Leita í fréttum mbl.is

Landsdómur

Þingmannanefnd Atla Gíslasonar mun vera um það bil að skila af sér og fréttir berast af því að nefndin leggi til að höfðað verði mál gegn ákveðnum fyrrverandi ráðherrum og það lagt fyrir Landsdóm.

Hverjir ætla að greiða atkvæði um það?  Þeir sem sátu með þessum ráðherrum í ríkisstjórn og bera verkskipta ábyrgð á stjórnarframkvæmd á þeim tíma? Þar á meðal eru Jóhanna Sigurðardóttir, Össur Skarphéðinsson og Þórunn skarpmælta Sveinbjarnardóttir. 

Ætlar Árni Páll Árnason sérfræðingur í málefnum Íbúðalánasjóðs að kveða upp dóma yfir þeim sem hann studdi í ríkisstjórn fyrir tveim árum síðan? 

Allt starf þessarar þingmannanefndar ber það því miður með sér að þar hafi illa verið staðið að verki. Eðlilegt hefði verið að þingmannanefndin hefði komið málinu út úr pólitísku ferli og í faglegt ferli.

Í annan stað hefði verið eðlilegt að nefndin starfaði fyrir opnum tjöldum.

Í þriðja lagi þá hefði verið nauðsynlegt að nefndin sjálf hefði farið í sjálfstæða rannsóknarvinnu varðandi þau atriði sem mestu máli skipta.

 Í fjórða lagi þá hefði nefndin í upphafi þurft að taka á því að rannsóknarnefnd Alþingis virti ekki andmælarétt þeirra ráðherra sem sakaðir eru um vanrækslu og birti andmæli þeirra ekki með útgefinni skýrslu. Atli Gíslason hæstaréttarlögmaður veit hvað það þýðir að andmælaréttur er ekki virtur.

Í fimmta lagi hefði þingmannanefndin þurft að taka á hæfismálum þeirra sem sátu í rannsóknarnefndinni af gefnu tilefni og

 í sjötta lagi þá hefði þurft að virða grundvallarreglur réttarríkisins um upplýsingagjöf og aðkomu grunaðra á rannsóknarstigi þ.e. í þessu tilviki við meðferð þingmannanefndarinnar. 

Það er verulega miður að svo illa skuli hafa verið að verki staðið varðandi þetta mál.

En eftir stendur spurningin um hæfi þeirra sem ætla hugsanlega að ákæra sumir fyrrum samstarfsmenn sína og félaga án þess að faglegt mat unnið á forsendum réttarríkisins liggi fyrir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Benedikta E

Jón - Hefurðu sent Atla Gíslasyni - þingmannanefndinni - þína álitsgerð ?

Er það ekki leyfilegt? - Ég hefði haldið að það væri af hinu góða fyrir nefndina að fá frá þér álitsgerð - svona til að fríska upp fyrir nýjum sjónarhornum - innan nefndarinnar - það getur nú ekki verið henni skaðlegt.

Benedikta E, 9.9.2010 kl. 15:15

2 Smámynd: Gylfi Björgvinsson

Já þetta er rétt Jón. Þetta gengur dálítið fram af mér hvernig að þessu er staðið. Þú ert lögfræðingur og veist allt um svona mál. Hefði ekki verið eðlilegra að þingið hefði skipað nefnd sem væri skipuð væri löglærðum mönnum utan þings? Þessir þingmenn  sem eru í nefndinni geta tæpast verið hæfir jafnvel þó þeir sleppi öllum pólitískum refskákum. Eða er  það?

Gylfi Björgvinsson, 9.9.2010 kl. 15:18

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Er þá málskot til Landsdóms ekki rétt skilgreint í lögum/stjórnarskrá?

Ég hef skilið það mál svo að Alþingi eigi að stýra för í málskotstilfelli sem þessu. Hitt er öllum ljóst að þetta er nýjung í íslenskri stjórmálasögu en mér finnst ótrúlegt að þetta mál hafi lent af handahófi í einhverjum þeim farvegi sem fella megi undir pólitískt klúður.

Þessa ályktun mína má þó enginn taka á þá lund að mér finnist það ótrúlegt að pólitíkusar okkar klúðri vinnu við stjórnsýslu. 

Árni Gunnarsson, 9.9.2010 kl. 15:36

4 Smámynd: Halldór Jónsson

orð að sönnu Jón

Halldór Jónsson, 9.9.2010 kl. 21:06

5 Smámynd: Jón Magnússon

Nei ég hef ekki verið beðinn um álitsgerð. Ég hef hins vegar lesið skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis mjög ítarlega og komst að þeirri niðurstöðu að það væru engin efni til að kæra fyrrverandi ráðherra á grundvelli þess sem þar kemur fram.  Þingmannanefnd Atla er að ljúka störfum og hún hefur alla vega sett peninga í að kyngreina hrunið en mér er ekki kunnugt um frekari rannsóknarvinnu af hálfu nefndarinnar.

Jón Magnússon, 9.9.2010 kl. 22:35

6 Smámynd: Jón Magnússon

Ég tel að það hefði verið heppilegra Gylfi að skipa fólk utan þings til að fjalla um hugsanlega málsókn á hendur ráðherrum og þingmannanefnd hefði síðan getað farið yfir það með þeim aðilum. Ákvæðin um Landsdóm eru gömul og frá tíma þar sem hugmyndafræðin varðandi meðferð sakamála var allt önnur en hún er hjá okkur í dag. Það gerir þessa málsmeðferð sem viðhöfð hefur verið af hálfu nefndar Atla Gíslasonar að vissri tímaskekkju

Jón Magnússon, 9.9.2010 kl. 22:38

7 Smámynd: Jón Magnússon

Ákvæði um Landsdóm eru barn síns tíma og það hefði þurft að endurskoða þau fyrir löngu. Hitt er rétt hjá þér að formelga heyrir þetta undir Alþingi. En spurningin er alltaf með hvaða hætti nálgast menn viðfangsefni af þessu tagi. Á sínum tíma flutti Gunnar Thoroddsen heitinn jómfrúarræðu á Alþingi um nauðsyn þess að stofna embætti saksóknara og aðskjlja saksókn frá dómsmálaráðuneytinu þannig að það væri ekki nokkrum vafa undirorpið að engin pólitík blandaðist í saksókn eða það að fallið væri frá saksókn.  Sú hugsun náði fram að ganga og réttarþróunin hefur verið með þeim hætti að allt önnur sjónarmið eru nú uppi en voru þegar kveðið var á um ráðherraábyrgð og Landsdóm.

Þess vegna er það gagnrýnisvert að sá þingmaður sem stýrði starfi þingmannanefndarinnar skuli ekki hafa komið málum strax í þann farveg að fela óháðum fagaðilum að koma með tillögur varðandi hugsanlega málsókn gegn fyrrverandi ráðherrum sem nefndin hefði síðan átt að afgreiða beint til Alþingis með tillögu um að farið skyldi að þeirri niðurstöðu sem þar kom fram. Með þeim hætti hefði málið verið tekið úr þeirri pólitísku umgjörð sem það er nú í. Þá hefði líka þurft að gæta hagsmuna viðkomandi ráðherra og láta þá njóta þeirra réttinda sem grunaðir menn eru látnir njóta á rannsóknarstigi mála. Ekkert  af þessu var gert og það finnst mér gjörsamlega fráleit vinnubrögð

Ég hefði búist við því af Atla Gíslasyni að hann mundi vinna með faglegri hætti en hann hefur gert, en því miður varð sú ekki raunin.

Jón Magnússon, 9.9.2010 kl. 22:54

8 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka þér fyrir Halldór.

Jón Magnússon, 9.9.2010 kl. 22:54

9 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Kemur einungis til kasta Samfylkingar við afgreiðslu málsins á Alþingi? Ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að sitja hjá eða vera fjarrverandi í heildsinni? Er enginn hiksti og fótafúi í Sjálfstæðisflokknum að sakfella samherja sína?

Axel Jóhann Hallgrímsson, 10.9.2010 kl. 08:55

10 Smámynd: Árni Gunnarsson

Hef ég það ekki rétt eftir Sigurði Líndal fyrrv. lagaprófessor að hann telji að lög um Landsdóm hafi sannað gildi sitt og þau standist enn í dag?

Mér er ekki launung á því að ég hef lengi talið eitt brýnasta verkefni samfélagsins að senda stjórnsýslunni skýr skilaboð um að hún er hvorki ósnertanleg né ábyrgðarlaus.

Nú setur að mér óhug þegar ég finn hversu andinn í mörgum embættismönnum og pólitíkusum.(flokksblindingjum) er neikvæður út í þennan fyrsta Landsdóm.

Horfi ég til baka yfir okkar stjórnsýslu nokkuð mörg ár aftur sé ég fyrir mér mörg málskot og marga dóma.

Sem samfélagið hefur þurft að horfa á eftir inn í pólitíska þöggunardeild sem síðan hefur fengið vinnufrið hjá siðblindum flokkadindlum.

Árni Gunnarsson, 10.9.2010 kl. 14:02

11 Smámynd: Gústaf Níelsson

Það er enginn vafi Jón að lög um bæði Landsdóm og ráðherraábyrgð eru orðin úrelt og færð hafa verið fram rök fyrir því að ákvæði þeirra séu óljós og uppfylli ekki nútímakröfur um skýrleika refsiheimilda.

Vil ég vekja athygli þína á 13. gr. l. nr. 19/1963 um landsdóm, en þar segir: "Ákvörðun Alþingis um málshöfðun gegn ráðherra skal gerð með þingsályktun ... og skulu kæruatriðin nákvæmlega tiltekin í þingsályktuninni, enda sé sókn málsins bundin við þau. Jafnframt kýs Alþingi mann til að sækja málið af sinni hendi, og annan til vara, ef hinn kynni að forfallast. Ennfremur kýs ... Alþingi fimm manna þingnefnd með hlutfallskosningu til þess að fylgjast með málinu og vera saksóknara Alþingis til aðstoðar." Hverjir skyldu nú taka að sér saksóknina?

Halda menn í alvöru að fyrirkomulag af þessu tagi gangi í nútíma réttarríki? Nei ekki einu sinni Jóhanna forsætis. Hún flutti á Alþingi 2001 tillögu til þingsályktunar um heildarendurskoðun á lögum um landsdóm. Þar segir m.a. í greinargerð:"Gildandi ákvæði um landsdóm, sem staðið hafa óbreytt frá setningu þeirra, eru mjög þung í vöfum. Í raun má segja að þau séu orðin úrelt og ekki í samræmi við þær breytingar sem orðið hafa í dóms- og réttarkerfinu..."

Væri ekki nær að Jóhanna Sigurðardóttir, sem er forsætisráðherra í ríkisstjórn, sem styðst við þann meirihluta Alþingis, sem hefur í hyggju að beita úreltum lagaákvæðum, láti til sín taka?

Gústaf Níelsson, 10.9.2010 kl. 15:00

12 Smámynd: Jón Magnússon

Þingið sakfellir ekki í þessu tilviki Axel það getur ákært en það yrði Landsdómur sem mundi sakfella eða sýkna. Í mínum huga væri það fráleitt að samþykkja ákærur á hendur fyrrverandi ráðherrum á grundvelli þeirrar löggjafar sem er í gildi um ráðherraábyrgð og Landsdóm. Þau ákvæði standast ekki ákvæði um mannréttindi eins og þau eru nú svo dæmi sé tekið.

Jón Magnússon, 10.9.2010 kl. 22:42

13 Smámynd: Jón Magnússon

Árni ég get verið efnislega sammála þér um stjórnsýsluna og ýmislegt annað.  Það er hins vegar ómögulegt að nota lög sem ganga ekki og standast ekki miðað við ákvæði laga um mannréttindi m.a. hvað varðar rannsókn, ákærur og málskot.  Slíkar ákærur yrðu flan eitt og mundu enda úti í mýri hvað sem Sigurður Líndal, besti vinur LÍÚ og kvótakerfisins, segir um þessi mál.  Ég sé að Gústaf Níelsson hefur skrifað um atbeina Jóhönnu Sigurðardóttur til að reyna að rétta lögin af hvað varðar Landsdóm. En það var bara ekki gert og það er betra heima setið en fara af stað á ónýtum farkosti.

Jón Magnússon, 10.9.2010 kl. 22:46

14 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka þér fyrir Gústaf þetta var góð upprifjun. En því má heldur ekki gleyma að hugsunin á bak við lög um Landsdóm voru að ráðherra misbeitti ekki valdi sínu.  Það hefur aldrei hvarflað að nokkrum að ráðherra gæti bakað sér refsiábyrgð fyrir heimsku sakir svo dæmi sé tekið enda væru dómsmál þá tíð fyrir Landsdómi.

Það er mín skoðun hvað svo sem menn vilja gera varðandi ákærur á einstaka ráðherra að þá eru lögin um Landsdóm svo gölluð m.a. ákvæði um rannsókn, ákæru og það að ekki er hægt að áfrýja dómi Landsdóms, að ég tel að þau standist ekki mannréttindaákvæði íslenskra laga eða mannréttindasáttmála Evrópu svo dæmi sé tekið.

Ákæra á þessum grundvelli yrði því til lítils sóma fyrir þá sem að því mundu standa þó sumir þingmenn telji vafalaust í augnablikinu að það gæti horft til vinsælda að standa að ákærum.  Hætt er hins vegar við að sagan dæmi þá sem að því muni standa.

Jón Magnússon, 10.9.2010 kl. 22:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 326
  • Sl. sólarhring: 640
  • Sl. viku: 4147
  • Frá upphafi: 2427947

Annað

  • Innlit í dag: 301
  • Innlit sl. viku: 3837
  • Gestir í dag: 288
  • IP-tölur í dag: 269

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband