Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Íþróttir

Ellert

Ég lauk við að lesa bókina Ellert, endurminningar Ellerts B. Schram vinar míns fyrir nokkru. Bókin er skemmtileg aflestrar og frásagnarstíllinn léttur og skemmtilegur mjög svo í anda höfundar. 

Gerð er góð grein fyrir fjölbreytileikanum í lífi, starfi og áhugamálum höfundar. Þar er af svo mörgu að taka, að eðlilegt er að því séu ekki öllu gerð ítarleg skil og sumu raunar yfirborðslega. Ég reikna með að þeir sem fylgdu Ellert í íþróttastarfi og innan íþróttahreyfingarinnar sakni margs, sem þeir telja mikilvægt að hefði komið fram alveg eins og við samferðamenn Ellerts í pólitík söknum margs, sem hefði verið gaman að höfundur gerði fyllri skil. 

Við Ellert áttum lengi samleið í pólitík eða allt til þess, að hann gekk í Samfylkinguna, en við það fjölgaði raunar skemmtilegu fólki í Samfylkingunni um þriðjung. Ég hefði viljað sjá ítarlegri umfjöllun í bókinni um hvað réði því, að Ellert sagði endanlega skilið við Sjálfstæðisflokkinn og valdi að ganga í Samfylkinguna. Einnig að höfundur hefði gert fyllri grein fyrir þeim átökum sem voru í Sjálfstæðisflokknum í átökunum milli Geirs Hallgrímssonar og Gunnars Thoroddsen og þá ákvörðun hans að hætta við að gefa kost á sér sem formaður Sjálfstæðisflokksins í framboði á móti Geir Hallgrímssyni, en af því tilefni,skrifaði meðritstjóri Ellerts á DV, Jónas Kristjánsson heitinn, að þjóðin hefði eignast sinn Hamlet.

Ellert gerir takmarkað grein fyrir þingstörfum sínum á fyrri árum þingmennsku sinnar og á það skortir að gerð sé grein fyrir ýmsum helstu baráttumálum höfundar í pólitík í gegnum tíðina.

Hefði höfundur og Björn Jón Bragason sem vann bókina með Ellert kosið að gera ítarlegri grein fyrir þeim mörgu atriðum, sem æskilegt hefði verið að gert yrði og ég hefði kosið, hefði bókin að sjálfsögðu orðið öðruvísi og vafalítið leiðinlegri aflestrar fyrir flesta og bókin meir en helmingi lengri.

Bókin er eins og hún er, létt og skemmtileg og lýsir vel leiftrandi frásagnargáfu höfundar og gerir góða grein fyrir helstu þáttum í lífi og starfi höfundar og sýnir lesendum inn í þann heim sem höfundur ólst upp við, þroskaferil hans, áföllum og sigrum. 

Það má virkilega mæla með þessari bók fyrir þá sem vilja lesa skemmtilega bók um endurminningar manns, sem hefur komið víða við og gegnt mörgum trúnaðarstörfum og tekur sjálfan sig ekki allt of hátíðlega nema í undantekningartilvikum. 

 

 


Sáuð þið hvernig ég tók hann?

Illa hefur gengið að ráða við C-19 veiruna í þessari nýju árás hennar á þjóðina. Þrátt fyrir aðgerðir og hertar aðgerðir, gengur lítið því miður. Þegar svo háttar til hættir fólki til að grípa til örþrifaráða að ástæðulausu.

Nú er þannig komið fyrir sóttvarnaryfirvöldum, af því að illa hefur gengið, að þau telja skyldu sína að finna upp á einhverju nýju til að banna, til að sýnast vera að gera eitthvað merkilegt. Grípi sóttvarnaryfirvöld til þess, þá eru þau í leið að viðurkenna, að þau hafi ekki gert rétta hluti síðast þegar þau takmörkuðu frelsi borgaranna. 

Af gefnu tilefni talaði RÚV við landstjórann, Kára Stefánsson í Kastljósi í gær, en jafnan er talað við hann þegar býður þjóðarsómi. Kári lýsti þörf á víðtækum aðgerðum og hertum m.a. að lokað yrði öllum verslunum nema matvöruverslunum. Í sjálfu sér er það ekkert vitlausara en að banna fólki að fara til rakara eða á hárgreiðslustofu. En vitlaust samt.

Getur verið að uppspretta smita sé í járnvöruverslunum, rafmagnsverslunum eða fataverslunum? Svarið er nei. Sama á raunar við um rakara- og hárgreiðslustofur. Hvaða rök eru þá fyrir því að loka þeirri starfsemi?

Úr því sem komið er, þá verður ekki við það unað lengur, að sóttvarnaryfirvöld grípi til víðtækra lokana og frelsisskerðingar borgaranna með ástimplun dáðlausrar ríkisstjórnar, nema færð séu rök fyrir nauðsyn og tilgangi. Hingað til hefur þess ekki þurft og þessir aðilar hafa farið sínu fram vitandi, að óttinn sem hefur gripið um sig í þjóðfélaginu leiðir til þess, að fáir og jafnvel engir spyrja spurninga hversu vitlausar svo sem aðgerðirnar eru. 

En nú er komið að vatnaskilum. Þjóðfélagið þolir ekki frekari frelsisskerðingar og takmarkanir, hvað þá þegar engin rök hníga að því að þau skipti máli eins og er um almenna mannlega starfsemi svo fremi fólk gæti að fjarlægðarmörkum og almennu hreinlæti. 

Aðalatriðið er að fólk passi sig og fari eftir almennum sóttvarnarreglum, en fái að lifa í frjálsu samfélagi, þar sem múrar og girðingar eru ekki settar um venjulegt líf borgaranna.

Því til viðbótar má leiða líkur að því að þessi faraldur muni réna innan skamms án frekari frelsisskerðinga og jafnvel þó að ýmsum takmörkunum yrði aflétt svo sem banni við að strákar og stelpur fái að spila fótbolta. Þess vegna er komið að ríkisstjórninni að standa í lappirnar en halda ekki áfram að eyðileggja efnahagslíf og velmegun þjóðarinnar til langframa.

Erfiðasti hjallinn er að komast í gegnum hópsýkingar á hjúkrunar- og öldrunarstofnunum, sem ekki tókst að koma í veg fyrir þrátt fyrir allar ráðstafanirnar. Þær eru staðreynd og við þeim verður ekkert gert núna annað en að hlúa sem best að þeim veiku og öldruðu sem smituðust á þessum stofnunum. En að öðru leyti og í framhaldi af því má ætla að smitum fækki verulega.

En í slíkum tilvikum, þegar sótt er í rénun eða við það að komast á það stig, þá skiptir heldur betur máli fyrir sóttvarnaryfirvöld að herða á ráðstöfunum til að geta sagt eins og Jón sterki forðum í Skugga Sveini, Matthíasar Jochumsonar.

"Sáuð þið hvernig ég tók hann." 


Í tilefni fundar nr. 100

Veirutríóið mun byrja sinn hundraðasta fund vegna C-19 fljótlega. Í byrjun var skírt markmið: að halda veikinni í því lágmarki að heilbrigðisþjónustan gæti jafnan sinnt þeim sjúku. 

Markmiðið náðist.Fullur sigur miðað við markmiðssetninguna. 

Síðan varð stefnulaust tómarúm. Haldið var við allskyns varúðarráðstafanir eftir sem áður jafnvel þó smit greindust ekki svo vikum skipti. 

Svo komu smit. Engum dettur þó í hug að það verði til þess, að heilbrigðisþjónustan geti ekki sinnt þeim sjúku. Hvert er markmiðið núna? Hvenær á að létta af takmörkunum á frelsi fólks?

Ríkisstjórnin hefur ekki markað neina stefnu í málinu hvorki fyrr né síðar. Hún hefur jafnan borið Þórólf sóttvarnarlækni fyrir sig eins og skjöld, sem þessvegna hefði mátt letra á: "Sómi Íslands sverð og skjöldur". Hún hefur skrifað upp á allt sem hann hefur lagt til. Svo fór á endanum, að jafnvel þessum sóma þjóðarinnar ofbauð og fór fram á, að ríkisstjórnin færi að stjórna landinu. Hann er í hópi örfárra einstaklinga sem njóta þess ekki að vera einráðir, en eru tilbúnir að afsala sér völdum.

Hvað sem lokunum og opinberum þvingunarúrræðum áhrærir, þá sýndi það sig um helgina,að sá hópur þjóðfélagsins sem er í mikilli þörf fyrir að viðhalda tegundinni og hefur fulla getu til þess, jafnvel á hinsegin dögum, lét sér lítt segjast um fjarlægðartakmarkanir og önnur bönn. Fróðlegt verður að sjá hvort að C-19 smitum fjölgar vegna þessa eftir viku eða svo. Ef ekki er þá ekki nokkuð ljóst að samfélagssmit eru hér fá og óþarfi að banna strákum og stelpum að hlaupa léttklæddum eftir fótbolta eða öðrum að horfa á þau hvað þá ýmsar anna sambærilegt og samfélagslegt. 

Nú þegar 100 fundir veirutríósins hafa verið haldnir. Hvernig væri þá að ríkisstjórnin birti stefnumið sín varðandi baráttuna við C-19 og hvað þarf til að fólk fái aftur að búa við fullt frelsi og því verði sjálfu treyst fyrir eigin sóttvörnum. 


Móðir allra sigra

Svo virðist sem að sigur íslenska landsliðsins í knattspyrnu hafi valdið því að þjóðinni muni fjölga töluvert níu mánuðum eftir þennan sögulega sigur.

Blaðið Daily Telegraph segir, að á Íslandi verði sigursins yfir Englandi minnst um ókomna tíð, en nú sé talið að sigurinn hafi einnig haft þá þýðingu að óvænt fjölgun barnseigna fylgi í kjölfarið. Blaðið vísar í lækninn Ásgeir Pétur Þorvaldsson í því sambandi.

Þá er bara að vona að landsliðið haldi áfram að vinna góða sigra svo að framhald geti orðið á fjölgun barnseigna með blómstrandi þjóðlífi og fleiri ánægjustundum með þjóðinni.

Er þá ekki við hæfi að segja áfram Ísland?


The lowly Iceland

Gremja Englendinga brýst fram með ýmsum hætti vegna þess að landsliðið þeirra tapaði fyrir Íslandi. Í grein í Daily Telegraph í dag er talað um að þeir hefðu tapaði fyrir "the lowly Iceland" þ.e. tapað fyrir þessu ómerkilega Íslandi. Annarsstaðar í blaðinu er liðinu hins vegar hrósað fyrir einbeitni og góðan fótbolta.

Seinna í dag keppir Íslenska landsliðið við það franska á þjóðarleikvangi Frakka í París. Leikvangurinn rúmar meir en 80 þúsund manns eða eins og einn af hverjum fjórum Íslendingum. Þannig kæmust rúmlega 25% íslensku þjóðarinnar á þennan völl.

Þessi stærðarhlutföll og sú staðreynd að við erum ítrekað að keppa við milljónaþjóðir og höfum haft betur fram að þessu sýnir hversu frábær árangur íslenska landsliðsins er.

Það þarf margt að ganga vel og fótboltinn er nú einu sinni þannig að það þarf góða og sterka liðsheild ásamt heppni til að vinna leiki þegar keppt er við álíka góð eða betri lið. Við höfum aldrei átt jafn sterkt og heilstætt landslið þar sem valinn maður er í hverju rúmi og við getum valið um frábæra varamenn til að fylla þeirra skörð ef nauðsyn ber til.

Synir mínir ákváðu að skella sér til Parísar til að styðja okkar menn og buðu mér að koma með, en ég sagðist frekar vilja slá tvær flugur í einu höggi og sjá undanúrslitaleik Íslands við Þýskaland og síðan úrslitaleikinn. Ég vona að mér verði að ósk minni og Ísland vinni Frakkland seinna í dag.

Þegar sú stund nálgast að strákarnir okkar fari að spila á þjóðarleikvangi Frakka í París mun ég fara í svitastorkinn íþróttabúninginn minn, en ég hef ekki viljað þvo hann síðan við byrjuðum að vinna af eintómri þjóðlegri hjátrú, en ég er eins og margir aðrir sem halda að þeir eigi besta leik allra á hliðarlínunni og það sé undir þeim komið hvernig leikurinn fer.

Hvernig svo sem gengur í dag þá erum við samt með langbesta landslið í heimi miðað við fólksfjölda.


Lífið er fótbolti

Ég hef ekki þorað að þvo landsliðsbúninginn minn frá því að EM byrjaði af ótta við að það muni breyta öllu til hins verra fyrir landsliðið. Það skiptir vissulega máli hvernig við á hliðarlínunni og/eða sjónvarpið undirbúum okkur fyrir leikinn. Ef svo heldur fram sem ég vona að íslenska landsliðið spili til úrslita á EM má búast við því að þeir sem næst mér standa þoli illa við í návist óþvegins landsliðsbúnings sem tekið hefur í sig og á öll geðhrif og spenning, gleði og sorg en þó aðallega gleði frá því að mótið byrjaði.

Landsliðsþjálfarinn sagði að úrslitin í leiknum í dag mörkuðu tímamót og mundi breyta einhverjum hlutum í ensku og íslensku þjóðfélagi til frambúðar. Ekki veit ég það svo gjörla en hitt veit ég að það hefði góð áhrif fyrir þjóðernistaugina ef við mundum vinna Breta. Jafnvel stagneraðir alþjóðahyggjukratar og kommar mundu þá ekki komast hjá því að viðurkenna að í þeim blundaði þjóðernissinni.

Hvað sem þessu öllu líður þá stöndum við með okkar mönnum hvernig sem fer og gleymum því ekki að þeir eru alltaf strákarnir okkar sem eru að gera sitt besta og þeir hafa verið og eru landi og þjóð til sóma. Þetta er besta knattspyrnulandslið sem við höfum nokkru sinni átt og vonandi tekst þeim það illmögulega í kvöld. Að vinna Breta.

Áfram Ísland.


Tvískinnungur?

Fyrir nokkrum dögum gengu ýmsir þjóðarleiðtogar í skrúðgöngu um götur Parísar til að minnast fórnarlamba hryðjuverkaárása vígamanna sem kenna sig bæði við Al Kaída og ISIS. Í dag er setningarhátíð handboltamóts í Quatar, ríkisins sem tengist peningalega hvað mest fyrrnefndum hryðjuverkasamtökum.

Engin þjóðarleiðtogana sem héldust í hendur og grétu krókódílatárum í Parísargöngunni sá ástæðu til að gera athugasemd við að Quatar skuli halda þetta alþjóðlega handboltamót. Engin þeirra hefur hreyft athugsemd við að Quatar haldi næsta heimsmeistaramót í fótbolta. Þeim gæti sennilega ekki verið meira slétt sama.

Þegar æðsti fursti einræðisríkisins Quatar kom til fundar við Cameroun forsætisráðherra Breta sagðist Cameroun ætla að gera alvarlegar athugasemdir við stuðning Quatara við hryðjuverkasamtök. Blaðið Daily Telegraph sagði að það hefði Cameroun ekki gert heldur hvatt einvaldinn í Quatar til að fjárfesta meira í Bretlandi.

Einræðisríkið Quatar hefur fjárfest mikið á Vesturlöndum og á verslanir eins og Harrods í London. Mótmælahópar í Evrópu m.a. hér á landi hafa farið mikinn og krafist þess að fólk kaupi ekki vörur frá Ísrael eða versli í verslunum í eigu Gyðinga. En það hvarflar ekki að þessu vinstrisinnaða mótmælafólki að mælast til þess að fólk versli ekki í verslunum í eigu Qutara þrátt fyrir að  þeir beri mikla ábyrgð á morðum, ráunum,mannsali og nauðgunum í Írak og Sýrlandi með stuðningi sínum við ISIS.     Tvískinnungur?

Þjóðarleitogarnir sem marséruðu um götur Parísar eru sjálfsagt ekki búnir að þrífa skítinn af götum Parísar undan skónum sínum. Þeir eru samt búnir að gleyma að það þarf meira en skrúðgöngur til að taka á hryðjuverkaógninni. Eitt af því er að hafa ekki samskipti við ríki eins og Quatar, sem styðja með virkum hætti hryðjuverkasamtök. Væri þeim einhver alvara þá gerðu þeir eitthvað í þeim málum í stað þess að telja hópgöngutúra virkasta aflið gegn illsku alheimsins. Fyrsta skrefið hefði verið að flytja handboltamótið í Quatar frá landinu eða kalla lið úr handboltakeppninni í Quatar og flytja heimsmeistarakeppnina í fótbolta frá Quatar.

En það er e.t.v. of mikið. Tvískinnungurinn verður að vera allsráðandi og Merkel og Hollande geta þá e.t.v. setið saman og fylgst með úrslitaleik keppninnar og hvatt sína menn til dáða á meðan peningarnir streyma frá gestgjöfunum til hryðjuvekasamtaka sem undirbúa næsta hildarleikinn í löndum þeirra .

 


Hryðjuverk og heimsmeistarakeppni.

Á sama tíma og vestræn ríki beita viðskiptaþvingunum gegn Rússum fyrir að styðja landa sína í Úkraínu þá finnst þeim sjálfsagt að ríkið sem styður hryðjuverk og uppreisnir í fjölmörgum löndum haldi heimsmeistaramót í knattspyrnu árið 2022.

Bandaríkjamenn vildu fá að halda heimsmeistaramótið í knattspyrnu árið 2022 og sendu fyrrverandi forseta sinn Bill Clinton til að vinna að því. Sagt er að þegar hann heyrði að af öllum ríkjum hafi Quatar verið tilnefnt hafi hann gjörsamlega misst stjórn á skapi sínu farið úr salnum og upp á hótelherbergið sitt og grýtt þar styttu í spegil með þeim afleiðingum sem jafnan verða þegar slíkt gerist.

Hitastig í Quatar í júní og júlí er milli 40 og 50 stig. Flott að keppa í fótbolta við slíkar aðtæður.

Quatar lætur peningana vinna og þeir fengu meirihluta gjörspilltra stjórnenda FIFA á sitt band. Quatar eru helstu stuðningsaðilar veðreiða og þess vegna er emírnum í Quatar boðið að fara í útreiðatúr með bresku konungsfjölskyldunni. Það er ein hliðin á krónunni en hin er dekkri sem varðar samskipti Quatar og alþjóðlegra hryðjuverkasamtaka.

Quatar er eina landið sem enn styður hryðjuverkasamtökin Hamas og leiðtogi þeirra Khaled Meshaal lifir þar í vellystingum á kostnað Quataríska ríkisins.  Þar er líka einn helsti leiðtogi fjármögnunaraðili hryðjuverkasamtakanna  Al Kaída, Omeir al-Naimi fyrrum forseti knattspyrnusambands Quatar. Quatarar borga fyrir flugskeytin sem Hamas liðar skjóta á Ísrael. Quatarar hafa veitt uppreisnarmönnum í Sýrlandi víðtækan stuðning.  Í dag er Quatar helsti stuðningsaðili hryðjuverkasamtaka í heiminum.

Þó íslendingar séu lítils megnugir á alþjóðavettvangi þá gæti íslenska knattspyrnusambandið tekið þetta mál upp og krafist þess að heimsmeistaramótið í knattspyrnu verði ekki haldið í landi þar sem blóð og spillingarfnykur drýpur af gríðalegum fjárframlögum landsins til hryðjuverka og gagnslausu stéttanna í Evrópu,  sem voru  því miður ekki settar endanlega til hliðar með frönsku byltingunni.  Með því mundum við leggja góðum málstað lið auk þess að  sýna siðræna reisn. Vilji FIFA ekki láta segjast þá eigum við að gangast fyrir því að evrópsk knattspyrnusambönd tilkynni að þau muni ekki taka þátt í heimsmeistarakeppni í landi sem styður alþjóðlega hryðjuverkastarfsemi.  

 


Í skugga hommahaturs

Hópur fólks berst fyrir því að þjóðir sniðgangi vetrarolympíuleikana sem eiga að vera í Rússlandi eftir 6 mánuði vegna afstöðu þarlendra til samkynhneigðra. Í fylkingarbrjóst hefur skipað sér frábær leikari Stehpen Fry.  Sniðgöngutillögurnar fá dræmar undirtektir og bæði Obama Bandaríkjaforseti og Cameron forsætisráðherra Breta hafa hafnað þeim með öllu.

Það hefur komið fyrir að þjóðir hafa sniðgengið Olympíuleika vegna stjórnarfars í viðkomandi löndum. Þá kom upp krafa um að sniðganga Evrópusöngvakeppnina í Aserbadjan s.l. vetur vegna harðýðgi, en af því varð ekki. Í þeim tilvikum þar sem þjóðir hafa sniðgengið Olympíuleika hefur það fyrst og fremst bitnað á þeim sem sniðgengu og íþróttamönnum þeirra.

Hætt er við að fljótt taki fyrir alþjóðleg samskipti ef fólk vill beita þeim reglum út í hörgul að koma hvergi þar sem því mislíkar eitthvað í stjórnarfari, siðum eða trúarbrögðum þjóða.  Samkynhneigðir mundu þannig berjast gegn því að nokkur alþjóðleg mót eða samskipti færu fram í Íslamska heiminum þar sem afstaðan til samkynhneigðra er mun harðari en í Rússlandi auk margra annarra landa.

Barátta samkynhneigðra fyrir eigin mannréttindum verður ekki aðskilinn frá mannréttindabaráttu almennt. Þess vegna er spurningin hvaða þjóðir uppfylla ekki þau skilyrði sem menn  vilja setja varðandi mannréttindi. Þar koma til skoðunar þjóðir sem virða ekki réttindi þjóðfélagshópa í eigin landi og réttindi minnihlutahópa.  

Svo má velta því fyrir sér hvort það er til þess fallið að koma á umbótum í mannréttindamálum að útiloka þá sem okkur finnst ekki þóknanlegir í þeim efnum. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að það horfi frekar til bóta til að koma á mannréttindum að hafa sem mest samskipti við þá sem brotlegir eru og láta þá heyra það sem okkur mislíkar.


Fer ekki á Olympíuleika vegna rasískra ummæla á Twitter.?

Unga gríska konan og þrístökkvarinn Voula Papachristou, sem átti að fara á Olympíuleikana í London hefur verið meinað að taka þátt í leikunum vegna ummæla um afríska innflytjendur á Twitter. Hún er fyrsti íþróttamaðurinn sem fær refsingu á Olympíuleikum fyrir meinta móðgun á samskiptavef. 

Það sem Papachristou sagði var eftirfarandi:

"Af því að það eru svo margir frá Afríku í Grikklandi, verða moskító flugurnar við Vestur Níl að borða heimagerðan mat."

Þrátt fyrir að Papachristou bæðist afsökunar og segðist aldrei hafa ætlað að móðga neinn eða skerða mannréttindi einhverja þá dugar það ekki til.

Rowan Atkinson sem leikur Mr. Bean m.a. hefur iðulega gagnrýnt takmarkanir á tjáningafrelsi og möguleikum fólks til að setja fram grín jafnvel þó það snerti ákveðna hópa.

Þegar þessi  ummæli Papachristou valda brottrekstri frá  Olympíuleikum þá er vandlifað í honum heimi. Það gleymist iðulega að mannréttindi eru fyrir einstaklinga og hugsuð sem slík, en ekki hópa eða þjóðir.

Í gamla daga mátti tala um svertingja, gult fólk, rauðskinna og hvítt fólk. Leyfir pólitísk rétthugsun það í dag? Í mörg ár gaf kona í Bandaríkjunum út  bókina "Truly tasteless jokes" þar sem gert er grín af svörtu fólki, Pólverjum, Gyðingum, hvítu fólki, Engilsöxum m.a. Ætla má miðað við pólitísku rétthugsun að það sé búið að handtaka hana og banna útgáfuna.

Mikið skelfing er lífið miklu erfiðara og leiðinlegra undir svona pólitískri rétthugsun þar sem m.a. ungt fólk sem er að gera að gamni sínu má búast við þungum viðurlögum og aðkasti vegna græskulausra kersknisummæla.

Svo virðist sem  Political Newspeak sem George Orwell talaði um í bókinni 1984 sé að verða  að veruleika. Það má e.t.v. minna á að það leiddi til raunverulegrar frelsisskerðingar og glataðra mannréttinda einstaklinga.


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Mars 2021
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.3.): 118
  • Sl. sólarhring: 401
  • Sl. viku: 1126
  • Frá upphafi: 1702939

Annað

  • Innlit í dag: 111
  • Innlit sl. viku: 1045
  • Gestir í dag: 111
  • IP-tölur í dag: 110

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband