Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2010

Þeir lána Steingrímur eyðir

Um svipað leyti og Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn tilkynnti að hann ætlaði að lána til Íslands 16 milljarða króna í kjölfar 3. endurskoðunar efnahagsáætlunar stjórnvalda barst sú frétt að Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra mundi leggja fram frumvarp til fjárlaga þar sem hallinn væri nálægt hundrað milljörðum.

Eftir alla baráttuna við að fá lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum þá er staðan sú að lánið eftir 3. endurskoðun dugar fyrir tveggja mánaða óráðssíu Steingríms J. Sigfússonar í ríkisfjármálum.

Við þessar aðstæður þá eru það ófyrirgefanleg afglöp í starfi fjármálaráðherra að reka ríkissjóð með halla.

Að ári liðnu þá hafa vextirnir af óráðssíu Steingríms J. étið upp lánið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, en við sitjum uppi með skuldirnar en vonandi ekki Steingrím J. sem ráðherra.


Pólitísk griðrof

Allt venjulegt góðgjarnt fólk skilur að í dag voru framin pólitísk griðrof á Alþingi. Sú ákvörðun meiri hluta alþingismanna að standa að pólitískri ákæru á hendur Geirs H. Haarde eru mikil ótíðindi.

Þegar grið hafa verið rofin þá geta þeir sem slíkt gera ekki átt von á því að þeim verði gefin grið þegar andstæðingar þeirra komast næst í stöðu til að láta kné fylgja kviði svo sem Steingrímur J. Sigfússon og hyski hans stendur nú fyrir.

Ákærendurnir á þingi átta sig ekki  á hvaða þýðingu það hefur fyrir virðingu og orðspor þjóðarinnar að standa að ákæru eins og þeirri sem meirihluti Alþingis hefur samþykkt.  En þeir sitja uppi með skömmina án ábyrgðar.

Ég var einn fárra þingmanna sem gagnrýndi efnahagsstjórnina á þingi árin 2007 fram yfir bankahrun og varaði við yfirvofandi kreppu haustið 2008. En nú eru í hópi ákærenda Geirs H. Haarde þáverandi forsætisráðherra fólk sem talaði um slíka gagnrýni sem algera fásinnu.

Pólitíski leikur Steingríms J. Sigfússonar og félaga hans er að halda við vitlausri umræðu um hrunið og berja á Sjálfstæðisflokknum með að ákæra fyrrum formann hans til að draga athyglina frá eigin getuleysi. 

Steingrímur J. Sigfússon leggur  fram frumvarp til fjárlaga með um hundrað milljarða halla til viðbótar við hundrað milljarða halla ársins í ár.  Slík forustu í þjóðmálum sem Steingrímur J. sýnir með ráðsmennsku sinni sem fjármálaráðherra er afglapaháttur og getur ekki leitt til annars en þjóðargjaldþrots.  Það er hin alvarlegi raunveruleiki sem ákærendurnir á þingi hefðu átt að gefa meiri gaum en gagnslausri og ónýtri ákæru. 

Óstjórnin er í núinu og eyðileggur möguleika þjóðarinnar í framtíðinni. Það er hinn alvarlegi raunveruleiki sem ónýt ríkisstjórn, ónýtt Alþingi  og þjóðin stendur frammi fyrir. Gegn þeirri óstjórn verður þjóðin að rísa. 

 


Horft til baka

Á sama tíma og einstaklingar eru að sligast undir okurskuldum verðtryggingar og vaxta af áður gengisbundnum lánum og atvinnulífið er í vaxandi erfiðleikum vegna óheyrilegs fjármagnskostnaðar talar Alþingi svo dögum og vikum skiptir um fortíðina.

Fortíðin hleypur ekki frá okkur hún er hluti af þeim raunveruleika sem við verðum að búa við hvort sem okkur líkar betur eða verr. Hins vegar lifir fólk í núinu og gerir áætlanir fyrir framtíðina. Alþingi og ríkisstjórn er sannarlega ekki að vandræðast með þá hluti. Fortíðarvandinn er það sem hefur forgang.  Samt sem áður hafa auglýsingar um nauðungaruppboð aldrei verið fleiri og greiðsluvandi jafn margra einstaklinga aldrei verið meiri.

Er ekki eitthvað bogið við svona forgangsröðun?


Til hamingju Jóhanna Sigurðardóttir

Það var gaman að sjá að Jóhanna Sigurðardóttir stóðst prófið gagnvart nefnd Atla Gíslasonar og gaf nefndinni í raun falleinkunn með þeirri gagnrýni sem hún hafði uppi á störf og niðurstöður nefndarinnar. Þá var einkar athyglivert að sjá formann nefndarinnar Atla hinn vammlausa Gíslason koma fram eftir að forsætisráðherra hafði lýst skoðun sinni á störfum hans og hóta stjórnarslitum.

Störf nefndar Atla Gíslasonar eru verulega ámælisverð. Í fyrsta lagi tók nefndin niðurstöðu rannsóknarnefndar Alþingis eins og Guð hafði sagt það sem í skýrslunni stendur í stað þess að skoða skýrslu þessara þriggja mistæku og sumra vanhæfu nefndarmanna með gagnrýnum huga eins og þingnefnd með meiri sjálfsvirðingu hefði gert.  Þetta gerði þingmannanefndin þó að fjölmargir málsmetandi einstaklingar og forstöðumenn stofnana hafi bent á misferlur og rangfærslur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Í öðru lagi þá dregur nefndin ekki réttar niðurstöður af gefnum forsendum.

Í þriðja lagi þá var engin  sjálfstæð rannsókn eða athugun gerð af hálfu þingmannanefndarinnar sem varpað gæti skýrara ljósi eða dregið fram frekari staðreyndir málsins en þegar hafði verið gert.

Í fjórða lagi og það er mikilvægast þá sást Atla Gíslasyni og meðnefndarmönnum hans algerlega yfir þá mikilvægu staðreynd að engin sá bankahrunið fyrir og meira að segja Atli Gíslason gerði ekki athugasemd við það þegar neyðarlögin voru sett að Kaupþing banki fengi lán hjá Seðlabankanum þar sem talið var að hann gæti staðist alþjóðlegu fjármálakreppuna sem var höfuðorsök bankahrunsins á Íslandi sem í öðrum vestrænum löndum.

Í Bretlandi, Bandaríkjunum og Írlandi þar sem rannsókn á þessum málum fer nú fram er meginþunginn á banka- og fjármálageirann, en í þessum löndum dettur engum í hug að stjórnmálamenn hafi haft með þetta að gera að öðru leyti en því að þeir hafi magnað kreppuna með því að eyða um efni fram og aukið ríkisútgjöld í takt við banka- og eignabóluna.

Sama á við hér á landi. Stjórnmálamenn höfðu ekkert með bankahrunið að gera. Hins vegar hefur það þjónað Vinstri grænum, forustumönnum hinna föllnu banka og útrásarvíkingunum svonefndu að ýta ábyrgðinni á stjórnmálamenn og ákveðna ríkisstarfsmenn. Þar er þessi þokkafulla breiðfylking í vanheilögu sambandi til að vinna gegn heilbrigðri skynsemi og rökrænni hugsun að verki.

Færa má rök að því að mestu mistök íslenskra stjórnmálamanna hafi verið að auka ríkisútgjöld alla þessa öld langt umfram það sem eðlilegt er. Ríkisstjórn Geirs H. Haarde og Ingibjargar Sólrúnar ber ábyrgð á því að hafa hækkað ríkistúgjöld verulega með alvarlegum afleiðinum. En það voru ekki Atli Gíslason og Steingrímur J. Sigfússon sem gagnrýndu það.  Það gerði hins vegar sá sem þetta ritar og gjörvallur þingflokkur Framsóknar undir forustu þess merka stjórnmálamanns Guðna Ágústssonar þáverandi formanns flokksins.

Ég verð að viðurkenna það að ég hafði Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir rangri sök þar sem ég taldi að hún væri sammála cut and paste áliti nefndar Atla Gíslasonar. Ég bið Jóhönnu afsökunar á því. Um leið vona ég að þeir nytsömu sakleysingjar sem fylgdu Atla Gíslasyni að málum sjái nú betur en áður hversu alvarlegan pólitískan leik Hreyfingin og Vinstri grænir eru að reyna að leika. 

Það á að fella tillögur um ákærur á hendur ráðherrum og það á að láta Vinstri græna koma fram hótunum sínum um stjórnarslit. Þá væri hægt að mynda ríkisstjórn sem kemur þjóðinni úr þeirri stöðun og kyrrstöðu sem stefna Vinstri grænna hefur komið þjóðinni í.

 


Með hreina samvisku

Atli Gíslason er búinn að taka það fram 73 sinnum í dag, að hann sé með hreina samvisku. Það hvarflar að manni þegar svona er talað að maðkur sé  í mysunni eða á önglinum þegar slíkt er bannað.

Ákærur þær sem Atli Gíslason mælir fyrir á hendur nokkrum fyrrverandi ráðherrum snúast ekkert um samvisku Atla enda þar um matskennda viðmiðun að ræða og kemur málinu ekkert við. 

Athyglivert var að hlusta á Þór Saari og Birgittu Jónsdóttur halda því fram að krafa þingmanna um að fá að sjá öll gögn, sem lægu til grundvallar kærutillögunum,  væri fráleit. Þeim fannst formlegheitin alveg fáránleg. Formlegheitin eru samt umgjörð um mannréttindi.

Athyglivert að fylgjast með þingmönnum Hreyfingarinnar og Vinstri grænna sem eru búnir að taka afstöðu án þess að skoða öll gögn. Hvikasti talsmaður þessa fólks Steingrímur J. Sigfússon talaði með sama hætti og þau Þór og Birgitta og vísaði enn til þess að nefnd flokksbróður hans Atla hefði unnið gott starf og það þyrfti ekki frekari vitnanna við.   

Vonandi sjá þingmenn Samfylkingarinnar og Framsóknar að þeir hafa verið leiddir út á vafasamar brautir með því að ljá máls á þeim pólitísku ákærum sem Atli Gíslason og Steingrímur J. Sigfússon berjast nú sem hatrammast fyrir ásamt allt of mörgum nytsömum sakleysingjum.

Hver á síðan að bera ábyrgð á kærunum. Mun Atli Gíslason axla ábyrgð á því þegar þeir sem hann kærir verða sýknaðir? Hvorki hann né Steingrímur munu greiða þær bætur, ríkið verður að greiða þær.

Þegar upp verður staðið hvað sem tautar og raular mun Atli Gíslason segja. Já en ég er með hreina samvisku. En samviska Atla Gíslasonar alþingismanns borgar ekki  þær hundruðir milljóna sem kærur hans munu kosta þjóðina komi til þeirra.


Vonbrigði

Niðurstaða Hæstaréttar í vaxtamálinu var vissulega vonbrigði og þvert á það sem ég taldi að yrði niðurstaðan.  Hæstiréttur rökstyður niðurstöðu sína með allt öðrum hætti en héraðsdómur og vísar til þess að þar sem að gengisviðmiðun hafi verið dæmd ólögleg þá geti vextir sem bundnir eru við slíka gengisviðmiðun ekki staðist.

Samt sem áður þá er verið að víkja til hliðar umsömdu vaxtaákvæði hvað varðar prósentutölu vaxta og þar sem að mjög rúm endurskoðunarákvæði eru í þeim lánssamningum sem um ræðir þá finnst mér að eðlilegra hefði verið að halda sig við vaxtaákvörðun lánssamninganna.

En Hæstiréttur er Hæstiréttur og hvort sem okkur líkar betur eða verr þá á hann síðasta orðið svo fremi máli verði ekki vísað til yfirþjóðlegs dómstóls.

Nú er hins vegar spurningin hvað ríkisstjórnin  ætlar að gera. Spurning er um greiðsluvilja og greiðslugetu fólks og smáatvinnurekenda. Það á jafnt við um þessi svonefndu gengislán sem og verðtryggðu lánin.  Það þýðir ekki að ætlast til þess að unga fólkið á Íslandi verði bundið í skuldafjötra sem það getur aldrei ráðið við og berjist við það vonlausri baráttu að eignast eitthvað sem er jafnóðum tekið frá því með vaxtaokri og verðtryggingu. Heldur einhver að það verði einhver þjóðarsátt um slíka skipan.  Annarsstaðar en hjá verkalýðs- og atvinnurekendum.

Gylfi Arnbjörnsson er sjálfsagt feginn niðurstöðu Hæstaréttar í þessu máli en skyldi hann tala fyrir hinn almenna launamann í því máli?


Vaxtadómur

Mér þykir líklegt að Hæstiréttur kveði upp dóm í svonefndu vaxtamáli á morgun fimmtudag.

Í kvöld var kynnt árshlutauppgjör Arion banka fyrir fyrstu 6 mánuði ársins 2010 en skv. því er arðsemi eigin fjár yfir 17% og hagnaður bankans er tugur milljarða.  Nýlega skilaði Íslandsbanki álíka uppgjöri. Það er því ljóst að bankarnir þola að fólkið í landinu búi við svipuð lánakjör og fólk í nágrannalöndum okkar.

Ég á ekki von á öðru en að Hæstiréttur staðfesti ákvæði staðalsamninga um svonefnd gengislán um vexti og hnekki héraðsdómnum hvað það varðar. 

Með því að dæma neytendum í vil í þessu máli gerir það fólki og fyrirtækjum sem tóku slík lán kleyft að standa við skuldbindingar sínar og búa við lánakjör sem eru sambærileg lánakjörum sem eru í okkar heimshluta.  Slíkur dómur gerir þá líka kröfu til að verðtryggðu lánin verði leiðrétt þegar í stað og rán verðtryggingarinnar verði ekki látið viðgangast lengur.

Ljóst er miðað við árshlutauppgjör bankanna að það er hægt að koma á lánakerfi á Íslandi sem býður fólki upp á sambærileg kjör og gilda í nágrannalöndum okkar. Allt annað er óþolandi og leiðir til þess að engin sátt getur orðið í þjóðfélaginu. 

Þjófur verðtryggingarinnar má ekki lengur leika lausum hala og stela eignum fólksins í landinu. 


Spunameistarinn Steingrímur

Athyglivert var að fylgjast með ánægju Steingríms J. Sigfússonar þegar hann tók við endursögninni sem nefnd Atla Gíslasonar útbjó úr skýrslu Rannsóknarnendar Alþingis. Hann byrjaði á að lýsa hversu gott verk nefnd Atla hefði unnið og sagði síðan í blálok viðtalsins að nú ætlaði hann heim að lesa niðurstöðu nefndarinnar. 

Svona gera engir nema snillingar að vita fyrirfram að firna gott verk hafi verið unnið áður en þeir kynna sér málið. 

 

 


Af hverju ákæra menn ekki Bush eða Brown?

Af hverju dettur engum í hug í Bandaríkjunum að ákæra þá Hank Paulson fyrrum fjármála-og bankamálaráðherra og Bush jr. fyrrum forseta? Af hverju ákæra Bandaríkjamenn ekki þessa menn fyrir að hafa bakað bandarísku þjóðinni þúsunda millarða dollara skuldbindingar við björgun banka.

Af hverju dettur engum manni í hug í Bretlandi að ákæra þá Alstair Darling fyrrum fjármálaráðherra og Gordon Brown fyrrum forsætisráðherra vegna bankahruns og taka á skattgreiðendur þúsunda milljarða punda skuldbindingar til að bjarga bönkum?

Af hverju þurfum við hér á Íslandi að fara í vonlausar glórulausar sérleiðir?

Á sama tíma og ríkisstjórn Bretlands gerir sér grein fyrir þeim alvarlega vanda sem við er að eiga og ákveður stórfelldan niðurskurð ríkisútgjalda ákveða þau Jóhanna og Steingrímur að halda partíinu áfram og reka ríkissjóð með halla.

Hvernig var það annars. Sat ekki Jóhanna Sigurðardóttir í 4 manna ríkisfjármálahóp ríkisstjórnar Geirs H. Haarde? Eru þá ekki ríkari ástæður til að kæra hana enn Björgvin Sigurðsson?  Það er að segja ef menn eru svo skyni skroppnir að vilja fara í sérleiðir pólitískra hefndaraðgerða.


Sporin hræða

Þingmannanefnd Atla Gíslasonar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis fór fram á það við ríkissaksóknara með bréfi 14.5.s.l. að hann tæki mál fjögurra fyrrum embættismanna til rannsóknar og ákæru eftir atvikum. Í svari ríkissaksóknara  frá 7. júní s.l. kemur fram:

"Niðurstaða setts ríkissaksóknara er sú að umfjöllunarefni og ályktanir rannsóknarnefndar Alþingis á köflum 21.5.5. og 21.5.6. gefi að svo stöddu ekki tilefni til að efna til sakamálarannsóknar á hendur Davíð Oddssyni, Eiríki Guðnasyni, Ingimundi Friðrikssyni og Jónasi Fr. Jónssyni."

Með einföldum ábendingum sýndi ríkissaksóknari fram á það í ofangreindu svari sínu að ályktanir og ákærugleði þingmannanefndar Atla Gíslasonar ætti ekki við efnisleg rök að styðjast.

Í dag ætlar þessi sama þingmannanefnd að skila áliti til Alþingis og óneitanlega hræða vanhugsuð óheillaspor sem nefndin hefur þegar stigið.

Jónas Jónsson frá Hriflu var dómsmálaráðherra  á árunum 1927 til 1932, hann hafði þá það vald sem dómsmálaráðherra að fyrirskipa sakamálarannsóknir gegn mönnum og hafði einnig það vald að ákveða hvort refsimál skyldi höfða á hendur fólki.  Atburðir þessara ára og glögg hugsun og skilningur á mannréttindum varð til þess að dr. Gunnar Thoroddsen fyrrum prófessor í lögum og forsætisráðherra flutti frumvarp á Alþingi um opinberan ákæranda og sagði þar m.a. í framsöguræðu sinni:

"Það hefur geysimikla þýðingu í hverra höndum ákæruvaldið er og hvernig með það er farið. Það er hin mesta nauðsyn, að það sé í höndum góðra og réttsýnna manna og að  því sé beitt með fullu rétlæti. Í meðferð þessa er tvenns að gæta. Annars vegar, að því sé beitt gegn öllum þeim, sem glæpi hafa drýgt, og hins vegar, að því sé ekki beitt gegn saklausum mönnum.

Það getur haft geigvænleg áhrif, ef maður er ákærður fyrir afbrot, sem hann er alsaklaus af, jafnvel þótt hann verði sýknaður að lokum. Ákæran ein, með öllum þeim réttarhöldum og vitnaleiðslum, varðhaldi, yfirheyrslum og umtali manna ímilli sem sakamálarannsókn eru samfara getur gert honum slíkt tjón, bæði andlega og efnalega að hann bíði þess seint bætur."

Óneitanlega hefur nefnd Atla Gíslasonar þegar komið fram með tilmæli og ábendingar sem benda til að alla vega vilji meiri hluta nefndarinnar sé að koma á pólitískum réttarhöldum jafnvel þó að formaður nefndarinnar hljóti að átta sig á að lögin um Landsdóm eru úrelt og standast ekki ákvæði laga nr. 62/1994  um  mannréttindasáttmála Evrópu sbr. m.a. 2.gr samningsviðauka nr. 7. Einnig mætti nefna ákvæði 1. mgr. 6 gr. samningsins og fleira.

Verði það raunin að Alþingi ákveði að efna til pólitískra réttarhalda, sem ég tel einsýnt að muni enda með mikilli sneypuför þess ákæruvalds, þá má búast við aukinni lausung í þjóðfélaginu og aukinni hættu á pólitískum hefndaraðgerðum gegn pólitískum andstæðingum. 

Ákvæði um ráðherraábyrgð og lögin um Landsdóm voru sett til að reyna að fyrirbyggja það fyrst og fremst að ráðherra misbeitti valdi sínu eða afvegaleiddi löggjafarvaldið með röngum upplýsingum. Resiábyrgð ráðherra byggist ekki á því að hann hefði getað gert betur á grundvelli síðari tíma skýringa.

Óneitanlega óttast ég það að Alþingi setji enn meira niður við meðferð þessa máls en orðið er nú þegar.  Samt sem áður vonast ég til að Alþingismenn láti ekki ímyndaða stundarhagsmuni og pópúlisma byrgja sér sýn eða taki ómálefnalega afstöðu sem getur kostað ríkið mikil útgjöld og álitshnekki þegar upp er staðið.

Pólitískt vald á ekki að ákveða saksókn eða réttarhöld. Meðan ákæruvaldi um ráðherraábyrgð hefur ekki verið komið úr höndum pólitíska valdsins þá verður því ekki beitt svo vel fari. Alþingismenn ættu því að sammælast um að setja nútímaleg ákvæði um ráðherraábyrgð og Landsdóm sem standast þær kröfur sem nú eru gerðar varðandi ákærur og málsmeðferð í sakamálum. 

Þegar grannt er skoðað eru engar forsendur til að höfða mál á hendur þeim fjórum fyrrverandi ráðherrum sem nafngreindir hafa verið í fréttum.  Ákærur á hendur þeim munu því byggjast á pólitísku mati og friðþægingaraðgerðum að hætti stjórnvalda í ríkjum sem við teljum okkur ekki eiga samleið með.


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 15
  • Sl. sólarhring: 160
  • Sl. viku: 3071
  • Frá upphafi: 2294749

Annað

  • Innlit í dag: 13
  • Innlit sl. viku: 2800
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband