Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2020

Hver á peningana þína?

Stutta svarið við spurningunni hver á peningana þína er "eignarrétturinn er friðhelgur skv. 72.gr. stjórnarskrárinnar. Nú hefur ferðamála-iðnaðar- og nýsköpunarráðherra lagt fram frumvarp, sem tekur fyrir virk eignarréttindi neytenda á peningunum sínum og það afturvirkt.

Neytendur á Íslandi í ásamt með neytendum annarra Norðurlanda háðu um árabil harða baráttu til að tryggja lágmarksréttindi neytenda í pakkaferðum, sem ferðaskrifstofur skipuleggja og selja. Þar er kveðið á um lágmarksþjónustu og gæði, sem þurfi að vera til staðar og skuldbindingu um endurgreiðslu þeirra peninga, sem neytandinn greiðir til ferðarskrifstofunnar falli ferðin niður.

Ákvæðið um endurgreiðslu ferðakostnaðar er svo afdráttarlaust, að jafnvel þó að sá sem selur ferðina verði að fella hana niður vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna fyrir upphaf ferðar verður hann samt að endurgreiða neytandanum innan 14 daga. Auk þess er seljandi ferðarinnar skyldaður til að hafa tryggingar fyrir endgurgreiðslu til neytenda.

Í frumvarpi ferðamálaráðherra er tekið fyrir, að neytandinn geti fengið pakkaferð endurgreidda, sem hann greiddi frá 15. mars s.l. Í stað þess að fá peningana sína segir frumvarpið, að hann geti fengið inneignarnótu, sem neytandanum er heimilt að innleysa á 12 mánaða tímabili sömu fjárhæðar og þær greiðslur sem neytandinn innti af hendi. En hækki ferð í verði hvað þá? Frumvarpið segir ekkert um það. 

Það datt engum í hug við bankahrunið, að til að auðvelda og leysa tímabundið lausafjárstöðu fallinna banka, að þá yrðu innistæður neytenda bundnar í 12 mánuði. 

Ferðaskrifstofur sem eru nánast einu skipuleggjendur og söluaðilar pakkaferða fá skv. lögum ferðamálaráðherra að fara með fjármuni neytenda í 12 mánuði gegn útgáfu þeirra sérstöku aflátsbréfa, sem inneignarnótur nefnast. Þetta er nokkuð sérstakt ráðslag þar sem ferðaskrifstofurnar hafa iðulega ekki greitt neitt eða mjög takmarkaðan hluta kostnaðar vegna pakkaferðarinnar sem var aflýst. Ferðaskrifstofan gerir samning við flugfélag og hótel, en þarf ekki að greiða þeim fyrr en síðar og iðulega ekki verði ferð felld niður af óviðráðanlegum ástæðum. Samt sem áður á ferðaskrifstofan að hafa leyfi til að valsa með peninga neytandans eins og þeim sýnist næstu 12 mánuði skv. lagafrumvarpi ráðherrans. Ætlar ríkið síðan að ábyrgjast endurgreiðslu fari ferðaskrifstofan í þrot og tryggingarféð dugar ekki. Hvað með vexti af þessum haldlögðu fjármunum?

Frumvarpið er afturvirkt og tekur til ferða sem ekki voru farnar frá 15.mars. Neytendur hafa átt rétt á endurgreiðslu slíkra ferða frá 29. mars í fyrsta lagi, en ferðaskrifstofu ber að endurgreiða pakkaferð sem ekki er farin innan 14 daga frá aflýsingu. Er það skoðun ferðamálaráðherra og ríkisstjórnarinnar, að hafi ferðaskrifstofa þráast við og vanrækt að sinna þeirri lagalegu skyldu sinni að endurgreiða neytandanum innan 14 daga frá niðurfellingu ferðar, að þá skuli ferðaskrifstofan ölast rétt til að fara með peninga neytandans næstu 12 mánuði. Hvað er það annað en eignaupptaka? 

Svona aðför að stjórnarskrárvörðum eignarrétti og neytendarétti er ekki hægt að samþykkja. Ég skora á ráðherra að láta starfsfólk ráðuneytis hennar ekki fleka sig lengur til þessarar vanhugsuðu lagasetningar og draga þetta frumvarp til baka. Ef ekki þá vona ég að þingmenn sýni réttindum neytenda og stjórnarskrárvörðum eignarrétti einstaklinga þá virðingu að fella frumvarpið. 

 

 


Hinn sanni þjóðarauður

Í kjölfar efnahagslegra þrenginga og erfiðleika einkafyrirtækja vegna aðgerða stjórnvalda gegn C-19 hafa gamlir kommar skriðið á ný út úr holum sínum og láta víða til sín taka á samfélagsmiðulum. Inn holurnar, skriðu þeir þegar Kommúnisminn varð gjaldþrota 1989 og gat ekki brauðfætt þær þjóðir sem honum tilheyrðu. Nú telja þeir vera lag þar sem komið sá að endalokum markaðshagkerfisins. 

Í hita augnabliksins hafa sumir gamlir eðalkratar ringlast í höfðinu eins og  Jón Baldvin, sem færði Alþýðuflokkinn svo langt til markaðshyggju, að hann klofnaði. Nú telur hann helst til varnar vorum sóma að dansa á ný á Rauðu ljósi. 

Forustumenn Samfylkingarinnar Logi formaður og Ágúst Ólafur prédika að sannur þjóðarauður séu opinberir starfsmenn og leggja til að ríkið færi út kvíarnar í þessum hremmingum og fjölgi hálaunastörfum hins opinbera sem aldrei fyrr. Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar, fylkir liði sínu til verkfalla enda feitan gölt að flá hjá ríki og sveitarfélögum, þegar tekjur geta dregist saman allt að helmingi. 

Í hugum þessa fólks virðist það ekki neinum vafa undirorpið að endalok markaðshagkerfisins, kapítalismans sé runnin upp og best sé að láta þá sem eru að bögglast við að reka fyrirtæki á eigin kostnað einungis njóta þeirra mola sem hrjóta af borðum hálaunaaðals í þjónustu ríkisins. 

Framleiðsluverðmæti er eitthvað sem þetta vinstra fólk telur ekki skipta máli enda skilur það sjaldnast hvað í því felst.

Sennilega hefur aðeins einu sinni áður verið boðuð jafn purkunarlaus ríkishyggja. Það var hjá Rauðu Khmerunum í Kambodíu forðum daga.  

 

 

 

 

 


Grípum tækifærin

Þegar syrtir í álinn er mörgum gjarnt að sjá ekkert nema svartnættið. Klifað hefur verið á því að C-19 sé fordæmalaus sjúkdómur. Það er rangt. Mörg dæmi eru um sjúkdóma svipaðrar gerðar og farsóttir sem hafa verið mun skæðari. Það sem er fordæmalaust eru viðbrögðin þar sem þjóðfélögum er lokað og fólk skyldað til inniveru svo vikum skiptir.

Við höfum fengið á okkur högg,einkum ferðaþjónustan. C-19 veiran er skepna sem við þekkjum lítið, en smám saman hafa hrotið fróðleiksmolar af borðum vísindamanna. Sumir hverjir þess eðlis, að ætla má, að faraldurinn líði fyrr hjá, en ætlað hafði verið.

Tekist hefur að lágmarka útbreiðsluna hér á landi. Nú er því tími til kominn að athuga þá kosti sem eru í stöðunni. Óhætt ætti að vera að aflétta flestum hömlum sem verið hafa í gildi varðandi atvinnustarfsemi og mannamót, þó fjarlægðarmörk verði áfram virt auk nauðsynlegs hreinlætis.

Íslenska ferðaþjónustan og þjóðin á þá þann kost að markaðssetja Ísland sem land þar sem hvað öruggast er að vera bæði hvað varðar C-19 sem og góða heilbrigðisþjónustu. Ætla má að margir, sem hafa þurft að sætta sig við útgöngubann og inniveru svo vikum og mánuðum skiptir mundi kjósa það helst að fá að komast til lands sem býður upp á öryggi, ómenguð víðerni,hreint loft og vatn.

Við eigum því að vera viðbúin með markaðssókn um leið og ferðatakmörkunum er aflétt. Sá tími kemur fyrr en varir.  


Viðbrögð við veiru

Þegar atvinnutækifæri og þjóðarframleiðsla dregst verulega saman og ástæða er til að ætla að úr því verði ekki unnið næstu misserin er spurning hvernig auka má verðmætasköpun með sem skjótustum hætti. 

Fljótvirkasta og farsælasta leiðin er að heimila auknar fiskveiðar þegar í stað svo, fremi að markaðir séu til staðar. 

Þetta má skoða sem neyðarráðstöfun og því rétt að handhafar aflaheimilda fengju ekki þessar viðbóaaflaheimildir beint til sín heldur væri miðað við auknar krókaveiðar og viðbótin væri boðin upp á kvótamarkaði.

Byggðirnar um land allt sem kvarta nú sáran um atvinnuleysi og tekjutap ættu þá möguleika á að byggja lífsafkomuna á nýjan leik á fiskveiðum og fiskverkun í stað túrisma. Alla vega þangað til hann bankar upp á.


Gleðilegt sumar

Sem betur fer er þessi leiðinlegi vetur veðurfarselga liðinn. Hægt er að horfa vongóður fram á við þó að váboðar séu víða og samfélagið að hluta til lamað. Trausti Jónsson veðurfræðingur segir veturinn hafa verið í kaldara lagi þ.e. einn kaldasti frá aldamótum og veðurfarið hafi lagst í "skakviðri" frá miðjum desember. Gott orð og það var einmitt skakviðrið sem gerði veturinn svona erfiðan.

Veðurstofan setti iðulega viðvaranir, en síðan kom í ljós að takmörkuð ástæða hafði verið til slíks.Í sjálfu sér er eðlilegt að settar séu viðvaranir þegar veður eru válynd. Gerði stofnunin það ekki yrði henni heldur betur um kennt ef illa færi. Veðurstofan verður því að hafa vaðið fyrir neðan sig.

Sama gildir í baráttunni við Covid 19. Veirutríóið hefur iðulega sett tilmæli og reglur, í ítrasta varúðarskyni. Það er eðlilegt og þeirra skylda. Síðan er það ríkisstjórnar að meta heildstætt hvort ástæða sé til að fara eftir ráðleggingunum í einu og öllu. En það er hlutverk ríkisstjórnar að taka ákvarðanir út frá heildarmati.

Minna má á íslenska máltækið "Öll él styttir upp um síðir" í þeirri stöðu sem við erum nú á þetta máltæki vel við. Einkum eftir þennan hrakviðrissama vetur. Viðfangsefnið nú er að taka réttar ákvarðanir til þess að élin berjist ekki óðslega langt fram eftir sumri. 

Það er alvöru mál að loka þjóðfélagi og takmarka verðmætasköpun. Það leiðir til þess að tekjur einstaklinga, sveitarfélaga og ríkisins dragast saman sem m.a. leiðir til þess að samfélagsþjónusta minnkar og verður e.t.v. lélegri að gæðum. Það getur líka kostað mannslíf. Þessvegna er nauðsynlegt að við getum sem fyrst horft á gróandi þjóðlíf þar sem fólk tekst á við vandamál hversdagsins og áttar sig á að á endanum þá er "hver sinnar gæfu smiður".

Erfiðir tímar vara ekki að elífu. Duglegt fólk leysir vandamálin. Það getur tekið tíma. Þeim mun styttri tíma sem við sýnum sameiginlega þjóðfélagslega ábyrgð og ætlumst til meira af okkur sjálfum en öðrum. 

Gleðilegt sumar. 

 


Gjafir eru yður gefnar

Stjórnmálamenn eru hvað ánægðastir þegar þeir birtast eins og jólaveinar til að útdeila gjöfum til kjósenda á annarra kostnað. Andlit ráðherranna sem kynntu aðgerðarpakka ríkisstjórnarinnar nr. 2,voru eins og sól í hádegisstað svo glöð voru þau að geta kynnt nýju gjafirnar sem ríkisstjórnin af náð sinni ætlar að gefa, vegna afleiðinga C-19

Á sama tíma og gjafir eru gefnar, sem gjafþegar fagna, og þeir eru margir, skárra væri það nú þegar rúmlega einni loðnuvertíð brúttó er sturtað út úr ríkissjóði, þá skortir á heildahyggju. 

Námsmenn hljóta að fagna því að búa eigi til 3000 ný störf í atvinnubótavinnu fyrir þá. En hvað með þá launþega á 3 tug þúsunda sem missir og hefur misst atvinnuna?

Gjafapakkar til sprotafyrirtækja, fjölmiðla, rannsóknarstarfa og margs annars sem nú eru teknir upp eiga ekkert sérstaklega við viðbrögð við þeim fordæmalausu aðstæðum sem nú eru vegna fordæmalausra aðgerða stjórnvalda hér og erlendis við heimsfarsótt.

Þó látið hafi verið í veðri vaka að ríkissjóður standi svo vel að hann geti nánast allt, þá er það ekki svo. Gæta þarf ítrustu hagkvæmni og sparnaðar og forgangsraða til þeirra sem mest þurfa á að halda og beita almennum aðgerðum í stað sértækra. 

Því miður er ekki hægt annað en að gefa þessum aðgerðarpakka ríkisstjórnarinnar falleinkun þar sem miklum fjármunum er ausið úr ríkissjóði án þess að forgangsraðað sé fyrir almennar aðgerir sem nýtast þeim best, sem verða fyrir þyngsta högginu vegna fjármála- og atvinnukreppunar. 

Fyrst þarf að gæta þess í kreppum að grípa til aðgerða til að vernda eignir og lágmarkslífskjör fólks. Gæta verður þess, að samræmi sé í aðgerðum og þær séu altækar en ekki sértækar eftir því sem kostur er. 

Í stað sértækra gjafapakka þarf að grípa til altækra aðgerða eins og

afnema tryggingargjaldið,

frysta afborganir skulda í ákveðinn tíma,

láta vísitöluhækkanir á lán sem eru afleiðing þessara sérstöku aðgerða ekki koma fram og

endurstilla vísitöluviðmiðunina þegar fárið er gengið yfir.

Þá ríður á að það fólk, sem starfað hefur sem verktakar á ýmsum sviðum t.d. sem leiðsögumenn o.fl. og verður fyrir algjöru tekjutapi svo og aðrir sem starfa við afleidd störf, fái bætur frá hinu opinbera sem svara til þess, sem launþegar njóta í velferðarkerfinu. 


Ekki staðurinn eða tíminn.

WHO hefur gefið rangar upplýsingar og stutt kínversku kommúnistastjórnina í því að ljúga að heimsbyggðinni.

Rifjum aðeins upp: 

2019

30.12. Kínverskur læknir Li Wenliang 34 ára varar   við hættulegri veiru. Lögreglan þaggar niður í honum.

31.12. Taiwan hefur samband við WHO eftir að hafa séð skýrslu Li Wenliang um að veiran smitist á milli fólks. WHO heldur skýrslunni leyndri.

2020

3.1. Heilbrigðisyfirvöld í Kína krefjast þess af læknum og sjúkrastofnunum, að engar upplýsingar séu gefnar um veiruna.

9.1. Kína tilkynnir um undarlegan sjúkdóm í Wuhan.

14.1 Tíst frá WHO. Engar sannanir fyrir að veiran smitist milli fólks. 

20.1. Kína tilkynnir að smit berist á milli manna.

23.1. Wuhan héraðið lokað af en fram til þess voru ferðir frjálsar frá Wuhan til hvaða lands í heimi, en ferðabann var frá Wuhan til annarra héraða Kína á sama tíma.

28.1  Tedros framkvæmdastjóri WHO ber lof á Kínversku ríkisstjórnina fyrir góð viðbrögð við veirunni og lofar þau fyrir upplýsingagjöf.

30.1. Tedros heimsækir Kína og lofar stjórnvöld fyrir frábær viðbrögð til að vinna bug á veirunni.

31.1. Trump Bandaríkjaforseti tilkynnir um bann við flugferðum til Bandaríkjanna sem taki gildi 2.2.

4.2. Tedros framkvæmdastjóri átelur Bandaríkjaforseta vegna ferðabannsins og segir það geta haft alvarlegar afleiðingar og aukið á ótta fólks án þess að hafa jákvæða heilsufarslega þýðingu.

7.2. Le Wenliang læknir sá sem fyrstur vakti athygli á veirunni deyr.

14.2 Tedros varar fólk við að gagnrýna Kína nú sé ekki rétti staðurinn eða tíminn.

28.2. WHO gefur út 40 síðna skýrslu þar sem framganga Kínverja við að ráða niðurlögum veirunnar eru lofuð.

11.3. Tedros yfirlýsir að um heimsfaraldur sé að ræða.

18.3. Yfirmaður hjá WHO gagnrýnir Trump fyrir að tala um Kínaveiru.

29.3. Ai Fen læknir í Wuhan sem var meðal þeirra fyrstu til að vara við veirunni hverfur. Talið að kínversk stjórnvöld beri ábyrgð á því.

Þessi upptalning sýnir að WHO hafði aldrei frumkvæði og lagði aldrei neitt til sem skipti máli varðandi veiruna. WHO brást algjörlega. WHO er algjörlega í vasanum á Kínverjum. Þá sést líka, að Kínverjar leyndu staðreyndum eins lengi og þeir gátu um veiruna. 

Á meðan ferðabann var frá Wuhan til Kína var ekkert ferðabann frá Wuhan til annarra landa. Veiran dreifðist óhindrað út frá Kína. Kínversk yfirvöld héldu því fram lengi að veiran smitaðist ekki á milli fólks þó svo þau vissu að það var rangt. Tedros WHO forstjóri tók undir það og sagði lengi vel að veiran smitaðist ekki á milli fólks. Hvar skyldu rannsóknirnar sem réttlætu þær yfirlýsingar vera. Einfalt: Þær eru ekki til. Þetta var argasta lygi og bæði Tedros og kínversk stjórnvöld vissu það.

Til er orðtæki sem segir "margur verður af aurum api." Það mætti útfæra og segja "Margur verður af annars aurum api." Það virðist svo sannarlega eiga við um þær ríkisstjórnir Vesturlanda sem fordæma þá ákvörðun Trump að greiða ekki að sinni til WHO. Hvað þá heldur þann stjórnmálamann á Vesturlöndum, utanríkisráðherra Íslands, sem jók í kjölfarið framlag til WHO.

Stjórnmálamenn á Vesturlöndum eru á nálum yfir því að missa velvild kínverskra stjórnvalda og hafa látið þá gera sig að viðundri allt of lengi. Þeir hafa ekki staðið með lýðræði og mannréttindum til að njóta viðskiptalegrar náðarsólar Kínverja. Nú reynir á. Ætlar Evrópa að standa með þeim gildum, sem hafa skapað frelsi og velmegun í álfunni eða á að halda áfram að standa með ófrelsinu og afsaka það, að Kínverjar skuli hafa hrint af stað heimsfaraldri sem þeim hefði verið í lófa lagið að koma í veg fyrir og segja satt og fá aðrar þjóðir í lið með sér á upphafsdögum veirunnar. 

Í leiðara Fréttablaðsins á fimmtudaginn var vísað í aðgerðir Trump gagnvart WHO og sagt að nú "væri hvorki rétti staðurinn eða tíminn til að vandræðast við WHO. Nákvæmlega sama sögðu stjórnmálamenn og íþróttaforusta Evrópu fyrir Olympíuleikana í Berlín. Þó vitað væri um mannréttindabrot nasista og ofsóknir gegn Gyðingum þá sameinaðist hagsmunakór velviljaðra afglapa í að segja. "Nú er ekki rétti staðurinn eða tíminn til að gagnrýna"  

Seint virðist það ætla að ganga að stjórnvöld lýðræðisríkja grípi tímanlega til sameiginlegra aðgerða gegn ógnar- og einræðisstjórnum þrátt fyrir að þær sýni eðli sitt eins og Kínverjar núna. 

Ef það er ekki rétti staðurinn eða tíminn núna til að láta Kína og WHO svara til saka fyrir afglöp sín, sem valdið hafa heimsfaraldri og ógnar efnahagskerfi Vesturlanda og fleiri svæða í heiminum hvenær þá?

Nú er einmitt rétti staðurinn og tíminn fyrir Vesturlönd til að mótmæla lyginni og krefjast rannsóknar á framgöngu Kínverja og WHO í málinu. 

        

 

 


Danir opna á morgun- Af hverju ekki við?

Dönsk yfirvöld hafa ákveðið að heimila á ný að margvísleg atvinnustarfsemi verði leyst úr viðjum C-19 lokunnar. Fjarri fer því að danir hafi ekki beitt ýtrustu varfærni í samskiptum við þessa veiru og gengið ef eitthvað er lengra en við.

Hárskerar,hárgreiðsla, sjúkraþjálfarar og margar fleiri starfsgreinar verða opnar og til þjónustu frá og með morgundeginum 20.apríl skv. tilkynningu frá dönsku ríkisstjórninni. Skilyrt er að gætt verið ákveðinna leiðbeiningarreglna.

Þar sem samfélagslegt smit hér á landi er komið niður í lágmark er spurning af hverju á að meina þessum starfsstéttum hér að hefja störf næsta hálfa mánuðinn?

Er einhver vitræna glóra í því að halda við stífri lokun til 4. maí og gera höggið á efnahagskerfið enn þyngra en það þyrfti að vera? Er ekki hætta á því að fólk í auknum mæli hætti að vera "almannavarnir" ef samskiptareglur og atvinnustarfsemi er lokað mun lengur en nokkur skynsemi er til að gera það?


Leggjum niður glórulausa skattheimtu

Hræðslan við C-19 veiruna og viðbrögð stjórnvalda hafa girt fyrir tekjumöguleika fjölmargra einstaklinga í sjálfstæðri atvinnustarsemi og rýrt verulega möguleika annarra til að afla sér tekna. Við því þarf að bregðast með því að afnema skattlagningu sem nú er með öllu óréttmæt og viðmiðanir sem standast ekki lengur.

Tryggingargjald á atvinnurekstur hvort heldur stórrekstur eða einstaklingsrekstur hefur alltaf verið ósanngjarnt. Það er fráleitt að skattleggja einstaklinga sérstaklega fyrir að vinna hjá sjálfum sér hvað þá fyrir að ráða fólk til starfa.

Nú þegar tekjumöguleikar í mörgum greinum eru engir og tekjur nánast allra einstaklinga og lítilla fyrirtækja í atvinnurekstri rýrast verulega er tvennt til vilji stjórnmálamenn gera fólki kleyft að vinna sig út úr kreppunni. Annars vegar að létta af sköttum eða skattleggja fólk og dreifa síðan skattfénu út frá ríkinu að geðþótta stjórnmálamanna.

Aðgerðarpakkar ríkisstjórnarinnar hafa því miður verið með þeim hætti, að deila peningum úr ríkissjóði í stað þess að skera burt óréttmæta skattheimtu.

Það er lífsnauðsyn fyrir vöxt og viðgang eðlilegs atvinnulífs í landinu nú og þegar þessu fári lýkur, að létta af þeim sköttum sem eru óréttmætir og sérlega íþyngjandi miðað við aðstæður. Þar kemur þá helst til að skoða að leggja niður tryggingargjaldið, sem er áreiknaður skattur upp á 6.3% af ætluðum tekjum atvinnurekandans. Þá þarf að afnema viðmiðunarfjárhæðir Ríkisskattstjóra til útreiknings staðgreiðslugjalda. 

Viðmiðunarfjárhæðir Ríkisskattstjóra fyrir atvinnurekendur segja, ef þú stundar þessa atvinnugrein átt þú að hafa þessar tekjur og greiða skatt af þeim hvort sem þú hefur þær eða ekki. Fyrir liggur að þessar viðmiðanir eru allar hrundar til grunna og þá er eðlilegt að gefa borgurnum heimild til að greiða staðfgreiðslugjald á grundvelli rauntekna eins og þær eru nú í stað ímyndaðra tekna sem Ríkisskattstjóri telur að fólk í sjálfstæðum atvinnurekstri eigi að hafa skv. reikniformúlu sem heldur engu vatni núna. 

Þessar ráðstafanir verður að gera þegar í stað og þær eru affarasælli en sú stefna ríkisvaldsins skv. þeim aðgerðarpökkum sem hefur verið spilað út, að halda skattheimtunni áfram og greiða síðan til ákveðinna aðila eftir geðþótta. 

Afnám tryggingargjaldsins og viðmiðunartekna Ríkisskattstjóra eru nauðsynleg fyrsta aðgerð til að koma á móts við einkafyrirtæki í ástandi eins og nú ríkir. Slík aðgerð er til þess fallin, að lítil og meðalstór fyirtæki geti lifað af og hún gerir ekki upp á milli einstaklinga ólíkt því sem allir gjafapakkar ríkisstjórnarinnar til þessa munu gera. 


Er rétt að styðja WHO eða hætta stuðningi við þá eins og USA

Ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur ákveðið að hætta tuga milljarða fjárhagsstuðningi við WHO. Donald Trump Bandaríkjaforseti liggur undir ámæli fyrir þessa ákvörðun m.a. frá þjóðarleiðtogum, sem leggja hlutfallslega mun minna til WHO en Bandaríkjamenn hafa gert.

Ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur gagnrýnt WHO fyrir að hafa ekki staðið sig þegar C-19 kom upp. Ekki haft forustu. Ekki gengist fyrir samræmdum aðgerðum. Látið þöggun Kínverja framhjá sér fara og stutt þá í þögguninni.  WHO hafi því brugðist hlutverki sínu með hræðilegum afleiðingum, heimsfaraldri C-19. 

WHO hefur ekki staðið fyrir samræmdum aðgerðum til að vinna bug á faraldrinum eins og WHO ber að gera og sýnt af sér ótrúlega vanhæfni. Margir sem komnir eru fram yfir miðjan aldur halda, að Sameinuðu þjóðirnar séu það sem þær voru fyrir 20 árum eða 30 árum eða 40 árum. En því fer fjarri. 

Óstjórn innan SÞ og vanhæfni leiddi til þess m.a. að USA sagði sig frá samstarfi við UNESCO m.a. og fleiri stofnanir og þar var nú Trump ekki að verki.  

WHO hefur enga forustu og hefur ekki burði til þess og það er alvarlegt mál. Þessvegna fara þjóðir heims sínar eigin leiðir og ekkert samræmi er í gjörðum þeirra. WHO brást því og bregst algjörlega ætlunarverki sínu. 

Ekki var hægt að búast við neinu af WHO undir núverandi stjórn. Framkvæmdastjóri þeirra Dr. Tedros Adhanom Ghebreyesus gegndi háum embættum hjá Frelsisfylkingu Marxist Lenínista í Eþíópíu, sem hefur ekki kallað allt ömmu sína þegar kemur að hermdarverkum. Dr. Tedros tilnefndi harðstjóra og einræðisherra Zimbabwe, Robert Mugabe,  sem sérstakan velgjörðar sendiherra WHO. Robert Mugabe stóð fyrir fjöldamorðum á hvítum bændum í Zimbabwe og beitti lét drepa og pynta fjölda stjórnarandstæðinga í Zimbabwe. Þá hefur Dr. Tedros verið í nánu trúnaðarsambandi við Kommúnistastjórnina í Kína. Dr. Tedros hefur því hvorki né mun gagnrýna yfirhilmingar og rangfærslur Kínverja þegar C-19 faraldurinn braust út heldur staðið að þeim með Kínverjum. 

Þessvegna sagði Dr. Tedros í byrjun febrúar 2020 að ekki væri þörf samræmdra aðgerða það kom heldur betur á daginn.

Þegar stofnun eins og WHO sýnir algjöra vanhæfni og vangetu til að sinna því sem þeim er ætlað að gera, þá er eðlilegt að einhverjar þjóðir telji sér nóg boðið og þær neyðist til að fara sínar eigin leiðir. Miðað við frammistöðu WHO og framkomu hvað þá heldur forustu WHO þá er ótrúlegt að ekki skuli fleiri en Bandaríkjamenn hafa gagnrýnt hana og lýst algeru vantrausti á hana. Stofnunin og framkvæmdastjóri hennar eiga það svo sannarlega skilið. 

Í stað þess að gagnrýna Trump fyrir að gera það rétta í stöðunni ættu ríkisstjórnir Evrópu og fleiri að krefjast þess, að núverandi forusta WHO verði látin fara og hæfir einstaklingar verði kallaðir til í þeirra stað. Það skiptir máli fyrir heimsbyggðina að grípa til slíkra aðgerða í stað þess að ráðast á Trump fyrir að gera það eina rétta í þessari stöðu.

Vanhæft fólk getur ekki verið í forustu þegar baráttan er upp á líf og dauða. 

 


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 9
  • Sl. sólarhring: 125
  • Sl. viku: 4599
  • Frá upphafi: 2267743

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 4247
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband