Leita í fréttum mbl.is

Nú tekur alvaran við.

Ríkisstjórnarsamstarf er ekki lautarferð táningsstúlkna með tilfallandi skrækjum og hlátrasköllum. Í aukaþætti Silfursins í gær mátti á stundum ætla að þannig litu stöllurnar, Inga, Gerða og Rúna á málin.

Viðfangsefni ríkistjórna eru dauðans alvara og miklu skiptir að vel takist til og fólk nálgist viðfangsefnin í samræmi við sjónarmið sín vit og skoðanir. Lausnir vandamála eru ekki fólgnar í fleðurlátum eða gleðileikjum vinkvenna.

Í stjórnarsáttmálanum kennir ýmissa grasa eins og gengur og markmiðin um margt háleit, en á það skortir að gerð sé grein fyrir með hvaða hætti á að framkvæma allt það sem ríkisstjórnin ætlar að gera nema stefnt sé í enn meiri ríkissjóðshalla. 

Stefna ríkisstjórnarinnar er að ná hallalausum fjárlögum og hækka ekki skatta. Hvorutveggja frábær markmið. En þá reynir á það sem fráfarandi ríkisstjórn lét aldrei steyta á, en það er að forgangsraða takmörkuðum fjármunum. Hætt er við að þegar þangað kemur verði fleður- og gleðilætin minni á stjórnarheimilinu en í silfurþætti gærkvöldsins. 

Ánægjulegt var að sjá að ríkisstjórnin ætli að huga að íslenskri tungu, menningu og náttúru, það verður raunar ekki gert nema Samfylkingin og Viðreisn taki upp aðra stefnu en þeir fylgdu á síðasta kjörtímabili í innflytjenda- og hælisleitendamálum.

Gengið er út frá rangri forsendu í upphafi stjórnarsáttmálans þegar talað er um að rjúfa þurfi kyrrstöðu og þar hlítur að vera átt við atvinnulífið.  Þar hefur og er heldur betur ekki um kyrrstöðu að ræða en sótt fram á mörgum sviðum. Það er raunar eitthvað sem ríkisstjórnir hafa lítið með að gera. Ríkisstjórnir vinna best að öflugara atvinnulífi með því að láta ríkið ekki þvælast fyrir og gera ekki upp á milli fólks. 

Þar vantaði í stjórnarsáttmálann nauðsynlega stefnumótun um skattlagningu fyrirtækja og þá sérstaklega að afnema ívilnanir í virðisaukaskatti fyrir ferðaþjónustuna, stærstu atvinnugreinina landsins og fráleitar endurgreiðslur til sumra annarra atvinnugreina eins og t.d. kvikmyndagerðar. Til að móta þjóðfélag á jafnréttisgrundvelli verða allir að sitja við sama borð, en ekki hlaða í spillingarbálköstin með mismunun borgaranna og atvinnugreina.

Í pistli sem þessum er ekki hægt að gera stjórnarsáttmálanum viðhlítandi skil, en ég velti fyrir mér nokkrum atriðum. Talað er um að taka upp réttlát auðlindagjöld t.d. af útgerðinni. Hvað er það? Hver er dómari um réttlætið og hvaða stefnumörkun er þetta yfirhöfuð. Í raun er þetta ekki stefnumörkun heldur orðagjálfur.

Það er góð og gleðileg stefnumörkun að hækka elli- og örorkulífeyri í samræmi við launavísitölu og með ólíkindum að fráfarandi ríkisstjórn skuli hafa þybbast við að gera það.

Fjölgun lögreglumanna er löngu tímabær og nauðsynleg. En það þarf líka að setja víðtækari reglur um heimildir lögreglu til forvirkra rannsókna og aðgerða vegna þeirra.

Evrópusambandsdraumur Viðreisnar og Samfylkingar fær rými og ákveðið að þjóðin skuli greiða atkvæði um hvort stefna eigi að aðilda að efnahagslega hnignandi Evrópusambandi eða ekki. Lýðræðissinnar geta ekki haft á móti því að þjóðin sjálf kveði upp sinn dóm og þá reynir á að við fullveldissinnar höldum vöku okkar og komum í veg fyrir aðild að ES með ötulli baráttu fyrir sjálfstæði og fullveldi Íslands.

En nú fær ríkisstjórnin sína hveitibrauðsdaga eins og nýar ríkisstjórnir fá að jafnaði og allra hagur að hún nái að vinna sem best úr málum meðan hún nýtur skjólsins af þeim.

 

 


Bloggfærslur 22. desember 2024

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.1.): 11
  • Sl. sólarhring: 1146
  • Sl. viku: 5384
  • Frá upphafi: 2460001

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 4912
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband