Leita í fréttum mbl.is

Ábyrgðin á bankahruninu

Megin niðurstaða skýrslu rannsóknarnefndarinnar um bankahrunið er sú að stjórnendur bankanna beri ábyrgð á hruni íslensku bankanna í október 2008. Þeirri ábyrgð verður ekki lengur vísað á stjórnmálamenn, Fjármálaeftirlit eða Seðlabanka Íslands.

Hvað sem öðru líður og meintum ávirðingum, athöfnum eða athafnaleysi einstakra aðila innan stjórnsýslunnar þá er þetta samt sú niðurstaða sem skiptir höfuðmáli. 

Þetta er í samræmi við niðurstöðu sænska bankasérfræðingsins Mats Josefsson sem þekkir vel til íslenskra mála en hann sagði á ráðstefnu í Reykjavík 11.11.2009:  "The banking crisis that emerged in Iceland was spectacular and it is definitely true to say that a handful of bankers brought down the country or at least the economy.“  

Það kom mér á óvart að sjá hvað formlegheitin bera staðreyndir máls ofurliði í niðurstöðum nefndarinnar einkum hvað varðar áfellisdóm yfir Björgvin Sigurðssyni þáverandi viðskiptaráðherra vegna atriða sem formaður hans Ingibjörg Sólrún hélt frá honum en ekki er vikið að sérstakri ábyrgð Ingibjargar og af hverju jú vegna þess að formlega gegndi hún ekki annarri stöðu en stöðu utanríkisráðherra þó hún hafi greinilega ítrekað brotið trúnað gagnvart flokksbróður sínum Björgvin Sigurðssyni og vanrækt að upplýsa hann um mikilvæg mál sem hún hafði fengið upplýsingar um eftir hljóðskraf við forsætisráðherra og Seðlabankastjóra.  

Ég minni á að fyrst eftir hrunið þá var spilltum stjórnmálamönnum og lélegum eftirlitsstofnunum kennt um hrunið en nú hefur það moldviðri fokið í burtu eftir því sem betur og betur upplýsist um þá starfsemi sem stunduð var í bönkunum og varð þeim á endanum að falli.  

Niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis er ekki sú að spilltir stjórnmálamenn eða embættismenn hafi verið valdir að bankahruninu. Þeim er í besta falli kennt um vanrækslu sem þó skipti ekki máli varðandi það að koma í veg fyrir hrunið.  

Hvergi er vísað til þess að ráðherrar, eða æðstu embættismenn eftirlitsstofnana hafi brotið af sér af ásetningu eða stórkostlegu gáleysi. Í umfjöllun nefndarinnar verður ekki séð að vísað sé til annars varðandi stjórnmálamenn eða embættismenn en ýmsir hlutir hefðu betur mátt fara og nauðsynlegt sé að koma stjórnsýslunni fyrir með skilvirkari hætti.  

Ég sakna þess hvað sárlega vantar glögga úttekt á þeim í samfélagi stjórnmálamanna, fjölmiðlamanna og í háskólasamfélaginu sem voru á mála hjá bönkum og útrásarvíkingum og þáðu af þeim stóra styrki og margvíslegan annan viðgjörning.   

Þá hefði að mínu mati mátt koma fram í skýrslunni með hvaða hætti tókst á fyrstu mánuðum eftir hrunið að vinna úr vondri stöðu og með hvaða hætti Seðlabanki og Fjármálaeftirlit unnu á þeim tíma þrekvirki við að halda gangverki þjóðfélagsins í lagi.   

Ef til vill á svona skýrsla alls ekki að fjalla um það sem vel er gert bara það sem miður fer.  

Ég leyfi mér að minna enn og aftur á það að skýrsla rannsóknarnefndarinnar er ekki dómur heldur niðurstaða þriggja einstaklinga sem vafalaust hafa gert sitt besta við að vinna það verkefni sem þeim var falið. En þessir einstaklingar eru ekki frekar óskeikulir en aðrir og því miður þá var ekki brugðist við ábendingum um vanhæfi nefndarmanna sem skyldi.

Nefndarmenn gera nefnilega líka mistök eins og venjulegt fólk. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Oft hef ég bloggað um það, að hrunið hafi verið eigendum og stjórnendum bankanna að kenna, ásamt helstu viðskiptajöfrum þjóðarinnar, sem í flestum tilfellum voru sömu aðilarnir og hvorki stjórnvöld eða eftirlitsaðilar hefðu getað komið í veg fyrir þessa fjárglæfra.

Að sjálfsögðu hef ég að mestu talað eins og hrópandinn í eyðimörkinni og fengið miklar skammir fyrir á blogginu.  Nú er niðurstaða rannsóknarnefndarinnar komin og er á svipuðum nótum.

Vonandi verður það til þess að beina umræðunum í rétta átt.

Axel Jóhann Axelsson, 12.4.2010 kl. 15:33

2 identicon

Þú verður að komast út úr þessu " báknið burt " ástandi Jón ef þú vilt vera trúverðugur.

Rúnar 2 (IP-tala skráð) 12.4.2010 kl. 18:13

3 Smámynd: Jón Magnússon

Við eigum það sameiginlegt Axel að hafa bent á það í langan tíma að hrunið hafi verið stjórnendum bankanna og helstu viðskiptajöfrunum að kenna. En fjölmiðlar þeirra og þeir sem vilja koma pólitískum höggum á andstæðinga sína hafa ekki viljað hlusta á það eins og þú veist vel.  Þakka þér fyrir þessa færslu Axel.

Jón Magnússon, 12.4.2010 kl. 21:19

4 Smámynd: Jón Magnússon

Hefði verið farið að þeim hugmyndum sem við ungir Sjálfstæðismenn mótuðum á sínum tíma með báknið burt, þá hefðu skattgreiðendur ekki þurft að vandræðast með gjaldrþot banka í dag. Þá væri ríkið líka stöndugt og gæti tekið á sig veruleg áföll Rúnar.

Jón Magnússon, 12.4.2010 kl. 21:20

5 Smámynd: Hörður B Hjartarson

    Jón ! Ekki ætla ég að verja , eða gera lítið úr bankaviðbjóðnum , en það leynist engum sem til þekkja , að það fer ekki á milli mála að þú áttir eitthvað í FME - þeir og Seðlabankinn saklausir - kannt þú annann ?

Hörður B Hjartarson, 13.4.2010 kl. 01:41

6 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Jón,

Í kapítalískum hagkerfum er gert ráð fyrir að bankamenn og viðskiptajöfrar gangi eins langt og þeim er leyft.  Þess vegna er nauðsynlegt að hafa sterka eftirlitaðila og löggjöf sem getur tekið á misferlum hratt og örugglega.  Þetta gerist oft í Bandaríkjunum þar sem einhver finnur glufu og henni er síðan lokað strax af þinginu og eftirlit hert.  

Málið er að á Íslandi er engin hefð fyrir kapítalískum vinnubrögðum, við fórum beint úr ríkiskerfi yfir í markaðskerfi án þess að gera okkur grein fyrir afleiðingum á eftirlit og stjórnsýslu.  

Það er of mikil einföldun að líta á hrunið sem eingöngu vandamál bankanna, í því felst mikil áhætta í framtíðinni.  Reynsla Bandaríkjanna ætti að vera okkur umhugsunarefni í þessu máli.

Andri Geir Arinbjarnarson, 13.4.2010 kl. 06:49

7 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Mjög ágæt hjá þér Jón og tek undir með Axel.  En þá er ekki margt sem kemur mér verulega á óvart í þessari skírslu, nema þá helst hversu stórtækir eigendur bankana voru. 

Hitt var búið að koma í ljós að stjórntækin okkar voru ekki nógu skilvirk og þar þarf að verða lagfæring á.   En ég vara við byltingum, sama hvort talað er um stjórnsýslunna eða stjórnarskrá.  Yfirveguð þróun er betri.

En vitrænar hugmyndir fá áreiðanlega harða andstöðu þar sem nóg virðist til af fólki sem skilur þessa skírslu eins og þeir hafi lesið hana á haus aftur á bak.     

Hrólfur Þ Hraundal, 13.4.2010 kl. 07:10

8 identicon

Hvaða bull er þetta... það þarf 2 til að dansa; Allt stjórnkerfið brást, allir alþingismenn brugðust; Allt heila klappið er eitt stórt helv fokking fokk.

HVer sem segir annað ... er einfaldlega innvinklaður í vitleysuna og eða of tæpur á því til að skilja.

DoctorE (IP-tala skráð) 13.4.2010 kl. 09:14

9 Smámynd: Jón Magnússon

Hörður ég var ekki að lýsa yfir sakleysi eins eða neins. Ég var einfaldlega að benda á megin niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar. Hún er önnur en haldið var fram af útrásarvíkingum og bankamönnum eftir hrunið og allt fram til þessa og sá áróður þeirra fær ákveðinn enduróm í því sem þú ert að segja. 

Jón Magnússon, 13.4.2010 kl. 10:17

10 Smámynd: Jón Magnússon

Andri ég er í meginatriðum sammála þér. Samt verður að hafa í huga að það varð bankahrun í Bandaríkjunum og flestir bankar þar hefðu farið á hausinn ef ríkisstjórnin hefði ekki látið skattgreiðendur borga. Hvorki Seðlabankinn þar né fjármálaeftirlitið þar gerðu eitt eða neitt umfram okkar stofnanir. Það sem þú ert sennilega að vísa til varðandi Bandaríkin er að þar er miklu harðar tekið á innherjasvikum og röngum upplýsingum til hluthafa. Það er síðan alveg rétt hjá þér varðandi skort á þekkingu á kapítalískum vinnubrögðum hjá okkur. Ég er ekki að segja að vandinn hafi allur verið bankanna síður en svo. En það bjóst engin við að þeir væru jafn eitraðir og þeir reynast vera. Sjálfur varaði ég við bankastarfseminni eins og hún var að þróast allt frá 2002 og allar götur síðan en ég gat samt ekki ímyndað mér að þeir væru jafn gjörsamlega glórulausir og þeir reyndust vera.

Jón Magnússon, 13.4.2010 kl. 10:23

11 Smámynd: Jón Magnússon

Sama segi ég Ólafur það kemur mér á óvart hversu stórtækir eigendur bankanna voru. Það er síðan umhugsunarefni hvort við erum að reyna að gera það ómögulega miðað við fólksfjölda.

Jón Magnússon, 13.4.2010 kl. 10:24

12 Smámynd: Jón Magnússon

Fyrirgefðu Hrólfur það átti að standa nafn þitt í næstu færslu fyrir ofan.  Þar sem stendur Ólafur átti að vera Hrólfur að sjálfsögðu.

Jón Magnússon, 13.4.2010 kl. 10:25

13 Smámynd: Jón Magnússon

Doktor E það er þín skoðun en skýrsla rannsóknarnefndarinnar segir annað. Hins vegar vek ég athygli þína á því að ég held því ekki fram að niðurstaða skýrsluhöfnda sé stóri dómur. Þvert á móti vara ég við því að fólk taki niðurstöðuna eins og Guð hafi sagt það. Hitt er annað mál að ég hef haldið því fram frá því að bankarnir hrundu að þetta væri fyrst og fremst um að kenna stjórnendum bankanna og stóru skuldurunum (sem voru oft þeir sömu) sem geta ekki borgað lánin sín.

Jón Magnússon, 13.4.2010 kl. 10:28

14 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Það er lína kommisaranna í Sjálfstæðisflokknum að "hrunið var bönkunum að kenna" bara þeim. Ekki má draga neina aðra til ábyrgðar, ekki Geir, hvað þá Davíð, hvað þá Ingibjörgu og allt stjórnkerfið sem brást með þeim. Íslenska þjóðin var líka meðvirk en átti ekki möguleika á að spila annað hlutverk en fórnarlambsins til langs tíma.

Gísli Ingvarsson, 16.4.2010 kl. 13:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.1.): 570
  • Sl. sólarhring: 1381
  • Sl. viku: 5712
  • Frá upphafi: 2470096

Annað

  • Innlit í dag: 532
  • Innlit sl. viku: 5240
  • Gestir í dag: 526
  • IP-tölur í dag: 511

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband