Leita í fréttum mbl.is

Kærleiksheimilið

Í gamla Sovétinu þegar Jósep Djúgasvili Stalín var aðalritari Kommúnistaflokksins og í raun einræðisherra, var hann jafnan kosinn með öllum greiddum atkvæðum. Eftir setningarræðu á Landsþingi flokksins eitt sinn klöppuðu þingfullrúar í rúmar 20 mínútur. Öryggislögregla KGB heimsótti síðan þingfulltrúann sem fyrstur hætti að klappa og kom honum í fangabúðavist í Gúlaginu.

Viðreisn hélt landsþing sitt um helgina og hinn hugumstóri formaður flokksins Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fékk öll atkvæði í formannskjöri nema tvö. Sagt er að vaktmenn flokksins leiti nú með logandi ljósi að þeim tveim sem brugðust til að koma þeim út í hið ysta pólitíska myrkur eins og þeim sem hætti of snemma að klappa fyrir Stalín forðum. 

En það var ekki bara formaðurinn sem fékk kommúníska kosningu að hætti þeirra í sovétinu forðum, sá forustumaður flokksins sem á landsmet í hækkun skatta var hylltur sérstaklega. 

Fátt bar annað til tíðinda á flokksþinginu. Dustað var rykið af ályktunum flokksins frá því í árdaga og þær endurprentaðar og samþykktar í sama kærleiksanda og flokksmenn þökkuðu fyrir skattahækkanir og Gyðingaandúð formanns flokksins. 

Viðreisn bauð sérstaklega þeim talsmanni Evrópusambandsins sem vill ganga lengst í að leggja niður landamæri, traðka á fullveldi aðildarþjóða, allt til að fullkomin sameining undir alræði kommisara von der Leyen í Brussel geti átt sér stað.

Meðan Bretar voru enn í Evrópusambandinu átti Nigel Farage helsti talsmaður fyrir úrgöngu Breta úr Evrópusambandinu í mestum deilum við þennan gistivin Viðreisnar og gerði hann venjulega kjaftstopp. En  Þorgerður Katrín telur að Verhofstadt geti best túlkað skoðanir Viðreisnar í Evrópumálum. 

Þá þarf engum bókum lengur að fletta um það hver skoðun Viðreisnar er. Þau vilja ganga plankan á enda og fordjarfa öllu því sem íslenskt er á altari Evrópusambandsins til að verða útnári hins nýja samabandsríkis Evrópu með miðstjórn og aðalritara í Brussel. 

Á kærleiksheimili Viðreisnar hafa menn glatað öllum tengslum við íslenska sögu og hagsmuni sjálfstæðrar þjóðar, sem vill njóta frelsis og vera ekki öðrum þjóðum háð. 

Sennilega væri best að prenta í viðhafnarútgáfu ræðu Einars Þveræings þegar hann mælti gegn því á Alþingi hinu forna að Noregskonungi yrði gefin Grímsey og senda hana forustu, þingflokki og flokksfulltrúum á þingi Viðreisnar. 

Það var eitt að vera samþykkur aðild að Evrópusambandinu meðan bandalagið var viðskiptabandalag. En nú er það allt annað og meira stefnir að því að taka öll völd aðildarríkja í sínar hendur á forsendum Verhofstads hins nýja andlega leiðtoga Viðreisnar. 

 


Bloggfærslur 23. september 2025

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.9.): 246
  • Sl. sólarhring: 607
  • Sl. viku: 3276
  • Frá upphafi: 2605867

Annað

  • Innlit í dag: 243
  • Innlit sl. viku: 3087
  • Gestir í dag: 240
  • IP-tölur í dag: 237

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband