Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2015

Frumkvæði Bjarna Benediktssonar

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins skrifar tímamótagrein í dag, þar sem hann setur fram hugmyndir um breytingar á stjórnarskrá.

Þau atriði sem Bjarni nefnir hefðu flest getað náð fram að ganga á þinginu 2009, ef Samfylkingunni og Vinstri grænum hefði ekki legið svo á að reyna að koma á byltingarstjórnarskrá á þeim forsendum að stjórnarskráin væri gömul og úrelt.

Stjórnarskrá lýðveldisins þjónar vel tilgangi sínum og þær breytingar sem Bjarni Benediktsson bendir á varðandi auðlindir þjóðarinnar, samninga við erlend ríki og þjóðaratkvæðagreiðslur eru þær breytingar sem er eðlilegt að ná víðtækri sátt. Þá verður góð stjórnarskrá betri.

Á sama tíma og þetta frumkvæði Bjarna Benediktssonar er kærkomið og kemur ófrjórri umræðu um breytingar á stjórnarskránni í jákvæðan farveg, þá eru alvarlegar blikur á lofti í samfélaginu sem nauðeynlegt er að bregðast við og þar skiptir máli að fólk reyni ekki að ná stundarávinningi í pólitískum tilgangi í stað þess að vinna af heilindum fyrir land og þjóð.

Það verður að ná sátt á vinnumarkað. Við höfum ekki efni á að skaða þjóðfélagið með verkföllum. Það verður að taka á bankaokrinu og sjálftökuliðinu í fjármálastofnunum og víðar í samfélaginu. Það verður að spara í ríkisrekstrinum til að lækka skatta. Það verður að vinna lausnarmiðað að málum í stað þess að þingmenn skaði sjálfa sig og virðingu stjórnmálanna með því að standa í heimskulegu karpi sí og æ oft á tíðum um keisarans skegg.

Þá reynir á vilja og virðingu fyrir því að lýðræðið er ekki bara einræði meirihlutans frekar en það eigi að vera í gíslingu minni hlutans. Óneitanlega fannst mér sá tónn sem formaður Sjálfstæðisflokksins sló með grein sinni í dag gefa tilefni til þess að fleiri slíka tóna mætti slá landi og lýð til hagsbóta ef vili er fyrir hendi.

Vilji er allt sem þarf.

 


Það sem þú heldur að sé löglegt þarf ekki að vera það

Bifreiðastæði í miðborg Reykjavíkur gerast fágætari með hverjum deginum sem líður. Í dag þurfti ég að erinda í miðborginni og sá bifreiðastæði við Arnarhólinn suðvestan við byggingu Hæstaréttar. Þar sem að bifreið var lagt sunnan og norðan við stæðið þurfti ég að beita ökuleikni minni við að bakka inn í bílastæðið sem tókst með ágætum. Þar sem ég taldi mig vera um hálftíma að erindast þá borgaði ég fyrir stæðið til kl. 16.10 eins og stóð á miðanum sem var settur við framrúðu bifreiðarinnar.

Þegar ég kom til baka settist ég upp í bílinn og mér til undrunar þá var miði undir þurkublaðinu og þar stóð að ég væri sektaður fyrir stöðubrot. Ég skoðaði miðan vel og þar stóð að þetta hefði verið kl. 15.50 eða tæpum tíu mínútum áður en ég kom að bílnum og tuttugumínútum áður en tíminn var liðinn skv. samningnum sem ég gerði við bílastæðasjálfsalann.

Ég hringdi í bílastæðasjóð og var sagt að það væri í sjálfu sér allt í lagi að ég hefði borgað fyrir og tíminn hefði ekki verið liðinn, en ég hefði lagt of nálægt bílastæði langferðabíla. Það kom mér á óvart. Vissi raunar ekki til að langferðabifreiðar hefðu bílastæði í þessari götu en sjálfsagt er það vegna sömu skipulagsmistaka og Halldór Bragason þarf að líða fyrir daglega.

En ég sem borgari lagði í bílastæði milli tveggja fólksbifreiða. Greiddi stöðugjald og kom áður en tíminn var liðinn og þá var bílastæðið allt í einu orðið eitthvað annað en það virtist vera þegar ég af alkunnri ökuleikni minni lagði í bílastæðið sem ekkert benti til að væri ólöglegt að leggja í.

Ég er að hugsa um að fylgja fordæmi verkalýðsfélags Selfoss og andskotast út í bílastæðasjálfsalann fyrir að selja mér stæði og standa ekki við samninginn.

En það er greinilega vandlifað í Reykjavík Hjálmars Sveinssonar fyrir venjulegt fólk en frábært fyrir langferðabíla.


Það sem ekki er bannað er leyfilegt

Í lýðræðisríki er viðmiðunin sú að það sem ekki er bannað er leyfilegt. Það er ekki bannað að taka myndir af lögreglunni við störf eða að vera með myndavél í garðinum heima hjá sér. Þess vegna var það kristaltært að lörgrelumaðurinn sem fruntaðist við Halldór Bragason vegna myndatöku var kominn langt út yfir allt boðvald sem hann hafði lögum samkvæmt.

Þess vegna átti lögreglan að biðja afsökunar þegar í stað en ekki hiksta á því í sólarhring.

Svo var einkar gaman að hlusta á talsmann Persónuverndar fjalla um málið og átta sig ekki á þeirri grundvallarreglu í lýðræðisþjóðfélagi að það sem ekki er bannað er leyfilegt. Hvað sem persónuvernd, lögreglu, sérstökum saksóknara, samkeppniseftirliti, fjármálaeftirliti o.sfrv. o.sfrv. líður.

Þessi skipulagsvandi sem mál Halldórs Bragasonar og lögreglumannsins er sprottin af er vegna skipulagsmistaka borgaryfirvalda. Það var því við fáránlegt hæfi að ríkisfjölmiðillinn skyldi draga helstu áhrifavalda misheppnaðs miðbæjarskipulags til að fjalla um þetta mál. Það er ekki hægt að setja fullt af hótelum í miðbæinn og miða við að þar geti síðan áfram verið róleg íbúðahverfi fyrir venjulegt fólk.

Það gengur ekki að stórbílaumferð trufli borgarana á þeim tímum sólarhringsins sem fólk á að geta notið friðsældar á heimilum sínum og friðhelgis helgidaga þjóðkirkjunnar svo því sé nú haldið til haga.


Vér einir vitum

Vér einir vitum sögðu einvaldskonungar sem töldu sig hafa þegið vald sitt frá Guði. Almúginn hafði því ekki rétt til að hafa aðra skoðun. Í lýðræðisþjóðfélagi eru gagnstæð viðhorf. Morgunblaðið hefur um áratugaskeið verið opið mismunandi skoðunum og sjónarmiðum. Þess vegna er blaðið og blogg blaðsins lifandi vettvangur skoðanaskipta.

Tjáningarfrelsið fer fyrir brjóstið á blaðamanninum Árna Matthíassyni, sem talar úr sömu háhæðum og einvaldskonungar til forna. Í pistli á miðvikudaginn bregður hann þeim um greindarskort sem finnst eitthvað athugavert við framlag Íslands á Feneyjatvíæringnum þar em Svisslendingur gerir mosku í kirkju.

Í greininni sem Árni skrifar á kostnað okkar áskrifenda Morgunblaðsins, sýnir hann helstu einkenni þess sem vinstri menn mundu kalla tilraun til fasískrar þöggunar. Að mati blaðamannsins eru þeir sem hafa skrifað eitthvað misjafnt um moskubygginguna í kirkju í Feneyjum á kostnað íslenskra skattgreiðenda samkynja hópur vanvita sem eru auk þess miðaldra hvítir kristnir karlmenn, andstæðingar múslima, á móti hommum, á móti femínistum og á móti listamönnum.

Það er huggun harmi gegn að mati blaðamannsins, að hópurinn er kominn af léttasta skeiði og hann opinberar þá von sína að maðurinn með ljáinn muni fljótlega höggva stór skörð í raðir þeirra sem eru á öðru máli en hann.

Ég hef gert athugasemdir við að mörgum tugum milljóna sé varið til að byggja mosku í kirkju í Feneyjum og umstangið í kringum það. Í fyrsta lagi finnst mér það sóun á almannafé. Í öðru lagi sé ég ekki að það sé í samræmi við þann tilgang að kynna íslenska myndlist. Í þriðja lagi er verkið sett upp til ögrunar. Við Íslendingar fengum á okkur bjánastimpil á árinu 2008 og ítrekun á því er óþarfur. Blaðamaðurinn ætti að skoða hvað kollegar hans á víðlesnum blöðum eins og t.d. Daily Telegraph og Le Figaro hafa um málið að segja.

Umræðan og sjónarmiðin í þessu máli eru aðallega varðandi noktun  almannafjár. Það skuli gengið framhjá íslenskum listamönnum við kynningu á íslenskri list í Feneyjum. Að ekki skuli kynnt íslensk list. Þessi atriði eiga erindi í þjóðfélagsumræðu í lýðræðislandi. Það hefur ekkert með afstöðu til homma, listamanna, kristni eða femínisma að gera. Blaðamanninum Árna Matthíassyni til upplýsingar þá vill nú þannig til að sá sem þetta skrifar er jákvæður í garð þessara hópa þannig að staðalímynd hans er líka röng.

Eftir að ég lét í ljós afstöðu mína á því að listaelítan skyldi ganga jafn freklega og raun ber vitni gegn íslenskum myndlistarmönnum og íslenskri myndlist hafa margir myndlistamenn haft samband við mig og gert mér grein fyrir hvernig ástandið er í spilltu umhverfi listaelítunar. þar sem sumir eru í náðinni en öðrum útskúfað eins og í svoét forðum. Því verður að breyta.

Þegar tugum milljóna króna er varið í moskubyggingu sem hefur engin tengsl við Ísland á kynningu íslenskrar myndlistar í Feneyjum, þá er eðlilegt að spurt sé. Erum við að verja peningum skattgreiðenda á réttan hátt. Getum við ekki gert betur?

Sú þöggun sem er varðandi þetta mál í íslenskum fjölmiðlum er ógnvekjandi en eftirtektarverð, lærisveinar Göbbels kunnu það fag út í æsar. Angi af sama meiði er umrædd grein blaðamannsins Árna Matthíassonar.

Grein sem birtist í Morgunblaðinu 16.5.2015. NB:

Ein leiðrétting; í næstsíðustu mgr. "á kynningu íslenskrar myndlistar" í stað kynningarhátíð myndlistar.


Verðtrygging lögleg

Dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 160/2015 kveður á um það að verðtrygging neytendaláns sé ekki ólögmæt samkvæmt íslenskum rétti að teknu tilliti til þess regluverks sem við höfum samþykkt sem EES þjóð.

Þar með liggur fyrir að verðtrygging neytendalána er gild og sú ætlan margra að hægt væri að fá henni hnekkt með dómstólaleið er röng. Ég hef verið og er andvígur verðtryggðum neytendalánum  og taldi að dómstólaleiðin væri til þess fallin að draga kraft úr baráttunni fyrir breyttri löggjöf sem tæki af tvímæli um að verðtryggð neytendalán yrðu gerð ólögleg. Mér finnst samt miður að ég skyldi hafa haft rétt fyrir mér varðandi væntanlega niðurstöðu Hæstaréttar í málinu en fannst það raunar nokkuð borðleggjandi allan tímann og var gefið bágt fyrir af mörgum að hafa þá skoðun.

Ríkisstjórnin lofaði að afnema verðtryggingu af neytendalánum og nú skiptir máli að þeir sem vilja réttlátt lánakerfi á Íslandi þar sem lánakjör verða sambærileg og á hinum Norðurlöndunum einhendi sér nú í baráttu gegn óréttlátri verðtryggingu.

Í því sambandi mega neytendur ekki láta svikalognið sem verið hefur undanfarna mánuði blekkja sig. Framundan er verðbólguholskefla ef fram heldur sem horfir- Nýr forsendurbrestur. Áður en það verður skiptir öllu máli að ná fram nauðsynlegum breytingum á lánakjörum fólksins í landinu.

Okurþjóðfélagið getur ekki gengið lengur þar sem fjármálafyrirtæki og lífeyrissjóðir hafa bæði axlabönd og belti í samskiptum sínum við fólkið í landinu. Það verður að koma réttlæti strax með afnámi verðtryggingar á neytendalánum þar með talið lánum til fasteignakaupa. Á því er ekki hægt að gefa afslátt.


Það er eitthvað rotið í listalífi Íslands

Einhver tók ákvörðun um að svisslendingur skyldi reisa mosku inn í kirkju í Feneyjum á kostnað íslenskra skattgreiðenda.

Listamaðurinn hefur m.a, í listsköpun  lýst aðdáun á sjálfsmorðsfluginu á tvíburaturnana í New York 11. september.  Það var því að vonum að íslenska listaelítan sem sér um Feneyjatvíæringinn skuli hafa valið hann til að koma íslömskum áróðri á framfæri í Feneyjum á kostnað íslenskra skattgreiðenda  á forsendum listar.

Þrátt fyrir að borgaryfirvöld í Feneyjum hafi ekki leyft opnun moskunnar inn í kirkjunni þá var hún samt opnuð. Ibrahim Sverrir Agnarsson helsti talsmaður Múslima á Íslandi lýsti þessu með eftirfarandi hætti:

"Frábær dagur í moskunni í dag og ekkert vesen með yfirvöld og reglulegt hefðbundið bænahald. Sádar og fleiri forríkir hafa reynt að fá að byggja mosku í Feneyjum í áratugi og ekkert gengið---- Svo kemur hið smáa Langtiburtustan Ísland og reisir fallegustu og áhrifamestu mosku í Evrópu. Glæsilegt Múslimar taka andköf af hrifningu."

Þá liggur það fyrir. Markmiðið var að byggja mosku í Feneyjum á fölskum forsendum.

Nú er eðlilegt að spurt sé: Hver ber ábyrgð á þessu?  Málið heyrir undir menntamálaráðuneytið og Illugi Gunnarsson verður að svara fyrir málið. Ber hann ábyrgð en ef ekki hver þá.

 


Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 9
  • Sl. sólarhring: 125
  • Sl. viku: 4599
  • Frá upphafi: 2267743

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 4247
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband