Leita í fréttum mbl.is

Ekki hægt að þola svindlið og svínaríið lengur.

Lestur sáttar Íslandsbanka við fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands er dapurleg lesning. Stjórn Íslandsbanka hefur viðurkennt það sem kemur fram í skýrslu Seðlabankans, þannig að ekki er deilt um málsatvik. Það liggur því fyrir að Íslandsbanki veitti viðskiptavinum rangar upplýsingar, fylgdi ekki skilyrðum við mat á upplýsingum, var að hygla eigin starfsmönnum á kostnað viðskiptavina sinna auk margra annarra lagabrota. Eitt er m.a. að hafa gefið Bankasýslu ríkisins rangar upplýsingar.

Það er af mörgu að taka, en eitt er ljóst, að stjórn Íslandsbanka og helstu lykilstarfsmenn þ.á.m. bankastjórinn og innra eftirlit bankans hafa algerlega brugðist.

Hvað á þá að gera? Stærsti hluthafi bankans er Íslenska ríkið og aðrir helstu eigendur bankans eru lífeyrissjóðir. Geta þessir aðilar sætt sig við að þeir sem ábyrgð bera á þeim lagabrotum og rangfærslum sem viðurkennt er að hafi verið gerð sitji áfram og véli um málefni bankans eins og ekkert hafi í skorist?

Hvernig í ósköpunum á að vera hægt eða samþykkja það, að þetta fólk, sem hefur orðið bert að jafn alvarlegum brotum og misferli leiði viðræður við Kviku banka um sameiningu. Hvaða fiskar munu þá liggja undir steini þegar upp verður staðið. 

Af fréttum að dæma þá boðaði stjórn Bankasýslu ríkisins stjórn Íslandsbanka á fund, en ekki var annað að skilja, en það yrði ósköp þægilegur kaffifundur, þar sem farið yrði yfir málin. Það þarf í raun ekkert að fara yfir nein mál. Brotin liggja fyrir. Þau eru auk heldur samþykkt af stjórn og starfsmönnum Íslandsbanka. Raunar er Bankasýslan stofnun, sem að fram kemur í sáttinni, að starfsfólk Íslandsbanka gaf rangar og villandi upplýsingar.

En hvað sem kaffisamsæti stjórnar Bankasýslu ríkisins og stjórnenda Íslandsbanka varðar, þá má e.t.v. minna á, að bæði forsætisráðherra og fjármálaráðherra sögðu fyrir um 9 mánuðum að Bankasýsla ríkisins yrði lögð niður þegar gagnrýni beindist að henni. Hvernig skyldi nú standa á því að það hefur ekki verið gert? Er ekkert að marka þetta fólk eða hefur ný ákvörðun verið tekin? 

Þessir vondu hlutir sem hafa verið afhjúpaðir hvað Íslandsbanka varðar eru þess eðlis, að það gengur ekki að hluthafar og viðskiptavinir bankans eigi að bera þær sektir sem að einstakir starfsmenn bankans bera ábyrgð á. 

Stjórn bankans hefði átt að sjá sóma sinn í að boða til hluthafafundar sem allra fyrst og segja af sér. Bankastjóri Íslandsbanka ætti líka að sjá sóma sinn í að gera slíkt hið sama. 

Hvað svo sem þetta fólk varðar, þá er það íslenska ríkisins stærsta hluthafans, að leiða nú það ferli sem er óhjákvæmilegt að skipta um stjórn og þá starfsmenn í bankanum, sem ábyrgð bera á þessu hneyksli og fá starfsfólk, sem virðir lög og reglur. 

Það er ekki hægt að þola það að þeir sem eru brotlegir við þær starfsreglur sem þeir eiga að vinna eftir  haldi áfram störfum eins og ekkert hafi í skorist. 

Það stendur nú upp á fjármálaráðherra fulltrúa stærsta eiganda bankans, að láta hendur standa fram úr ermum og grípa til viðeigandi ráðstafana svo að almenningur í landinu eigi þess kost að öðlast einhverja trú á fjármálakerfi landsins og það sé verið að leika og verði leikið eftir leikreglum réttarríkisins.

Svona óskapnað má ekki líða.

 


mbl.is Samkomulagið birt – „alvarleg brot“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverju á að spá?

Á tímum Sovétsins voru hundruðir Sovétfræðinga að fylgjast með og meta hvernig þróunin yrði.  Þeir höfðu ævinlega rangt fyrir sér. Engin þeirra sá fyrir breytingar í stjórn Æðsta ráðsins hvað þá hrun Sovétríkjanna.

Nú þegar ein furðulegasta byltingartilraun í Rússlandi hefur runnið út í sandinn með samningum stjórnvalda og Wagner hersveitanna, er eins líklegt að Rússlandsfræðingarnir eins og Sovétfræðingarnir fyrrum eigi erfitt með að sjá fyrir hver þróunin verður í þessu víðfeðma landi. 

Stóra spurningin er hvað gekk Prígjórsín til með þessu herhlaupi?  Ætlaði hann að steypa Pútín eða var þetta eingöngu ætlað til að ná fram breytingum á herstjórn Rússa. Herstjórn Rússa er raunar skelfileg. Undirmenn sýna ekkert frumkvæði og gera ekki neitt nema fá beinar fyrirskipanir. Þess vegna gat Prígórsjín og Wagner liðar hans sótt svona hratt fram í áttina á Moskvu án þess að nokkur viðbrögð  yrðu lengi vel. 

En hvað gekk Prígórsjín til? Var þetta bara skelfilegt frumhlaup af hans hálfu eða úthugsað plott til að ná árangri. Hið fyrrnefnda virðist líklegra. En engu að síður náði hann þeim árangri að taka stjórnunarstöðvar rússneska hersins sem stjórna aðgerðum í Úkraínu. Honum tókst að sækja gegn Moskvu og sýna þar með veikleika rússnesku herstjórnarinnar. En skilaði þetta herhlaup nokkru öðru?

Svo fremi ekki sé  í gangi djúphugsað master plan til að blekkja andstæðingin þá er ekki hægt að segja annað en þetta herhlaup hafi veikt Pútín og her Rússa. Á þessari stundu er ekki hægt að segja fyrir hverjar afleiðingarnar verða.

Enn á ný er sýnt fram á þá miklu veikleika sem eru í her og herstjórn Rússa, sem gerir þá að annars flokks herveldi. Þar sem sú staðreynd liggur fyrir og á því verður ekki breyting á næstunni, þá er með ólíkindum að Vesturveldin sjái sig tilknúinn til að auka gróða vopnaframleiðenda vegna yfirvofandi hættu, sem er ekki fyrir hendi.

Meðan her Rússa er eins veikburða og hann hefur sýnt sig að vera og þjóðfélagslegar andstæður eru jafnmiklar og raun ber vitni í Rússlandi, þá eru þeir ekki raunveruleg hernaðarleg ógn við NATO ríkin.

Allir fundir Katrínar Jakobsdóttur og Þórdísar Kolbrúnar sem og stríðsherra NATO sem krefjast aukinna framlaga til hergangnaiðnaðarins er því ástæðulaus, fjandsamleg atlaga að vestrænum skattgreiðendum allt til að hyggla vopnaframleiðendum og það algjörlega að ástæðulausu. 


Bloggfærslur 26. júní 2023

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.9.): 509
  • Sl. sólarhring: 712
  • Sl. viku: 3976
  • Frá upphafi: 2603683

Annað

  • Innlit í dag: 479
  • Innlit sl. viku: 3720
  • Gestir í dag: 460
  • IP-tölur í dag: 445

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband