Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Þjóðfjandsamlegar yfirlýsingar utanríkisráðherra

Það eru vonbrigði, að hlusta á utanríkisráðherra segja ítrekað, að Ísrael sé að fremja þjóðarmorð og séu sekir um stríðsglæpi. Ummælin eru bæði Gyðingafjandsamleg og andstæð hagsmunum Íslands. Yfirlýsingar utanríkisráðherra eru mun fjandsamlegri Ísrael en annarra ríkisstjórna í Evrópu hvað þá Bandaríkjanna og þjóna ekki utanríkispólitískum hagsmunum Íslands.  

Í leiðara breska stórblaðsins Daily Telegraph fyrir nokkru sagði um hugmyndafræði fólks eins og utanríkisráðherra Íslands;

„Siðferðilega andhverfan og umsnúningurinn er alger. Leiðtogar Ísrael eru lögsóttir fyrir glæpi gegn mannkyninu og stríðsglæpi sem er fráleit og fjarri því að haft sé í huga að þeir urðu að grípa til vopna í sjálfsvörn eftir að svívirðilegustu og mestu Gyðingamorð frá lokum síðari heimstyrjaldar.

Hamas hryðjuverkasamtökin frömdu stríðsglæpina. Kerfi alþjóðalaga var sett upp í lok síðari heimstyrjaldar til að koma í veg fyrir að „Helförin“ gæti átt sér stað aftur. En nú horfum við á land þar sem lýðræði ríkir, land sem reynir að koma í veg fyrir annað fjöldamorð á íbúum sínum, af hálfu samtaka, sem hafa á stefnuskrá sinni að útrýma öllum Gyðingum.

Óhjákvæmileg innrás Ísrael á Gasa hefur því miður leitt til dauða óbreyttra borgara. Það er átakanlegt að horfa upp á, jafnvel þó að hlutfall Hamas liða sem hafa fallið sé hærra en almennt gerist í stríði þar sem hryðjuverkamenn fela sig meðal óbreyttra borgara og tala fallina óbreyttra borgara sé hlutfallslega lægra en almennt gerist í stríði í borgum eins og í stríði Bandaríkja,Breta og Kúrda við ISIS.

Um helmingur fallinna eru Hamas vígmenn. Hamas felur sig á bakvið óbreytta borgara og hafa ekki áhyggjur þó að óbreyttir borgarar falli.

Hamas ber siðferðilega ábyrgð á öllum sem hafa fallið í stríðinu á Gasa með sama hætti og þýskir nasistar báru ábyrgð á þeim sem féllu í síðari heimstyrjöld og japanska keisaraveldið á þeim Japönum sem féllu." Síðar segir í leiðaranum;

“Vinstri sinnaðir lögfræðingar í alþjóðarétti hljóta þá að líta á öll dauðsföll óbreyttra borgra í síðari heimstyrjöld árin 1944 og 1945 sem stríðsglæpi og siðferðilega ámælisverða. Harry S. Truman, Winston Churchill, De Gaulle o.fl. hefði þá átt að lögsækja ásamt þeim leiðtogum nasista sem sóttir voru til saka í Nürnberg réttarhöldunum 1945-1946."

Hvílíkt fordæmi hefði það nú verið og andhverfa skynseminnar. Það er sú andhverfa sem utanríkisráðherra samsamar sig með og íslenska ríkisstjórnin og henni til jafn mikillar skammar. Svigurmæli og röng og fólskulegra ummæli í garð vinaþjóðar getur aldrei verið heilladrjúg framkoma smáríkis gegn vinaþjóð, sem nýtur órofa stuðnings þess ríkis,sem hefur tryggt varnir Íslands í tæp 80 ár og er eina ríkið sem við verðum að treysta til að gera það áfram. Það eru engin önnur ríki sem hafa áhuga vilja og getu til þess en Bandaríkin.

Sé Þorgerði Katrínu utanríkisráðherra og ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur mikið í mun að huga að hagsmunum Múslima í veröldinni, þá er sérkennilegt að íslenska ríkisstjórnin skuli ekki ræða um málefni og ofsóknir gegn Uyghurum í Kína og Rohingyum í Myanmar, en báðir þessir þjóðflokkar múslima sæta ofsóknum. Já og hafa þegar sent frá sér bunka af yfirlýsingum um þær hraklegu aðfarir sem ríkisstjórnir umræddra landa beita þessa minnihlutahópa. En þetta fer einhverra hluta vegna algjörlega framhjá vökulu auga "réttlætisgyðjunnar" Þorgerðar Katrínar utanríkisráðherra og sú glöggskyggna Kristrún Frostadóttir horfir þögul og afskiptalaus á.

E.t.v. er ríkisstjórn Kristrúnar mikið í mun að sýna fram á virka andstöðu sína gegn öllu sem tengist hægri, frjálshyggju eða kristnum viðhorfum og taka undir söng dauðasveita Hamas, Húta og Hezbollah um að þurrka Ísrael af kortinu.

Það er hið eina og raunverulega þjóðarmorð sem vofir yfir og það sem þessar dauðasveitir berjast fyrir að verði að veruleika. Þjóðarmorð á Gyðingum.

Vill íslenska ríkisstjórnin leggja sín lóð á vogaskálunum með hryðjuverkasamtökunum?

 

 

 


Fórnarlamb allra fórnarlamba

Venjulegast er a.m.k. einni frétt í aðalfréttatíma RÚV sjónvarps, um meint fórnarlamb, sem telur sig órétti beitt, vegna skorts á aðhlynningu á kostnað skattgreiðenda.

Einstaka sinnum og bara einstaka sinnum eiga þessar fórnarlambafréttir erindi til almennings.

Í gær birtist á skjánum í fréttatímanum, fórnarlamb allra fórnarlamba Harry nokkur prins af Bretlandi.

Fórnarlambið Harry býr í 2 milljarða króna húsi, með þjóna á hverju strái og flýgur með einkaþotum hvort heldur heimsálfa á milli eða til að fara á næsta Póló leik. Hann óskapaðist yfir dómstólum í Bretlandi,sem hefðu synjað honum um að fá lífverði og öryggisgæslu á kostnað skattgreiðanda, þegar hann lætur svo lítið að koma til Bretlands. 

Eðlilegasta spurningin er af hverju ættu skattgreiðendur að borga fyrir þetta ömurlegasta fórnarlamb allra tíma? Að sjálfsögðu kemur þeim þetta ekkert við eins og dómurinn sagði.

Svo er það annað mál hvað verið er að gera með svona dúkkulísur í nútímanum.


Pólitískur jarðskjálfti

Niðurstöður sveitarstjórnarkosninga og aukakosningar í Bretlandi í gær eru sögulegar.

Reform (Umbótaflokkur) Nigel Farage vann stórsigur og gengju þau úrslit eftir við þingkosningar mundi Verkamannaflokkurinn fá 156 þingmenn og tapa 255. Íhaldsflokkurinn fengi 4 þingsæti og tapaði 117. Umbótaflokkurinn fengi 427 þingsæti og bætti við sig 422 og fá afgerandi meirihluta. 

Annar eins pólitískur jarðskjálfti hefur ekki orðið í Bretlandi síðan Verkamannaflokkurinn kom á sjónarsviðið snemma á síðustu öld og skákaði Frjálslyndum í þriðja sæti.

Fyrir tveim árum ætlaði einn stærsti banki Bretlands, þar sem formaður Reform hafði bankaviðskipti, að loka á viðskipti hans sem einstaklings, ekki vegna vanskila heldur skoðana hans. Nú liggur fyrir að skoðanir hans hafa yfirgnæfandi fylgi í Bretlandi. En þetta sýnir hvað elítan er tilbúin að ganga langt til að svipta þá sem þora að tala af skynsemi og gegn Davos og Woke hugmyndafræðinni réttindum sínum. 

Woke hugmyndafræðin hefur tröllriðið Bretlandi og stærstu stjórnmálaflokkkarnir Íhald og Verkamannaflokkur gjalda fyrir að hafa tekið tillit til hennar og jafnvel fylgt henni þrátt fyrir að woke hugmyndafræðin fari í bág við það sem engilsaxar kalla "common sense" ekki síst í kynja- og innflytjendamálum.

Það eru spennandi tímar framundan í breskri pólitík. 

 


Léleg þjónusta og metnaðarleysi.

Þ.11.9.2024 lagði ég inn öll gögn varðandi nýtt ökuskírteini og greiddi það sem mér bar að greiða m.a. fyrir póstsendingu. Nú 7 mánuðum síðar hefur skírteinið ekki borist. Í  bréfi frá sýslumönnum fyrir um mánuði var sagt að mistök hefðu orðið, en skírteinið mundi berst seinni hluta apríl. Ókomið enn. 

Ökumenn eldri en 65 ára þurfa af fáránleika stjórnsýslulegrar tilveru á Íslandi og bíða meir en hálft ár eftir skírteininu. Menn þurfa því að hafa sig alla við að ganga frá þessu í tíma. 

Ökuskírteinamálið er dæmi um metnaðarleysi og aulagang. Ekki eina dæmið því miður. Þannig birti Mbl. í Staksteinum fyrir tæpri viku upptalningu á því hvað stjórnsýslan á Íslandi er orðin svifasein miðað við það sem er annarsstaðar í álfunni. 

Enn verri dæma þekki ég til varðandi afgreiðslu stjórnsýslunnar í Reykjavík, þar sem einföld mál fást ekki afgreidd þó ekki þurfi annað en að stimpla og skjöl glatast og leggja þarf inn ný í stað þeirra sem glötuðust. 

Óneitanlega veltir maður fyrir sér hvort það sé einhver ofsakulnun í gangi hjá allt of mörgum opinberum starfsmönnum þrátt fyrir meinta hnattræna hlýnun. 


Ber ríkinu ekki að virða dóma Hæstaréttar

Bryndís Haraldsóttir þingmaður spurði fjármálaráðherra að því hvort stofnun, sem hann ræður yfir ÁTVR hefði brugðist við dómi Hæstaréttar og tekið aftur í sölu vörur sem þeir höfðu úthýst á eigin forsendum, sem Hæstiréttur dæmdi rangar og sagði að ÁTVR bæri að taka aftur í sölu. 

Daði Már Kristófersson ráðherra svaraði og upplýsti að ÁTVR hefði ekki tekið umræddar vörur í sölu og því miður bullaði síða um takmarkað húsrými ÁTVR, sem stenst raunar enga skoðun. 

Mundi fjármálaráðherra taka gilda afsökunarástæðu skattgreiðenda virðisaukaskatts, að skatturinn hefði ekki verið greiddur vegna fjárskorts, sem afsakaði greiðslufall.

Alvarlegri voru þó eftirfarandi ummæli ráðherranns:

"Samkvæmt íslenskum rétti er ekki sjálfgefið að þegar stjórnvaldsákvörðun er felld úr gildi leiði það til þess að fyrra ástandi skuli komið á, heldur er þýðing niðurstöðunnar undirorpin mati hverju sinni."

Í þessu máli var deilt um einfaldan hlut,hvort ákveðnar vörur skyldu vera til sölu í ÁTVR. Niðurstaða Hæstaréttar var að þær skyldu vera í sölu. Er eitthvað matskennt í niðurstöðu Hæstaréttar eða sem  heimilar svona orðhengilshátt ráðherra?  

Óneitanlega verður maður dapur þegar einn valdamesti maður samfélagsins fjármála- og efnahagsmálaráðhera heldur því fram, að ekki skuli farið að lögum og reynir auk þess að koma sér undan ábyrgð. 

Öll sú lögleysa sem nú viðgengst í þessu máli er á ábyrgð fjármála- og efnahagsráðherra sbr. 4.gr. laga nr.86/2011;

"Starfrækja skal sérstaka stofnun Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, ÁTVR, sem sinnir smásölu áfengis og heildsölu tóbaks undir stjórn ráðherra." 

Ekki þarf nokkur að velkjast í vafa, að stjórn ÁTVR er ráðherrann einn. Hann getur gert þær ráðstafanir sem hann vill og honum ber að gera til að fyrirtækið fari að lögum.

Spurningin er því: 

Ætlar ráðherra sem stjórnandi fyrirtækisins, að halda áfram að virða ekki dóm Hæstaréttar og baka ríkinu sífelld meiri bótaábyrgð auk þess vísvitandi að brjóta gegn lögum landsins og sýna af sér algjörlega siðlaust athæfi? 

Þegar þjóðskáldið Jónas Hallgrímsson spurði á sinni tíð höfum við gengið til góðs götuna fram eftir veg, þá hugsar maður til Þorgeirs Ljósvetningagoða eins merkasta lögmanns á Íslandi fyrr og síðar sem sagði:

"Það mun verða satt er vér slítum sundur lögin að vér munum slíta friðinn." 

Ætlar fjármálaráðherra að stuðla að því?

 

 


Spilling eða hvað?

Winston Churchill síðar forsætisráðherra Breta, sinnti mikilvægum störfum í ríkisstórn Bretlands í fyrri heimstyrjöld. Þrátt fyrir það var hann á svo lágum launum, að hann fékk sér vinnu við blaðamennsku og kennslu, sem aukavinnu.

Sama var um stjórnmálaleiðtoga á Íslandi um og eftir miðja síðustu öld og raunar allt til aldamóta. Launin voru um og undir því sem stjórnmálamenn hefðu fengið í laun á vinnumarkaðnum. Auk þess þurftu stjórnmálamenn iðulega að leggja flokkum sínum til fé, þar sem þeir voru ekki orðnir ríkisstofnanir eins og nú.

Nú er öldin önnur og ofurlaun stjórnmálastéttarinnar auk annarra starfskjara er langt umfram það sem eðlilegt er. Í því sambandi trónir sveitarstjórnarfólk víða um land á toppi þeirrar spillingar. Sveitarstjórnarmenn einkum á höfuðborgarsvæðinu hafa því iðulega mun hærri laun en alþingismenn þrátt fyrir minni vinnu. 

Í gær var sagt frá því að bæjarfulltrúi Pírata í Kópavogi hefði náð hæstu hæðum í launagreiðslum með setu í bæjarstjórn, ráðum og nefndum eða rúmar 1.3 milljónir á mánuði, nokkuð gott fyrir þægilega innivinnu og lítið vinnuframlag.

Þetta jafnast þó ekki á við, þegar Dagur B. Eggertsson og félagar stóðu fyrir því að setja fyrstu varaborgarfulltrúa allra flokka á laun til að fá VG sem haði misst annan fulltrúa sinn til að vera áfram í meirihlutanum. Þar fuku hundruðir milljóna vegna pólitísks ránsskapar Dags og félaga.

Á sínu tíma voru nefndir sveitarstjórna stofnaðar í tvennum tilgangi aðallega. Fá fólk með sérþekkingu til að fjalla um mál þar sem fagþekking var æskileg og jafnvel nauðsynleg og stuðla að valddreifingu. Nú keppast bæjarfulltrúar við að komast í launahæstu nefndirnar þar sem þeir fá ókeypis að borða um leið og þeir innbyrða tugi eða hundrað þúsunda í matartímanum, en hafa sjaldan gripsvit á þeim faglegu atriðum sem um ræðir.

Allt stjórnkerfi sveitarstjórna er óþarflega flókið, óskilvirkt og dýrt, að stórum hluta til að bæjarfulltrúar geti drýgt laun sín sem mest. 

Það var því að vonum að bæjarstjóri Kópavogs legði til að laun bæjarfulltrúa lækkuðu um 10% það er alla vega spor í rétta átt, en dugar samt ekki til meira þarf og pólitíska spilling sjálftökunnar er víða. 


mbl.is Píratinn trónir á toppnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dæmið réttlátan dóm

Þegar hersveitir Karls V Spánarkonungs og keisara hins „heilaga rómverska keisaradæmis“ unnu Wittemberg í trúarbragðastríði kaþólskra og mótmælenda lagði yfirhershöfðinginn til að líkið af villutrúarmanninum Marteini Lúter yrði grafið upp misþyrmt og hent. Spánarkonungur og keisari hafnaði og sagði; „Ég er í stríði við lifendur ekki þá dauðu“.

Nútíminn tekur sér refsivald yfir hinum dauðu. Styttur eru brotnar, bækur og mannorð fólks brennt í vítisloga ákærenda óháð sönnunum um sök og krafist að þeirra bíði sömu örlög og bannfærðra að kaþólskum sið á miðöldum. Sr. Friðrik Friðriksson, ástsælasti leiðtogi í íslensku æskulýðsstarfi hefur orðið harðast úti í þessum nútíma galdrabrennum.

Aðför að honum hófst rúmum 60 árum eftir andlát hans. Nú tveim árum síðar er vert að gaumgæfa, hvað ákærendur höfðu fram að færa og með hvaða hætti dómur var upp kveðinn yfir honum.

Eftir útgáfu bókar um sr. Friðrik þar sem dylgjað var um kynhneigð sr. Friðriks, án þess að sýnt væri fram á sök af hans hálfu, settu þrír einstaklingar, fram dylgjur um sr. Friðrik. Sr. Bjarni Karlsson auglýsti eftir fórnarlömbum og settist síðan ásamt sálfræðingi, í stól rannsakanda, síðan saksóknara og loks dómara. Dómurinn var í samræmi við það sem við mátti búast af fólki með fyrirfram skoðanir á málinu og því vanhæft til að fjalla um það auk þess að þekkja ekki til grunnreglna íslensks réttarfars.

Sr. Friðrik var dæmdur sekur án þess að gætt væri lágmarksreglna réttarríkisins um rannsókn, gagnaöflun, málsvörn og sönnun. Sagt var að „hafið væri yfir skynsamlegan vafa, að sr. Friðrik væri sekur um óviðeigandi háttsemi“ Það þýðir að lögfull sönnun liggur ekki fyrir.

Baráttuna þurfti að reka gagnvart stórmenninu sr. Friðrik þó hann hefði verið dáinn og grafinn í meira en 60 ár, og afrakstur verka hans órækar, mögnuð trúarljóð, KFUM og K, íþróttafélögin Valur og Haukar, skátasveitin Væringjar og karlakórinn Fóstbræður.

Hvað er að mati sr. Bjarna og sálfræðingsins hafið yfir skynsamlegan vafa. Ekkert annað en að þeirra mati óviðurkvæmilegar snertingar blinds aldurhnigins manns á drengjum. Ekki eru ásakanir um gróf brot,ofbeldi, frelsissviptingu, nauðgun eða neitt af því taginu. Eftirtekjan var að blindur maður hefði tekið unga drengi í fang sér, klappað þeim og kysst og þótti ekkert óeðlilegt við það á þeim tíma.

Allt lá þetta fyrir meðan hann lifði og helstu forustumenn þjóðarinnar töldu rétt að hefja fjársöfnun til að reisa styttu af einum besta syni Íslands. Í þeim hópi voru forustumenn í öllum stjórnmálaflokkum, dómarar Hæstaréttar, biskupinn yfir Íslandi og ýmsir höfuðklerkar. Þessir menn hefðu ekki komið að þessu máli ef eitthvað misjafnt hefði verið talið hjá sr. Friðrik.

Ég var 8 ára þegar ég kynntist sr. Friðrik. Þó samskiptin væru aldrei náin utan þess í upphafi þegar ég fékk mislinga í Vatnaskógi og það þurfti að setja mig í einangrun og sr. Friðrik kom þar ítrekað að meðan ég var í einangruninni í herbergi hans. Viðvera hans og nánd var þægileg og mér styrkur í veikindum mínum.

Ég kann ekki aðra sögu að segja af sr. Friðrik þann tíma sem ég þekkti hann, en að mér hafi alltaf þótt nærvera hans þægileg og minnist þess alltaf þegar 23. Davíðssálmur er lesinn eða sunginn, að það var í sérsöku uppáhaldi hjá sr. Friðrik að vísa til orðanna „jafnvel þó ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt því þú ert hjá mér“. Sr. Friðrik vísaði síðan til þess hve huggun og fullvissa væri mikilvæg þegar fólk lenti í erfiðleikum í umróti lífsins, sem ekkert okkar kemst hjá.

Eftir að aðförin að sr. Friðrik hófst stofnuðum við fjölmargir sem kynntumst sr. Friðrik óformleg samtök til að fara yfir málið, kynna okkur til hlítar. Við teljum hafið yfir skynsamlegan vafa“ að niðurstaða sr. Bjarna Karlssonar og Sigrúnar Júlíusdóttur sálfræðings sé yfirborðsleg, ófullnægjandi og röng. Enginn okkar varð þess nokkru sinni var að framkoma sr. Friðriks væri óeðlileg og fjarri fór því að um kynferðislega áreitni eða óviðurkvæmilegar snertingar væri að ræða. Við viljum reyna að gera það sem í okkar valdi stendur til að leiða sannleikann í ljós.

Í grein sr. Halldórs Gunnarssonar í Mbl þ. 12.apríl s.l. „Við grýttum og krossfestum sr. Friðrik“, segir hann frá því þegar sr. Friðrik fór með honum einum í kapelluna í Vatnaskógi þar tók hann í hendur á 10 ára drengnum, fór höndum um hann og kyssti hann síðan á ennið og blessaði. Við aðrir í hópnum höfum svipaðar sögur að segja aldrei var farið yfir eðlileg mörk snertingar. Við sem nutum samvista við sr. Friðrik og leiðbeiningar í kristilegu uppeldi viljum því gera það sem í okkar valdi stendur til að endurreisa mannorð sr. Friðriks Friðrikssonar eins stórbrotnasta æskulýðsleiðtoga, trúarleiðtoga, íþróttaleiðtoga og sálmaskálds íslensku þjóðarinnar.

Jesús sagði við Pílatus að hann væri í heiminn borinn til að bera sannleikanum vitni. Hvað er þá sannleikur sagði Pílatus. Þeirri spurningu svaraði Jesús aldrei en það er okkar sem fylgjum honum að leita eftir sannleikanum og hafna lyginni.

(Grein eftir mig sem birtist í Morgunblaðinu 25.apríl s.l.)


Ber ekki að verja grunngildi lýðræðisins?

Því er mótmælt af stúdentum í Bandaríkjunum að ríkisstjórnin hafi ákveðið að styrkja ekki Harvard háskóla meðan ekki er orðið við kröfum stjórnarinnar. Þeir sem hlusta á fréttir RÚV fá þá mynd, að þarna sé Trump með dólgshætti að vega að sjálfstæði skólans og gera þeim erfitt fyrir meðan þeir þybbast við að fara ekki að afarkostunum.

En er það svo?

Ríkisstjórnin gerir að forsendu styrkveitingar að fjárhæð 2.2 milljarða Bandaríkjadala, að Harvard háskóli hætti að mismuna nemendum á grundvelli kynþáttar, litarháttar, trúar, kyns eða uppruna og geri ráðstafanir til að koma í veg fyrir Gyðingahatur.

Óeðlilegar kröfur í lýðræðisþjóðfélagi? Er vegið að sjálfstæði skólans þegar lýðræðisríkið krefst þess að háskólinn virði grunnreglur lýðræðisins?

Við byggjum siðræn vestræn lýðræðisríki á jafnstöðu borgaranna? Er ekki rétt að gera þær lýðræðislegu, siðlegu lágmarkskröfur til háskóla í að þeir vegi ekki að grundvelli lýðræðis og borgaralegra mannréttinda?


Það sem ekki má tala um.

Varaforseti Bandaríkjanna(USA)sagði í heimsókn forsætisráðherra Bretlands(UK) í Hvíta húsið að „tjáningarfrelsið væri í í vaxandi mæli takmarkað í UK. Forsætisráðherrann mótmælti þessu og sagði að tjáningarfrelsi hefði verið í UK um langt skeið og mundi vera það áfram um langa framtíð.

Samt sem áður var húsmóðir í Bretlandi dæmd í 31 mánaðar fangelsi óskilorðsbundið fyrir „hatursorðræðu“ þegar hún setti færslu á vef sinn í geðshræingu eftir að þrjár litlar stelpur voru stungnar til bana af hryðjuverkamann í Southport á Englandi. Konan sagði að fólk mætti kalla sig rasista, en það þyrfti að losna við hælisleitendur úr hótelum og kveikja í þeim. Færsluna tók hún niður fjórum tímum síðar. En það skipti ekki máli. Hún var dæmd 31 mánaða fangelsi og fær ekki leyfi til að sinna fársjúkum eiginmanni sínum og 11 ára dóttur þó hún sé fyrirmyndarfangi og hafi afplánað meira en þriðjung refsingarinnar. Af hverju er refsing hennar þyngri en t.d. innbrotsþjófs?

Dómurinn yfir þessari konu og meðferð yfirvalda gagnvart henni sýna vel hve refsiákvæði um svokallaða hatursorðræðu geta verið varhugaverð.

Nú hefur innanríkisráðuneyti Breta bannað frönskum rithöfundi Renaud Camus að koma til Breta og flytja erindi um hætturnar sem stafa af fjöldainnflutningi fólks af framandi þjóðerni.

Árið 2011 kom út bók eftir Camus „Le Grand Remplacement“ (Endurnýjunin mikla), þar sem hann heldur því fram að óheftur innflutningur fólks til landa Vestur Evrópu, sé hluti af stefnu valdhafa, til að núverandi íbúum verði skipt út fyrir fólk með aðra menningu.

Þessa skoðun þolir innanríkisráðuneyti Breta ekki og tilkynnti Camus, að vera hans í Bretlandi mundi ekki stuðla að almannaheillum. Með öðrum orðum, er honum meinað að koma til Bretlands vegna skoðana sinna.

Þegar Camus er meinað að ræða um skoðanir sínar á innflytjendamálum, þá er það vísbending um að yfirvöld óttast skoðanir hans og umræður um þær. Þá er best að beita ofbeldi og þöggun.

Camus á hins vegar valkost vilji hann endilega koma til UK. Hann getur hent passanum sínum á leiðinni til UK og þá getur hann verið þar eins lengi og hann vill.

Afgreiðsla innanríkisráðuneytisins sýnir, að því miður hafði J.D.Vance varaforseti USA rétt fyrir sér þegar hann sagði að tjáningarfrelsið í UK væri í vaxandi mæli takmarkað. Því miður er það ekki svo bara í Bretlandi og mætti segja maður líttu þér nær.


Staðreyndir og trú. Er hann upprisinn?

Vormorgun árið 33 voru þrír menn teknir af lífi af rómverskum yfirvöldum fyrir utan Jerúsalem. Tveir voru ræningjar, en sá þriðji Jesús Kristur var dæmdur fyrir að segjast vera konungur Gyðinga.

Þrátt fyrir að boða frið, umburðarlyndi og fyrirgefningu og konungsríki Guðs hlaut hann þessi grimmilegu örlög. Þegar Jesús svaraði spurningu Pílatusar um hvort hann væri konungur sagði hann. „Ríki mitt er ekki af þessum heimi.“ Pílatus varðaði ekki neitt um hvaða ríki. Þett gat verið ógn við Róm og hann dæmdi Jesús til krossfestingar.

Af öllu því sem skrifað hefur verið um Jesú, þá er ekkert í lífi hans sem jafn mikið er fjallað um og aftaka hans. Guðspjöllin lýsa því með hvaða hætti og hvar hann var negldur á krossinn, en þær frásagnir hafa verið dregnar í efa, en nýjustu fornleifarannsóknir sýna í öllu að það sem skrifað er í guðspjöllunum reynist vera rétt.

Guðspjöllin lýsa því að kross Jesús var reistur rétt utan við Jerúsalem á Golgata og síðan lagður í gröf skammt frá. Á þeim tíma sem Jesús var krossfestur var staðurinn þar sem hin helga gröf er grjótnáma fyrir utan borgarmúra Jerúsalem, þar sem grafir voru högnar inn í kletta eins og lýst er um gröfina, sem Jesús var lagður í. Grafirnar sáust vel frá aftökustaðnum, Golgata.

Nýlegar rannsóknir vísindamanna frá háskólanum í Aþenu á grafarsvæðinu, með skanna, sýna að innan kapellu er líkan af grafsvæði sem eru leifar af steingröfum sem voru höggnar inn í klettana á fyrstu öld. Nýjar fornleifarannsóknir La Sapienza háskólans í Róm, sýna að umhverfið er það sem guðspjöllin lýsa. Nýjustu sagnfræðilegu- og fornleifarannsóknir staðfesta því frásagnir guðspjallanna um krossfestingu og með hvaða hætti Jesús var grafinn ekki aðeins í aðalatriðum heldur einnig í smáatriðum. En þó aukin þekking okkar sýni stöðugt betur, að frásagnir guðspjallana um aftöku Jesús hvar og hvernig og greftrun hans, er sönn, þá er það okkar að meta og trúa eða hafna upprisu Jesús Krists á páskadag.

Eftir að Jesús var handtekinn flúðu lærisveinarnir og helsti stuðningshópur hans fór í felur nema örfáir aðallega konur sem voru viðstödd krossfestingu og greftrun Jesús.

Hópurinn sem fylgdi Jesús til Jerúsalem hafði í fögnuði talað fyrir kærleika, friði og þá sérstaklega konungsríki Guðs, sem var allt annað ríki,en það þar sem þeir Kaífas æðsti prestur og Pontíus Pílatus höfðu með að gera.

Allt var þetta svo dásamlegt. En síðan var leiðtoginn tekinn af lífi. Allt hrundi. Fiskmennirnir frá Galíleu hugsuðu ekki um annað en að koma sér heim sem fyrst, hræddir og vonsviknir.

En svo gerðist undrið, sem gjörbreytti lífi þeirra og tilveru og veraldarsögunni. Þeir fylltust krafti og voru tibúnir til að ganga í gegn um raunir og píslir og dauða fyrir trú sína á fagnaðarerindið um Jesús Krist eftir að hafa orðið vitni að upprisu hans.

Svo hart sóttu kristnir menn fram eftir þetta í trúarhita, að þeir náðu að leggja sjálft hið ósigrandi Rómaveldi að velli. Hvort sem fólk trúir því eða ekki að Jesús hafi gert kraftaverk, þá er framganga kristins fólks með þeim hætti eftir upprisu Jesú að það er stórkostlegasta kraftaverkið. 


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 26
  • Sl. sólarhring: 834
  • Sl. viku: 3810
  • Frá upphafi: 2522194

Annað

  • Innlit í dag: 24
  • Innlit sl. viku: 3486
  • Gestir í dag: 24
  • IP-tölur í dag: 24

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband