Leita í fréttum mbl.is

Evrópumet í vondri hagstjórn

Hæsta verðbólga í Evrópu er á Íslandi. Ekki bara sú hæsta heldur langhæsta. Það land sem kemst næst okkur er Grikkland þar sem verðbólga er  helmingi minni.

Verðbólga á Íslandi er alvarlegri en í nokkru öðru landi Evrópu vegna vísitölubindingar lána.  Vísitölubundnu lánin hækka á sama tíma og verðgildi krónunnar er í lágmarki, veruleg kjararýrnun og launalækkun á sér stað og þjóðarframleiðsla dregst saman. Miðað  við þessar aðstæður þarf snilli í hagstjórn til vera með fimmfalt meiri verðbólgu en almennt gerist í öðrum Evrópuríkjum.

Hagstjórnartríó ríkisstjórnarinnar, Jóhanna, Steingrímur og Gylfi viðskipta, eru greinilega verst til hagstjórnar fallin af stjórnendum Evrópu. Þetta hagstjórnartríó setur hvert Evrópumetið á eftir öðru í vondri hagstjórn.

Unga fólkið sem horfir á eignir sínar brenna á verðbógubáli hagstjórnartríósins og sér fram á eignamissi og gjaldþrot, verður nú áþreifanlega vart við það að fallega orðaður fagurgali Steingríms J. Sigfússonar og más Jóhönnu Sigurðardóttur verður ekki í askana látið og bjargar ekki heill og hamingju fólksins í landinu heldur þvert á móti.

Var það e.t.v. þetta sem Steingrímur og Jóhanna eiga við þegar þau tala um mikinn árangur í hagstjórn að undanförnu? 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Það versta við þetta er að þetta er alveg rétt hjá þér. Þó hef ég alltaf Tyrkina grunaða um mikla verðbólgu en þeir eru náttúrulega á mörkum þess að vera alvöru evrópumenn þó merkilega "evrópusinnaðir" séu.

Verðtryggingarákvæðin eru enn í gildi og það ber ekki á viðleitni til að afnema þau. Af hverju eru menn ekki búinir að finna hvaða samsæri þar er í gangi? Þetta er ein alheilagsta kýr íslenskrar efnahagsstjórnunar og verið það frá upphafi Ólafslaga...

Menn kvarta undan verðtryggingunni þegar verðbólgan geisar en steinþegja þegar betur árar. Alveg sama hvaða stjórnarherrar eru yfir okkur. Haldið er hlífiskildi yfir þessu böli sama hvað.

Gísli Ingvarsson, 16.6.2010 kl. 11:45

2 Smámynd: Sigurður Ingólfsson

Jón er þetta hagkefi okkar ekki dálítið eins og "catch 22" Hvatinn að verðbólgunni er verðtryggingin en ekki að verðtryggingin sé fylgifiskur verðbólgunnar? Vill ekki unga fólkið frekar lifa mannsæmandi lífi og eignast sitt eigið húsnæði smámsaman en að greiða stóran part launa til lífeyrissjóða og í ofurvexti ? Og eru ekki hálaunaeftirlaun eitthvað sem þarf að skoða rækilega.

Sigurður Ingólfsson, 16.6.2010 kl. 13:31

3 Smámynd: Jón Magnússon

Gísli ég hef krafist afnáms verðtryggingar á lánum lengur en það sem liðið er af þessari öld. Þetta er djöfullegasta lánakerfið fyrir skuldara sem fundið hefur verið upp. Samsærið sem er í gangi er samsæri lánastofnana og lífeyrissjóða. Verkalýðshreyfingin er harðasti stuðningsaðili verðtryggingarinnar.

Jón Magnússon, 16.6.2010 kl. 13:32

4 Smámynd: Sigurður Grétar Guðmundsson

Við hvað búi tóku þau Jóhanna og Steingrímur eftir áralanga óstjórn Sjálfstæðisflokksins ( þess flokks sem þú varst síðast í að ég held) og Framsóknarflokksins. Hefur þessi núverandi Ríkisstjórn rústað einhverju góðu búi sem þeir Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson skildu eftir sig?

Að halda því fram að verðbólga sé eina viðmið um hagstjórn er heimskulegra en þú getur leyft þér að láta frá þér fara.

Viltu skipta á hagstjórn Grikklands og ástandsins þar og hagstjórn og ástandi á Íslandi?

Sigurður Grétar Guðmundsson, 16.6.2010 kl. 13:46

5 identicon

Hárrétt hjá þér Jón. Við erum stödd í "catch22" hagkerfi þar sem allt gengur út á að borga háa vexti og verðbætur til að geta fengið verðbætt eftirlaun. Og nú má ekki hrófla við neinu og reynt er að bæta upp það sem tapaðist í hlutabréfakaupum lífeyrissjóðanna. En núna er millistéttin og unga fólkið löngu farið að kikna undan þessu. Er ekki hægt að koma einhveri skynsemi að í þessu kerfi okkar sem greinilega þoldi ekki áfall hrunsins?

Sigurður I (IP-tala skráð) 16.6.2010 kl. 14:11

6 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Þakka þér Jón Magnússon, þú ert almennt séð tiltölulega hógvær að ég tel og  það tel ég mig líka vera. 

Ég held því hinsvegar fram að Steingrímur og Jóhanna séu vont fólk.  Það eina sem gæti losað þau undan þessari skoðun minni er að viðurkennd stofnun eða læknahjörð úrskurðaði þau vangefin  eða að minnsta kosti verulega biluð. 

Össur Skarphéðinsson er að mínu viti niðurlæging öllum þeim sem kjósa hann  enda er hann jafnoki  J.G. í fíflaskap.  Fyrir þá sem enn hafa ekki frétt af því,  þá á fíflaskapur ekkert skylt við  skemmtilegheit, og gildir þá einu þótt fíflin hlægi.

Hrólfur Þ Hraundal, 16.6.2010 kl. 21:02

7 identicon

Verðtrygging á lánum er siðlaus með öllu. Þar er ég þér sammála. Hinsvegar er það ósanngjarnt, ef ekki kjánalegt, að ásaka núverandi hagstjórn fyrir háa verðbólgu. Verðbólgan hefur ætíð verið hin mikli bölvaldur Íslendinga. En megin ástæðan er lítil sem engin samkeppni. Heildsalarnir mynda eina stóra klíku, íhaldsklíku, sem með samráðum halda verðinu háu. Ég er einnig búsettur í Sviss, sem er talið með dýrari löndum álfunnar. En þrátt fyrir mikið verðfall krónunnar er matarkarfan í Sviss ódýrari en á skerinu. Það er líka þessi bölvaða árátta Íslendinga að reyna að okra hver á öðrum; Græða, græða, verður ríkur, strax,  undireins.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 16.6.2010 kl. 21:23

8 Smámynd: Þórir Kjartansson

Evrópumet í vondri hagstjórn, Jón?  Þá hljóta fyrrverandi ríkisstjórnir og þjónar þeirra að hafa átt  heimsmet í vondri hagstjórn.  En haldu áfram að berjast fyrir afnámi á verðtryggingar-svikamyllunni.  Þar átt þú marga stuðningsmenn.

Þórir Kjartansson, 16.6.2010 kl. 23:18

9 identicon

Verðtrygginginin er ákveðið form af gengistryggingu og er því óásættanlegt að hún sé notuð til að ræna almenning á sama tíma og fjárglæframenn taka afstöðu gegn þjóðinni eins og gerst hefur hér. Ef við heimtum eigin gjaldmiðil á það líka að vera íslenska krónan alla leið, ekki með allri áhættu hjá fjölskyldunum. Leiðréttingu takk, og skila því sem rænt hefur verið. Færa þarf höfuðrstól verðtryggðu lánanna aftur fyrir hrun og fella verðtryggingu niður.

Guðjón Atlason (IP-tala skráð) 17.6.2010 kl. 07:54

10 Smámynd: Halldór Jónsson

Árni brúni hefur lagt til stopp á laun opinberra starfsmanna og væntanlega stopp á hækkanir opinberrar þjónustu. Mér finnst vit í því. Þá yrði verðbólgan núll, engar verðbætur og sparifé verðtyggt. allir myndu græða með gengisstyrkingu sem myndi fylgja. Þannig fengju launþegar raunhæfar kjarabætur eins og í þjóðarsáttinni þegar hún byrjaði. En við eigum bara ekki Einar Odd og Gend Jaka til að tyggja þetta í okkur lengur. Tóma undirmálsmenn sem ekkert geta.

Halldór Jónsson, 17.6.2010 kl. 09:17

11 Smámynd: Friðrik Jónsson

Ein spurning..yrðu vextir ekki óheyrilega háir ef verðtrygging yrði afnumin í dag með handónýtan gjaldmiðil og annað er það raunhæft að ætlast til að gengistryggðu lánin haldi sínum lágu vöxtum án annara trygginga,það má ekki gleyma því að þessi lán voru tekin í erlendri mynt.

Friðrik Jónsson, 17.6.2010 kl. 09:27

12 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Svo sammála. Það sem ég vil helst bæta við, er að þessi blekkingaleikur með verðtryggingu er alveg út úr kú. "Þeir" segja að þetta sé til þess að varðveita lífeyrissparnað í landinu. Það eina sem verðtryggingin gerir er að leyfa afætum innan samfélagsins breyta venjulegu fólki í vinnuþræla og leysa upp samfélagið. Það er enginn hvati til þess að mynda stöðugleika. Þegar samið er um fasta vexti til einhvers tíma þá keppast stjórnvöld og bankar að viðhalda stöðugleika. Hagvöxturinn myndast þá á raunverulegri verðmætasköpun en ekki á stöðugri seðlaprentun og lántökum.
Jón, ég held að þú hafir farið eitthvað inná þetta í viðtali á Útvarpi sögu í gær.

Ég vil meina það að lífeyrissjóðir í dag eru í raun og veru bara gegnumstreymissjóðir, rétt alveg eins og LSR. Sjóðirnir fjárfesta að mestu leyti í ríkisbréfum og verðbréfum sem byggjast alfarið á verðmætasköpun í komandi framtíð. Ef allir myndu hætta að greiða í lífeyrissjóði í einhvern tíma, þá yrði mjög erfitt fyrir sjóðina að losa um fjármagn til þess að standa við mánaðarlegar greiðslur til sjóðsfélaga.

Sumarliði Einar Daðason, 17.6.2010 kl. 11:26

13 Smámynd: Þóra Guðmundsdóttir

Höfum við ekki alltaf átt Evrópu- ef ekki heimsmet í verðbólgu og vondri hagstjórn ? Nema ef vera skyldi fáein ár þegar almennt viðraði vel í heiminum.

Þóra Guðmundsdóttir, 17.6.2010 kl. 12:16

14 Smámynd: Jón Magnússon

Sigurður Grétar ég hef ekki haldið því fram að þau Jóhanna hafi tekið við góðu búi. Það er ekki það sem málið snýst um heldur hitt að í landi þar sem mikilvægustu lán til einstaklinga eru verðtryggð þá skiptir megin máli að ná niður verðbólgu.  Þegar verðbólgan mælist yfir 10 prósent í meir en ár þrátt fyrir að verðbólga í helstu viðskiptalöndum sé um og undir 2% þá hefur tekist með þeim ráðstöfunum sem þau Jóhanna og Steingrímur gripu til að búa til stöðnunarverðbólgu þar sem um er að ræða mikið atvinnuleysi og neikvæðna hagvöxt.

Vandamálin eru: Neikvæður hagvöxtur- mikið atvinnuleysi- samt mikil verðbólga.   Þessir þættir vegnir saman valda Evrópumetinu.

Jón Magnússon, 17.6.2010 kl. 23:05

15 Smámynd: Jón Magnússon

Sigurður I þetta kerfi gat aldrei gengið. Hrunið flýtti e.t.v. fyrir því að vandamálin kæmu í ljós. Verðtryggð lán eru verstu lán sem til eru fyrir almenning í okkar heimshluta. Jafnvel þó þau væru vaxtalaus þá væru þau samt verstu lánin.

Jón Magnússon, 17.6.2010 kl. 23:07

16 Smámynd: Jón Magnússon

Hrólfur ég er ekki sammála þér um að Jóhanna og Steingrímur séu vont fólk. Það eru þau ekki og alla vega Jóhanan vill vel. Sagan segir okkur að oft hafa velmeinandi stjórnmálamenn með ofurtrú á ríkislausnum valdið verstu hamförum sem yfir þjóðfélög hafa dunið. Nægir í því sambandi að benda á Evitu Peron

Jón Magnússon, 17.6.2010 kl. 23:09

17 Smámynd: Jón Magnússon

Þórir því miður hefur hagstjórnin í landinu verið mjög slæm mjög lengi. Hún var sennilega hvað skást um og upp úr aldamótum en síðan hallaðist því miður á ógæfuhliðina. Það er þó þannig að vandamálin sem við var að eiga voru svo augljós þegar Jóhanna og Steingrímur tóku við en á þeim vanda hafa þau ekki tekið og aðgerðarleysiskostnaðurinn vegna þeirra er orðinn gríðarlegur.

 Ég mun halda áfram að berjast gegn verðtryggingu það hef ég gert í meir en 20 ár og það kemur alltaf betur og betur í ljós að þetta er eitt það versta sem hefur verið tekið upp í þjóðfélaginu. Rúnar Júlíusson heitinn sagði við mig skömmu áður en hann lést að það versta sem hefði gerst á Íslandi í sinni tíð hefði verið kvótinn og verðtryggingin. Ég var og er honum algerlega sammála.

Jón Magnússon, 17.6.2010 kl. 23:13

18 Smámynd: Jón Magnússon

Guðjón ég  tek heilshugar undir hvert orð sem þú segir.

Jón Magnússon, 17.6.2010 kl. 23:14

19 Smámynd: Jón Magnússon

Jæja Halldór treystir þú ekki Gylfa og Villa?

Jón Magnússon, 17.6.2010 kl. 23:15

20 Smámynd: Jón Magnússon

Friðrik ég hef aldrei ímyndað mér að við getum haldið áfram að hafa íslensku krónuna óvarða í ólgusjó heimsviðskiptanna. Á það benti ég strax þegar Már seðlabankastjóri taldi þáverandi seðlabankastjórunum trú um að það væri hægt að láta krónuna fljóta. Svo sökk hún og nú er Már kominn aftur og nú í æðstu stöðuna í bankanum og ætlar að reyna aftur. Þá geta sjálfsagt margir tekið undir með séra Sigvalda í leikritinu Manni og Konu þegar hann sagði. "Nú held ég að það sé tími til kominn að biðja guð um að hjálpa sér."

Jón Magnússon, 17.6.2010 kl. 23:23

21 Smámynd: Jón Magnússon

Sammála Sumarliði. Já það var farið inn á þetta er bara lítillega. Verkalýðshreyfingin er fyrir löngu búin að svíkja umbjóðendur sína fyrir hagsmuni lífeyrissjóðanna.

Jón Magnússon, 17.6.2010 kl. 23:25

22 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Ánægður með að þessi umræða á sér stað. Hef sjálfum aldrei tekist að starta henni hingað til. Þakka fyrir þetta Jón.

Gísli Ingvarsson, 18.6.2010 kl. 11:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 297
  • Sl. sólarhring: 694
  • Sl. viku: 4118
  • Frá upphafi: 2427918

Annað

  • Innlit í dag: 273
  • Innlit sl. viku: 3809
  • Gestir í dag: 264
  • IP-tölur í dag: 253

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband