Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2014

ASÍ og danska íbúðalánakerfið

Eftir að forusta ASÍ var komin út í horn í vörn sinni fyrir verðtrygginguna. Beruð að því að hafa svikið launþega í landinu í skuldafjötra verðtryggingar, vegna hagsmuna lífeyrissjóða, þá kom ASÍ forustan með þá snilldarlausn að við ættum að taka upp danska húsnæðislánakerfið.

Gylfi Arnbjörnsson og valdaklíka hans, sem kom í veg fyrir það að verðtryggingin yrði tekin úr sambandi við Hrunið, ber ábyrgð á því að stjórnvöld freista nú með að leiðrétta geigvænlega hækkun sem varð á verðtryggðu lánunum vegna Hrunsins allt að 80 milljarða á kostnað skattgreiðenda.

ASÍ forustan hefur haldið kynningarfund um kosti danska húsnæðislánakerfisins og lagt til að það yrði tekið upp. Þrátt fyrir að það virðist margt gullið sem glóir í því útlandinu þá getur samt verið um ómerkilega glitsteina  að ræða en ekki eðalmálm.

Í grein í Economist 19-25.apríl  segir um kerfið að það sé eitthvað rotið í Danmörku og "Denmark´s property market is built on rickety foundation" eða Danska íbúðakerfið er byggt á óstöðugum grunni. og danskar fjölskyldur séu með hæstu skuldir miðað við tekjur allra 34 ríkja OECD og eyðsla Dana líti út fyrir að vera álíka slæm og ábyrgðarlausra Suður-Evrópu búa. 

Danska íbúðalánakerfið er því ekki endilega það besta sem hægt er að taka upp þó að ákveðin atriði væru kærkomin fyrir íslenska íbúðakaupendur og nauðsynlegt að innleiða.  Vextir af veðlánum í Danmörku eru með því lægsta sem þekkist í heiminum vegna gagnsæis og mikillar samkeppni á lánamarkaðnum.  Íslenskir neytendur þyrftu heldur betur að geta notið slíkra hluta án þess að taka upp danska kerfið að öðru leyti. 

Hér erum við með hæsta lánakostnað á húsnæðislánum sem þekkist í heiminum vegna verðtryggingar. Það væri því nauðsynlegt að fá alvöru samkeppni á lánamarkaðinn sem tryggðu íslenskum neytendum lága vexti og góð lánakjör.  Þá mundi velmegun í landinu aukast til muna.

En það sem skiptir mestu máli það er bann við verðtryggingu á neytendalán strax. 

 

 


Fréttir. Ekki fréttir og Rangar fréttir

Fréttamaður á Ríkisútvarpinu til margra ára vakti réttilega athygli á því fyrir skömmu hversu afkáraleg fyrsta útvarpskvöldfrétt RÚV var á sunnudagskvöld. Því miður er fréttastofa RÚV ekki ein um þá hitu að koma með ekki fréttir og rangar fréttir.

Í fréttum fjölmiðla hefur ítrekað verið sagt frá því að fólk sæki meira í verðtryggð lán vegna þess hvað afborganir séu hagstæðar í byrjun. Ekki er bent á það að verðtryggingin étur upp alla eignamyndun.  En þessar fréttir eru rangar. Í riti Seðlabankans um fjármálastöðugleika nr. 1.2014 segir:

"Athygli vekur hversu mikið vægi verðtryggðra skulda lækkaði á síðasta ári eða sem nemur um helmingi af þeirri lækkun sem aðgerðum ríkisstjórnarinnar er ætlað að ná. Hlutur óverðtryggðra lána heldur áfram að aukast og er eina lánaformið sem eykur hlutdeild sína af heildarskuldum, þ.e. í lok árs 2012 var hlutdeild óverðtryggðra lána 16,5% en 18% í lok síðasta árs."

Fréttir um að fólk sé að taka verðtryggð lán í stórum stíl eru draugasögur  sjálfsagt  fabrikeraðar hjá verðtryggingarfurstum til að sýna hversu fráleitt sé að afnema verðtryggingu.

Í annan stað er því ítrekað haldið fram að heimilin standi nú mun betur að vígi og skuldir þerira lækki og lækki. Þetta er villandi frétt og að hluta röng. Í áður tilvitnuðu riti kemur fram á bls. 51 að lækkun skulda heimila sé aðallega vegna endurútreiknings ólögmætra gengislána.  En það er ekki öll sagan. Einnig kemur til að fjármálafyrirtæki hafa keypt eignir fólks m.a. á nauðungaruppboði og þar með lækkar skuldastaðan. Þetta eru ekki merki um batnandi stöðu með blóm í haga.

Í þriðja lagi sögðu fjölmiðlar frá því í dag að skuldsetning fyrirtækja hafi dregist saman og lækkað um 24% af þjóðarframleiðslu frá því í fyrra. Af fréttunum mátti ráða undraverðan rekstrarbata fyrirtækjanna, en svo er ekki.  Ástæða skuldalækkunar fyrirtækja er vegna afskrifta fjármálafyrirtækja á skuldum þeirra eins og einnig kemur fram í ofangreindu riti.

Ekki kemur fram hvað margir tugir eða hundruð milljarða voru afskrifuð á fyrirtækjunum. 

Í staðinn fyrir að birta rangar fréttir og ekki fréttir ættu fjölmiðlar að segja okkur fréttir t.d. hvað mörg hundruð milljarðar hafa verið afskrifaðir af skuldum fyrirtækja í landinu.

Talsmenn fjármálastofnana og ASÍ sem hafa amast við skuldalækkun venjulegs fólks ætti síðan að fá í viðtöl til að gera okkur grein fyrir af hverju það er í lagi að afskrifa skuldir á fyrirtæki en ekki hjá fólki.

Fréttamenn ættu að skoða það sem máli skiptir og beina sjónum sínum að því sem skiptir máli fyrir fjöldann í stað þess að vera stöðugt að leita uppi einstaklingsbundin vandamál raunveruleg, orðum aukin eða tilbúin.

Vantar ekki fleiri fréttamenn sem eru neytendavænir og hafa metnað til að flytja fólki góðar og heildstæðar fréttir? 


Fall sparisjóðanna. Athyglisverð skýrsla

Eftir hraðlestur í gegn um ákveðna kafla skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um fall sparisjóðanna þá má sjá að efnistök og vinnubrögð eru fagleg og betri en í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um fall viðskiptabankanna. Sú skýrsla var stemmningsskýrsla skrifuð af fólki með takmarkaða þekkingu á viðfangsefninu og nefndarmenn gættu ekki að grundvallarreglum m.a. varðandi andmælarétt.

Viðtöl við nefndarmenn í sparisjóðanefndinni eru líka athyglisverð. Þar eru ekki gífuryrði eða hæpnar fullyrðingar heldur málflutningnum hófstillt. Að svo komnu máli sýnist mér því að nefndin hafi skilað góðu dagsverki ólíkt fyrri rannsóknarnefndum Alþingis í kjölfar bankahrunsins 2008.

Varðandi viðbrögð stjórnvalda vegna sparisjóðanna má sjá þá niðurstöðu nefndarinnar að ráðleysi hafi verið hjá ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir varðandi málið þar segir rannsóknarnefndin m.a. 

  " Það er mat rannsóknarnefndarinnar að á árunum 2008–2011 hafi ríkt sérstakar aðstæður á íslenskum fjármálamarkaði og því hafi fjármálafyrirtækjum réttilega verið veittur viðbótarfrestur til að koma eiginfjárgrunni sínum í lögmælt horf samkvæmt 2. málsl. 4. mgr. 86. gr. laga nr. 161/2002. Það vitnar þó um óskýra lagaframkvæmd að þrír sparisjóðir hafi starfað lengur en í 12 mánuði eftir að ljóst varð að eiginfjárhlutfall þeirra væri undir lögbundnu lágmarki."

Hér er vikið að  tilraunum Steingríms J. Sigfússonar þáverandi fjármálaráðherra til að halda lífi í ákveðnum Sparisjóðum. Þær aðgerðir ráðherrans með tilstyrk og tilstuðlan þáverandi forstjóra  Fjármálaeftirlitsins Gunnars Andersen kostuðu skattgreiðendur meira en skuldaleiðréttingin sem fjármálaráðherra leggur til að eigi sér stað mun kosta.

Málatilbúnaður Guðlaugs Þórs Þórðarsonar á síðasta kjörtímabili er staðfestur,  þegar hann gagnrýndi Steingrím J. Sigfússon og Gunnar Andersen fyrir fara ekki að lögum varðandi eiginfjárhlutfall sparisjóða. Gunnar Andersen sagði það rangt hjá þingmanninum og lagðist í hatursherferð gegn honum fyrir að segja satt um lagabrot Gunnars Andersen og Steingríms J. Sigfússonar.

Fróðlegt verður að fylgjast með umræðum um sparisjóðaskýrsluna á Alþingi og sjá hvort að samhljómur verður með þeim flokksbrærunum Guðlaugi Þór Þórðarsyni sem stóð vaktina af mikilli prýði á síðasta kjörtímabili og Vilhjálmi Bjarnasyni samflokksmanni hans sem var einn helsti sporgöngumaður Gunnars Andersen þáverandi forstjóra Fjármálaeftirlitsins á sama tíma.  



Skuldaleiðrétting, stjórnarsáttmáli og undanhlaupsmenn

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks frá 22.5.2013 segir m.a.

" Ríkisstjórnin mun með markvissum aðgerðum taka á skuldavanda íslenskra heimila sem er til kominn vegna hinnar ófyrirsjáanlegu höfuðstólshækkunar verðtryggðra lána sem leiddi af hruni fjármálakerfisins. Grunnviðmiðið er að ná fram leiðréttingu vegna verðbólguskots áranna 2007–2010 en í því augnamiði má beita bæði beinni niðurfærslu höfuðstóls og skattalegum aðgerðum. Um verður að ræða almenna aðgerð óháð lántökutíma með áherslu á jafnræði. Beita má fjárhæðartakmörkum vegna hæstu lána og setja önnur skilyrði til að tryggja jafnræði í framkvæmd og skilvirkni úrræða.

Í ljósi þess að verðtryggðar skuldir hækkuðu og eignaverð lækkaði, m.a. vegna áhrifa af gjaldþroti fjármálafyrirtækja og áhættusækni þeirra í aðdraganda hrunsins, er rétt að nýta svigrúm, sem að öllum líkindum myndast samhliða uppgjöri þrotabúanna, til að koma til móts við lántakendur og þá sem lögðu sparnað í heimili sín, rétt eins og neyðarlögin tryggðu að eignir þrotabúanna nýttust til að verja peningalegar eignir og endurreisa innlenda bankastarfsemi. Ríkisstjórnin heldur þeim möguleika opnum að stofna sérstakan leiðréttingarsjóð til að ná markmiðum sínum."

Stjórnarsáttmálinn var samþykktur af flokksráði Sjálfstæðisflokksins nokkru síðar. Ekki minnist ég þess að nokkur þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefði neitt við stjórnarsáttmálann að athuga en hafi allir fúslega greitt atkvæði með honum.

Það skýtur því skökku við þegar formaður Sjálfstæðisflokksins leggur fram stjórnarfrumvarp um leiðréttingu verðtryggðra skulda í samræmi við stjórnarsáttmálann að þá skulu tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins þeir Pétur Blöndal og Vilhjálmur Bjarnason hlaupast undan merkjum og hafa allt á hornum sér varðandi frumvarp formannsins sem er þó í fullu samræmi við stjórnarsáttmálann.

Þó vissulega beri að virða rétt þingmanna til að hafa sínar sérskoðanir og þjóna lund sinni eftir atvikum þá verður samt að gera þá kröfu í borgaralegum flokki að menn standi við samninga og fylgi því sem þeir hafa skuldbundið sig til að gera á kjörtímabilinu.

Það skiptir máli að vel takist til um skuldaleiðréttingu fyrir heimilin í landinu. En það er ekki nóg. Það verður að taka verðtrygginguna af eldri lánum sem allra fyrst. Annars mun nýtt verðbólguskot kaffæra heimilin á nýjan leik og færa fjármálastofnunum eignir fólksins á verðtryggingarfatinu eins og svo oft áður. 

Jafnræði og réttlæti  í þjóðfélaginu byggist ekki á einhliða rétti fjármálastofnana til að arðræna fólkið í landinu. 


Abba og menningarelítan

Það eru 40 ár frá því að Abba vann söngvakeppni Evrópu með laginu Waterloo. Fáir trúðu því þá að Abba ætti eftir að verða vinsælasta dægurlagahljómsveitin að Bítlunum undanskildum.

Meðlimir Abba höfðu reynt árum saman áður en þeir sigruðu með Waterloo að ná frægð og frama. Ári áður reyndi Abba að komast í Evrópsku söngvakeppnina með laginu "Ring Ring" en náðu ekki árangri, en þar sem lagið seldist vel annarsstaðar en í Svíþjóð og varð ofurvinsælt átti Abba greiðari leið árið eftir.

Þó Abba ynni sigur var vinstri sinnaða sænska menningarelítan ekki ánægð með hljómsveitina hvorki fyrir né eftir. Einn sænskur gagnrýnandi talaði um að Abba væri dæmi um "fársjúkt kapítalískt þjóðfélag"  þar sem fólki væri svo ofgert með vinnu að það hefði ekki orku til að hlusta á annað en lágmenningartónlist Abba.

Ef þeir einu sem njóta styrkja frá almenningi vegna listsköpunar sinnar kæmust áfram þá hefði Abba aldrei náð vinsældum og þannig er um marga fleiri topplistamenn fyrr og síðar.

Hvað sem öður líður þá hefur tónlist Abba verið einstök og það er hægt að þakka Abba fyrir að hafa auðgað tilveruna síðustu 40 ár og því viðeigandi  að segja  "Thank you for the music." 

 


Kæmi til greina að þú verslaðir í Krónunni?

Nokkrum sinnum hafa aðilar sem hugsa sér að stofna ný stjórnmálasamtök látið kanna afstöðu fólks til slíkra samtaka með því að spyrja hvort það gæti hugsað sér að styðja samtökin undir forustu ákveðins einstaklings.  Stór hluti fólks svarar að jafnaði með jái. Reynslan sýnir þó að aðeins lítið brot af jásvarendum greiðir slíku framboði atkvæði sitt.

Fólk er jákvætt með sama hætti og væri spurt hvort það gæti hugsað sér að versla í Krónunni.

Aðilar sem hafa látið kanna stuðning með þessum hætti hafa orðið fyrir vonbrigðum þegar talið var upp úr kjörkössunum. Aðrir horft á fylgið gluða í burtu þegar stjórnmálasamtökin voru stofnuð sbr. Lilja Mósesdóttir á síðasta kjörtímabili.

Niðurstaða úr skoðanakönnunum sem bjóða upp á valkostina: "Kæmi til greina að"  eða "Gætir þú hugsað þér að" gefa mjög takmarkaðar vísbendingar um raunverulegan stuðning við framboð.

Hópur fólks sem vill að íslendingar gangi í Evrópusambandið hefur hug á því að stofna "hægri" flokk sem hefði það sem eitt helsta baráttumál.  Hvorki er ljóst í hverju hægrað á að vera fólgið né hvaða önnur stefnumál flokkurinn muni beita sér fyrir auk þess að ganga í samband sem gerist stöðugt sósíalískara með hverju árinu sem líður.

Norðmenn kusu tvisvar um aðild að Evrópusambandinu. Þar  áttaði fólk sig á því að stuðningur eða  andstaða við Evrópusambandið fer ekki eftir hefðbundnum  markalínum stjórnmálanna.   Þess vegna stofnuðu t.d. Hægra fólk í Noregi og Verkamannaflokksfólk samtök með og móti og þegar atkvæðagreiðslunni var lokið var þetta ágreiningsmál úr sögunni og já og nei fólk úr hvorum flokknum fyrir sig sameinuðust í flokkum sínum án nokkurra vandamála.

Aðild að Evrópusambandinu er spurning um hagsmuni þjóðarinnar og þess vegna getur engin sagt það með vissu hvort það séu hagsmunir þjóðarinnar að við göngum í bandalagið. Grundvöllur stjórnmálastamtaka sem hefði það sem helsta baráttumál að ganga í Evrópusambandið er því vægast sagt veikur.  

Forusta Sjálfstæðisflokksins og sjálfstæðisfólk þarf hins vegar að skoða það hverju sætir að ákveðinn hópur fólks sem hefur stutt Sjálfstæðisflokkinn alla sína tíð skuli nú vinna að stofnun nýrra stjórnmálastamtaka á vægast sagt vafasömum forsendum og telur sér ekki lengur vært innan vébanda Sjálfstæðisflokksins. 

Á sama tíma þarf að huga að því hvernig á því stendur að Sjálfstæðisflokkurinn hefur hvorki það fylgi með þjóðinni né traust að hann sé afgerandi forustuafl í íslenskum stjórnmálum eins og Sjálfstæðisflokkurinn var frá stofnun hans 1929 fram til 2008.  Vill Sjálfstæðisfólk sætta sig við það?

Getur verið að forusta Sjálfstæðisflokksins hafi ekki áttað sig á því að nauðsyn bar til að treysta hugmyndafræðilegan grundvöll Sjálfstæðisflokksins og það skipti höfuðmál en ekki skipulagsbreytingar.


Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 19
  • Sl. sólarhring: 115
  • Sl. viku: 4609
  • Frá upphafi: 2267753

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 4254
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband