Leita í fréttum mbl.is

Vonandi stórt skref til friðar í Evrópu

Í kvöld verður fundur Donald Trump og Vladimir Putin í Alaska. Vonandi tekst fundurinn vel og leiðir til friðar í Evrópu eftir þriggja ára styrjöld.

Það er dapurlegt að horfa á tilburði leiðtoga Evrópu í hvert sinn sem Trump tilkynnir um fund með Putin. Þá sameinast þeir um þá kröfu, að Volodymyr Zelensky forseti Úkraínu verði á fundinum.

Af hverju?

Það er ljóst að friður verður ekki saminn án aðkomu Úkraínumanna, en það þýðir ekki endilega að Zelenski verði til gagns á fundi Trump og Putin. Trump segir að engin samningur verði gerður án aðkomu forseta Úkraínu. Er þá ástæða fyrir Evrópuleiðtogana að láta eins og óþekkir krakkar til þess eins að reyna að skemma fyrir. Forsætisráðherra Breta umfaðmar Zelenski,býður honum í te og heitir honum stuðningi, sem þeir báðir vita að skiptir litlu ef Bandaríkjamenn leika ekki lykilhlutverk með hernaðar- og fjárstuðningi.

Trump hefur heitið að beita Rússa hörðum viðskiptaþvingunum ef samningar nást ekki. Evrópuríkin gætu gert gagn með því að taka undir þá hótun Trump en því fer fjarri að þau geri það. Ekki einu sinni hin viljugu ríki Starmers forsætisráðherra Breta sem Þorgerður Katrín mærir upp fyrir rjáfur þó ekkert sé þakið.

Um hvað á að semja. Er hægt að ná friðarsamningum án þess að Rússar haldi einhverju af því landi sem þeir hafa brotið undir sig með hervaldi? Vafalaust verður það erfitt.

Við skipti á dánarbúi gömlu Sovétríkjanna voru landamæri ekki endilega eftir þjóðernislegum línum. Fjöldi rússnesku mælandi fólks var því innan Úkraínu, sem þjóðernismeirihluti í mörgum austur héruðum Úkraínu þegar uppskipti dánarbúsins átti sér stað.

Til að leysa málin í dag væri því kjörið að fara að því ráði sem Woodrow Wilson Bandaríkjaforseti lagði til við lok fyrri heimstyrjaldar, að fólkið fengi að ráða og frægasta og e.t.v. besta dæmið er þjóðaratkvæðagreiðsla í Slesvík árið 1920 þar sem meirihutinn ákvað að tilheyra Danmörku en ekki Þýskalandi.

Væri ekki kjörið að gera friðarsamninga upp á þau býti, að fólkið í þeim héruðum sem um er deilt ráði örlögum sínum í almennri atkvæðagreiðslu eins og í Slesvík forðum?

Á sínum tíma talaði ógæfufuglinn Joe Biden um fullnaðarsigur Úkraínu á Rússum og þannig töluðu ýmsir Evrópuleiðtogar. Þannig gat það aldrei farið og nú er staðan sú, að Rússar eru í sókn á allri víglínunni og hafa verið um nokkurt skeið. Úkraínumenn vantar mannafla og vopn aðallega mannafla og nokkuð ljóst, að það þarf kraftaverk til að halda stöðunni og gengur ekki nema virk hernaðaraðstoð Evópuríkja komi til, en þar er engin tilbúinn til að senda eina einustu herdeild á vígvellina í austurhluta Úkraínu.

Leiðtogar Evrópu eru tannlaus pappírstígrisdýr, sem þurfa að horfast í augu við að þau hafa ekki sinnt vörnum sínum svo áratugum skiptir en látið Bandarískum skattgreiðendum það eftir að gæta evrópskra hagsmuna í varnarmálum.

Mikið væri nú gott ef ríkisstjórn Íslands bæri gæfu til að átta sig á þessum staðreyndum og með hvaða hætti best er fyrir okkur að þjóna varnar- og öryggishagsmunum þjóðarinnar. Það er alla vega ekki í hópi hinna viljugu ríkja Starmers eða hernaðarlega vanbúnu Evrópusambandi.

Okkar öryggi byggist á varnarsamningi við Bandaríkin og aðild að NATO. Annað er húmbúkk og sárara en tárum taki að horfa á utanríkisráðherra gapuxast um lönd og ríki Evrópu undirritandi skuldbindingar fyrir Íslands hönd, sem grafa undan sambandi okkar við Bandaríkin. Ætla má að tollar bandaríkjamanna, sem íslensk fyrirtæki þurfa nú að greiða séu a.m.k. að hluta til vegna asnasparka Þorgerðar Katrínar utanríkisráðherra.

Þjóðverjar seldu öryggishagsmuni sína fyrir olíu og gas frá Rússlandi og hlógu að Trump þegar hann varaði þá við árið 2018 og reyndu að lítillækka hann á alla lund undir forustu Angelu Merkel.

Ekki skrýtið að Trump brosi í kampinn núna þegar hann sýnir styrk sinn síðast með því að taka Úrsúlu frá Leyen í kennslustund.

Evrópa hefur látið varnarhagsmuni sína reka á reiðanum og hefur enga burði til að verja landamæri sín hvorki gagnvart herveldi eins og Rússlandi né hjörðum hælisleitenda. Framtíð Evrópu byggist á því, hvort sem tekst að semja um frið milli Rússlands og Úkraínu núna eða ekki, að Evrópuleiðtogar átti sig á því að þeir verða að verja því sem þarf til varnarmála til að geta bæði gætt að varnarhagsmunum sínum og veitt ríki eins og Úkraínu vernd í framhaldi af friðarsamningi sem vonandi næst innan skamms.

Vesaldómur forustumanna gömlu vestur Evrópu sýnir nauðsyn pólitískar uppstokkunar í álfunni, sem kemur vonandi fyrr en síðar því oft var þörf en nú er nauðsyn.


Sumarið 1976

Mannstu eftir sumrinu 1976? Að sjálfsögðu man engin eftir því. Meir en helmingur jarðarbúa var ekki fæddur. Staðreyndir liggja samt fyrir. Sumarið 1976 er nefnilega heitasta sumarið sem komið hefur í Bretlandi skv. upplýsingum DT í gær. 

Sumarið 1976 mældist hiti 35.9 gráður í Cheltenham og hitinn í Heathrow í London var yfir 30 gráður 16 daga í röð og það er lengsta hitabylgja sem mælst hefur frá því að mælingar hófust. 

Þá var þetta kallað óvenjulega heitt sumar. Nú upphefst samræmt hróp fjölmiðlaelítunnar þegar hiti fer í 30 gráður á norðurhveli, um loftslagsbreytingar og hlýnun jarðar af mannavöldum. Þessi sama elíta bregst ekki við þegar óvenju kalt er í veðri þá er það bara veður.

Skrýtið að þetta skuli geta gengið svona ár eftir ár, en þó ekki þegar stjórnmála- og fjölmiðlaelítan ganga í takt ásamt fjölda vísindamanna sem þiggja ofurlaun fyrir að bullfræða um hnattræna hlýnun. Síðan má ekki gleyma þeim sem græðá á þessu. 

Þegar bullfræðin grípur stjórnmálaelítuna þá stynja skattgreiðendur vegna nýrra skatta á grundvelli hennar. 

Áttar fólk sig á því hvað Evrópusambands (EBS) loftslags skattarnir kostar það mikið í hærri flugfargjöldum og hærra vöruverði o.s.frv.?

Enn bólgnari yrði Hafliðinn í Brussel ef við gengjum í EBS og var þó talað um að dýr mundi Hafliði allur þá samið var um skaðabætur honum til handa. Hætt er við að þá mundi rætast orð Einars Þveræings, þá Noregskonungur ásældist Grímsey, að þröngt muni verða fyrir durum hjá mörgum kotbóndanum. Já og vafalaust fleirum ef svo fer sem ríkisstjórnin áformar. 

 


Bloggfærslur 14. ágúst 2025

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.9.): 122
  • Sl. sólarhring: 1171
  • Sl. viku: 3128
  • Frá upphafi: 2595495

Annað

  • Innlit í dag: 108
  • Innlit sl. viku: 2928
  • Gestir í dag: 107
  • IP-tölur í dag: 107

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband