Leita í fréttum mbl.is

Eva Joly ráðherra án ráðuneytis?

Óneitanlega er það sérstakt þjóðfélag sem við búum í.

eva_jolyÍ gær kom í sérstakan Kastljósþátt sérstakur aðstoðarmaður sérstaks saksóknara Eva Joly vegna efnahagshrunsins. Eva Joly gerði grein fyrir sjónarmiðum sínum og kröfum. M.a. sagði Eva Joly að ríkissaksóknari væri vanhæfur og yrði að víkja auk þess sem skipa þyrfti marga nýja saksóknara sem hún tilgreindi. Ekki veit ég hvort Eva Joly er sérstakur sérfræðingur um íslenska réttarskipun sem er nokkuð frábrugðin franskri en það skiptir e.t.v. ekki máli.

Vanhæfi ríkissaksóknara að mati Evu Joly er vegna þess að hann á son sem er forstjóri fjárfestingarsjóðsins Exista.  Jafnvel þó að Valtýr Sigurðsson ríkissaksóknari hafi í maí s.l.  sjálfur sagt sig frá málum sem varða mál vegna bankahrunsins og heyra undir sérstakan saksóknara þá verður hann samt að víkja að öllu leyti samkvæmt kröfu Evu Joly.

Sérstaklega aðspurð í Kastljósþættinum, um það hvort hún hafi rætt þessi mál við ráðherra, þá sagði Eva Joly að það hefði hún ekki gert en hún snéri sér til fólksins í landinu. Hvernig á að skilja það? Að hún beini máli sínu til Alþingis götunnar?

Hvað sem því líður þá þurfti ekki lengi að bíða vegna þess að rúmri einni og hálfri klukkustund eftir að Eva Joly hafði krafist  þess að ríkissaksóknari yrði rekinn og meiriháttar uppstokkun yrði gerð í réttarkerfinu þá kom dómsmálaráðherra í viðtal í ríkissjónvarpinu og sagði að hún hefði skipað sérstakan ríkissaksóknara í þeim málum sem gætu varðað son ríkissaksóknara og taka yrði á þeim málum að öðru leyti sem Eva Joly talaði um. Ég gat ekki skilið hana með öðrum hætti en þeim að þrátt fyrir að hún hefði haft ákveðna lagasmíð í huga þá yrði nú að breyta til vegna þess sem þessi talsmaður sem snúið hafði sér til fólksins einni og hálfri klukkustund áður gerði kröfu til.

Í dag orðaði dómsmálaráðherra þetta síðan svo í ríkisútvarpinu rás 2. "Ef Eva segir að það þurfi að gera betur þá verður að gera betur."  En hvað með sjálfstætt mat dómsmálaráðherra?  Er það ekki fyrir hendi? 

Á Alþingi sagði forsætisráðherra í dag að ríkissaksóknari ætti að víkja.  Hún skýrði þó ekki í hverju vanhæfi hans til starfans væri fólgið umfram það sem Eva Joly hafði gert. 

Skyldi einhver hafa áhyggjur af því hvort að réttarríkinu á Íslandi sé hætta búin?

Nú tel ég uppá eins og kellingin sagði að það væri helst til heilla íslenskri þjóð að Eva Joly yrði tekin inn í ríkisstjórnina sem ráðherra án ráðuneytis þar sem að hún stjórnar hvort eða er skoðunum og viðbrögðum forsætisráðherra, dómsmálaráðherra og e.t.v. fleiri ráðherra í gegn um Kastljósþætti sjónvarpsins. Það yrði óneitanlega skilvirkari stjórnsýsla ef það yrði þannig og þá bæri þessi kona líka ábyrgð á orðum sínum og gerðum, sem hún gerir ekki í dag.


Bloggfærslur 11. júní 2009

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.7.): 1
  • Sl. sólarhring: 340
  • Sl. viku: 3080
  • Frá upphafi: 2560803

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2903
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband