Leita í fréttum mbl.is

Forsætisráðherra svíkur fyrirheit um samráð.

Forsætisráðherra lofaði að hafa víðtækt samráð við stjórnarandstöðuna þegar neyðarlögin voru sett 4. október.  Eina samráðið sem hann hefur haft er að hjala við formenn stjórnarandstöðuflokkanna nokkru fyrir boðaða blaðamannafundi til að segja þeim frá því sem hann segir síðan á blaðamannafundunum.  Samráðið hefur nánst ekki verið neitt annað.

Ítrekað hafa þingfundir verið boðaðir með stuttum fyrirvara seinni part dags eða að kvöldi dags og lögð fram stjórnarfrumvörp sem stjórnarflokkarnir krefjast að verði afgreidd þegar í stað. Lítið tillit er tekið til stjórnarandstöðunnar og iðulega ekkert.

Í gær voru kynntar hugmyndir um aðstoð við fyrirtæki. Athygli vakti að auk nokkurra ráðherra sem sátu í nefndinni við að móta tillögur um þessa aðstoð þá sátu 3 þingmenn stjórnarflokkanna og framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar.  Stjórnarandstöðunni var hinsvegar ekki boðið að þessu borði. Ekki frekar en varðandi mótun tillagna um aðstoð við skuldsettar fjölskyldur eða hvað annað sem gera hefur þurft vegna strandsiglingar Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar.

Stjórnarandstaðan hefur greitt fyrir öllum málum sem ríkisstjórnin hefur sett fram, sem ætlað er að bæta úr því ástandi sem ríkir. Lengur verður ekki við það unað að ríkisstjórnin viðhafi þau vinnubrögð sem hún gerir.  Stjórnarandstaðan getur ekki lengur tekið það sem að henni er rétt og greitt fyrir afgreiðslu meðan ekkert raunhæft samráð er við hana haft eða henni er boðið til mótunnar tillagna til úrbóta.

Ríkisstjórnin er því miður búin að stýra samstarfi við stjórnarandstöðu í vondan farveg eins og öðru.


Gott orðspor eyðilagt tímabundið.

Ég velti því fyrir mér á sínum tíma þegar íslenskir fjármálamenn keyptu hvert fyrirtækið af öðru í Danmörku og víðar hvort verið væri að troða heimamönnum um tær.  Nú liggur það fyrir þegar grein fyrrum ritstjóra í Danmörku er lesin að honum hefur gjörsamlega ofboðið framferði og framkoma þeirra Íslendinga sem fóru fram af miklum móði við kaup og rekstur fyrirtækja erlendis og þeirra stjórnmálamanna sem fylgdu í kjölfarið og nefnir ritstjórinn sérstaklega forseta Íslands í því sambandi og forsætisráðherra.

Mér fannst skrýtið þegar hrunið varð hér í byrjun október að engin af okkar venjulegu vinaþjóðum var tilbúin til að rétta okkur hjálparhönd. Fljótlega kom í ljós að helstu forustumenn í íslenskum stjórnmálum, forseti, forsætisráðherra og utanríkisráðherra höfðu greinilega gengið fram af erlendum vinum okkar ásamt þeim fjárfestum sem öllum mátti vera ljóst að væru að leika Matador leiki en voru ekki í ábyrgum rekstri.

Eftir hrunið hafa forseti og forsætisráðherra bætt gráu ofan í svart með því að hafa uppi svigurmæli um vinaþjóðir okkar og skuldbindingar Íslands.

Nú þurfum við að byggja upp vináttu við þessar þjóðir á nýjan leik. Við þurfum að leiðrétta þann misskilning að við séum óábyrgt fjárglæfrafólk. Við þurfum að gera Norðurlandaþjóðum grein fyrir því að okkur þyki góð vinátta þeirra og við óskum eftir henni.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Geir H. Haarde segjast vera í björgunarleiðangri og afsaka það að ríkisstjórnin sitji áfram með því að þau geti ekki hlaupist frá. En væri nokkur skaði skeður. Er þessu fólki treyst erlendis. Mér er það stórlega til efs að æðstu embættismennirnir okkar njóti í dag nægjanlegrar virðingar helstu nágrannaþjóða okkar. Alla vega bendir grein Ufe Riis Sörensen ekki til þess að forseti eða forsætisráðherra geri það.

Það er ekki úr vegi að rifja það upp að það var gjafakvótakerfið sem var upphaf þessarar helfarar íslenska efnahagslífsins. Búin voru til verðmæti með gjafakvótanum, sem voru gefin fáum útvöldum síðan rúllaði bolinn áfram og stjórnmálamenn héldu áfram að gefa eða lána íslenskar auðlindir og fyrrum ríkisfyrirtæki.

Er ekki kominn tími til að endurskoða spillingu kerfisins sem á upphaf sitt í gjafakvótakerfinu og móta eðlilegar leikreglur í íslensku samfélagi til að við getum búið við sömu kjör og viðmiðanir og nágrannaþjóðir okkar.

Hvernig væri að innkalla veiðiheimildirnar til þjóðarinnar

Afnema verðtryggingu

Lækka stýrivexti niður í 1%

Þá gætum við e.t.v. þróað þjóðfélag sem fer fram af ábyrgð í sátt við vinaþjóðir sínar og aflar sér virðingar þeirra.


mbl.is Frekja og hroki aðgangsorð íslenska helvítisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. desember 2008

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.7.): 378
  • Sl. sólarhring: 519
  • Sl. viku: 4844
  • Frá upphafi: 2558767

Annað

  • Innlit í dag: 354
  • Innlit sl. viku: 4541
  • Gestir í dag: 335
  • IP-tölur í dag: 328

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband