.  Fjármálaráðherra er farinn að svara spurningum fréttamanna með spurningunni, "hvað heldur þú" eins og almenning í landinu varði eitthvað um álit fréttamanns á því afhverju þeir sem lofuðu að lána okkur peninga vilja ekki greiða. 

Loks upplýsti félagsmálaráðherra í gær að hann hefði skipað nýja nefnd til að athuga vanda skuldsetts fólks í landinu en nefndin ætti samt ekki að leggja fram neinar tillögur um niðurfellingun skulda eða annað sem máli skiptir. Til hvers er þá verið að skipa nefnd? Til að stunda umræðustjórnmál?

Á sama tíma mælist verðbólga í tveggja stafa tölu mánuð eftir mánuð þrátt fyrir spár um að verðbólga mundi minnka þegar liði á sumarið. Verðbbætt lán hækka og krónan fellur. Eignir fólks brenna upp í þessum vítahring galins lánakerfis og ónýts gjaldmiðils. 

Bankarnir og yfirtekin ríkisfyrirtæki eru rekin með 8 milljarða halla á mánuði á kostnað skattgreiðenda.

Krónan fellur og er í sögulegu lágmarki og væntingavísitalan sýnir að vonleysi er nú eins mikið og s.l. janúar þegar það mældist hæst. Við þessar aðstæður er eðlilegt að forsætisráðherra sé í fríi, fjármálaráðherra spyrji fréttamenn gagnspurninga þegar þeir spyrja hann og félagsmálaráðherra skipi nefnd sem á ekki að gera neitt sérstakt.

Hvar eru tillögur ríkisstjórnarinnar sem skipta máli fyrir fólkið í landinu?

Jóhanna hvar ert þú nú?


Jóhanna hvar ert þú nú?

johanna Fyrir margt löngu söng andstæðingur þáverandi minnihlutastjórnar í Suður Afríku lagið "Give me hope Joanna"  Nú gæti íslensks alþýða sungið með sama hætti, en ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur valdið stórum hópi fólks miklum vonbrigðum.

Í fyrsta lagi verður Jóhanna að freista þess að taka Icesave málið úr þeirri gíslingu sem það er í,  á Alþingi, og leita eftir því við forsætisráðherra í Hollandi og Bretlandi að gera nauðsynlegar breytingar á samningnum. Það er ljóst að við verðum að afgreiða þetta mál sem allra fyrst.  Það er brýn nauðsyn. En það er ekki sama hvernig það er gert og Jóhanna er sú eina sem getur stöðu sinnar vegna leitað nýrra leiða.

 Ólafur Ragnar  Eða þarf e.t.v. að kalla á forsetann, sem gæti verið snöfurmannlegri í samskiptum við erlenda fyrirmenn?

Í öðru lagi þá verður Jóhanna að setja fram ákveðnar tillögur um það hvað skuli gera varðandi vanda þeirra sem keyptu íbúðarhúsnæði á gengistryggðum lánum skömmu fyrir hrun íslensku krónunnar og koma með ákveðnar tillögur um takmörkun og/eða afnám vísitölubindingar lána.  Þettta var brýnt þegar Jóhanna tók við í byrjun febrúar og er enn brýnna nú. Þessi vandi hleypur ekki frá okkur.

Í þriðja lagi þá þarf að taka til í ríkisbúskapnum, leggja niður óþarfa ríkisstofnanir miðað við aðstæður og draga úr millifærlsum og stykjum einfaldlega vegna þess að geta ríkissjóðs til að fjármagna góðærisævintýrin er ekki lengur fyrir hendi.

Í fjórða lagi verður að hætta framlögum til velferðarkerfis atvinnuveganna og byggja á þeirri starfsemi sem í raun skilar arði. Á sama tíma á að leggja fé í nýsköpun sem líkleg er til að vera arðbær. 

Í fimmta lagi verður að ljúka endurskipulagningu bankanna og miða við að þeir verði reknir með hagnaði eða í jafnvægi en mér er sagt að í dag kosti ríkisbankakerfið 8 milljarða á mánuði.  Sé það rétt þá eru þar þyngri byrðar á þjóðina en Icesave og ljóst að það getur ekki verið markmið ríkissjóð að reka 3 banka alla með miklum halla.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur verður hálfs árs innan nokkurra daga.  Þá er eðlilegt að spurt sé hvort að Jóhanna geti eða sé líkleg til að gefa þjóðinni von um lausn þeirra vandamála sem mest eru aðkallandi?


Eignaupptaka og gæsluvarðhald.

Tæpir 10 mánuðir eru liðnir frá bankahruninu og setningu neyðarlaga. Þrátt fyrir það að fréttir berist af vafasömum gerningum ýmissa leikenda á fjármálasviðinu þá hefur enginn verið handtekinn eða settur í gæsluvarðhald. Engar eignir auðmanna hafa verið frystar. 

Fréttir sem berast eru af rannsóknum sem meira eða minna voru komnar í gang fyrir bankahrunið.  Af hverju gengur þetta svona hægt?

Að tala nú um að frysta eignir auðmanna er aðgerð sem er sennilega rúmum meðgöngutíma of seint á ferðinni. Það hefði þurft að gera það strax í október  2008 eins og ég krafðist að gert yrði á þeim tíma.

Nú skiptir máli að rannsóknum verði hraðað sem mest og lögum komið yfir þá sem ábyrgð bera þannig að Gróa á Leiti taki ekki endalaust völdin og fólk dæmt oft á tíðum saklaust. Það er því mikilvægt að rannsóknum verði hraðað og til þeirra varið þeim mannafla og fjármunum sem til þarf. Við eigum ekki endalaust að hengja þá sem stela karmellu en láta hina lausa sem misfara með milljarða.


Eru vinstri grænir að klofna?

Yfirlýsingar Jóns Bjarnasonar um að fresta beri aðildarviðræðum að Evrópusambandinu fundust mér með miklum ólíkindum frá ráðherra í framhaldi af ályktun Alþingis um að farið skyldi í aðildarviðræður.

Nú hefur samflokksmaður Jóns Bjarnasonar, formaður utanríkismálanefndar Árni Þór Sigurðsson blásið á þessa yfirlýsingu Jóns og telur hana réttilega skaðlega fyrir hagsmuni Íslands jafnframt að hún sé ómarktæk þar sem hún sé ætluð til heimabrúks í Norðvesturkjördæmi. Ekki liggur ljóst fyrir hvað Árni Þór á við með þessu hvort hann  er að tala um að Jón sé að reyna að blekkja eða reyna að slá ryki í augu kjósenda sinna og hugur fylgi ekki máli eða þá eitthvað annað.

Ég get verið sammála Árna Þór Sigurðssyni um það að ummæli Jóns Bjarnasonar eru óheppileg. En þeir eru samflokksmenn og það sem hefur verið að birtast landsmönnum er víðtækt sundurlyndi og ósamkomulag innan Vinstri grænna.  Fjórir þingmenn Vinstri grænna þar af einn ráðherra flokksins hafa t.d. ekki hikað við að hjóla í formann flokksins Steingrím J. Sigfússon vegna Icesave samninganna. Einn þingmaður vegna aðildarumsóknarinnar að Evrópusambandinu. Þá virðist sem Steingrímur sé orðinn ansi þreyttur á því að bera af sér spjótalög pólitískra andstæðinga og þurfa síðan að bregðast við með jafnvel enn meiri leikni vegna spjótalaga samflokksmanna sinna.

Sundurlyndið í Vinstri grænum birtist m.a. með yfirlýsingu Jóns Bjarnasonar gegn Evrópusambandinu og viðbrögðum Árna Þórs Sigurðssonar við því. Með yfirlýsingu Atla Gíslasonar um fullveldi og sjálfstæði Íslands í kjölfar ummæla flokksformanns síns um að engin vildi heitu kartöfluna og vægast sagt afar sérkennilegum ummælum Ögmundar Jónassonar við ýmis tækifæri þar sem hann í raun lýsir yfir andstöðu við formanninn. Hvað er eiginlega á seyði í Vinstri grænum? Er flokkurinn að klofna eða er verið að reyna að koma formanninum frá?


Er Jón Bjarnason hæfur til að vera ráðherra?

Jón Bjarnason samþykkti stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur um að sótt skyldi um aðild að Evrópusambandinu. Þrátt fyrir það greiddi hann atkvæði á móti aðildarumsókn við afgreiðslu málsins á Alþingi.  Skýringar hans á því að greiða atkvæði gegn því sem hann hafði samþykkt þegar hann gekk til stjórnarsamstarfs við Samfylkinguna voru vægast sagt ekki sannfærandi.

Nú rúmri viku eftir að meiri hluti Alþingis samþykkti að ganga til aðildarviðræðna og utanríkisráðherra er svo nýkominn heim frá því að leggja fram aðildarumsóknina að Evrópusambandinu að hann er ekki enn búinn að ná úr sér flugriðunni ákveður Jón Bjarnason að hafa skuli stjórnarsáttmálann og vilja Alþingis að engu.

Öll þau atriði sem Jón nefnir sem rökstuðning fyrir því að fresta umsóknarferlinu að ESB voru þekkt þegar Alþingi samþykkti að ganga til aðildarviðræðna. Jón Bjarnason er því að fara fram á að ekki verði farið eftir vilja Alþingis.

Hverju skyldi vera um að kenna þegar ráðherra bullukollast svona? 


mbl.is Vill fresta umsóknarferli ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þú skalt gera en ef þú gerir ekki þá skiptir það ekki máli.

Eitt af þeim steinbörnum sem þjóðin gengur enn með í magnanum er að skipað skuli stjórnlagaþing með hálfs milljarðs kostnaði.  Sú þjóð Norðurlanda sem farið hefur farsælustu leiðina við að breyta stjórnarskrá sinni eru Svíar sem skipuðu sérstaka stjórnlaganefnd sem vann í nokkur ár við að koma fram með nýungar og samræma sjónarmið. Allir eru sammála um að starf þeirrar nefndar hafi tekist frábærlega vel.  Við gætum tekið Svía til fyrirmyndar ef við vildum virkilega ná fram vitrænum breytingum á stjórnarskránni.

En við viljum ekki fara þá leið sem hefur gefist vel og er líkleg til árangurs. Við viljum kjósa sérstakt stjórnlagaþing. Aðferðarfræðin og umbúnaðurinn er líkleg til að lítið komi út úr slíku þinghaldi með þeim Birgittum og Þórurum sem þar gætu valist til að gera þingstörf stjórnlagaþingsins vitrænni og skilvirkari.

Þó ákveðið sé að kjósa stjórnlagaþing jafn árangurslítið eins og það er líklegt til að verða þá skiptir samt máli hvernig staðið er að lagasetningu um stjórnlagaþingið.  Í frumvarpinu sem lagt hefur verið fram á Alþingi um stjórnlagaþing kennir nokkurra furðulegra grasa. Eitt má sjá í 11.gr. frumvarpsins þar sem segir m.a.

 "Kjósanda er í sjálfsvald sett hversu mörgum frambjóðendum er forgangsraðað með þeim hætti sem lýst er í 1. mgr. en skal þó að lágmarki raða átta frambjóðendum. Atkvæði telst þó gilt þótt færri frambjóðendur séu valdir."

Kjósandi skal semsagt greiða atkvæði með ákveðnum hætti en það skiptir ekki máli þó hann fari ekki eftir því. Það þýðir að kjósandi skal í raun ekki gera það sem hann skal gera. Þannig að kjósandi skal gera það sem hann þarf ekki að gera og ekki skiptir máli þó hann geri ekki það sem hann skal gera eða með öðrum orðum að hann skal ekki gera það sem hann skal gera samkvæmt lagafrumvarpinu. 

Ætla má að þeir sem sömdu frumvarpið og greinargerðina hafi kynnt sér röksemdafærslur Sir Humphrey ráðuneytisstjóra í sjónvarpsmyndaflokknum "Yes Minister" Því að orðræðan og rökin í næstu setningu að ofan eru í samræmi við málflutning hans þegar hann lenti í ógöngum.

 


Söguleg mistök að utanríkisráðherra Samfylkingarinnar leggi fram umsókn.

Össur Skarphéðinsson afhenti Carl Bildt utanríkisráðherra Svía aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu í dag. Það er vissulega söguleg stund og Össuri fórust þau verk sem þurfti að sinna í því sambandi vel úr hendi enda maðurinn vörpulegur. 

Miðað við stjórnmálasögu Íslands þá eru það söguleg mistök Sjálfstæðisflokksins að það skuli ekki vera utanríkisráðherra Sjálfstæðisflokksins sem skuli hafa haft forgöngu um aðildarumsókn og vera mættur fyrir Íslands hönd til að afhenda aðildarumsóknina.

Á sama degi og Össur afhenti aðildarumsóknina að Evrópusambandinu boðuðu nokkrir gamlir kommar og aðrir vinstri menn til fundar í MÍR salnum til að andæfa aðildarumsókninni og höfðu fengið sem framsögumann konu yst á vinstri kanti danskra stjórnmála. Það er vel við hæfi að þeir sem viðhalda arfleifðinni Menningartengsl Íslands og Ráðstjórnarríkjanna, skammstafað MÍR skuli enn á ný berjast gegn samstöðu Íslands við vestrænar þjóðir. Þetta fólk hefur verið á móti öllum fjölþjóðlegum tengslum Íslands síðustu 50 ár. Á móti NATO á móti varnarliðinu á móti Evrópska efnahagssvæðinu, á móti stórvirkjunum og á móti álverum svo nokkuð sé nefnt.

Það er hins vegar nokkuð öfugsnúið þegar nokkrir Sjálfstæðismenn eru komnir í hóp gamalla aðdáenda gömlu Sovétríkjanna og skuli nú hrópa með þeim um landráð og afsal fullveldis þegar leitað er leiða til að vinna til hagsbóta fyrir íslenska þjóð.  Þeir Sjálfstæðismenn sem þannig tala í dag mættu hugleiða að þannig  var hrópað að Bjarna Benediktssyni og Ólafi Thors þegar gengið var frá varnarsamningnum við Bandaríkin. Þannig hrópaði þetta fólk á þá Bjarna Benediktsson og Ólaf Thors þegar samþykkt var á Alþingi að ganga í NATO og þannig hrópaði þetta fólk á Jóhann Hafstein fyrir að semja um álver við Hafnarfjörð svo nokkur dæmi séu nefnd.

Flokkur sem hefur þá arfleifð eins og Sjálfstæðisflokkurinn að hafa verið forustuflokkur fyrir að leita eftir samstarfi við aðrar þjóðir þrátt fyrir andstöðu einstakra hagsmunahópa og öfgafullra vinstri manna er kominn í sérstaka stöðu þegar hann atyrðir þá þingmenn sína sem vilja ekki greiða atkvæði gegn aðildarviðræðum við Evrópusambandið.

 


Eru innistæður í íslenskum bönkum þá ekki tryggðar?

Mér þykir það merkilegt sem haft er eftir Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra að "innistæður í íslenskum bönkum séu tryggðar til fulls, þar til annað verður boðað"  Stendur til að boða eitthvað annað. 

Annað hvort eru innistæður tryggðar eða þær eru ekki tryggðar. Nú eru bankarnir ríkisbankar þannig að ég taldi að innistæður í þeim væru að fullu tryggðar svo lengi sem ríkið hefur dug og mátt til að standa við þær skuldbindingar. Stendur til af hálfu fjármálaráðherra að breyta því eitthvað?

Ef til vill er þetta ekki frétt þar sem orð fjármálaráðherra eru gripin úr samhengi. En sé svo ekki þá er þatta stóralvarleg yfirlýsing fjármálaráðherra.


mbl.is Tryggðar þar til annað verður boðað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ná verður breiðri samstöðu um hagsmuni Íslands.

Spurning um aðild Íslands að Evrópusambandinu varðar það hvort það séu hagsmunir íslensku þjóðarinnar eða ekki að gerast aðilar að Evrópusambandinu. Þar reynir á kalt hagsmunamat.

Þeir sem vilja aðildarviðræður eru ekki búnir að samþykkja aðild. Það gleymist oft í þeim öfgafulla málflutningi sem andstæðingar Evrópusambandsins hafa sett fram á undanförnu og margir farið algjöru offari í bloggfærslum sínum og brigslað þeim sem ekki eru sammála um landráð, svik og dindilshátt svo nokkur alþekkt orð í þessari umræðu séu nefnd.

Ég styð aðildarviðræður af nokkrum ástæðum.

Í fyrsta lagi þá tel ég heppilegt að Ísland skipi sér í raðir Evrópuþjóða á grundvelli þeirra sameiginlegu gilda og menningararfs sem okkur er sameiginlegur. Á svipuðum forsendum og rökum skipuðum við okkur í raðir frjálsra þjóða í baráttunni gegn ófrelsinu þegar við gengum í Atlantshafsbandalagið.

Í öðru lagi þá eru aðildarviðræður rökrétt framhald af aðild að Evrópska efnahagssvæðinu þar sem við erum undir það seld að þurfa að taka og innleiða löggjöf án þess að hafa nokkuð um hana að segja. Slíkt ferli lagasetningar er ekki samboðið íslensku þjóðinni. 

Í þriðja lagi þá höfum við innleitt mikilvægustu reglur Evrópusambandsins í flestum málaflokkum fyrir utan fisk - og landbúnaðarvörur.

Í fjórða lagi þá stöndum við frammi fyrir því að vera með ónýtan gjaldmiðil, hærra verð á nauðsynjum og óviðunandi lánakjör sem eru daglegir ofurskattar á venjulegt fólk en aðild að Evrópusambandinu er líkleg til að breyta þessu

Í fimmta lagi þá gæti aðild að Evrópusambandinu auðveldað samkeppni og nýsköpun í íslensku atvinnulífi og leitt til aukins hagvaxtar og velmegunar en þar liggja einmitt stærstu tækifærin okkar fólgin.

Fleira mætti nefna en þetta nægir alla vega í meðallangri bloggfærslu.

Það er með ólíkindum að hlusta á fólk taka upp gömlu kommaslagorðin um að selja landið og fórna fullveldinu í sambandi við skoðun á hagsmunum þjóðarinnar við aðildarviðræður.  Að sjálfsögðu er engu slíku til að dreifa og þeir sem vilja skoða aðild eru jafngóðir og heilir íslendingar og þeir sem eru á móti aðildarviðræðum. Andstæðingar aðildarviðræðna eiga ekki einkarétt á ást og virðingu á landi og þjóð.

Mér hefði fundist eðlilegt að breið samstaða hefði verið mynduð af Sjálfstæðisflokki, Samfylkingu og Framsóknarflokki um aðildarviðræður einmitt núna. Því miður varð það ekki. Slíka samstöðu verður hinsvegar að mynda og fara í aðildarviðræðum á forsendum þjóðhagslegra hagsmuna en ekki pólitískra upphrópana eða varðstöðu um hagsmuni hinna fáu gegn hagsmunum hinna mörgu.


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 9
  • Sl. sólarhring: 125
  • Sl. viku: 4599
  • Frá upphafi: 2267743

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 4247
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband