Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2019

Er ekkir rétt að kirkjan fari að bera sannleikanum vitni?

Þaulskipulögð hermdarverk voru unnin á Sri Lanka á páskadagsmorgun. Hryðjuverkin beindust að kirkjum kaþólskra í landinu, en einnig gegn vestrænum ferðamönnum á hótelum í landinu. Undirbúningur þaulskipulagðra hryðjuverka eins og á Sri Lanka tekur marga mánuði að skipuleggja og jafnvel ár. 

Athygli vakti að biskupinn yfir Íslandi minntist ekki á þessi hryðjuverk gegn kristnu fólki í páskaávarpi sínu, en talaði um loftslagsmál. Forseti lýðveldisins sendi stjórnvöldum á Sri Lanka samúðarkveðjur 22.apríl s.l.og harmaði atburðina, en ekkert heyrðist frá biskupi eða þjóðkirkjunni.

Loks birtist á vef kirkjunnar þ.25.apríl yfirlýsing frá biskupi um málið. Yfirlýsing biskups er með miklum ólíkindum. Þar eru hryðjuverkin á Sri Lanka sögð vera til að hefna fyrir árás sturlaðs manns á tvær moskur í Christchurch á Nýja Sjálandi fyrir skömmu.

Miðað við samhengið og tilefnið, verður ekki annað séð, en biskup sé að  afsaka hermdarverk Íslamistanna á Sri Lanka og/eða réttlæta það með skírskotun til þess sem gerðist í Christchurch.

Hryðjuverkið á Sri Lanka hefur ekkert með hryðjuverkið í Christchurch að gera. Hryðjuverkin á Sri Lanka voru í undirbúningi löngu áður en atburðirnir gerðust í Cristchurch.

Af yfirlýsingu biskups má ráða, að biskup fylgist illa með því sem er að gerast og hvaða ásókn er gegn kristnu fólki í heiminum í dag, ofsóknir og morð. Þeir sem standa fyrir því eru í nánast öllum tilvikum öfgafólk úr röðum Íslamista, sem því miður njóta stuðnings og/eða velvilja allt of stórs hóps trúarsystkina þeirra.

Til upprifjunar fyrir biskup til að auðvelda henni að tengja hluti saman með eðlilegum hætti, má benda á eftirfarandi, sem mér kemur í hug varðandi hryðjuverk Íslamista á þessari helgustu trúarhátíð kristins fólks á undanförnum árum. Tilvikin eru örugglega fleiri:

Á páskadag 2012 Sprengdu Íslamskir hryðjuverkamenn kirkju og meir en 50 kirkjugestir dóu

Á páskadag árið 2016 sprengdi Íslamskur sjálfsmorðssprengjumaður sig í loft upp við barnaleikvöll þar sem kristnir voru vanir að safnast saman meir en 70 manns aðallega konur og börn dóu næstum 400 særðust

 

Á pálmasunnudegi árið 2017 sprengdu Íslamskir hryðjuverkamenn tvær koptískar kirkjur í Egypgtalandi. Fimmtíu dóu og 120 manns særðust.

Engin ofangreindra árása hafði eitt eða neitt með það sem gerðist í Christchurch að gera, ekki frekar en hryðjuverkin á Sri Lanka. Þetta eru árásir á kristið fólk vegna trúar okkar. Það er slæmt að biskupinn yfir Íslandi skuli vera í afneitun gagnvart því og skuli í yfirlýsingu sinni gera tilraun til að samsama og réttlæta hryðjuverk Íslamistana á Sri Lanka við atburð, sem hafði ekkert með þetta þaulskipulagða hryðjuverk að gera

Hryðjuverkin á Sri Lanka voru framin gegn kristnu fólki af trúarástæðum vegna þess að það var kristið. Eðlilegt hefði verið að biskupinn hefði kallað eftir aðgerðum þó ekki væru víðtækari en þær sem utanríkisráðherra Breta hvatti til í gær. 

 


Fréttin bakvið fréttina

Undanfarna daga hafa fjölmiðlar greint frá því að hersveitir  "stríðsherrans" Khalifa Haftar hershöfðingja sæki að Trípolí höfuðborg Líbýu og berðjist gegn löglegri ríkisstjórn landsins. Þessi frétt er eins röng og misvísandi og mest má vera. 

Ríkisstjórninni í Trípolí var komið á fót fyrir 3 árum með aðstoð Sameinuðu þjóðanna (SÞ). Hún hefur ekkert lýðræðislegt umboð. Henni var ætlað að koma á friði og lýðræði. Það hefur henni gjörsamlega mistekist. Íslamskir öfga- og glæpahópar, sem fá m.a. tekjur af því að selja Afríkubúum (svonefndum flóttamönnum) far til Evrópu, hafa hreiðrað um sig í Trípolí. Stjórnun fjármála og viðskipta er í ólestri. Kílómetra langar biðraðir við banka og víðar bera því glöggt vitni.

Íslamískar vígasveitir ráða því hvaða upplýsingar erlent fjölmiðlafólk fær og þær stjórna mikilvægum ráðuneytum ríkisstjórnarinnar m.a. leyniþjónustu og öryggismálum. Kílómetra löngu biðraðirnar eru því aldrei sýndar á fréttamiðlum.

Dæmi um völd og áhrif Íslamistanna á ríkisstjórnina er m.a. að bresk yfirvöld hafa ekki fengið framselda aðila sem tengjast hryðjuverkinu sem unnið var í Manchester þar sem mikill fjöldi fólks lét lífið, án þess þó að forsetafrú Íslands sæi ástæðu til að ganga um  höfuðkirkjur Manchesterborgar berfætt með höfuðklút í samúðarskyni við fórnarlömbin. 

Haftar hershöfðingi er höfuðandstæðingur Íslamskra öfga- og vígasveita í landinu og ástæða sóknar hans gegn Trípolí kemur til fyrst og fremst vegna þess að svokölluð ríkisstjórn landsins í vörslu vinstri sósíalistans Antonio Guterres framkvæmdastjóra SÞ hefur hvorki getu né vilja til að stemma stigu við þessum glæpahópum Íslamista. 

Haftar hershöfðingi hefur upprætt hópa Íslamista í suðurhluta Líbýu og telur nauðsyn bera til að ljúka nú þegar upplausnarástandi í landinu. Sú er ástæða sóknar hans gegn duglausri spilltri ríkisstjórn í Trípolí, sem stjórnar þó ekki einu sinni höfuðborginni nema að hluta.

Lýðræðisríki vesturlanda ættu að styðja baráttu Haftar hershöfðingja og vinna í samráði við hann að því að öryggi, festu og lýðræðisþróun verði komið á.

Af þessu tilefni sagði dáðlaus framkvæmdastjóri NATO,sósíalistinn Jens Stoltenberg "ég hef miklar áhyggjur" vegna ofbeldisins og hvatti alla hlutaðeigandi til að hætta bardögum. Mikill stuðningur það eða skilningur á vandanum.

Sama segir vinstri sósíalistinn Antonio Guterres framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sem ber hvað mesta ábyrgð á innflytjendavandamálum Evrópu í seinni tíð.

Fjölmörg Arabaríki sem þekkja til óstjórnar og hryðjuverka Íslamista, skynja ástandið betur en sósalistarnir Guterres og Stoltenberg og styðja Haftar og hvetja hann til að ljúka því verki sem hann er byrjaður á.

Er ekki rétt að gefa sósíalistunum Stoltenberg og Guterres frí í bili og leyfa fólkinu í þessum heimshluta að koma á eðlilegri stjórnun og hrekja burt Íslamistana?

Fréttin bakvið fréttina er sú, að Haftar hershöfðingi sækir að höfuðborginni Trípolí til þess að koma dáðlausri spilltri ríkisstjórn og herflokkum Íslamista frá völdum til þess að koma á eðlilegu ástandi í Líbýu og þróun í átt til lýðræðis.

Hvað gengur Stoltenberg og Guterres til að vinna gegn því? Hvað gerist ef þeim tekst það? 


Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 10
  • Sl. sólarhring: 124
  • Sl. viku: 4600
  • Frá upphafi: 2267744

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 4248
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband