Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2013

Íslensk stjórnmál á réttri leið.

Yfirbragð stjórnmálanna hefur breyst til batnaðar. Þess sáust merki í sjónvarpsumræðum fyrir kosningar. Í flestum tilvikum kom fram fólk sem fór fram af yfirvegun og prúðmennsku. Þá gátu fulltrúar þeirra flokka sem náðu kjöri á þing náð saman í eðlilegum málefnalegum umræðum.

Hvílík breyting frá því að hlusta á svigurmæli,illyrði og róg eins og fráfarandi forsætisráðherra beitti jafnan í umræðunni og helstu fylgismenn hennar og sporgöngufólk sem reitir nú hár sitt af reiði yfir að hafa fallið út af þingi og kennir Árna Páli um. Tími hatursins, reiðinnar og sleggjudómanna er vonandi liðinn. Alla vega í bili og vonandi sem lengst. Púkinn á fjósbita Vinstri grænna verður að vera úti í horni þó lengsta þingsögu hafi.

Það var gaman að sjá nýkjörna þingmenn tjá sig í dag með þeim hætti að þeir vilji bæta yfirbragð þingstarfa og stuðla að sátt og einingu í þjóðfélaginu. Það gefur von um betri framtíð í stjórnmálunum.

Formaður Sjálfstæðísflokksins komst vel frá þessum fyrsta degi í sviðsljósinu sem hugsanlegur verðandi forsætisráðherra. Það er góðs viti að þingmenn bíða ekki eftir því að leifar fortíðarinnar á Bessastöðum taki sér vald umfram það sem eðlilegt er og íslensk stjórnskipunarhefð býður upp á.

Vonandi halda þingmenn áfram á þessari braut og ná að auka veg og virðingu Alþingis þó þeir haldi fast á málum í samræmi við hugsjónir sínar og víki aldrei, þegar hagsmunir lands og þjóðar eru í húfi.

 


Þorvaldur og þjóðarviljinn.

Þorvaldur Gylfason hefur um nokkurt skeið talið sig hafa sérstakt umboð frá þjóðinni til að tala í nafni hennar. Sérstaklega varð þetta áberandi eftir að Þorvaldur var valinn í Stjórnlagaráð og freistaði þess að eyðileggja stjórnarskrá lýðveldisins.

Þar sem Þorvaldur taldi að enginn stjórnmálaflokkur gæti flutt boðskap þjóðarinnar jafn hreinan og tæran og hann sjálfur stofnaði hann sérstakan flokk ásamt skoðanasystkinum sínum úr Stjórnlagaráðinu til að slá hinn eina sanna tón í íslenskum þjóðmálum. Þorvaldur hélt því ítrekað fram að stjórnmálastéttin í heild sinni hundsaði þjóðarviljann sem hann einn er umkominn að túlka hver er.

Í nótt fékk Þorvaldur og þjóðin raunsanna mælingu á þeim þjóðarvilja sem Þorvaldur talar fyrir og styður aðför stjórnlagaráðsins að stjórnarskránni. Þegar upp var staðið var stuðningur við flokk Þorvaldar og félaga 2.5%. Snöggtum minni en Dögunar sem Þorvaldur klauf sig frá vegna þess að þar á bæ misskildi fólk þjóðarviljann og Flokks heimilanna sem Þovaldur og félagar töldu ekki nógu fínt fólk til að fara í framboð fyrir fína framboð túlkenda þjóðarviljans.

Niðurstaða kosningana er samt ljós. Þjóðin hafnar Þorvaldi, stjórnarskrárdrögum hans og túlkunum hans á þjóðarviljanum.

Nú getur Þorvaldur sagt eins og séra Sigvaldi forðum: "Nú er víst best að biðja Guð að hjálpa sér. Eva Joly kann þó að standa Þorvaldi nær hvað ákall varðar eins og dæmi sannar.


Hrun Samfylkingarinnar

Athyglisverðastu úrslit alþingiskosninganna er hrun Samfylkingarinnar.  Jafnvel þó öll atkvæði útibúsins í Bjartri framtíð séu lögð við fylgi Samfylkingarinnar þá er samt stórtap.

Jóhanna Sigurðardóttir ber alla ábyrgð á fylgishruni Samfylkingarinnar.  Eftirtektarvert er að allir stuðningsmenn hennar úr gamla klofningsframboðinu Þjóðvaka sem voru í framboði fyrir Samfylkinguna skuli hafa fallið í kosningunum. ´

Árna Páli verður ekki kennt um slakt gengi Samfylkingarinnar. Jóhanna var búin að sá því illgresi sem Árni Páll gat ekki reytt úr arfagarði Samfylkingarinnar á þeim stutta tíma sem hann hafði frá því að Jóhanna sagði af sér.  Jóhanna virðist því hafa afrekað það að eyðileggja endanlega hugmyndina um sameiningu vinstri manna í einum flokki. Eftir þessar kosningar eru 3 álíka stórir vinstri flokkar á þingi. Síðan voru önnur vinstri framboð sem náðu ekki nægjanlegu fylgi. Jóhanna sklur því við vinstri væng stjórnmálanna í algjöru uppnámi. 

Vilji Samfylkingin ná áhrifastöðu í íslenskum stjórnmálum að nýju er mikið verk að vinna. Fylgið er hrunið og einu baráttumálin sem flokkurinn stendur fyrir meta kjósendur sem lítt aðkallandi.  Ljóst er að Samfylkingin þarf að fara í pólitíska endurhæfingu ef flokkurinn ætlar að reyna að verða trúverðugt sameiningarafl á vinstri væng stjórnmálanna.


Iðrun àn yfirbòtar

Forustumenn stjòrnarflokkana sem og annarra þingflokka segja nú allir að það hefði àtt að samþykkja kröfu mína í Hruninu að taka vísitölu verðtryggðu lànanna úr sambandi.

Það átti öllum að vera ljòst að það var nauðsynlegt þegar Hrunið varð en þà benti ég à að fasteignaverð mundi lækka, laun lækka,atvinna minnka,en verðbòlgan æða àfram vegna gengisfalls krònunnar. Àframhaldandi vísitölubinding við þessar aðstæður var því eignaupptaka og hreint ràn frà neytendum.

Þar sem öllum màtti vera þetta ljòst eftir að ég hafði bent à það í oktòberbyrjun 2008 af hverju hafnaði þà allt þetta fòlk að gera það sem ég lagði til um að taka verðtrygginguna úr sambandi?

Jà og af hverju hefur þessu fólki ekki dottið í hug að taka vísitöluna úr sambandi allan tímann síðan?

Það er of seint að iðrast kæru þingmenn og stjòrnmàlaleiðtogar þegar þið hafið ekkert gert í rúm 4 àr og yfir 350 milljarðar hafa verið teknir frà neytendum og fluttir til fjàrmàlastofnana,hrægammasjòða og lífeyrissjòða. 


Að vilja veitist mér auðvelt, en ekki að framkvæma hið góða

Samfylkingin gleymdi strax í febrúar 2009 að flokkurinn hafði verið í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum í október 2008.  Hrunmálaráðherrann Jóhanna Sigurðardóttir, sem kom í veg fyrir að verðtryggingin væri tekin úr sambandi við Hrun talar jafnan eins og hún hafi ekki setið í ríkisstjórn Geirs H. Haarde 2007-2009.

Margir héldu að þetta væru elliglöp hjá Jóhönnu sem byrjuðu langt fyrir aldur fram, en nú hefur komið í ljós að svo er ekki. Þetta er Samfylkingarheilkennið. Með sama hætti og Jóhanna Sigurðardóttir var búin að gleyma því mánuði eftir að hún hætti í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum að hún hefði verið þar eða hvað gerðist á stjórnartímabilinu þá gleymdu aðrir forustumenn flokksins þessu líka. Nú hefur ný forusta Samfylkingarinnar gleymt því hvað þau og Samfylkingin hafa verið að gera síðustu 4 ár í ríkisstjórninni.

Nýja forustan leggur til að húsnæðislánakerfið verði eins og á hinum Norðurlöndunum en hefur verið á móti því í ríkisstjórn síðustu 4 ár.

Nýja forustan er á móti verðtryggingunni en engir hafa staðið dyggari vörð um verðtrygginguna síðustu 4 árin en Jóhanna Sigurðardóttir, Árni Páll Árnason og Katrín Júlíusdóttir.

Nýja forustan segir mikilvægt að eyða ekki meiru en aflað er. Ríkissjóður undir stjórn Katrínar Júlíusdóttur varaformanns Samfylkingarinnar og annarra fjármálaráðherra í ríkisstjórninni hefur eytt tæpum hundrað milljörðum árlega meir en aflað hefur verið. Fjárlagahallinnn á Íslandi undir stjórn Katrínar Júlíusdóttur er einna mestur í Evrópu.

Fleiri dæmi af Samfylkingarheilkenninu mætti nefna, en vísa má á vefinn xs.is fólki til skemmtunar. Þar eru margar lýsingar á því hvað Samfylkingin vill gera þert á það sem Samfylkingin gerði í ríkisstjórninni.  Eða eins og það er orðað í Rómverjabréfinu 7. kapítula 18. og 19. versi af Páli postula:

"Að vilja veitist mér auðvelt, en ekki að framkvæma hið góða. Hið góða, sem ég vil, gjöri ég ekki, en hið vonda, sem ég vil ekki, það gjöri ég.


Nektin og neyðin.

Neyðin kennir naktri konu að spinna, segir gamalt máltæki. Lýðræðisvaktin sem vill troða upp á þjóðina ónýtri stjórnarskrá, hefur endurhannað þetta orðtæki og birt nektarmynd af ásjálegasta frambjóðanda sínum undir kjörorðinu "Allt fyrir frægðina jafnvel að koma nakinn fram" eins og Egill Ólafsson frambjóðandi flokksins söng með sinni fallegu hljómmiklu rödd í myndinni "Með allt á hreinu".

Eini frambjóðandi Lýðræðisvaktarinnar sem hefur verið til sýnis fram að birtingu nektarmyndarinnar, hefur verið Þorvaldur Gylfason, klæddur í skósíða úlpu með hatt að hætti kúreka norðursins. Í hvert skipti sem Þorvaldur hefur birst þannig hefur fylgið hrunið.  Hönnunarsmiðir flokksins hafa því talið rétt að grípa til örþrifaráða.

Enn eru nokkrir dagar til kosninga og vonandi hafa hönnunarfræðingar Lýðræðisvaktarinnar ekki látið sér detta í hug, að reyna að auka fylgið við flokkinn með því að birta nektarmyndir af vaktstjóra flokksins. Þegar öllu er á botninn hvolft, þá er hætt við að Þorvaldur vaktstjóri særi meir fegurðarskyn landsmanna nakinn en í ljótu mussunni með hattinn.

Ef til vill  er þó  allt hey í harðindum eins og segir í öðru gömlu máltæki.


2000 leiguíbúðir

Fylgið dvínar fölnar rós.

Þannig er ástatt hjá Samfylkingunni að vonum eftir að hafa setið í 4 ár í vondri ríkisstjórn og svikið öll helstu kosningaloforðin frá 2009.

Í örvinglan sinni lofar Samfylkingin kjósendum 2000 leiguíbúðum. Þau Árni Páll og Katrín Júl sem eru í dag forusta Samfylkingarinnar og fengu sitt pólitíska uppeldi í Æskulýðsfylkingu Alþýðubandalagsins sáluga gera enga grein fyrir hvernig á að framkvæma þetta kosningaloforð.

Á ríkið að kaupa 2000 íbúðir og bjóða til leigu? Hvað skyldi það nú kosta marga milljarða?  Hver ætti leigan að vera? Ef miða ætti við eðlilega arðsemi af slíkri fjárfestingu þá mundi leiguverð hækka.

Vissulega er það réttmæt ábending hjá Árna Páli að Framóknarflokkurinn boðar að hundraða milljarða skuldbindingum verði velt yfir á skattgreiðendur og að slíkt sé óábyrgt. En leiguíbúðastefna Samfylkingarinnar er engu betri. 

Óneitanlega er það aumkunarvert að sjá flokk sem hefur setið í ríkisstjórn í fjögur ár lofa að afnema stimpilgjöld og uppgreiðslugjöld og leiðrétta ósanngjarnar byrðar verðtryggðra lána. Getur nokkur maður trúað eftir það sem á undan er gengið að þessu megi treysta frekar en öðru sem frá Samfylkingunni kemur.

Hvað voruð þið að gera Katrín og Árni Páll í þessi fjögur ár, bæði ráðherrar sem þessi mál heyrðu undir?


Ásókn upplausnaraflanna verður að hrinda

Óneitanlega kom á óvart þegar formaður Sjálfstæðisflokksins sagðist í beinni útsendingu íhuga afsögn vegna gengisleysis flokksins í skoðanakönnunum.  Afsögn formanns Sjálfstæðisflokksins kom að sjálfsögðu ekki til greina við þessar aðstæður enda fékk hann nýlega skýrt umboð Landsfundar til að leiða kosningabaráttuna.Því miður hefur umræða fjölmiðla, skólaspekinga og stjórnmálamanna snúist í síauknum mæli um niðurstöður mismarktækra skoðanakannanna en minna er fjallað um það sem máli skiptir.; Hvað ætlar þú og þinn flokkur að gera og hvernig?Dæmi um þessa umræðuhefð mátti sjá í viðtalsþætti við formann Sjálfstæðisflokksins í ríkissjónvarpinu, um 80% þáttarins fór í að fjalla um skoðanakannanir og slakt gengi flokksins í þeim. Í blálokin var vikið að örfáum atriðum sem greina Sjálfstæðisflokkinn frá hinum 14 flokkunum sem bjóða fram við þessar alþingiskosningar. Slík umræða og umfjöllun er ómarkviss og slæm fyrir lýðræðið þar sem hún dregur úr möguleikum kjósenda til að kynna sér stefnumál flokkanna.Í minningarorðum sem ég las um Margaret Thatcher var sérstaklega vikið að því að hún hafi ekki látið það á sig fá hvernig Íhaldsflokkurinn mældist í skoðanakönnunum heldur haldið ótrauð áfram við að berjast fyrir og framkvæma þau mál sem hún var kjörin til að koma áfram.Sjálfstæðisflokkurinn hefur þá sérstöðu meðal íslenskra stjórnmálaflokka að standa vörð um einstaklingsfrelsið og athafnafrelsið, gegn ofurvaldi ríkisins og skattheimtustefnu annarra flokka. Sjálfstæðisflokkurinn er flokkur reglu, aga og virðingar fyrir einstaklingnum og mannréttindum. Hann gætir þess að mikilvægustu stjórnarstofnanir ríkisins geti gegnt hlutverki sínu með markvissum og eðlilegum hætti. Þegar vinstri  upplausnaröflin sóttu að Alþingi og stjórnskipun landsins í ársbyrjun 2009 taldi ég, að nauðsynlegt væri, að allir sem vilja standa vörð um lýðræði í landinu og koma í veg fyrir upplausn og öngþveiti mynduðu breiðfylkingu gegn stjórnleysinu. Þess vegna var nauðsynlegt að leggja Sjálfstæðisflokknum lið að nýju til að ná því markmiði. Þessi staða er enn fyrir hendi.  Upplausnaröflum sósíalista var komið til valda með árásum á Alþingi og stjórnvöld í ársbyrjun 2009 og ístöðuleysi Framsóknarflokksins. Á þeim tíma bar brýna nauðsyn til að þjóðin sýndi samstöðu til að vinna sig út úr aðsteðjandi vanda. Mikilvægustu skrefin að endurreisninni höfðu þegar verið stigin. Hins vegar brást Framsóknarflokkurinn borgaralegum gildum og vinstri armur Samfylkingarinnar sá sér leik á borði. Afleiðingin varð fjögurra ára óstjórn, kyrrstöðu og svika.  Samkvæmt nýrri könnun er helsta afrek sósíalistastjórnarinnar að gera alla fátækari. Þannig sagði að tæpur helmingur landsmanna  vart geta náð endum saman eftir fjögurra ára norræna velferðarstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna. Sjálfstæðisfólk sem hefur íhugað að kjósa aðra flokka eða sitja heima verður að gera sér grein fyrir hvað er í húfi í þessum kosningum. Sótt er að stjórnskipun landsins og borgaralegum gildum. Þeirri ásókn verður að hrinda. Lækka verður skatta og draga úr umsvifum ríkisins. Athafnafrelsi, stórvirkjanir, atvinnusköpun og hagsæld verða að taka við af doða og kyrrstöðu þessa kjörtímabils. Neytendavitund, neytandastefna og sambærileg lánakjör og í nágrannalöndunum verða að taka við af okri á matvörum og lánum. Með þeim hætti bætum við lífskjörin.Sjálfstæðisflokkurinn er eini flokkurinn sem fylgir grundvallarstefnu frelsis og markaðshyggju. Hvort sem okkur líkar vel eða illa við einhvern í forustu flokksins þá býður þjóðarheill að vinstri upplausnaröflin eða yfirboðsloddurunum í  Framsóknarflokknum takist ekki að koma í veg fyrir framfarasókn þjóðarinnar. 

Svarið við því er X við D á kjördag. 

(Grein birtist í Morgunblaðinu 22. 4.2013)


Ránsfeng verðtryggingarokursins verður að skila.

Ítrekað hefur verið sýnt fram á að dýrustu og óhagkvæmustu lánin eru verðtryggð lán til húsnæðiskaupa fyrir neytendur. Krafan um að afnema verðtryggð neytendalán er því að vonum sterk. Allir sjá óréttlætið sem fellst í verðtryggingarokrin nema þeir sem fá ránsfenginn og  stjórnmála- og fræðimenn sem eru á mála hjá þeim.

Margir halda því fram að verðtryggð lán til neytenda séu ólögleg. Ég efast um það miðað við þá óslitnu framkvæmd sem verið hefur hér í áratugi. Verðtryggð neytendaán eru hins vegar óréttlát og við eigum að koma í veg fyrir óréttlæti. Það þjóðfélag sem ekki gætir réttlætis fær ekki staðist sagði Leo Tolstoy og ég sammála.

Ég krafðist þess 6. október 2008 að verðtryggingin yrði tekin úr sambandi með nýjum neyðarlögum. Því miður komu Gylfi Arnbjörnsson, Jóhanna Sigurðardóttir og þeir sem þurftu að blása út höfuðstóla sína eftir 600 milljarða tap í hruninu í veg fyrir það. Afleiðingin er sú að  350 milljarðar hafa verið færðir frá neytendum til lífeyrissjóða, hrægammabanka og annarra fjármálafyrirtækja. Hefði tillaga mín verið samþykkt þyrfti ekki að tala um skuldavanda heimila í þessum kosningum og almenn velmegun væri

350 milljarðar hafa verið teknir af neytendum með verðtryggingunni vegna verðlagsbreytinga á sama tíma og húsnæði lækkar í verði, laun lækka og það er engin virðistauki í þjóðfélaginu. Hækkun höfuðstóla verðtryggðra lána við þessar aðstæður er því ekkert annað en ránsfengur.  Ránsfeng ber að skila.

Það er ekki sama með hvaða hætti ránsfeng er skilað.  Það gengur ekki að skila ránsfeng til eins með því að ræna annan eins og Framsóknarmenn og fleiri leggja til, sem ætla að færa fjármagnseigendum rúma hundrað milljarða á kostnað skattgreiðenda vegna lækkunar óinnheimtanlegra ónýtra skulda.  Það er til betri leið og hana verður að fara.

  

 


Hvernig var ástatt fyrir Bretlandi þegar Margaret Thatcher tók við

Margaret Thatcher er tvímælalaust einn merkasti stjórnmálamaður síðari hluta síðustu aldar. Hún verður jarðsett í dag og búist er við mótmælum vinstri sinna víða um Bretland vegna þess. Þeir eru álíka trúir sannfæringu sinni og Stefán Ólafsson prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands en þessir sósíalistar hafa engu gleymt sem þeir vilja muna en muna ekkert sem þeir telja hentugt að gleyma.

Þegar Margaret Thatcher tók við af ríkisstjórn James Callaghan forsætisráðherra Verkamannaflokksins var átandið þannig samkvæmt lýsingu eins ráðherrans í ríkisstjórn hans Peter Shore: "Hver hagsmunahópur í samfélaginu hefur enga tilfinningu eða skilning á því að vera hluti af samfélagi en reynir að ná sem mestu fyrir sjálfa sig."  Ríkisstjórn James Callaghan hugleiddi að beita neyðarlögum og kalla á herinn til að ná stjórn á þjóðfélaginu vegna frekju og yfirgangs sérhagsmunahópa.

Bill Rodgers flutningamálaráðherra í ríkisstjórn Verkamannaflokksins varð að horfa upp á móður sína deyja vegna þess að flutningaverkamenn stöðvuðu uppskipun m.a. á nauðsynlegum lyfjum fyrir móður hans. Rafvirkjasamtökin komu í veg fyrir að BBC gæti útvarpað og sjónvarpað á jólunum 1978 og lokuðu ITV sjónvarpsstöðinni í ágúst 1979.  Lestir gengu ekki og hjúkrunarkonur og þeir sem óku sjúkarbifreiðum fóru iðulega í verkfall auk annarra. Þjóðfélagið var nær stjórnlaust þegar Thatcher tók við og hafði þurft að leita eftir neyðarláni frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum.

Vegna þess að Thatcher hafði ákveðna þjóðfélagssýn og markmið þá tókst henni að snúa þessari þróun við og gera Bretlandi aftur að starfhæfu ríki sem forverum hennar Edward Heath úr Íhaldsflokknum og James Callaghan úr Verkamannaflokknum hafði báðum mistekist. Ný framfarasókn hófst í Bretlandi og hún greiddi niður ríkisskuldir. Eftir hennar dag hafa ríkisskuldir ekki verið greiddar niður heldur aukist.

Bæði Bretar og þeir sem unna viðskiptafrelsi og einstaklingsfrelsi eiga Margaret Thatcher mikið að þakka.


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 12
  • Sl. sólarhring: 119
  • Sl. viku: 4602
  • Frá upphafi: 2267746

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 4250
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 11

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband