Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2009

Grýla og þjóðkirkjan

Það er skondin frétt í Morgunblaðinu sem segir frá því að Grýla og Skyrgámur Leppalúðason hafi fært Hjálparstofnun kirkjunnar höfðinglegar gjafir.  Af þessu má ráða að engum er alls varnað.

Grýla og jólasveinarnir þóttu áður  hin mestu illfygli. Þó það hafi breyst með jólasveinana þá hefur Grýla hins vegar haft þann sess fram að þessu að nauðsynlegt væri að vara sig á henni. Nú leitar Grýla greinilega sátta við þjóðkirkjuna. Spurning er hvort að jólaötturinn komi næstur með höfðinglegar gjafir til stofnana þjóðkirkjunnar og sáttaboð við æðri mátt.

Þá er spurning hvort að Grýla, jólasveinarnir og jólakötturinn fái aðgang að helgi kirkjunnar ef svo ber undir fyrir góða hegðun og kristilegt líferni á síðari árum.

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/11/30/gjafmild_gryla/


Sjómannaafsláttur

Fyrir nokkrum dögum sagði Steingrímur J. Sigfússon að ekki stæði til að afnema sjómannaafsláttinn. Nú hefur hann sett fram tillögur um að gera það í áföngum á kjörtímabilinu.

Röksemd Steingríms nú(sem er önnur en hún var fyrir tveim dögum) er að unnt sé að afnema sjómannafsláttinn í áföngum en byrja þó ekki strax af því að sjómenn hafi fengið launahækkun á árinu á meðan flestar aðrar stéttir hafi þurft að sæta launalækkun.  Í framhaldi af þeirri fullyrðingu telur Steingrímur eðlilegt að byrja að skerða sjómannaafsláttinn eftir tvö ár þó ekkert sé vitað hver kjör sjómanna verða þá.

Eðlilegt er að Steingrímur sé spurður að því í framhaldi af þessum vangaveltum sínum af hverju það er verjandi að þyngja skattheimtuna á þeim sem lækkað hafa í launum strax en fresta skattaþyngingunni hjá þeim sem hafa hækkað í launum um tvö ár. Þurfa ekki þeir sem hafa nú verri kjör frekar á umþóttunartíma að halda en þeir sem hafa notið kjarabótar á árinu?

 


Með haustskipunum

Sú var tíðin að það tók mánuði og jafnvel ár að koma bréfum til skila. Það var á tímum hraðboða og seglskipa. Nú er önnur öld. Samt sem áður tekur það forsætisráðherra Breta 3 mánuði að svara bréfi forsætisráðherra Íslands. Hann sendi bréf sitt með haustskipunum eins og sagt var forðum. Raunar var bréfasending Jóhönnu Sigurðardóttur vafasöm. Nú á tímum eiga forustumenn þjóða fundi um viðkvæm mál eða  nota nútímalegri samskiptamáta en bréfaskipti

Svarbréf forsætisráðherra Breta er með ólíkindum.  Gordon Brown sýnir forsætisráðherra og Íslendingum algjöra lítilsvirðingu. Hann dregur í marga mánuði að svara. Þá undirstrikar hann lítilsvirðinguna með því að taka ekki á efnisatriðum bréfs Jóhönnu Sigurðardóttur. Þess eru fá dæmi að forsætisráðherra eins ríkis hafi sýnt forsætisráðherra annars ríkis jafnfádæma lítilsvirðingu.

Hvernig ætlar íslenska ríkisstjórnin að bregðast við því?

 

 


Segir viðskiptaráðherra af sér?

Spurning er hvort viðskiptaráðherra mun axla ábyrgð og segja af sér.  Í nokkurn tíma hefur flogið fyrir að Vinstri grænir vilji losna við hann. Lilja Mósesdóttir þingmaður Vinstri grænna ber viðskiptaráðherra og ríkisbankana þungum sökum.

Lilja Mósesdóttir er formaður Viðskiptanefndar Alþingis. Hún sagði á Alþingi að Viðskiptanefnd hafi komist að raun um að bankarnir fari ekki að samræmdum lögum og reglum sem gilda varðandi endurskipulagningu fyrirtækja og hefur boðað viðskiptaráðherra á fund nefndarinnar á morgun.

Ummæli Lilju Mósesdóttur sýna fram á óþol gagnvart viðskiptaráðherra.  Það er alvarlegt þegar formaður Viðskiptanefndar Alþingis segir að bankarnir starfi ekki eftir lögum og reglum.  Ábyrgðina á því ber viðskiptaráðherra en hann eins og ríkisstjórnin hafa vanrækt að móta samræmdar reglur um starfsemi bankanna og gæta þess að þar sé farið að lögum. Þegar formaður Viðskiptanefndar segir nefndina hafa komist að raun um lögbrot bankanna þá liggja slíkar upplýsingar fyrir hjá Viðskiptaráðherra sem greinilega gerir ekkert í málinu. Viðskiptaráðherra var sá sem talaði hvað hæst um það á sínum tíma að aðrir tækju sinn poka og öxluðu ábyrgð. Hvað segir hann nú um sína ábyrgð?

Það verður óneitanlega fróðlegt að sjá hvernig þetta mál verður leyst á kærleiksheimili ríkisstjórnarinnar og stuðningsflokka hennar.

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/11/25/bankar_fara_ekki_ad_reglum/

 


Hvað vill Arion banki?

Arion banki hefur ráð stærstu smásölukeðjunar í höndum sér.  Brynjar Níelsson hæstaréttarlögmaður talsmaður hóps sem vilja kaupa keðjuna segir að stjórnendur bankans vilji ekkert tala við sig af viti. Á sama tíma er sagt frá því að Aríon banki sé í viðræðum við þá sem nú stjórna keðjunni.  Svo virðist sem stjórnendur Arion vilji ekki tala við aðra.

Íslensk verslun er sú óhagkvæmasta og dýrasta í okkar heimshluta. Þar ræður mestu hvernig Hagar reka verslanir sínar vegna þess að þeir eru markaðsráðandi. Stjórnendur Arion banka virðast staðráðnir í að halda þessari óhagkvæmu og samkeppnishamlandi skipan. Af hverju ekki að nýta tækifærið og brjóta keðjuna upp og reka í hagkvæmari einingum og leyfa einstaklingsfrelsinu og athafnafrelsinu að njóta sín. Gæti það ekki verið góður kostur fyrir neytendur.

Áður fyrr fóru einstaklingar og fyrirtæki á hausinn og gátu síðan byrjað upp á nýtt eins og dæmi er um marga íslenska athafnamenn í upphafi síðustu aldar. Þetta reyndist vel og ekki var svínað á samkeppnisaðilum. Af hverju má ekki fara að í samræmi við þessa eðlilegu leikreglu markaðssamfélagsins.


Félagsmálaráðherra fagnar

Helmingur lánþega Íbúðalánasjóðs sagði nei takk við greiðslujöfnunarleið Félagsmálaráðherra. Í framhaldi af því sagðist Félagsmálaráðherra fagna þeirri niðurstöðu. Sú Ráðstjórnarleið sem farin var að krefjast þess að fólk afþakki þennan meinta greiða Félagsmálaráðherra er með ólíkindum. Hún gengur þvert á þá lánasamninga sem fólk hefur gert. Vandséð er að gera megi breytingar á lánasamningunum nema með samþykki skuldara.

Getur verið að Félagsmálaráðherra sé svo veruleikafirrtur að hann telji sig bjóða skuldurum upp á ásættanlegar tillögur þegar helmingur þeirra afþakkar? Óvíst er með hinn helmingin hvort allir þar samþykkja í raun þá breytingu sem Félagsmálaráðherra leggur til.

Þrátt fyrir að Félagsmálaráðherra neiti að horfast í augu við það þá liggur nú fyrir að þessi tillögusmíð hjálpar ekki og er ekki sú skjaldborg um heimilin í landinu sem lofað var.


Kalli vinur minn vill líka fá lán

Kalli vinur minn sagðist eiga í erfiðleikum með að greiða laun starfsmanna fyrirtækisins en það væri allt í lagi. Hann ætlaði að fá lán hjá viðskiptabanka fyrirtækisins fyrir rekstrarkostnaði. Ég spurði Kalla hvort hann hefði einhver veð. Kalli sagðist hafa veð í fyrirtækinu sem væri all nokkuð þar sem allir starfsmenn félagsins væru sérfræðingar og ómetanlegir fyrir íslenska þjóð. Já sagði ég en Kalli þetta er meir en milljarður er þetta ekki svolítið 2007.

Nei sagði Kalli þetta er einmitt 2009.  Ríkisbankarnir fella niður  milljarða og Landsbankinn lánaði Decode einn og hálfan milljarð í byrjun ársins til að borga laun og annan rekstrarkostnað og fékk sambærilegt veð og ég er að bjóða. Já sagði ég en þú ert búinn að reka fyrirtækið í mörg ár með bullandi tapi Kalli og skuldar ofboðslega mikið.  Skiptir engu sagði Kalli það var Kári Stefánsson og Decode líka. Er ekki jafnræði í þjóðfélaginu?

Hvernig er það annars er ekki  ríkisábyrgð á ríkisbönkunum?  Borga skattgreiðendur ekki allar niðurfellingar, vitlausar lánveitingar og rugl í bönkunum?


Uppgjöf ríkisstjórnarinnar

Ríkisstjórnin hefur ekki mótað neinar marktækar tilraunir til að draga úr ríkisútgjöldum. Afleiðingin er sú að hækka á skatta á fólkið í landinu. Ríkisstjórnarskatturinn er hluti af aðgerðarleysiskostnaðinum  sem Mats Josefsson ráðgjafi ríkisstjórnarinnar benti á fyrir nokkru að mundi gera kreppuna hér verri og dýpri en hún hefði þurft að vera.

Fólk sem horfir fram á gríðarlegar skattahækkanir spyr sig eðlilega að því af hverju ríkisstjórnar- og embættismannabruðlið heldur áfram eins og ekkert sé. 

Hvað með að leggja niður Varnarmálastofnun, sendiráð, sameina ríkisbanka????

Nei Steingrímur ætlar að koma á fót nýjum ríkisstofnunum.  Væntanlega næst ríkissparisjóðum þegar þrír ríkisbankar eru til staðar í landinu.

Ríkisstjórn sem hefur þær einu tillögu að skattpína fólkið í landinu þarf að víkja,


Skilur Hæstiréttur Íslands ekki neitt?

Brynjar Níelsson hrl  fjallar um nýgenginn dóm Hæstaréttar í máli Vilhjálms Bjarnasonar gegn stjórnarmönnum í Glitni á bloggi sínu í Pressunni í gær, en þau sjónarmið sem hann setur fram var löngu tímabært að fá fram. 

Í umfjöllun fjölmiðla þá sérstaklega í fréttum ríkisfjölmiðilsins og umræðuþáttum hefur helst mátt skilja að í Hæstarétti Íslands sætu dómarar sem bæru almennt lítið skynbragð á lög og rétt í landinu auk þess sem þeim væri fyrirmunað að skilja málefni sem varða viðskiptalífið auk þess sem þeir væru almennt á móti lítilmagnanum.

Ég hafði ekki kynnt mér umrætt mál þangað til dómur gekk og vonaðist til þess að Vilhjálmur Bjarnason hefði sigur í málinu. Svo fór ekki og við skoðun á málinu gat ég ekki séð að Hæstiréttur hefði getað komist að annarri niðurstöðu. Hvað sem því leið þá var umfjöllun fréttastofu Ríkisútvarpsins bæðí óeðlileg og hlutdræg.

Í samræmi við þá hlutdrægu umræðu sem RÚV hefur haldið uppi um málið var eðlilegt að um málið væri fjallað einhliða í helsta umræðuþætti ríkissjónvarpsins. Ekki verður annað séð en í frétta- og umræðuþáttum ríkisfjölmiðilsins hafi verið fjallað um þennan dóm Hæstarréttar af fólki sem hefur álíka færni í að meta dóma Hæstaréttar og lögfræðingur til að stunda heilaskurðlækningar.

Ég átti von á því að Lögræðingafélagið,Lögmannafélagið eða jafnvel félög laganema í þeim of mörgu háskólum landsins þar sem lögfræði er kennd mundu láta frá sér heyra um þessa hlutdrægu og ómálefnalegu umfjöllun ríkisútvarpsins um dóm Hæstaréttar.  Þögn þessara aðila er óskiljanleg vegna þess að sé það rétt sem haldið hefur verið fram í fréttum og fréttatengdum þáttum Ríkisútvarpsins þá þyrftu viðkomandi dómarar Hæstaréttar að segja af sér.  Þeir væru þá gjörsamlega vanhæfir.

Það má e.t.v. benda vandlæturum Ríkisútvarpsins og þeim fjölmörgu hagfræðingum og viðskiptafræðingum sem um dóminn hafa fjallað á það að eðlilegra er að beina reiði sinni að Alþingi fyrir að hafa afgreitt lög sem gera Hæstarétti ekki kleyft að dæma með öðrum hætti en þeim sem um ræðir. Hvað þá að gera ekkert í málinu þegar fyrir liggur túlkun Hæstarréttar á þessu lagaákvæði.

Slóðin inn á grein Brynjars Níelssonar hrl.:

http://www.pressan.is/pressupennar/Lesa_Brynjar/rettlaeti-og-sanngirni


Ó hve margur yrði sæll

Ó hve margur yrði sæll // og elska mundi landið heitt //Mætti hann verða í mánuð þræll //og moka skít fyrir ekki neitt.

Ég er ekki viss um að ég fari alveg rétt með þessa vísu en það geta  vonandi einhverjir sem vita betur leiðrétt mig.  En þetta var kveðið þegar til stóð að skylda allt ungt fólk til að vera einn mánuð í þegnskylduvinnu. 

Nú horfir hins vegar þannig við að verði ætluð skattaáform ríkisstjórnarinnar að lögum að þá mun þjóðin þræla frá janúar fram í ágúst til að hafa ofan í samneyslu ríkis og sveitarfélaga. Síðan tekur lífeyrissjóðurinn einn mánuð.

 Verðum við ekki að hugsa þetta upp á nýtt. Eigum við ekki  að draga úr samneyslunni og gefa fólki kost á því að ráða meiru um það með hvaða hætti það lifir og ver peningunum sínum?


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 376
  • Sl. sólarhring: 450
  • Sl. viku: 4966
  • Frá upphafi: 2268110

Annað

  • Innlit í dag: 347
  • Innlit sl. viku: 4586
  • Gestir í dag: 341
  • IP-tölur í dag: 328

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband