Leita í fréttum mbl.is

Hægan herra Trump.

Forseti Bandaríkjanna hefur gert tilkall til Grænlands með góðu eða illu. Þannig tala menn ekki við vini sína og Danir sem hafa farið með yfirráð yfir Grænlandi um árabil sárnar að Bandaríkin skuli koma svona fram við eina dyggustu bandalagsþjóð Bandaríkjanna um árabil. Danir voru ötulasta sporgönguþjóð með Bandaríkjunum og Bretlandi þegar illu heilli innrás var gerð í Írak og Saddam Hussein tekinn af lífi. Danir sendu herlið til hjálpar í Afganistan og áfram mætti telja.

Hvað sem líður deilum Dana og Bandaríkjanna um Grænland, þá má ekki gleyma því að Ísland á mun frekar tilkall til Grænlands en nokkru sinni Danir hvað þá Bandaríkin.

Um aldamótin 1900 skrifaði Einar Benediktsson skáld fjölda blaðagreina um tilkall Íslendinga til Grænlands. Árið 1924 stóðu stúdentar fyrir borgarafundi þar sem Einar talaði ásamt Benedikt Sveinssyni,þá þingforseta, og fleirum. Skorað var á ríkisstjórnina að halda kröfunni um „hina fornu nýlendu Íslendinga“ á lofti. „Grænlandsmálið“ var tekið fyrir á Alþingi ári síðar.

Á þessum árum deildu Danir og Norðmenn um Austur-Grænland og fór deilan fyrir Alþjóðadómstólinn í Haag árið 1931. Íslensk stjórnvöld fylgdust með og héldu sinni eigin kröfu fram. Jón Þorláksson, fyrsti formaður Sjálfstæðisflokksins, flutti þingsályktunartillögu um að gæta hagsmuna Íslands. Íslendingar hefðu rétt og hagsmuni af landnytjum á Grænlandi. Var tillagan samþykkt einróma af utanríkismálanefnd þar sem meðal annars sátu Ásgeir Ásgeirsson og Ólafur Thors. Hagfræðingurinn Jón Dúason skrifaði fræðirit um tilkallið til Grænlands með fjárstuðningi frá Alþingi. Pétur Ottesen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins barðist alla ævi fyrir rétti Íslendinga í Grænlandsmálinu og vafalaust var ég undir áhrifum frá honum þegar ég skrifaði mína aðra blaðagrein árið 1960 um tilkall Íslands til Grænlands. 

Við getum sagt að vegna ríkjasambands Íslands og Danmerkur höfum við um árabil falið Danmörku að koma fram fyrir okkar hönd í Grænlandsmálinu en engum vafa sé það undirorpið að Grænland hefði byggst frá Íslandi og væri því að þjóðarrétti íslenskt landssvæði. 

Nú er spurning hvort sá töggur er í Kristrúnu Frostadóttur, að hún hlutist til um að haldinn verði leiðtogafundur Íslands, Danmerkur og Bandaríkjanna til að fjalla um Grænlandsmálið og leiða það til lykta með sóma eins og vinum einum er lagið.

Að sjálfsögðu mundum við á þeim fundi krefjast þess að Bandaríkin afnemi alla tolla á íslenskar vörur og hefji viðræður um aukna hervernd,m.a. með því að byggja flotastöð í Finnafirði og myndarlegan flugvöll á Melrakkasléttu til að gæta sameiginlegra varnarhagsmuna. Það er miklu mikilvægara en að karpa um mál sem allir aðilar hafa hagsmuni af því að leysa í náinni samvinnu.  

 


Bloggfærslur 5. apríl 2025

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.4.): 556
  • Sl. sólarhring: 573
  • Sl. viku: 3037
  • Frá upphafi: 2506880

Annað

  • Innlit í dag: 534
  • Innlit sl. viku: 2849
  • Gestir í dag: 516
  • IP-tölur í dag: 505

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband