Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Svar þitt skal vera já já og nei nei.

Þegar Ólafur Jóhannesson var formaður Framsóknarflokksins þá var eitt sinn vísað til þeirrar þekktu setningar í Biblíunni að "svar þitt skal vera já já og nei nei" Þannig þótti Framsóknarflokkurinn fara þá og svo virðist sem flokkurinn hafi nú gengið í endurnýjun lífdaga með afturhvarfi til fortíðar.

Í viðtali í Morgunblaðinu í dag lýsir nýkjörinn formaður Framsóknarflokksins skoðunum sínum með einkar fróðlegum Framsóknarhætti. Hann vill bæði semja um Icesave skuldbindingarnar og ekki semja um þær. Ég velti því fyrir mér hvort formaður Framsóknarflokksins viti ekki hver afstaða Framsóknarflokksins var til þessa máls þegar þingsályktunartillaga þess efnis var afgreidd á Alþingi.  Miðað við afstöðu þingmanna flokksins í málinu liggur þá ekki afstaða Framsóknarflokksins ljós fyrir?

Um hugsanlega minnihlutastjórn segir hann að þar eigi að fara ríkisstjórn sem sitji sem allra skemmstan tíma og umboð stjórnarinnar mjög takmarkað. Á sama tíma bendir formaður Framsóknarflokksins réttilega á mikinn  vanda fjölskyldna og fyrirtækja í landinu sem brýn nauðsyn sé að leysa sem fyrst. 

Mér er það satt að segja nokkur ráðgáta hvernig ríkisstjórn sem á að hafa takmarkað umboð og sitja í sem skemmstan tíma á að geta gert eitthvað sem máli skiptir varðandi þau aðkallandi vandamál sem við er að glíma og formaður Framsóknarflokksins bendir réttilega á. 

Nýkjörinn formaður Framsóknarflokksins ber mikla ábyrgð á því hvernig mál hafa þróast. Hann gaf þá yfirlýsingu fyrir lögnu að Framsóknarflokkurinn mundi verja minnihlutastjórn Vinstri Grænna og Samfylkingarinnar falli. Þess vegna fóru  málin í þennan farveg.

En Sigmundur Davíð er greinilega nokkuð snjall samningamaður því að þegar hann var búinn að trylla VG og Samfylkingu í stjórnarmyndunarviðræður þá segir  hann aftur og aftur já en og já en, bara ef þið gerið þetta.  

Raunar er þessi afstaða hans og Framsóknarflokksins ekki dæmi um hið nýja Ísland sem þeir tala um heldur það gamla. Þann hráskinnaleik og sérgæsku sem hefur valdið því að fólk hefur ekki viljað styðja við Framsóknarflokkinn.

Formaður Framsóknarflokksins virðist ekki átta sig á að við erum á ögurstundum í íslensku samfélagi og það liggur á að starfhæf ríkisstjórn verði mynduð til að taka á þeim bráðavanda sem við er að glíma ekki til eins mánaðar eða tveggja heldur til lengri tíma. Ríkisstjórn sem ætlar sér að sitja í 2 til 3 mánuði ætlar sér ekki og getur ekki markað afgerandi spor svo sem nauðsyn ber til.  Ég fæ ekki betur séð en þetta hafi átt að vera hundrað daga gleðistjórn til að tryggja stjórnarflokkunum fylgi við kosningar en taka verði á vandamálunum eftir það.

Ríkisstjórn sem treystir sér ekki og mun ekki hafa með ný fjárlög að gera og nauðsynlegar aðgerðir í ríkisrekstrinum er ekki að marka neina sérstaka stefnu til frambúðar.  Vandi heimilanna og fyrirtækjanna er meiri en svo að það sé hægt að sætta sig við svona ruglanda í stjórnmálum.

For


mbl.is Stjórn mynduð í dag eða á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnarkreppa og gengi krónunnar hækkar.

stjornarsattmalinnÞegar ríkisstjórn segir af sér og stjórnarkreppa er í landi þá hefur það venjulega í för með sér að gengi gjaldmiðils landsins fellur. En ekki hér.  Þingvallastjórn Geirs og Ingibjargar féll og frá þeim tíma hefur krónan verið að styrkjast.

Var gengi og traust á Þingvallastjórninni ef til vill svo rýrt að markaðurinn telji stjórnarkreppu betri  en Þingvallastjórnina?


Klappstýra vinstri stjórnar.

olafurragnarForseti lýðveldisins hefur tekið að sér nýtt hlutverk. Hann er ekki lengur klappstýra útrásarinnar og ferðast ekki lengur með einkaþotum útrásarvíkinga eða situr boð þeirra á dýrustu veitingastöðum veraldar eða býður þeim í dýrðleg boð á Bessastöðum.

Nú hefur forsetinn tekið að sér að vera klappstýra nýrrar vinstri stjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og notar tækifærið í leiðinni til að koma að vægast sagt umdeildum lögskýringum á ýmsum ákvæðum stjórnarskrárinnar sem snertir valdsvið forseta og ríkisstjórnar.

Mér finnst einnig vægast sagt undarlegt að forsetinn skuli tjá sig með þeim hætti sem hann hefur gert um væntanlegar viðræður Samfylkingar og VG og hverjir muni styðja þá stjórn. Ég minnist þess ekki að fyrri forsetar hafi nokkru sinni blandað sér með sama hætti í þjóðmálaumræðuna eins og Ólafur Ragnar Grímsson.

Því miður þá ákvað forsetinn að fara þessa leið og fela fyrrum flokkssystkinum sínum að bræða sig saman í stað þess að láta á það reyna hvort hægt væri að koma á ábyrgri stjórn allra flokka til að leiða þjóðina áfram og út úr vandanum.

Þó að fráfarandi ríkisstjórn hafi vissulega verið vandræðastjórn þá er hætt við hér verði illa tjaldað til fárra nátta.


Þjóðstjórn ábyrgasti valkosturinn.

Íslendingar standa frammi fyrir alvarlegum aðstæðum í þjóðlífinu. Efnahagshrunið í október kallaði á margháttaðar aðgerðir. Fráfarandi ríkisstjórn brást seint og illa við. M.a. gat Þingvallastjórnin ekki komið saman skammlausum fjárlögum. Gríðarlegur halli kallar á harðari aðgerðir í ríkisfjármálum á næsta ári.

Bráðavandinn sem við stöndum frammi fyrir er þríþættur. 

 Bregðast verður við vanda atvinnufyrirtækjanna til að eðlilegt atvinnulíf haldist í landinu.

Bregðast verður við vanda fjölskyldnanna í landinu vegna óeðlilegra lánakjara á einstaklinga.

Tryggja verður eðlileg viðskipti við útlönd.

Því miður gafst Þingvallastjórnin upp við að koma þessum verkefnum í höfn.

Yrði mynduð þjóðstjórn þá getur einn flokkur ekki sett þau skilyrði að hann leiði ríkisstjórnarsamstarfið.  Ná verður samkomulagi um það sem þjóðstjórnin mun vinna að og þau verkefni sem hún þarf að leysa.

Ástandið er það grafalvarlegt að það er ábyrgðarhluti að alþingismenn skuli ekki átta sig á því að það verður að leggja flokkshagsmuni til hliðar og hugsa eingöngu um hagsmuni íslensku þjóðarinnar til að koma í veg fyrir að sá bráðavandi sem fyrir er leiði til nýs hruns með enn alvarlegri afleiðingum.

Svo virðist því miður  sem forseti lýðveldisins skynji ekki  mikilvægi þess að víðtæk samstaða náist um stjórnun landsins og tekist verði strax á við þau vandamál sem við er að etja en skjóta þeim ekki á frest.

Ég verð að viðurkenna það að ég hef sjaldan haft eins miklar áhyggjur af möguleikum og framtíð þjóðarinnar en nú og það er okkur að kenna.   Við alþingismenn, fráfarandi ríkisstjórn og forseti lýðveldisins erum ekki að axla okkar ábyrgð meðan ekki er mynduð ríkisstjórn með víðtæku umboði sem er tilbúin til að stjórna og veit hvað á að gera.


Af hverju segir ríkisstjórnin ekki af sér?

Mér er óskiljanlegt af hverju ríkisstjórnin segir ekki af sér. Hún hefur verið lífvana undanfarna daga.

Það var efnahagshrun í byrjun október fyrir tæpum 4 mánuðum. Sömdu þau Ingibjörg og Geir ekki þá um það hvert skyldi stefna og hvað þyrfti að gera. Lá ekki ljóst fyrir að það væri ærinn vandi framundan sem taka þyrfti á?

Mér sýnast þau Geir og Ingibjörg vanhæf til að vera leiðtogar í ríkisstjórn fyrst það þarf að fara semja núna um það sem hefði átt að gera fyrir 4 mánuðum síðan.

Ríkisstjórn sem veit ekki hvert á að halda eða hvað skal gera gerir borgurum sínum þann mesta greiða að hætta og fara frá.

Satt best að segja hélt ég að Geir mundi eftir ítrekaðar ögranir Samfylkingarinnar fara að loknum fundi miðstjórnar og þingflokks Sjálfstæðisflokksins út á Bessastaði og segja af sér fyrir sína hönd og ráðuneytis síns. Það var það sem hann átti að gera í stöðunni.


mbl.is Útilokum ekki breytingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pappírsbarónarnir geta ekki gert hvað sem er.

Ég óska Vilhjálmi Bjarnasyni til hamingju með að hafa unnið málið gegn Glitni banka. Vonandi verður þessi niðurstaða staðfest í Hæstarétti.  Vilhjálmur á miklar þakkir skildar fyrir að gæta hagsmuna litla hluthafans. Þetta er áfangasigur og vonandi vinnur Vilhjálmur fullnaðarsigur í Hæstarétti.

Ég er  þeirrar skoðunnar að pappírsbarónarnir sem véluðu um hagsmunina hvort heldur þeir Bjarni Ármannsson eða Ólafur Ólafsson o.fl. hafi farið of frjálslega fram svo vægt sé til orða tekið. 

Hvað gera yfirvöld nú.


mbl.is Vilhjálmi dæmdar bætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kvótahafar fá 7 milljarða frá ríkinu.

Það er merkilegt að á tímum efnahagsþrenginga og niðurskurðar að þá skuli ríkisstjórnin færa kvótahöfum 7 milljarðar vegna 30 þúsund tonna viðbótarafla í þorski. Hefði ekki verið rétt að þjóðin hefði fengið allan afrakstur þessa viðbótarafla eins og nú háttar til í þjóðfélaginu? Hefði ekki verið rétt að viðbótaraflaheimildir yrðu boðnar út til hæstbjóðanda og þjóðin fengið tekjurnar?

Það er verið að loka sjúkrastofnfunum vegna fjárskorts en á sama tíma munar sjávarútvegsráðherra og ríkisstjón hans ekki um að rétta kvótahöfunum viðbótargjöf í milljörðum talið.

 Hvar var Samfylkingin þegar ákvörðun var tekin um þessa rausnarlegu gjöf til kvótahafanna.  Voru þau búin að gleyma ummælum um kvótakerfið sem stærsta rán Íslandssögunnar?

Er hægt að afsaka svona ríkisstjórn. 

Sýnir þetta dæmi ekki hversu blygðunarlaus ríkisstjórnin er í að hygla forréttindahópnum í þjóðfélaginu á kostnað okkar hinna?


Þetta gengur ekki.

Mér var brugðið þegar ég sá að ríkisbankinn Landsbankinn ætlar að henda 11 milljónum dollara eða jafnvirði 1.4 milljarða króna í Decode Genetics. Er ekki nóg komið af óeðlilegum bankaviðskiptum á Íslandi. Er ekki nóg komið af því að veita ótryggðar fyrirgreiðslur til fyrirtækja eins og Decode Genetics. Á sínum tíma m.a. vegna Davíðs Oddssonar gengust þáverandi ríkisbankar þ.á.m. Landsbankinn í  að kaupa hlutabréf í Decode og selja þau síðan aftur á allt of háu verði sem bankamenn þess tíma markaðssettu með vægast sagt óeðlilegum hætti. Nú þegar Landsbankinn er orðinn ríkisbanki aftur þá á að henda einum og hálfum milljarði til viðbótar í þetta fyrirtæki sem hefur þegar kostað okkur allt of marga milljarða.

Fyrirtæki eins og Decode á að reka á kostnað og áhættu eigenda þess en ekki íslensku þjóðarinnar.   Það hefði verið betra að hafa aðra en Davíð og Co við stjórnvölin þegar bankarnir voru einkavæddir til að sjá til þess að kapítalistarnir bæru ábyrgð á sjálfum sér, græddu á eigin verðleikum og þyrftu að þola tapið sálfir í staðinn fyrir að láta þjóðina gera það.

Mér er gjörsamlega ofboðið að nýí ríkisbankinn skuli henda einum og hálfum milljarði með þessum hætti.


mbl.is deCODE semur við Landsbanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stytta hefði átt að vera komin fyrir löngu.

Það er löngu tímabært að knattspyrnuhreyfingin sýni Albert Guðmundssyni tilhlýðilega virðingu. Þess vegna er ánægjulegt að heyra að ætlunin sé að gera styttu af þessum frábæra fótboltamanni og forustumanni knattspyrnuhreyfingarinnar um árabil.

Ég man eftir viðtali við Albert Guðmundsson þegar Ísland hafði tapað fyirr Dönum 14 gegn 2 og Albert svar spurður hvað ætti að gera.  Albert var ekki banginn en sagði það sem við eigum að gera er að við eigum að vinna okkur út úr þessu vandamáli og skoða hvað fór úrskeiðis og stilla upp sama liði fljótlega aftur því að þar eru margir miklir hæfileikamenn. Þetta er ungt lið sagði Albert og það versta sem hægt er að gera er að standa ekki við bakið á þessum strákum (Endursagt eftir minni) Fljótlega eftir þetta tók Albert við forustu í KSÍ og það var hans hlutverk að byggja upp íslenska knattspyrnu.

Það mættu margir minnast þess að það er mikilvægast að örvænta ekki þegar erfiðleikar steðja að. Þá skiptir máli að hafa örugga menn í forustu. Hvort heldur í íþróttum eða þjóðmálum.

Það er fleiri sem að mættu minnast Alberts Guðmundssonar og sýna honum verðuga virðingu.  Sjálfstæðisflokkurinn á Albert Guðmundssyni mikið að þakka þó að hann þyrfti að hrekjast burt úr flokknum vegna skammsýni þeirra sem síðan tóku við stjórn flokksins. Albert var ötull baráttumaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Albert var helsti framkvæmdamaðurinn við byggingu Sjálfstæðishússins við Háaleitisbraut og hann kom betri skipan á fjármál flokksins en áður höfðu verið. Á þeim tíma þurftu stjórnmálaflokkarnir að hafa fyrir því að safna peningum en slitu þá ekki út úr skattgreiðendum eins og núna. Sennilega hafa fáir verið eins framkvæmdasamir við að byggja upp Sjálfstæðisflokkinn eignalega og Albert Guðmundsson. Það er því kaldhæðni örlaganna að það skyldu  vera andstæðingar hans í flokknum sem nýttu sér ávexti erfiðis hans og margra fleiri.


mbl.is Stytta af Alberti rís á næsta ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Síðustu dagar Bush

Rúmur hálfur mánuður er til loka embættisferils George W. Bush jr. Bandaríkjaforseta. Hægt er að segja um hann þegar hann hættir að farið hefur fé betra.  Vegna vanstjórnar sinnar og afglapa eru Bandaríkin í vanda hvar sem litið er. Efnahagshrun, dvínandi áhrif og misheppnuð hernaðarumsvif verða þeir minnisvarðar sem Bush forseti skilur eftir sig.  Allan tímann sem hann hefur verið forseti hefur hann gefið Ísraelsmönnum grænt ljós til að fara sínu fram gagnvart Palestínumönnum.  Ef til vill eru Ísraelsmenn nú í aðdraganda kosninga hjá sér að nýta síðustu daga þessa slappa forseta til að herða tökin sem aldrei fyrr gagnvart Palestínufólki.

Það trúa því sennilega engir aðrir en þeir sem hafa komið til Ísrael hvað þeir koma illa fram við Palestínufólkið. Ég hefði ekki trúað því fyrifram að sjá annan eins valdahroka og víðtæka aðskilnaðarstefnu í verki eins og er í Ísrael. Aðskilnaðarmúrinn er gott dæmi um það að þegar einn mún ófrelsisins hrynur þá búa nýir harðstjórar til nýjan. Berlínarmúrinn féll en múrinn um þvera Palestínu til að loka Palestínufólkið annað hvort úti eða inni er nær fullger.

Mér er það óskiljanlegt afhverju lýðræðisríki Evrópu og Ameríku láta þetta gerast án þess að grípa til víðtækra aðgerða gegn Ísrael. Hvað með viðskiptabann. Slit á stjórnmálasambandi. Það er ekki hægt fyrir lýðræðisríki að horfa þegjandi upp á ítrekuð og stöðug mannréttindabrot Ísraelsmanna.

Þessi mannréttindabrot Ísrael eru ekki bara ógn við fólkið í Palestínu. Það má ekki gleymast.

Ég vona að Barack Obama verðandi forseti Bandaríkjanna sýni dug í þessu efni og láti það ekki ganga lengur að Gyðingar misbjóði mannréttindum og mannhelgi.  Fram til þess tíma tel ég niður þá daga sem Bush á eftir að gegna embætti í Hvíta Húsinu í Washington D.C.


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 19
  • Sl. sólarhring: 113
  • Sl. viku: 4609
  • Frá upphafi: 2267753

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 4254
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband