Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2018

Glæsilegur sigur Eyþórs Arnalds

Eyþór Arnalds vann glæsilegan sigur í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og fékk rúm 60% greiddra atkvæða. Sá frambjóðandi sem næstur kom, sitjandi borgarfulltrúi til margra ára fékk um 20% atkvæða. Ekki fer á milli mála hver vilji kjósenda er. 

Eyþór er vel að þessum sigri kominn. Hann hefur sýnt það þar sem hann hefur tekið þátt í sveitarstjórnarmálum, að þar fer traustur,duglegur maður, sem kann að vinna. Ég óska Eyþóri alls velfarnaðar í kosningabaráttunni sem framundan er. 

Vilji Sjálfstæðisfólks í Reykjavík stendur augljóslega til algjörrar endurnýjunar á framboðslista flokksins.

Kjörnefnd er nokkur vandi á höndum, en verður að horfast í augu við þá staðreynd að til að skapa trúverðugt framboð þá verður að koma til algjör endurnýjun og velja samhentan hóp fólks sem veit fyrir hvað það stendur og stendur saman sem órofa fylking til sigurs í kosningunum.

Takist kjörnefnd að leiða verkefni sitt farsællega til lykta þá á Sjálfstæðisflokkurinn möguleika á að auka fylgi sitt verulega. 

Það er áhyggjuefni að ekki skuli fleiri en tæp fjögurþúsund taka þátt í prófkjörinu. Á árum áður tóku að jafnaði yfir 10 þúsund manns þátt í prófkjörum flokksins í Reykjavík. Þetta sýnir að nauðsynlegt er að taka félagsstarfið til gagngerrar endurskoðunar og gleyma því ekki, að það verður að gera útrás á grundvelli nýrra tíma,hugmynda, hugsjóna og nýrra samskiptamöguleika. 

Vert er að óska Eyþóri Arnalds til hamingju með góðan sigur og skora á hann að gera sitt til að Sjálfstæðisflokkurinn fái góða kosningu í Reykjavík og helst að vinna aftur meirihlutann í borginni. Til þess liggja öll málefnaleg rök og spor vinstri meirihlutans hræða. Það er mikil vinna framundan.

Verkamennirnir e.t.v. fáir en uppskeran ríkuleg ef fólk stendur saman og vinnur saman. 


Einkavæðing skólastarfs í boði Dags B og félaga

Á undanförnum árum hefur ekkert orð verið jafn ógnvænlegt fyrir Samfylkingarfólk, VG og annað öfgavinstrifólk og "einkavæðing"

Heilbrigðisráðherra og fleiri úr þeirri hjörð hafa talið nauðsyn á að komið verði í veg fyrir frekari einkavæðingu heilbrigðis- og skólakerfis og snúið frá þeirri að þeirra mati háskalegu braut sem einkavæðing hefur í för með sér fyrir þjóðlíf og sálarheill landsmanna.

Mitt í þessu írafári gegn einkavæðingu semur Dagur B. Eggertsson og vinstri meirihlutinn í Reykjavík um víðtæka einkavæðingu kynlífsfræðslu í grunnskólum og leikskólum borgarinnar. Gerður var samningur við samtökin 78 um "hinsegin" kynlífsfræðslu í grunn- og leikskólum, fyrir börn sem eru ekki komin á kynþroskaaldur.

Erfitt er að sjá hvaða erindi hinsegin fræðsla eigi til barna, en e.t.v. liggja fyrir því einhverjar duldar ástæður svo sem skimun eftir því hjá ungbörnum hvort til þess geti komið að þau muni eiga í kynáttunarvanda þegar fram í sækir á lífsleiðinni. 

Fróðlegt verður að vita hvort áframhald verður á einkavæðingastefnu Dags B og félaga og t.d. að samið verði við þjóðkirkjuna um að annast um trúarbragðafræðslu í grunn- og leikskólum. Vafalaust gengur það ekki þar sem meirihlutinn í Reykjavík hefur með ráðum og dáð reynt að úthýsa kirkju og kristni úr skólum í Reykjavík. 

Fyrst nauðsyn þykir vera að kenna börnum sem ekki eru komin á kynþroskaaldur um kynlíf af samtökunum 78, þá veltir maður því fyrir sér hvað mín kynslóð þurfti að ganga í gegn um án allrar fræðslu í "hinsegin fræðum".

Ef til vill er það þess vegna sem vísað er til okkar sem "Baby Boomers" eða barnakynslóðin. 

Hætt er við að sú kynslóð sem nýtur fræðslu Samtakanna 78 og tileinkar sér hinsegin fræðin verði ekki þeirrar gæfu aðnjótandi. 


Styðjum baráttu Kúrda fyrir sjálfstæði

Erdogan Tyrkjaforseti hefur gert innrás í Sýrland. Her Tyrkja ásamt hryðjuverkamönnum í Sýrlandi, sem Tyrkir styðja sækja nú að Kúrdum, en Tyrkjaher hefur í aðdraganda innrásarinnar verið með linnulausa stórskotahríð og loftárásir á borgir, þorp og bækistöðvar Kúrda.

Innrás Tyrkja er til að ganga milli bols og höfuðs á Kúrdum í Sýrlandi. Hvaða rétt hafa þeir til þess? Engan.

Hvaða rétt eiga þeir til að styðja hryðjuverkamenn í Sýrlandi og nota þá nú beint til óhæfuverka sinna gegn Kúrdum. Engan.

Kúrdar eru sérstök þjóð með eigin sögu og menningu og eiga rétt á því að staða þeirra sé virt í alþjóðasamfélaginu og þeir eigi þess kost að mynda sjálfstætt ríki á þeim svæðum þar sem Kúrdar eru í afgerandi meirihluta íbúa. Á þetta vilja Tyrkir og raunar fleiri einræðisstjórnir á svæðinu ekki hlusta. Tyrkir stunda kerfisbundnar ofsóknir gegn Kúrdíska minnihlutanum í Tyrklandi og sækja nú að Kúrdum utan landamæra Tyrklands og fara þar í bág við alþjóðalög.  

Komi Bandaríkjamenn Kúrdum ekki til aðstoðar í þessari stöðu sýna þeir að USA er vondur bandamaður. 

Hvað ef Tyrkir lenda í útistöðum við Rússa í þessu herhlaupi. Ætlar NATO þá og þar á meðal við að standa við bakið á Tyrkjum?

Tyrkir hvöttu til uppreisnar gegn stjórnvöldum í Sýrlandi og hafa stutt hryðjuverkafólk þar. Tyrkir stóðu í ábatasömum viðskiptum við ISIS og sáu til þess að þeim bærist liðsauki og félagar í ISIS ættu frjálsa för um Tyrkland allt til þess að slettist upp á vinskapinn. Vesturlönd ættu því að sýna Tyrkjum fullkomna andúð.

Við Íslendingar sem lítil þjóð, sem fékk sjálfstæði á þeim grundvelli að við værum sérstök þjóð með eigin menningu ættum að stilla okkur upp með Kúrdum, sem eru að berjast fyrir sjálfstæðri tilveru og viðurkenningu. Við ættum á alþjóðavettvangi að fordæma harðlega framferði Tyrkja og krefjst þess um leið að réttindi Kúrda verði virt. 

Oft hefur verið lítið tilefni til yfirlýsinga af hálfu utanríkisráðherra, en nú skiptir máli að hann láti í sér heyra og fordæmi Tyrklandsforseta og Tyrki fyrir innrás á frjálst og fullvalda ríki og hernað gegn Kúrdum.  


Er ekki ísinn farinn af Norðurpólnum?

Æðsti prestur trúarbragðanna um hnattrænna hlýnun af mannavöldum Al Gore, spáði því fyrir 9 árum að Norðurpóllinn yrði íslaus fyrir 2018. Annar háttsettur prestur í reglunni Karl Bretaprins sagði að allt yrði komið til fjandans um mitt ár 2017 og samkvæmt spádómi NASA átti Manhattan að vera sokkinn í sæ fyrir nokkrum árum. 

Þó árið 2018 sé komið þá haggast ísinn á Norðurpólnum ekki. Sjávarborð hefur ekki hækkað og Manhattan er enn vettvangur iðandi mannlífs. Hlegið er að ruglinu í Karli Bretaprins.

Ekkert af því sem spáð hefur verið um þróun hnattrænnar hlýnunar af mannavöldum hefur reynst rétt.  

Samt sem áður heldur stjórnmála- og vísindaelíltan fast í, að nauðsynlegt sé að setja hindranir í veg framleiðslufyrirtækja, og leggja skatta á einstaklinga til að fórna á altari heimstrúarbragða pólitísku veðurfræðinnar 

Íslenska ríkisstjórnin lætur sitt ekki eftir liggja og þeir sem þurfa að setja bensín á bíla sína ættu að minnast þess þegar þeir greiða reikninginn að hluti hans er Katrínarskattur vegna ofangreindra trúarbragða 

Þrátt fyrir að Kanada og Norður hluti Bandaríkjanna sé í dag gaddfreðinn. Meiri snjór sé nú í svissnesku og ítölsku Ölpunum en mörg undanfarin ár. Það hefur jafnvel snjóað á Sahara eyðimörkinni. Þvert á það sem Al Gore spáði um íslausan Norðurpól þá snjóar á Sahara. Þessar staðreyndir skipta talsmenn trúarbragðanna engu máli. Þeir hafa tekið trúna og margir þeirra græða á því, en við hin þurfum að borga hærri skatta og hærra vöruverð fyrir þetta rugl.

Hvernig stendur á því að þegar það liggur nú ljóst fyrir að yfirborð sjávar hefur ekkert hækkað á þessari öld. Hitastig hefur ekki breyst svo neinu nemi frá aldamótum og engin eylönd hafa farið í kaf eins og líka var spáð, að samt skuli helvítisspámenn hrikalegra hamfara vegna hlýnunar halda sem fastast við falsspár sínar - og fólk trúa þeim?

Gæti það verið vegna þess að vísindaelítan sækir gríðarlega styrki til að rannsaka hnattræna hlýnun, en þeir vísindamenn sem andæfa og segja þetta vera rugl fá ekki neitt.

Getur það verið vegna þess að hnattræna hlýnunin er orðin big business fyrir fyrirtæki m.a. með verslun á kvótum fram og til baka.

Getur það verið vegna þess að ýmsar þjóðir eins og t.d. Kína og Indland vilji ná forskoti á Vesturlönd, en að því stefnir Parísarsamkomulagði sem Trump réttilega hafnaði.

Getur það verið vegna þess að hávær grátkór eyríkja í Kyrrahafi og ríkja í Afríku og Asíu vilja fá allar trilljónirnar sem kveðið var á um í Parísarsamkomulaginu að Evrópa og Norður Ameríka skyldi greiða þeim. Eitthvað er það.

Getur það verið vegna þess að í meir en 20 ár hefur æska Vesturlanda þurft að sæta markvissri innrætingu í skólum og fjölmiðlum um þessa nýju Grýlu, sem er þó enn hrikalegri en sú sem sögð er búa í Esjunni. Á öllum öldum býr fólk sér til nýja tegund af draugasögum.

Með hverju ári koma fleiri göt á klæði hlýnunarspámannanna og á endanum mun barnið segja að þeir séu ekki í fötum - hvað skyldi þurfa að líða mörg ár þangað til og hvað skyldi ríkisstjórnin þá vera búin að ræna skattborgarana mörgum milljörðum. 


Óður til verðbólgunnar

Fyrir tilstilli Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra hefur kolefnagjald verið hækkað. Neytendur þurfa  því að borga hærra verð fyrir bensínlítrann. 

Þessar auknu álögur á neytendur færir fjármagnseigendum um 600 milljónir vegna hækkunar verðtryggðra lána. Skattahækkunin er því tvöfalt högg á neytendur. Í fyrsta lagi hækkar bensín og í öðru lagi húsnæðislán. 

Af þessum aukna gróða fjármagnseigenda 600 milljónir tekur ríkið 120 milljónir til sín í fjármagnstekjuskatt. Þokkaleg búbót það fyrir ríki og fjármagnseigendur.  

Með þessu er líka hlaðið í veðbólgubálköstin sem mun loga betur á þessu ári en síðustu ár vegna skatta- og eyðslustefnu ríkisstjórnarinnar. 

Við afgreiðslu eyðslufjárlaganna vildi stjórnarandstaðan hækka útgjöld og álögur en þá meir.  Hugtök eins og ráðdeild og sparnaður eiga ekki við í stjórnmálaheiminum og virðing fyrir skattgreiðendum og neytendum  er takmörkuð eða engin. 


Öryggi borgara í hættu vegna innflytjenda.

Eitt af því sem stjórn Angelu Merkel hefur reynt að gera frá því að hún tók þá ákvörðun að opna landamæri Evrópuríkja fyrir hælisleitendum - er að kæfa niður umræðu um afleiðingar þeirrar glórulausu ákvörðunar.

Samt sem áður hafa komið fréttir, sem sýna fram á að afleiðingar af óheillastefnu Merkel hafa leitt til þess að borgararnir eru í meiri hættu en áður. Svo alvarlegt er ástandið sem má ekki tala um, að gera þurfti sérstakar girðingar fyrir konur í Berlín til að þær gætu leitað þar skjóls vegna hættu á að þeim yrði nauðgað við hátíðarhöld á gamlárskvöld. 

Nú hefur verið birt fyrsta hlutlausa könnunin um aukningu glæpatíðni frá því að stefna Merkel í málefnum "hælisleitenda" náði fram að ganga. 

Niðurstaðan er sú að veruleg aukning varð á ofbeldisglæpum á árunum 2014-2016 í ríkinu Neðara Saxlandi þar sem könnunin var framkvæmd og hún talin marktæk fyrir Þýskaland í heild. Í frétt dagblaðsins Daily Telegraph af könnuninni segir að aukningin sé afleiðing af stefnu Angelu Merkel um að opna landamærin fyrir svonefndum flóttamönnum og hælisleitendur báru ábyrgð á 92% af aukningu ofbeldisglæpa eða nánast allri aukningunni. 

Athyglisverð er mjög há tíðni ofbeldisglæpa hælisleitenda frá Norðanverðri Afríku (Túnis, Marokkó, Alsír). Það er líka athyglisvert að ofbeldisglæpirnir beinast að stórum hluta að öðrum hælisleitendum. Samt sem áður veldur stefna Merkel því að almenningur í Þýskalandi er í auknum mæli þolendur ofbeldis.

Þetta eru staðreyndir sem allar ríkisstjórnir ættu að gaumgæfa. Ríkisstjórn Íslands hefur í raun tekið upp stefnu Angelu Merkel um nánast opin landamæri. Slík stefna hefur hvarvetna bitnað á borgurum þeirra landa sem henni fylgja. 

Ástæða er til að skora á ríkisstjórnina að taka þessi mál til málefnalegrar umræðu með hag þeirra sem búa í landinu fyrst og fremst að leiðarljósi og gaumgæfa hvort ekki sé betra að taka upp sömu stefnu í málefnum útlendinga og ríkisstjórn Sebastian Kurz í Austurríki hefur tekið upp. 

Komi til þess að ríkisstjórnin láti þessi mál reka á reiðanum eins og verið hefur þá lendum við fljótlega í verri vandamálum vegna hælisleitenda en Svíar, Norðmenn, Danir og Þjóðverjar vegna fámennis íslensku þjóðarinnar.

Fróðlegt að vita hvort ráðherrar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins vilja fljóta áfram sofandi að feigðarósi í faðmi Vinstri grænna í þessum málum.


2018

Árið 2018 gæti orðið ár sem fleytir okkur enn lengra áfram til betri lífskjara, aukins jöfnuðar og meiri velsældar. Það er undir okkur komið. Gæfan er fallvölt og oftast getum við sjálfum okkur um kennt hvort við göngum til góðs eða ills. 

Mesta áskorunin sem þjóðin stendur frammi fyrir  er hvernig tekst til með samninga um kaup og kjör. Miklar launahækkanir munu óhjákvæmilega leiða til verðhækkana, fallandi gengis og verðbólgu. Samt er skiljanlegt, að launafólk sæki kjarabætur og telji að ekki sé síður svigrúm fyrir hinn vinnandi mann að sækja kauphækkanir, en yfirstéttir þjóðfélagsins sem fá kaup og kjör ákvörðuð af Kjaradómi. 

Viðmiðun og verklag Kjaradóms skv. lögum um þann dóm, er með þeim hætti að aðalsstéttir þjóðfélagsins hafa fengið kjarabætur umfram aðra. Sú staðreynd hefur ekki leitt til þess að þingmenn hafi fundið sig knúna til að gera breytingar - heldur una glaðir við sitt þó þeir hafi á orði sumir hverjir að niðurstaða Kjaradóms sé umfram allt velsæmi. 

Niðurstaða Kjaradóms um kjör íslenskra aðalsstétta er umfram allt velsæmi. Ákvörðun um kjör Biskups Íslands er afleitt við upphaf kjaraviðræðna. Orð fjármálaráðherra. að ekki sé svigrúm til almennra kauphækkana þó sönn séu hafa því holan hljóm. 

Þrátt fyrir bábiljur og svartsýni sem m.a. kemur fram hjá framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna þá hefur liðið ár fært þjóðum heims aukna velsæld og dregið hefur úr fátækt milljóna.

Við vorum svo lánsömu að á sama tíma og alvarleg efnahagslægð reið yfir vegna óráðssíu og sóunar ásamt falls stærstu viðskiptabankanna að þá fengum við happdrættisvinninga. Fyrst makríl og síðan ofurferðamannastraum sem hefur skipt sköpum til að skapa fulla atvinnu og velmegun í landinu. Sá ávinningur gæti tapast fyrir aðgerðir okkar sjálfra. 

Þjóðina þarf að gæta þessa ávinnings og varðveita vel þá auknu fjármuni sem skila sér vegna þessa inn í þjóðarbúið, í stað þess að eyða þeim strax og jafnvel gott betur. 

Ríkisstjórnin hefur farið fram með glannalegum hætti við afgreiðslu fjárlaga og aukið ríkisútgjöld umfram það sem  skynsamlegt getur talist. Milljörðum er varið til ákveðinna málaflokka án eðlilegrar skoðunar og stefnumörkunar. 

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur nýtur mikils fylgis og er það að vonum þar sem mikil velsæld er í landinu. Stjórnarandstaðan hefur ekki gert annað en staðið í yfirboðum og krafist aukinna útgjalda eins og endalaust megi seilast dýpra í vasa skattgreiðenda, að vísu með einni undantekningu. 

Sjálfstæðisflokkurinn samdi pólitískt af sér við myndun ríkisstjórnarinnar og stendur nú að aðgerðum sem rýra möguleika einyrkja í atvinnurekstri og lítilla fyrirtækja til arðsköpunar og veldur aðstöðumun. Þar verður að verða stefnubreyting. 

Ríkisstjórnin hefur meiri möguleika en nokkur ríkisstjórn frá hruni til að standa að nauðsynlegum grundvallarbreytingum í þjóðfélaginu. Gæta þarf fengins fjár og stuðla að aukinni velsæld og stöðugleika í þjóðfélaginu. Forsendur þess að það takist eru m.a.,að skapa sátt á vinnumarkaði og fulla atvinnu. Tryggja jöfnuð í samfélaginu en síðast en ekki síst að vinna að því með markvissum hætti að draga úr skattheimtu bæði á launafólk og smáatvinnurekendur.

Allir eiga að sitja við sama borð óháð því hvaða atvinnurekstur þeir stunda m.a um greiðslu virðisaukaskatts.

Losa verður einstaklinga úr þeim ofurskattafjötrum sem hefur girt fyrir möguleika til eignamyndunar og sparnaðar.

Draga verður úr ofurvaldi lífeyrissjóða og heimila einstaklingunum að velja sparnaðarleiðir m.a. með því að leggja lífeyrissparnað í eignamyndun eins og eigið húsnæði í stað þess að greiða til lífeyrissjóða og þurfa síðan að taka okurlán hjá lífeyrissjóðnum. Það fyrirkomulag er hrein svívirða og hættulegt samfélagi sem vill vinna að velferð fyrir alla.


Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 9
  • Sl. sólarhring: 125
  • Sl. viku: 4599
  • Frá upphafi: 2267743

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 4247
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband