Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2012

Skuldavandinn hvað er það?

Vinstri Grænir og Samfylking lofuðu kjósendum fyrir síðustu kosningar að leysa skuldavanda heimilanna. Það hét hjá Jóhönnu Sigurðardóttur að slá skjaldborg um heimilin í landinu. Loforðin reyndust vel til atkvæðaveiða.

Þrem árum síðar hefur ríkisstjórnin ekkert gert sem máli skiptir en Jóhanna segir mesta skuldaniðurfellingin hafi verið hér og ruglar þá með lækkun gengisbundinna lána vegna dómsniðurstöðu.

Ríkisstjórnin hefur sett fram aðgerðarpakka eftir aðgerðarpakka fyrir þá sem geta ekki borgað. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa því ekki gegnt  öðrum tilgangi en auka flækjustig í fullnustukerfinu og halda óinnheimtanlegum skuldum við.

Nú er málið komið á það stig að velferðarráðherra viðurkennir að hann viti ekki sitt rjúkandi ráð. Í viðtali sagði velferðarráðherrarnn að ríkisstjórnin hefði ekki tekið endanlega ákvörðun það væri verið að greina vandann betur og skoða hvað er hægt að gera.

Má minna á að það eru rúm 3 ár síðan ríkisstjórnin tók við. Hvað skyldi taka ríkisstjórnina mörg ár að greina vandann? Hvað skyldi það síðan taka ríkisstjórnina mörg ár að átta sig á hvað hún vill gera? Hvað skyldi það síðan taka ríkisstjórnina mörg ár að hrinda  því í framkvæmd?

Sem betur fer eru kosningar eftir eitt ár og þá gefst tækifæri til að losna við þetta fólk sem getur þá reynt að greina vandann í stjórnarandstöðu.


Landamæraeftirlit

Íslensk stjórnvöld hafa yppt öxlum og brosað aulalega þegar talað hefur verið um að taka upp virkt landamæraeftirlit við komu fólks til landsins. Sagt er að sé ekki hægt vegna Schengen samstarfsins.

Þetta er rangt.

Það er hægt að halda uppi virku og árangursríku eftirliti með komu fólks til landsins og það hefur sýnt sig að stjörnvöld eru tilbúin til aðgerða til að koma í veg fyrir komu  erlendra meðlima vélhjólagengja. Það sama gildir ekki gagnvart öðrum.

Hingað hafa ítrekað komið einstaklingar sem hefur verið vísað úr landi. Það hefur komið fólk með meiriháttar glæpaferil á ferilskrá sinni. 

Útstöðvar Schengen í Austur Evrópu, Grikklandi og Ítalíu sem og víða annarsstaðar tryggja ekki virkt eftirlit. Þetta viðurkenna nú helstu áhrifaþjóðir í Evrópu, Frakkar og Þjóðverjar. Báðar þjóðirnar hafa ákveðið að taka upp virkt landamæraeftirlit til að tryggja öryggi borgara beggja þjóða.

Hvenær átta yfirvöld á Íslandi sig á því að það skiptir máli fyrir öryggi íslenskra borgara og eigna þeirra að  hafa virkt eftirlit með því hverjir koma inn í landið.


Hvað er íslensk gestrisni?

Hópur fólks sem telur til eignarráða yfir Kerinu í Grímsnesi meinaði forsætisráðherra Kína að skoða þetta sérstaka náttúrufyrirbrigði.  Ástæðuna segir fólkið vera að þeim líki hvorki við stefnu stjórnvalda í Kína eða á Íslandi.

Ég get tekið undir athugasemdir landeiganda við Kerið í Grímsnesi varðandi þessi stjórnvöld. Það að úthýsa gestum er hins vegar annað. Það finnst mér vera argasti dónaskapur.

Í minni sveit var alltaf talað um að taka vel á móti gestum óháð því hvort manni líkaði við þá eða ekki. Um árabil fóru frambjóðendur til Alþingis um héruð og ræddu við kjósendur og fengu fæði og húsaskjól jafnvel hjá pólitískum andstæðingum. Það var eitt af því sem gerði Ísland og íslendinga svo sjarmerandi svo notuð sé alkunn sletta.

Það gengur ekki að fólk fari að eins og hópurinn sem meinar forsætisráðherra Kína að skoða landið. Þessi merkilegi stjórnmálamaður, hvort heldur landeigendum í Grímsnesi líkar betur eða verr, er gestur íslensku þjóðarinnar og við eigum að sýna honum helstu náttúruminjar og fræða hann um land og þjóð eins vel og við getum. Það er íslensk gestrisni.

Þessu uppákoma leiðir til þess að taka verður aðgengi að helstu ferðamannastöðum til umræðu. Það gengur ekki að hópur fólks geti meinað sumum aðgang en leyft öðrum þegar um náttúruminjar er að ræða sem með réttu eru eign íslensku þjóðarinnar.


Möguleikarnir

Það eru fjórar leiðir til að leiða mál til lykta.

1. Gefast upp.

2. Semja.

3. Láta dómstóla skera úr um rétt deiluaðila.

4. Fara í stríð. 

Við ættum að muna það varðandi deilumál okkar við aðrar þjóðir.


Er það svo Össur?

Fyrir Efta dómstólnum er rekið dómsmál sem Eftirlitsstofnun Efta rekur gegn Íslandi, vegna ágreinings um túlkun á reglum um innistæðutryggingar. Málatilbúnaður Eftirlitsstofnunarinnar er í samræmi við málatilbúnað ríkisstjórnarinnar í Icesave málinu allt til þess tíma að þjóðin hafnaði Icesave samningunum í annað sinn í þjóðaratkvæðagreiðslu.  

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur ákveðið að taka þátt í málarekstri Eftirlitsstofnunarinnar  fyrir Efta dómstólnum. Þau afskipti voru fyrirséð miðað við túlkun framkvæmdastjórnarinnar á reglum um innistæðutryggingar og ættu ekki að koma neinum á óvart.  Þessi afstaða framkvæmdastjórnarinnar segir ekkert annað en vitað hefur verið um túlkun hennar á reglunum.

Þrátt fyrir það segir Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra að þetta sýni veikleika kröfugerðar Eftirlitsstofnunar Efta gagnvart Íslandi.  Þessi ummæli utanríkisráðherra  eiga því miður ekki við nokkur rök að styðjast en hann kýs í þessu máli eins og svo mörgum öðrum að veifa frekar röngu tré en öngvu.

Sama marki eru brennd ummæli innanríkisráðherra um ósvífni í garð íslendinga og ummæli þingflokksformanns Framsóknarflokksins að verið sé að sýna íslendingum hver ræður.

Því má ekki gleyma að það er verið að tala um dómsmál. Ef afstaða ríkislögmanns Íslands til ýmissa ágreiningsmála fengju svipapa umfjöllun, þá yrði sá góði maður sakaður daglega um að sýna öryrkjum fulla fjandsemi og þeim sem krefja ríkið um bætur, að ríkið sé að sýna hver ráði bara með því að láta reyna á hvað sé rétt túlkun á lögum fyrir dómi.  

Því miður sagði ríkisstjórn Íslands ekki af sér eins og henni bar að réttu lagi að gera eftir niðurstöðu úr Icesave kosningunni síðari. Ríkisstjórnin sem hélt uppi svipuðum málatilbúnaði í Icesave málinu og Eftirlitsstofnun Efta gerir nú fyrir Efta dómstólnum, taldi eftir það sem á undan er gengið rétt að hún stæði fyrir málsvörn Íslands í málinu. 

Sá málatilbúnaður og afstaða sýnir bæði veikleika, ósvífni og hroka viti firrtrar ríkisstjórnar í þessu máli. Það er höfuðatriðið.

Getur einhver búist við að þessi ríkisstjórn geti eftir það sem á undan er gengið haldið uppi vitlegum málatilbúnaði og málsvörn fyrir Efta dómstólnum í málinu?


Þegar Jesú er úthýst

"Í meir en 2000 ár hefur verið ómögulegt fyrir þjóðfélag að útiloka eða afmá Krist úr þjóðfélagslegu og pólitísku lífi án hræðilegra þjóðfélagslegra og stjórnmálalegra afleiðinga".

Þessa hugsun meitlaði Margaret Thatcher þá forsætisráðherra Bretlands í orð árið 1990. Hún var ekki að tala um aukin áhrif kirkju á stjórnmálin eða lýsa eindreginni trúarskoðun þegar hún sagði þessi orð. Hún var mun frekar að lýsa því að þjóðfélag sem byggði á siðaboðskap og manngildishugsjón kristindómsins, væri þjóðfélag sem væri byggt á kletti en án þeirra gilda væri þjóðfélagið byggt á sandi.

Sennilega mundi vestrænn stjórnmálamaður ekki viðhafa þessi ummæli í dag. Jafnvel þó þeir segi eitthvað fallegt um Jesús þá áræða þeir ekki að tala með jafn afdráttarlausum hætti um þær ógnir sem þjóðfélaginu stafar af því að gera Krist útlægan úr samfélaginu.

Sú skoðun hefur átt vaxandi fylgi að fagna á opinberum vettvangi í kristnum samfélögum, að trúarbrögð skipti annað hvort ekki máli eða séu jafnvel til tjóns. Elskaðu náunga þinn segir helsti páfi vantrúarinnar að skipti ekki máli og sé ekkert bundið trúarbrögðum. Þannig virðast margir ráðamenn telja eðlilegt að fólk geti muldrað bænir bakvið luktar dyr, en ekki meir.  Kristið fólk er ofsótt fyrir að bera krossmark. Í Bretlandi berst kona fyrir rétti sínum til að bera krossmark án þess að tapa þjóðfélagslegum réttindum vegna þess.

Þau einstaklingsbundnu réttindi sem við búum við hefðum við ekki fengið án áhrifa kristindómsins um óumbreytanlega virðingu hvers einasta einstaklings.  Við erum öll jöfn fyrir Jesú Kristi sagði Páll postuli. Þess vegna gat þrælahald aldrei staðist til lengdar í kristnum samfélaögum þó það tæki ótrúlega langan tíma að gera það ólöglegt.  En bann við þrælahaldi er ekki náttúrulegt lögmál þvert á móti. Með hnignandi áhrifum kristilegra lífs- og siðaskoðana sækir þrælahaldið á að nýju í ýmsum myndum

Í frönsku stjórnarbyltingunnni var kristindómnum úthýst og það sama gerðist í nasistaríkjunum og kommúnistaríkjunum. Hryllingurinn og hryðjuverkin sem unnin voru af öllum þessum aðilum hefðu ekki verið möguleg nema kristilegum gildum hefðu fyrst verið vikið til hliðar og þeim úthýst. 

Þar sem Jesús hefur verið úthýst hverfa grunngildi mannréttinda eitt af öðru. Trúleysingjar mættu stundum hugsa til þess og þakka fyrir að búa í kristnum samfélögum þar sem mannréttinda þeirra er gætt eins og annarra.

Kristið fólk verður að standa á grundvallaratriðum varðandi lífs- og siðaskoðanir og hafna því að Jesú sé úthýst úr skólum landsins. Gera verður kröfu til þess að í skólunum sem og annarsstaðar í þjóðfélaginu sé kristin trúfræðsla eðlilegur  og sjálfsagður hluti af náminu.

Þjóðfélag sem er á sandi byggt skolar burt. Byggja verður grundvallaratriði hvers samfélagssáttmála  á traustum grundvelli trúarskoðana kristninnar. Grunngildi kristinnar trúar hafa fært kristnum þjóðfélögum velmegun, virðingu fyrir einstaklingnum og mannréttindi. Þess vegna m.a. hefur páskaboðskapur Benedikts páfa sérstaka skírskotun til alls hins kristna heims. Færið heiminum ljós svo að augljósar staðreyndir um gildi kristinnar trúar komi fram.


Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 10
  • Sl. sólarhring: 121
  • Sl. viku: 4600
  • Frá upphafi: 2267744

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 4248
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband