Leita í fréttum mbl.is

Við verðum að komast frá flotkrónunni.

Helstu fjármálastofnanir landsins að Seðlabankanum einum unanskildum skilja nauðsyn þess og tala fyrir því að gjaldmiðill þjóðarinnar njóti trausts þannig að hann þurfi ekki að styðja sig við hækju eins og verðtryggingu langtímalána.

Spurning er hvort taka á upp Evru eða leita annarra leiða. Krafan er um aukið öryggi í viðskiptum. Flotkrónan er ávísun á óöryggi en væri ekki svo þá þyrfti enga verðtryggingu. Verðtryggingin er vegna þess að krónunni er ekki treyst til lengri tíma. Færa má gild rök fyirr því að lánakostnaður heimilanna sé margfalt meiri vegna þess herkostnaðar sem að gjaldmiðillinn leggur á venjulega neytendur.

Íslenska krónan er hávaxtagjaldmiðill og meðan markaðurinn álítur að henni sé treystandi til skamms tíma þá halda menn áfram að fjárfesta í jöklabréfum. Ársvextir af útgefnum jöklaréfum nema nú rúmum 70 milljörðum á ári. Það er sú byrði sem flotkrónan leggur nú þegar á þjóðarbúið.

Það er ábyrgðarleysi af ríkisstjórninni að taka ekki gjaldmiðilsmálin til alvarlegrar umræðu og ákvarðanatöku um aukið öryggi í viðskiptum.  Ríkisstjórnin getur ekki borið fyrir sig að  hún hafi ekki verið vöruð við alvarlegum afleiðingum þess að fresta óhjákvæmilegri ákvörðun um gjaldmiðilsbreytingu.


Ferð viðskiptanefndar í fjármálastofnanir

Í gær átti ég þess kost að fara með viðskiptanefnd Alþingis í tvær fjármálastofnanir, Landsbankann og Byr. Það var gaman að kynnast því hvað það er mikill kraftur í íslenskum fjármálafyrirtækjum og viðhorfum þeirra sem þar starfa.  Sú bylting sem hefur orðið í starfi þessara fjármálafyrirtækja hefur skapað mörg hundruð ný hálaunastörf og breytt viðhorfum í flestum tilvikum til hins betra.

Við ræddum við forsvarsmenn þessara fyrirtækja m.a. um íslensku krónuna og það er ljóst að forustumenn í fjármálaheiminum telja að það sé kominn tími til að gera breytingar til að tryggja aukið öryggi í viðskiptum en krónan uppfyllir ekki þau skilyrði lengur.

Ég hef lengi talið að þó að sjálfstæður gjaldmiðill hafi reynst vel á vissum tíma þá væri fyrir nokkru liðinn sá tími að það væri skynsamlegt að hafa sjálfstæðan gjaldmiðil í því formi sem við erum með. Það er of hættulegt vegna spákaupmennsku. Það veldur því að íslenskir neytendur borga mun hærra verð fyrir lánin sín en neytendur annarss staðar á Evrópska efnahagssvæðinu og veldur óþarfa erfiðleikum fyrir framleiðslugreinar og þá sem eru í milliríkjaviðskiptum.

Lagaumhverfi um fjármálastofnanir kom að sjálfsögðu mikið til umræðu á fundum okkar og það er ljóst og var vitað fyrirfram að mikilvægt er að sú lagaumgjörð sé sniðin um fjármálafyrirtækin að þau hafi möguleika og eðlilegt svigrúm til athafna á sama tíma og þess er gætt að eðlilegt eftirlit sé með starfsemi þeirra og þess gætt að um raunverulega markaðsstarfsemi sé að ræða einkum varðandi neytendur.  Ég hef orðað það svo að viðmiðunin eigi að vera sú að lagaumgjörðin um fjármálafyritækin sé þannig að þau séu sett í treyju en ekki í spennitreyju.

Það skiptir máli að stjórnmálamenn hefti ekki starfsemi fyrirtækja og búi þeim þá umgjörð sem hentast er fyrirtækjum og þjóðfélagi. Eitt af því sem verður að koma til skoðunar og öfgalausrar umræðu sem fyrst er gjaldmiðillinn.  Vitræn stefna í gjaldmiðilsmálum er eitt mikilvægasta úrlausnarefni sem við stöndum frammi fyrir. Það er nauðsynlegt að bregðast við áður en fjármálafyrirtæki og þeir sem það geta hafa flúið íslensku krónuna sem viðmið í viðskiptum.


Bloggfærslur 11. september 2007

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.7.): 28
  • Sl. sólarhring: 676
  • Sl. viku: 4494
  • Frá upphafi: 2558417

Annað

  • Innlit í dag: 25
  • Innlit sl. viku: 4212
  • Gestir í dag: 25
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband