Leita í fréttum mbl.is

Flokksráðsfundur í skugga skoðanakannana

Flokksráðsfundur Sjálfstæðisflokksins var haldinn í skugga mælingar skoðanakannana á döpru fylgi.

Sjálfstæðisflokkurinn státar af því einn íslenskra flokka að geta haldið fjöldasamkomur eins og Flokksráðsfundi og Landsfundi með slíkum glæsibrag, að fólki líði vel og nýtur samvista við vini sína og flokksfélaga jafnvel þó að ágreiningur kraumi undir niðri eða komi upp á yfirborðið. 

Skipstjóri á stærsta millilandaskipi íslenska flotans á sínum tíma þótti svo mikils um vert að mæta á Landsfundi, að hann sleppti jafnan úr ferð og mætti á Landsfundi í sínu fínasta pússi enda var Landsfundur hans hátíð, þar sem hann var ódeigur við að flytja mál sitt úr ræðustól.

Nú er sá tími liðinn, að almennir fundarmenn geti farið í ræðustól á Flokksráðsfundi. Einu almennu umræðurnar fóru fram milli þeirra sem sátu við sama borð. Markviss málefnaumræða og/eða gagnrýni fékk því ekki rúm á fundinum. 

Formaður flokksins flutti firnagóða ræðu eins og honum er lagið á slíkum fundum og örræður ráðherra Flokksins og formanns nefndar um stjórnmálaályktun voru ágætar. Einhvern veginn virðast það vera álög á Sjálfstæðisflokknum að velja jafnan menn fædda í Skagafirði til að vera formenn stjórnmálanefnda Flokksins, sem er rannsóknarefni út af fyrir sig. Sú staða er þeim mun mikilvægari þegar fundurinn hefur ekki tækifæri til að gera annað en að samþykkja tillöguna.

Þrátt fyrir að fundurinn hafi tekist hið besta og fólki hafi liðið vel og sé staðráðið í að vinna Flokknum vel, þá eru vandamálin varðandi dvínandi fylgi óleyst.

Það er viðfangsefni forustu Flokksins að gefa Flokksfólkinu kost á því að ræða þau mál ítarlega á almennum Flokksfundum fram að Landsfundi svo það geti haft virk áhrif til þess að leiðrétta þá stefnu, sem stór hópur Sjálfstæðisfólks telur nauðsynlegt að gera, þar sem forustan hafi látið undan síga og tekið á sig alvarlega vinstri slagsíðu. 

Í setningarræðu sinni sagði formaðurinn eftirfarandi:

"Sundurleitur ósamstæður hópur nær aldrei árangri."

Hér skal tekið undir þessi orð formannsins. Sjálfstæðismenn hafa oft deilt og haft mismunandi skoðanir en hafa samt sem áður náð að vera samstæður hópur og leysa málefnaágreining, jafnvel í þau tvö skipti sem ákveðinn hópur þingmanna Flokksins var í stjórnarandstöðu en hinir studdu ríkisstjórnina. 

En Sjálfstæðisfólk í dag er ekki sundurleitur eða ósamstæður hópur það kom svo berlega í ljós á fundinum í gær. Því er ekki um að kenna fylgisleysi Flokksins og það ætti forusta Flokksins að gaumgæfa. 

Það er annar hópur sem er sundurleitur og ósamstæður og nær þar af leiðandi ekki árangri.

Það er ríkisstjórn Íslands. 

 

 

 


Bloggfærslur 1. september 2024

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.9.): 163
  • Sl. sólarhring: 1180
  • Sl. viku: 3273
  • Frá upphafi: 2372122

Annað

  • Innlit í dag: 150
  • Innlit sl. viku: 3024
  • Gestir í dag: 150
  • IP-tölur í dag: 150

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband