Leita í fréttum mbl.is

Þjóðfjandsamlegar yfirlýsingar utanríkisráðherra

Það eru vonbrigði, að hlusta á utanríkisráðherra segja ítrekað, að Ísrael sé að fremja þjóðarmorð og séu sekir um stríðsglæpi. Ummælin eru bæði Gyðingafjandsamleg og andstæð hagsmunum Íslands. Yfirlýsingar utanríkisráðherra eru mun fjandsamlegri Ísrael en annarra ríkisstjórna í Evrópu hvað þá Bandaríkjanna og þjóna ekki utanríkispólitískum hagsmunum Íslands.  

Í leiðara breska stórblaðsins Daily Telegraph fyrir nokkru sagði um hugmyndafræði fólks eins og utanríkisráðherra Íslands;

„Siðferðilega andhverfan og umsnúningurinn er alger. Leiðtogar Ísrael eru lögsóttir fyrir glæpi gegn mannkyninu og stríðsglæpi sem er fráleit og fjarri því að haft sé í huga að þeir urðu að grípa til vopna í sjálfsvörn eftir að svívirðilegustu og mestu Gyðingamorð frá lokum síðari heimstyrjaldar.

Hamas hryðjuverkasamtökin frömdu stríðsglæpina. Kerfi alþjóðalaga var sett upp í lok síðari heimstyrjaldar til að koma í veg fyrir að „Helförin“ gæti átt sér stað aftur. En nú horfum við á land þar sem lýðræði ríkir, land sem reynir að koma í veg fyrir annað fjöldamorð á íbúum sínum, af hálfu samtaka, sem hafa á stefnuskrá sinni að útrýma öllum Gyðingum.

Óhjákvæmileg innrás Ísrael á Gasa hefur því miður leitt til dauða óbreyttra borgara. Það er átakanlegt að horfa upp á, jafnvel þó að hlutfall Hamas liða sem hafa fallið sé hærra en almennt gerist í stríði þar sem hryðjuverkamenn fela sig meðal óbreyttra borgara og tala fallina óbreyttra borgara sé hlutfallslega lægra en almennt gerist í stríði í borgum eins og í stríði Bandaríkja,Breta og Kúrda við ISIS.

Um helmingur fallinna eru Hamas vígmenn. Hamas felur sig á bakvið óbreytta borgara og hafa ekki áhyggjur þó að óbreyttir borgarar falli.

Hamas ber siðferðilega ábyrgð á öllum sem hafa fallið í stríðinu á Gasa með sama hætti og þýskir nasistar báru ábyrgð á þeim sem féllu í síðari heimstyrjöld og japanska keisaraveldið á þeim Japönum sem féllu." Síðar segir í leiðaranum;

“Vinstri sinnaðir lögfræðingar í alþjóðarétti hljóta þá að líta á öll dauðsföll óbreyttra borgra í síðari heimstyrjöld árin 1944 og 1945 sem stríðsglæpi og siðferðilega ámælisverða. Harry S. Truman, Winston Churchill, De Gaulle o.fl. hefði þá átt að lögsækja ásamt þeim leiðtogum nasista sem sóttir voru til saka í Nürnberg réttarhöldunum 1945-1946."

Hvílíkt fordæmi hefði það nú verið og andhverfa skynseminnar. Það er sú andhverfa sem utanríkisráðherra samsamar sig með og íslenska ríkisstjórnin og henni til jafn mikillar skammar. Svigurmæli og röng og fólskulegra ummæli í garð vinaþjóðar getur aldrei verið heilladrjúg framkoma smáríkis gegn vinaþjóð, sem nýtur órofa stuðnings þess ríkis,sem hefur tryggt varnir Íslands í tæp 80 ár og er eina ríkið sem við verðum að treysta til að gera það áfram. Það eru engin önnur ríki sem hafa áhuga vilja og getu til þess en Bandaríkin.

Sé Þorgerði Katrínu utanríkisráðherra og ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur mikið í mun að huga að hagsmunum Múslima í veröldinni, þá er sérkennilegt að íslenska ríkisstjórnin skuli ekki ræða um málefni og ofsóknir gegn Uyghurum í Kína og Rohingyum í Myanmar, en báðir þessir þjóðflokkar múslima sæta ofsóknum. Já og hafa þegar sent frá sér bunka af yfirlýsingum um þær hraklegu aðfarir sem ríkisstjórnir umræddra landa beita þessa minnihlutahópa. En þetta fer einhverra hluta vegna algjörlega framhjá vökulu auga "réttlætisgyðjunnar" Þorgerðar Katrínar utanríkisráðherra og sú glöggskyggna Kristrún Frostadóttir horfir þögul og afskiptalaus á.

E.t.v. er ríkisstjórn Kristrúnar mikið í mun að sýna fram á virka andstöðu sína gegn öllu sem tengist hægri, frjálshyggju eða kristnum viðhorfum og taka undir söng dauðasveita Hamas, Húta og Hezbollah um að þurrka Ísrael af kortinu.

Það er hið eina og raunverulega þjóðarmorð sem vofir yfir og það sem þessar dauðasveitir berjast fyrir að verði að veruleika. Þjóðarmorð á Gyðingum.

Vill íslenska ríkisstjórnin leggja sín lóð á vogaskálunum með hryðjuverkasamtökunum?

 

 

 


Fórnarlamb allra fórnarlamba

Venjulegast er a.m.k. einni frétt í aðalfréttatíma RÚV sjónvarps, um meint fórnarlamb, sem telur sig órétti beitt, vegna skorts á aðhlynningu á kostnað skattgreiðenda.

Einstaka sinnum og bara einstaka sinnum eiga þessar fórnarlambafréttir erindi til almennings.

Í gær birtist á skjánum í fréttatímanum, fórnarlamb allra fórnarlamba Harry nokkur prins af Bretlandi.

Fórnarlambið Harry býr í 2 milljarða króna húsi, með þjóna á hverju strái og flýgur með einkaþotum hvort heldur heimsálfa á milli eða til að fara á næsta Póló leik. Hann óskapaðist yfir dómstólum í Bretlandi,sem hefðu synjað honum um að fá lífverði og öryggisgæslu á kostnað skattgreiðanda, þegar hann lætur svo lítið að koma til Bretlands. 

Eðlilegasta spurningin er af hverju ættu skattgreiðendur að borga fyrir þetta ömurlegasta fórnarlamb allra tíma? Að sjálfsögðu kemur þeim þetta ekkert við eins og dómurinn sagði.

Svo er það annað mál hvað verið er að gera með svona dúkkulísur í nútímanum.


Pólitískur jarðskjálfti

Niðurstöður sveitarstjórnarkosninga og aukakosningar í Bretlandi í gær eru sögulegar.

Reform (Umbótaflokkur) Nigel Farage vann stórsigur og gengju þau úrslit eftir við þingkosningar mundi Verkamannaflokkurinn fá 156 þingmenn og tapa 255. Íhaldsflokkurinn fengi 4 þingsæti og tapaði 117. Umbótaflokkurinn fengi 427 þingsæti og bætti við sig 422 og fá afgerandi meirihluta. 

Annar eins pólitískur jarðskjálfti hefur ekki orðið í Bretlandi síðan Verkamannaflokkurinn kom á sjónarsviðið snemma á síðustu öld og skákaði Frjálslyndum í þriðja sæti.

Fyrir tveim árum ætlaði einn stærsti banki Bretlands, þar sem formaður Reform hafði bankaviðskipti, að loka á viðskipti hans sem einstaklings, ekki vegna vanskila heldur skoðana hans. Nú liggur fyrir að skoðanir hans hafa yfirgnæfandi fylgi í Bretlandi. En þetta sýnir hvað elítan er tilbúin að ganga langt til að svipta þá sem þora að tala af skynsemi og gegn Davos og Woke hugmyndafræðinni réttindum sínum. 

Woke hugmyndafræðin hefur tröllriðið Bretlandi og stærstu stjórnmálaflokkkarnir Íhald og Verkamannaflokkur gjalda fyrir að hafa tekið tillit til hennar og jafnvel fylgt henni þrátt fyrir að woke hugmyndafræðin fari í bág við það sem engilsaxar kalla "common sense" ekki síst í kynja- og innflytjendamálum.

Það eru spennandi tímar framundan í breskri pólitík. 

 


« Fyrri síða

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.7.): 284
  • Sl. sólarhring: 315
  • Sl. viku: 3012
  • Frá upphafi: 2566470

Annað

  • Innlit í dag: 264
  • Innlit sl. viku: 2816
  • Gestir í dag: 259
  • IP-tölur í dag: 254

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband