Leita í fréttum mbl.is

Reynt að spá í spilin

Í dag birtust tvær skoðanakannanir vegna Alþingiskosninganna 30.nóv.n.k. Í könnun sem gerð er fyrir Mbl er svarhlutfall 52% en í könnun RÚV er það 48%. Það er því minni hluti aðspurðra sem svara hvað þeir ætli að kjósa. 

Þegar helmingur aðspurðra í skoðanakönnun gefur ekki upp hug sinn sýnir það mikla óvissu um úrslit kosninganna og ljóst, að þeir flokkar sem reka áhrifamestu kosningabaráttuna munu uppskera umfram það sem skoðanakannanir gefa þeim nú. 

Verulegur munur er á fylgi nokkurra flokka milli þessara kannana. Viðreisn með 22% fylgi í fyrri könnuninni en 15.5% skv.hinni. Sjálfstæðisflokkur mælist með 12% í fyrri könnuninni en 16.4% í hinni. VG mælist með 2.4% í þeirri fyrri en 4.1% í síðari. Ofangreindur munur er óeðlilegur þegar um kannanir er að ræða, sem teknar eru á sama tíma og svarhlutfall er svipað.

Skoðanakannanir geta verið stefnumótandi og því skiptir miklu að vandað sé til verka og fylstu hlutlægni gætt og viðurkenndra reglna. 

Sem innvígður og innmúraður Sjálfstæðismaður og frambjóðandi flokksins í Reykjavík norður vona ég að síðari könnunin, Gallup sýni réttari mynd af fylgi Sjálfstæðisflokksins. Skv. Gallup fengi Sjálfstæðisflokkurinn 16.4% fylgi, sem er afhroð, en engu að síður þolanlegra en niðurstaða fyrri könnunarinnar 12%. 

Það er hálfur mánuður til kosninga og nú eiga Sjálfstæðismenn að minnast þess sem ástsælasti leiðtogi flokksins Ólafur Thors, sagði eitt sinn fyrir kosningar þegar hann ávarpaði flokksmenn. Hann sagði:  "Ef við vinnum þá vinnum við en ef við vinnum ekki þá töpum við."  Mörgum fannst þetta kyndugt. En Ólafur bætti við og sagði ef við Sjálfstæðismenn látum hendur standa fram úr ermum og gerum allt sem við getum til að tryggja sem besta útkomu Flokksins í kosningunum þá vinnum við annars töpum við. 

Það fornkveðna gildir enn og það eru sóknarmöguleikar fyrir okkur Sjálfstæðisfólk,  þó að á brattann sé að sækja.


Ég þori get og vil

Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar skrifar snöfurmannlega grein í Morgunblaðinu. Þrátt fyrir að sá andi sem svífur yfir vötnum hjá formanninum, sé sá sem kom fram í árdaga markvissrar kvennabaráttu 24.október 1975 undir vígorðunum: "Ég þori. Ég get. Ég vil, þá rímar efni greinarinnar illa við það,  þegar skoðað er hver skipar annað sætið á framboðslistanum og það er ekki beinlínis í anda framsækinnar kvennabaráttu að vera með Þórð Snæ í þriðja sætinu.

Kristrún nefnir réttilega að brýnasta úrlausnarefnið sé að fjölga íbúðum og það ætli hún að gera með ýmsum bráðaaðgerðum. Af sjálfu leiðir að hefði verið gætt að eðlilegu framboði byggingarlóða á undanförnum árum þyrfti ekki að koma til bráðaaðgerða og eignaupptöku á Airbnb húsnæði, sem formaðurinn boðar. 

Í öðru sæti listans sem Kristrún leiðir er Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í áratug. Engum verður fremur um kennt öngþveitið í húsnæðismálum á höfuðborgarsvæðinu en Degi B. Eggertssyni. Hann vanrækti að brjóta land undir byggð og bjóða upp á byggingarlóðir í samræmi við þörfina. Vegna þeirrar vanrækslu bjó hann til húsnæðisskort. Dagur ber umfram aðra ábyrgð á okurverði á litlum og meðalstórum íbúðum,sem kemur í veg fyrir að ungt fólk í Reykjavík geti eignast þak yfir höfuðið. 

Margt er skynsamlegt í grein Kristrúnar um vexti og húsnæðismál, en hljómurinn í greininni verður holur þegar skoðað er hverjir eru í fleti með henni á framboðslistanum. Er líklegt að Samfylkingin með Dag B. Eggertsson leysi húsnæðisvanda Reykvíkinga eftir að hafa búið hann til?

Dagur hefur aldrei verið þekktur af að kunna til húsbygginga jafnvel ekki að endurgera bragga í Nauthólsvík svo sá skandall sé nú rifjaður upp.

Getur einhver búist við skynsamlegum aðgerðum í húsnæðismálum frá flokki sem er með Dag B. Eggertsson sem einn helsta forustumann?

 


Bloggfærslur 15. nóvember 2024

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.4.): 172
  • Sl. sólarhring: 184
  • Sl. viku: 2206
  • Frá upphafi: 2504993

Annað

  • Innlit í dag: 157
  • Innlit sl. viku: 2076
  • Gestir í dag: 139
  • IP-tölur í dag: 139

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband