Leita í fréttum mbl.is

Krafa um ritskoðun?

Sérkennileg utandagskrárumræða fór fram á Alþingi í gær. Umræðuna hóf Guðni Ágústsson formaður Framsóknarflokksins og kveinkaði sér yfir sérstakri útgáfu DV fyrir kosningar en það tölublað taldi hann vega að Framsóknarflokknum. Formaður Framsóknarflokksins taldi þetta vera andstætt hugmyndum á bak við lög um fjárreiður stjórnmálaflokka.  Formaður Sjálfstæðisflokksins, forsætisráðherra var til andsvara tók undir þetta að hluta og taldi þetta blað hafa verið sérstaklega vinsamlegt stjórnarandstöðunni.

Það má fallast á það með formanni Framsóknarflokksins að það var sótt að Framsóknarflokknum í fjölmiðlum fyrir kosningar vegna aðgerða í ríkisstjórn. Um hinn ríkisstjórnarflokkinn Sjálfstæðisflokkinn var ekki fjallað með jafn neikvæðum hætti þó full ástæða hefði verið til. Sjálfstæðisflokkurinn nýtur þar blaðamanna, þáttastjórnenda og ritstjóra sem styðja flokkinn.

Við í Frjálslynda flokknum máttum þola mjög neikvæða og óréttmæta umfjöllun í fjölmiðlum meginhluta vetrar. Reynt var af ákveðnum fjölmiðlum að stuðla að því að kljúfa flokkinn. Við náðum vopnum okkar og héldum fylginu þó að okkur væri sótt með þessum hætti.

Meginatriðið er þó ekki hvort fjölmiðlar sækja að stjórnmálamönnum og flokkum og þá hverjum. Það er þeirra hlutverk í lýðfrjálsu landi.  Stjórnmálamenn þurfa iðulega að sætta sig við óvægna umfjöllun og stundum ranga. Það er hluti af þeirri þjóðfélagsgerð sem við búum við. Sama er um auglýsingar frá auðmönnum en þeir hafa fullan lýðræðislegan rétt á að nýta peningana sína með þeim hætti.

Þess vegna voru þeir Geir Haarde og Guðni Ágústsson á vitlausri leið þegar þeir nánast gerðust talsmenn ritskoðunar. Rétta leiðin er að efla fjölmiðlun í landinu og gera kröfur til þeirra. Það tölublað DV sem var ástæða umræðunnar var venjuleg eðlileg blaðamennska og betri en meginhlutinn af þeirri blaðamennsku sem þjóðinni var boðið upp á fyrir kosningar.

Foringjar lýðræðisflokka geta ekki og mega ekki gerast talsmenn ritskoðunar eða skerts tjáningarfrelsis en það var það sem mátti lesa út úr máli þeirra formanns Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins.


Bloggfærslur 7. júní 2007

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.7.): 407
  • Sl. sólarhring: 428
  • Sl. viku: 4873
  • Frá upphafi: 2558796

Annað

  • Innlit í dag: 383
  • Innlit sl. viku: 4570
  • Gestir í dag: 361
  • IP-tölur í dag: 352

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband