Leita í fréttum mbl.is

Bankinn minn og ég.

Fyrir rúmum 60 árum stofnaði ég til viðskiptasambands við bankan, sem hét Útvegsbanki Íslands. Á þessum 60 árum hefur bankinn breytt um nafn og kennitölu fjórum sinnum, fengið aðstoð frá ísl. ríkinu til að lifa af og á stundum ástundað vafasama fjármálastarfsemi.

Aldrei hefur brugðið skugga á samskipti mín og bankans míns. Bankinn hefur geymt peningana mína og haft af því vænan arð með að lána þá gegn ofurvöxtum en greiða mér litla sem enga í staðinn. Bankinn hefur lánað mér þegar ég hef þurft á að halda og það hefur bankinn minn alltaf fengið greitt á gjalddaga. 

Meðan umsýsla mín var meiri en nú, gat ég alltaf leitað til bankans míns um nauðsynlega fyrirgreiðslu. Þeir vissu að ég var öruggur viðskiptavinur og þurfti ekkert greiðslumat upp á það. 

Ég hafði alltaf rúma yfirdráttarheimild í bankanum, sem var  nánast aldrei notuð, en svo kom að mér var tilkynnt, að ég yrði að fara í greiðslumat vegna yfirdráttarheimildar. Ég ákvað þá að hafa enga slíka. 

Svo fór um daginn, að bankinn sem gerir ekki annað en að geyma eignir mínar og græða á því krafðist þess að ég upplýsti hann um persónulega hluti, sem þeim kom ekki við en geta svo vel séð af rúmlega 60 ára viðskiptasögu okkar. Bankinn færði sig þá upp á skaftið og heimtaði skattskýrslur og hótaði því að annars mundu þeir leggja hald á eigur mínar, sem bankinn hefur ekkert með að gera annað en að geyma fyrir mig. 

Ég þoli ekki hótanir og rís jafnan upp á afturfæturna ef mér er hótað. Ég bauð bankanum að hann gæti fengið umboð til að hnýsast í mínar skattskýrslur hvenær sem hann vildi svo langt aftur í tímann sem hann kysi. En ég kynni ekki við svona tuddameldingar um að þeir ætluðu sér að láta greipar sópa um eigur mínar. 

Nú er bankanum e.t.v. vorkun og uppálagt af ríkisins megtugu kapelánum, að vandræðast sem mest við almenna viðskiptavini. Það er auðveldara en að taka á hinum stóru og kemur sjálfsagt betur út í eftirlitsbókhaldinu að ágengum spurningum hafi verið beint til 80% viðskiptavina og mál þeirra könnuð, en að segja að mál þeirra 10% sem koma e.t.v. til greina í málum varðandi peningaþvætti hafi verið skoðuð.

Já þannig er nú eftirlitsiðnaðurinn hann er sko heldur betur rekinn gegn réttlátum en þeir ranglátu sleppa.

Þannig rifjast oft upp orð sveitunga míns Jóns Hreggviðssonar um réttlæti og ranglæti. 


Bloggfærslur 6. september 2024

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.9.): 148
  • Sl. sólarhring: 1168
  • Sl. viku: 3258
  • Frá upphafi: 2372107

Annað

  • Innlit í dag: 135
  • Innlit sl. viku: 3009
  • Gestir í dag: 135
  • IP-tölur í dag: 135

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband