Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2021

Skiptir EES máli í íslenskri pólitík?

Birgir Örn Steingrímsson er eini frambjóðandinn í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, sem gerir valdaframsal Íslands til Evrópusambandsins að umtalsefni.  Hann hefur bent á regluverk bandalagsins, sem reynt verður að troða upp á okkur með sama hætti og þriðja Orkupakkanum, en það mun jafnvel koma í veg fyrir að við höfum sama aðgengi og í dag að alþjóðlegri fjölmiðlun. 

Birgir benti á, að nú væri spurning hvort Alþingi mundi samþykkja tilskipun Evrópusambandsins um þessi mál þegjandi og hljóðalaust og draga þar með úr frelsi borgaranna.

EES hefur tekið breytingum frá því að við gerðumst aðilar. Það sem vakti fyrir ráðamönnum við inngönguna var fyrst og fremst að Ísland yrði aðili að sameiginlegum markaði Evrópu. Önnur atriði fylgdu. Í sumum tilvikum gerðu íslendingar fyrirvara, en þeir hafa ekki haft neina þýðingu vegna slappleika okkar. 

Það var aldrei vilji þjóðarinnar, að þvingað yrði upp á Ísland margvíslegum reglum af hálfu Evrópusambandsins, sem íslenski löggjafinn mundi síðan kokgleypa án athugasemda og helstu stjórnmálamenn þjóðarinnar yppta öxlum og segja við þessu verður ekkert gert Evrópusambandið ræður þessu. 

En það er ekki svo. Við afsöluðum ekki löggjafarvaldinu algjörlega við inngöngu í EES eins og raunar annar frambjóðandi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins, Arnar Þór Jónsson héraðsdómari,sem er í framboði í SV kjördæmi, hefur bent skilmerkilega á í frábærum greinum í Morgunblaðinu undanfarin misseri. 

Þeir Birgir og Arnar láta sér annt um fullveldi þjóðarinnar og hafna því,að valdaframsalið til Brussel með EES samningnum sé algjört. 

Stöðugar kröfur valdsherrana í Brussel til Íslands um að lúta þeim í einu og öllu sýnir, að nauðsynlegt er að spyrna við fótum og gera kröfu um endurskoðun EES samningsins með það að markmiði, að tryggja fullveldi Íslands svo sem kostur er.

Birgir Örn Steingrímsson á þakkir skildar fyrir að benda á nauðsynlegar staðreyndir varðandi ofurvald Evrópusambandsins. Í prófkjörinu. Hann er ekki með kosningaskifstofu eða dýrar auglýsingar. Hann er hugsjónamaður, sem gefur kost á sér til að koma á framfæri sjónarmiðum, sem varða heill og sjálfstæði Íslands. Fyrir það á hann skilið stuðning þeirra, sem sætta sig ekki við að Evrópusambandið troði öllum sínum tilskipunum upp á okkur án þess að ráðamenn þjóðarinnar spyrni við fótum.  


Hvað börnin mega vita

Væntanlegur forustumaður Kristilegra demókrata stærsta stjórnmálaflokks Þýskalands, Armin Lanchet, hefur verið beraður af því að gefa Íslömskum, tyrkneskum harðlínutrúarbragðasamtökum kost á því að ráða hvað fái að standa í skólabókum sem kenndar eru í Þýskalandi og hvað ekki. Allt er þetta gert hjá Lanchet til að fá stuðning tyrkneska minnihlutans við flokk sinn. 

Þetta er raunar það, sem svonefndir öfgahægri menn og þjóðernispópúlistar hafa bent á að mundi gerast í kjölfar innflytjendastefnu Angelu Merkel og félaga.

Það er dapurlegt til þess að vita, að ekki megi kenna þýskum skólabörnum annað en það sem fær náð hjá þröngsýnum íslömskum trúarsamtökum, sem byggja heimsýn sína á miðaldahugmyndafræði Íslam. 

Með sama áframhaldi mun þetta líka gerast hér þegar skammsýnir, hugsjónalausir, stjórnmálamenn reyna að vinna stuðning fyrir einmenningu og miðaldasýn Íslam, þegar atkvæðastyrkur þeirra gefur hugsjónalausu valdastreitufólki tilefni til. 

Það er e.t.v. ekki skrýtið að nú skuli AfD (Alternative für Deutschland) sem er talinn yst á hægri vængnum og mótmælir stefnu Merkel í innflytjendamálum mælast stærsti flokkurinn í komandi sveitarstjórnarkosningum þ. 3. júní n.k.

En er ekki ráð að við byrgjum brunninn áður en það verður of seint?

 

 


Raunir Sviss í samningum við Evrópusambandið.

Viðskiptaritstjóri breska stórblaðsins Daily Telegraph skrifar grein í blaðið í dag undir heitinu "Switserlands ordeal ends all doubts: the EU poisons relation with every neighbour."

Í greininni rekur hann hvernig samningamenn Evrópusambandins hafi gengið gjörsamlega fram af Svisslendingum og sjö ára samningaferli hafi nú verið slitið. Svisslendingar halda því fram,að ráðamenn í Brussel hafi viljað koma þeim bakdyramegin inn í EES, en það segja þeir að sé of mikið valdaframsal varðandi m.a. löggjöf, skattheimtu, heilsuvernd og málefnum innflytjenda og hælisleitenda auk annars. 

Svisslendingar eru ekki tilbúnir að kalla það ok og afsal fullveldis yfir sig og hafa því sagt sig frá samningum við Evrópusambandið þrátt fyrir hótanir Evrópusambandsins um aðgerðir gagnvart Sviss. Stuðningur við aðild Sviss að Evrópusambandinu er nú 10% en var um og yfir 50% þegar best lét á árum áður. 

Í greininni er líka fjallað lítillega um frekju og yfirgang Evrópusambandsins í orkumálum gagnvart Noregi, en það sama á við um okkur og kröfur um frekara framsal valds í þeim málum af hálfu Norðmanna og það sama á þá við um okkur. 

Eigum við ekki að láta staðar numið og taka upp viðræður við Noreg um gagngerar breytingar á EES samningnum, sem var gerður við allt aðrar aðstæður en nú er uppi og vera reiðubúnir til að yfirgefa þann samning taki Evrópusambandið ekki sönsum og virði og viðurkenni fullveldi okkar í löggjafarmálum sem og öðrum málum en þeim sem sérstaklega kann að vera samið um. 

Íslenskir ráðamenn geta ekki látið sem allt sé í lagi í þessum málum og EES samningurinn sé enn réttlætanlegur óbreyttur og þjóni hagsmunum íslensku þjóðarinnar.   


Engin er öruggur í prófkjöri

Fyrir nokkrum áratugum birti frambjóðandi í prófkjöri aulýsingu sem sagði; "Engin er öruggur í prófkjöri." Sá frambjóðandi naut mikilla vinsælda, en það hafði verið hljótt um hann um stund. Auglýsingin vakti þá athygli sem henni var ætlað og frambjóðandinn fékk mjög góða kosningu.

Ásmundur Friðriksson þingmaður og frambjóðandi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi er maður, sem hefur ekki gengist fyrir víðtækum auglýsingum í þessum kosningum eða auglýsingum almennt á sjálfum sér eða störfum sínum. Hann er hógvær maður og jafnvel þó að mörgum hafi þótt eðlilegt að hann mundi sækjast eftir forustusætinu á lista flokksins, vegna starfa sinna,lýðhylli og skoðana sem eiga á stundum ekki upp á pallborðið hjá forustunni. Þrátt fyrir það sýnir Ásmundur þá hógværð, að fara einungis fram á það við kjósendur, að þeir kjósi hann í annað sætið. 

Ásmundur hefur ákveðnar skoðanir og stendur við skoðanir sínar og flytur mál sitt af festu og byggir á þeim grunngildum sem Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður til að berjast fyrir.

Hann hefur vakið athygli fyrir að hafna því að Evrópusamandið geti tekið íslenska löggjöf í fangið og víkja með því til hliðar fullveldi þjóðarinnar. Þá hefur hann einn af fáum þorað að standa upp og andmæla lýðhyggju stjórnmálastéttarinnar og tilraunum til að flytja inn sem flesta svonefnda hælisleitendur á kostnað skattgreiðenda auk þess, sem hann hefur gerst talsmaður fyrir ákveðnum jákvæðum breytingum varðandi stjórn og skipulag fiskveiða.

Vegna málefnabaráttu sinnar á Ásmundur skilið að fá góðan stuðning. En hann lætur það ekki nægja heldur er mikilvirkur í að vera í góðu sambandi við kjósendur sína og skoða mál þeirra sem til hans leita og reyna að veita þeim úrlausn. Að því leyti minnir hann um margt á góða þingmenn frá síðari hluta síðustu aldar á meðan allt of margir þingmenn í dag njóta þess eftir kosningar að koma sér vel fyrir í værðarvoðum þess umbúnaðar sem þingmönnum er boðið upp á í dag og minnast kjósenda sinna síðan nokkrum vikum eða mánuðum fyrir kjördag.  

Það eru hagsmunir Sjálfstæðisflokksins,að Ásmundur fái góðan stuðning í þessu prófkjöri. Slíkur stuðningur er ekki bara stuðningur við hann  sem einstakling í vinsældakosningu heldur miklu frekar stuðninur við þær skoðanir og málefni sem hann stendur fyrir. 

Kjósendur verða alltaf að muna, að það er engin öruggur í prófkjöri og þeir verða að kjósa þá fulltrúa sem þeir treysta best til að sjá um sín mál á næsta kjörtímabili.


Ralph Nader

Ralph Nader var þekktasti talsmaður neytenda um árabil í Bandaríkjunum og öðlaðist heimsfrægð. Hann varð þekktur þegar hann gagnrýndi bandaríska bílaiðnaðinn fyrir að sinna ekki öryggismálum. Í framhaldi af því skrifaði hann bókina "Unsafe at any speed".(óörugg á hvaða hraða sem er) um bifreið af tegundinni Corvair, sem General Motors framleiddi.

Viðbrögð General Motors þá stærsta fyrirtækis Bandaríkjanna, var ekki að bregðast við gagnrýninni og lagfæra galla í framleiðslu sinni heldur að veitast persónulega að Ralph Nader til að reyna að gera hann ómerkan.

Öldungardeildarþingmaðurinn Abe Ribicoff tók málið upp að höfðu samráði við Nader og málið var rannsakað og þá kom í ljós, að General Motors hafði ráðið einkaspæjara til að afla neikvæðra upplýsinga um Nader til að gera hann tortryggilegan, en ekki nóg með það þeir höfðu leigt vændiskonur til að leggja snörur fyrir Nader og honum var veitt eftirför. Allt var gert til að reyna að finna eitthvað neikvætt um Nader í stað þess að svara gagnrýninni. 

Málið endaði með þeim hætti, að General Motors var dæmt til að greiða Ralph Nader 425.000 dollara vegna brots á friðhelgi einkalífs og fleira. Nokkru síðar afgreiddi Bandaríkjaþing lög sem gerði kröfur til aukins öryggis í bandarískri bílaframleiðslu.

Þetta er rifjað upp hér af gefnu tilefni. Það er ekki ásættanlegt að stórfyrirtæki reyni að svara gagnrýni með að gera lítið úr eða veitast að gagnrýnandanum persónulega og brjóta gegn friðhelgi einkalífs hans.

Mér er ekki kunnugt um að nokkur þingmaður  á Bandaríkjaþingi hafi treyst sér til að verja þessar löglausu aðfarir General Motors gegn Ralph Nader á sínum tíma. 

Á sama tíma og gæta verður þeirrar meginreglu, að enginn sé sekur fyrr en sekt hans er sönnuð, þá er að sama skapi óafsakanlegt að vega að friðhelgi einkalífs einstaklinga, sem setja fram gagnrýni, jafnvel þó hún sé röng. Það eru með öllu óásættanlegar aðfarir hver eða hverjir svo sem í hlut eiga.

 


Sigríður brást ekki.

Ríkisvaldið lætur engan fá peninga nema með því að taka þá frá öðrum. Það er sú ófrávíkjanlega staðreynd, sem ætti öllum að vera ljóst.

Með því að auka millifærslur deilir ríkið út meiri peningum til sumra, sem það tekur frá öðrum. Um leið er verið að taka frelsi af fólki til að hafa sjálft ákvörðunarvald um, hvernig það vill eyða peningunum sínum.

Meðan Kóvíd hefur lamað þjóðfélagið virðist, sem ráðamenn hafi gjörsamlega misst tengslin við fjárhagslegan raunveruleika og talið að þar sem hvort sem er væri verið að eyða um efni fram, þá munaði ekkert um milljarð í viðbót í þetta eða hitt,sem ekki verður með nokkru móti tengt Kóvíd.

Þó talað sé um að þetta verði auðvelt að leysa þegar Kóvíd fer og ferðamenn flykkjast á nýjan leik til landsins, þá gleymist, að árið fyrir Kóvíd,var ríkissjóður ekki sjálfbær.

Nú hefur menntamálaráðherra Framsóknarflokksins, Lilja Alfreðsdóttir, knúið fram í algjöru ábyrgðarleysi sérstakan stuðning við einkafyrirtæki, sem reka fjölmiðla. Helstu fyrirtækin sem gera það eru í eigu auðmanna. Það skiptir e.t.v. ekki máli, en er það ekki og á það ekki að vera aðalsmerki einkareksturs, að hann sé rekinn á áhættu þeirra sem reksturinn eiga og þeir njóti síðan ágóðans. Eða á það að vera þannig, að skattgreiðendur greiði og síðan njóti eigendurnir ágóðans. Þá er forsenda samkeppnisrekstrar orðin ansi veik.

Nú hefði maður ætlað,að þingmenn stjórnmálaflokka,sem berjast fyrir einstaklingsfrelsi og takmörkuðum ríkisumsvifum hefðu greitt atkvæði gegn því að taka peninga frá skattgreiðendum til að borga til fjölmiðla,sem almenningur hefur jafnvel engan áhuga á. En nei. Aðeins einn þingmaður stóð sig þegar kom að atkvæðagreiðslunni Sigríður Andersen þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi ráðherra.

Sigríður Andersen á heiður skilið fyrir það að vera enn í hugmyndafræðilegum tengslum við það sem Sjálfstæðisflokkurinn á að standa fyrir. En það er synd, að hún skyldi vera sú eina.


Aðför að tjáningarfrelsi og lýðræðishugsjóninni

Stjórnvöld í Hvíta-Rússlandi þvinguðu flugvél Ryanair á alþjóðlegri flugleið til að lenda í Minsk. Ástæðan var, að ná til 26 ára frétta- og andófsmanns Roman Protasevich 

Protasevich flúði frá Hvíta-Rússlandi 2019 og fór til Póllands, þar stofnaði hann útvarpsstöðina Nexta, sem er með meira en 2 milljónir áskrifenda. Í mótmælunum í fyrra gegndi Nexta miklu hlutverki í því að miðla upplýsingum. Þess vegna þarf að þagga niður í honum. 

Protasevich sótti um hæli í Póllandi árið 2020 en skömmu síðar ásökuðu kommúnistarnir sem stjórna Hvíta-Rússlandi hann um að raska almannafriði, lögum og reglu. Við því liggur allt að 12 ára fangelsi þar í landi. 

Einræðis- og ógnarstjórnir vita, að stjórnmálamenn á Vesturlöndum eru pappírstígrisdýr þegar kemur að því að standa vörð um mikilvæg mannréttindi sem skipta miklu í lýðræðisríki.

Í Tyrklandi situr Erdogan, sem hefur fangelsað hundruði blaða- og fréttamanna auk fjölda annarra vegna álíka atriða og Protasevich er gefið að sök. Samt gera Vesturlönd allt fyrir Erdogan. Hann er í NATO og Evrópusambandið vill fá hann inn.

Það kom því vel á vondan þ.e. Erdogan, þegar æðstu stjórnvöld í Saudi Arabíu myrtu blaðamanninn Yamal Khashoggi í ræðismannsskrifstofu Sáda í Istanbul í október 2018. 

Viðbrögð Vesturlanda við þessum bolabrögðum Tyrkja og Sáda gegn tjáningarfrelsi og lýðræði eru nánast engin. Eðlilega telur einræðisherrann í Hvíta Rússlandi, Lúkjasjenkó, að hann komist upp með það sama og Tyrkir og Sádar.

Vesturlönd brugðust þegar fyrst reyndi á gagnvart þursaríkjum. Það var þegar Khomeni þá einræðisherra í Íran, kvað upp líflátsdóm yfir Salman Rushdie rithöfundi í Bretlandi í febrúar 1989. Salman Rushdie hefur verið í felum undir lögregluvernd síðan þá. 

Þursarnir vita vel, að þeir geta farið sínu fram gegn lýðræði og mannréttindum. Vesturlönd munu láta í sér heyra, en síðan fjarar það út, en er ekki kominn tími til að taka á þeim öllum og móta sameiginlega stefnu gegn þursaríkjunum, sem virða engar lýðræðislegar leikreglur í samskiptum við eigin borgara?

 


Gleymda stríðið

Fjölmiðlar í okkar heimshluta sem og stjórnmálamenn hafa vart mátt vatni halda yfir viðbrögðum Ísraelsmanna við árásum Hamas liða á Ísraelska borgara. Á sama tíma er stríð í gangi, mun alvarlegra og kostar margfalt fleiri mannslíf. En því hafa íslenskir fjölmiðlar algerlega gleymt.

Sex mánuðir eru liðnir frá innrás Eþíópíuhers inn á land Tigray fólksins í Eþíópíu með stuðningi hers Eritreu. Forsætisráðherra Eþíópíu Abiy Ahmed friðarverðlaunahafi Nóbels,vílar ekki fyrir sér, að ráðast gegn þjóðarbroti Tigray í landinu. 

Sagt er að tugir þúsunda hafi fallið og mun fleiri flúið til nágrannaríkisins Kenýa. 

Auk þess að drepa tugi þúsunda eru heilu þorpin brennd, konum nauðgað kerfisbundið og grunur leikur á að óleyfileg efnavopn séu notuð gegn þjóðarbroti Tigray í Eþíópíu.

Hvað veldur því að þetta hroðalega stríð fer framhjá fjölmiðlum að mestu og hvernig stendur á því að alþjóðasamfélagið lætur þetta viðgangast. Af hverju er ekki kallað eftir fundum í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og afhverju er Bandaríkjaforseti ekki krafinn um aðgerðir og afstöðu eins og þegar Hamas liðar eiga í hlut. Eða þá Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Því miður sýnir þetta þá dapurlegu staðreynd hvar nútíma fjölmiðlun er stödd og hversu sér pólitísk hún er. Auk þess sýnir hún þá dapurlegu staðreynd, að alþjóðasamfélagið bregst ekki við og kemur ekki til varnar fólki í brýnni neyð eins og Tigray fólkinu í þessu tilviki, þegar engin telur sig eiga hagsmuni að gæta. 

En ástandið er eftir sem áður dapurlegt og óafsakanlegt og heimurinn getur ekki horft á þetta þjóðarmorð á Tigray þjóðinni lengur án þess að stöðva þjóðarmorðið, beitingu efnavopna og aðra stríðsglæpi, sem framin eru í tilraun friðaraverðlaunahafans til að eyða Tigray þjóðinni í Eþíópíu.

Ég vænti þess af utanríkisráðherra og ríkisstjórninni að þetta mál verði tekið upp strax. Það hefur ekki þolað bið í hartnær hálft ár.


Fáir njóta eldanna sem fyrstir kveikja þá

Þá liggur það fyrir, að Viðreisn hafnar stofnanda sínum og ekki í fyrsta skipti sem skepnan rís gegn skapara sínum, en það hefur raunar aldrei reynst farsælt.

Það sannast hér hið fornkveðna,

að fáir njóta eldanna, sem fyrstir kveikja þá og 

byltingin étur börnin sín.


mbl.is Benedikt boðið neðsta sæti á lista Viðreisnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju?

Í lok glæsilegs fundar Norðurskautsráðsins átti Sergei Lavrov utanríkisráðherra Rússlands viðtal við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra Íslands. Lavrov innti forsætisráðherra eftir því hvort ekki væri rétt, að þjóðirnar tækju upp eðlileg samskipti og Íslendingar hættu "refsiaðgerðum" gegn Rússum með því að leggja bann á ákveðin viðskipti. Forsætisráðherra svaraði hvatvíst að bragði að það kæmi ekki til greina.

Af hverju ekki?

Hvaða tilgangi þjóna þessar refsiaðgerðir? Hvaða markmiði eiga þær að ná? Svörin eru einföld. Þessar refsiaðgerðir þjóna engum tilgangi og þær eiga að ná því markmiði að Rússar skili Krímskaga til Úkraínu, sem allir vita að þeir munu aldrei gera. Er það þá vilji íslenskra stjórnvalda að troða endalaust illsakir við Rússa í algjöru tilgangsleysi og til milljarða tjóns fyrir framleiðendur vítt og breytt um landið. 

Í lok fyrri heimstyrjaldar lagði þáverandi Bandaríkjaforseti Woodrow Wilson fram skynsamlega tillögu  á Versalaráðstefnunni 1919, sem náði að hluta fram að ganga og leiddi m.a. til þess að fólk í Slesvík fékk að kjósa um það hvort það vildi tilheyra Þýskalandi eða Danmörku. Farið var eftir niðurstöðunni og landamæri Þýskalands og Danmerkur grundvölluð á vilja fólksins hvað þetta varðar. 

Á Krímskaga fór líka fram þjóðaratkvæðagreiðsla um  það hvort fólkið þar vildi vera í Rússlandi eða Úkraínu. Niðurstaðan var afgerandi fólkið á skaganum vildi tilheyra Rússlandi. Enginn hefur mótmælt niðurstöðu þessarar atkvæðagreiðslu Krímverja með haldbærum rökum. Af hverju unum við því ekki að sama gildi um Krímverja og íbúa Slésvíkur?

Við megum ekki gleyma því að samskipti okkar við Rússa hafa alltaf gengið vel m.a. á tímum kalda stríðsins og íslensk stjórnvöld áttuðu sig á hagsmunum Íslands á tímum kalda stríðsins og héldu góðum samskiptum við Sovétríkin, en það kom í veg fyrir að Bretar gætu farið sínu fram og kúgað Ísland til hlýðni í landhelgisdeilum þjóðanna.

Forsætisráðherra hefur ekki fært nein skynsamleg rök fyrir áframhaldandi viðskiptastríði við Rússa. En ef við erum svona heilög í utanríkispólitíkinni af hverju eigum við þá viðskipti við Kínverja og Tyrki.

Þess verður að krefjast að stjórnarstefna í viðskiptum við aðrar þjóðir stjórnist af skynsemi en ekki glórulausu rugli.


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 20
  • Sl. sólarhring: 113
  • Sl. viku: 4610
  • Frá upphafi: 2267754

Annað

  • Innlit í dag: 16
  • Innlit sl. viku: 4255
  • Gestir í dag: 16
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband