Leita í fréttum mbl.is

Hinn þögli meirihluti hefur talað.

Mikill meiri hluti kjósenda hefur engan áhuga á Stjórnlagaþingi. Niðurstaða kosninganna liggur fyrir að því leyti. Um eða undir 40% kjósenda mættu á kjörstað. Það þýðir að 6 af hverjum 10 höfðu ekki áhuga á málinu. Sjálfur taldi ég nauðsynlegt að hvetja fólk til að nýta kosningaréttinn þó ég hafi frá upphafi verið á móti þessari leið og bent á aðra heppilegri.

Frá upphafi hef ég talið þessa leið hið mesta óráð og hrapað væri að máli sem fella yrði í annan farveg. Vinstri sinnaða háskólaelítan, ásamt mörgum fjölmiðlamönnum og lukkuriddurum töldu breytingar á stjórnarskrá hins vegar það mikilvægasta sem gera þyrfti í framhaldi af bankahruninu. Nú hefur þjóðin talað með því að sitja heima og neita að taka þátt í kosningunum. Hinn þögli meiri hluti hefur því tjáð sig þannig að ekki fer á milli mála.

Þann 6.október 2008 við afgreiðslu neyðarlaganna talaði ég um það sem væri mikilvægast að gera í framhaldi af falli bankanna. Það voru atriði eins og að koma lánamálum í eðlilegt horf. Fella niður verðtryggingu, lækka stýrivexti og útlánavexti, auka fiskveiðiheimildir, virkja í neðri hluta Þjórsár og hefja markvisst starf varðandi atvinnuppbyggingu. Mér fannst þá eins og nú þessi atriði skipta mestu máli.

Ríkisstjórnin setti Stjórnlagaþing í forgang. Sennilega sjá það flestir nú að heppilegra hefði verið að einhenda sér í það sem skipti máli, en það er ekki Stjórnlagaþing.

Enn eru öll þau mál óleyst sem ég taldi 2008  og tel  enn vera forgangsverkefni til að leysa þá kreppu sem er í landinu. Þess vegna verður kreppan lengri og illvígari en hún hefði orðið ef réttir hlutir hefðu verið settir í forgang.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Jónsson

Góði vinur Jón

Þarna mælir þú manna heilastur. Það er akkúrat þetta sem er að.

Veruleikafirring  ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans. Ríkisstjórn sem skýtur stöðugt upp flugeldum til að reyna að draga athygli fólksins frá vandamálum dagsins í dag og þeirri staðreynd að hún er ekki að gera nokkurn skapaðan hlut nema að hræra í vandamálapotti sem eldurinn er slokknaður undir fyrir löngu. Ekkert verður framreitt til að seðja hungur fólksins úr þessu eldhúsi. 

Halldór Jónsson, 28.11.2010 kl. 11:40

2 Smámynd: Elín Erna Steinarsdóttir

Hinn þögli meirihluti ÞAGÐI og enginn veit hvað hann hugsaði. Alla vega treysti hann okkur hinum best til að kjósa fyrir sig. Ég þakka bara fyrir mig, því atkvæði mitt vog meira en tvöfall meira en ef allir hefðu tekið þátt. Bara gleði fyrir þá sem vilja hafa áhrif.

Elín Erna Steinarsdóttir, 28.11.2010 kl. 11:49

3 identicon

Heill og sæll Jón.

Það er vandmeðfarið að draga ályktanir! Allt of mörg dæmi eru um það í dægurþrasi stjórnmálanna að orsakasamhengið sé slitið í sundur og umræðan afvegaleidd. Gott dæmi um þetta eru þær ályktanir sem stjórnmálaforingjar iðulega draga af skilaboðum kjósenda við kosningar, þar sem svo til allir flokkar verða einhverkonar sigurvegarar, hverning sem fylgið sveiflast! 

Í þessum kosningum var ekki verið að spyrja hvort fólk vildi kosningar til þjóðlagaþings, eins og ráða má af þinni ályktun. Kosningin stóð um hvort þú sem kjósandi vildir hafa áhrif á hver af frambjóðendum myndi sitja þingið! Eins og í öðrum kosningum þá framselur þú, með því að mæta ekki, þitt athvæði til þeirra sem mæta! Ástæðurnar geta verið ýmsar fyrir því vali þínu, oftast þær að þér finns ekki skipta höfuðmáli hver af frambjóðendunum velst. 

Nú er ég einn af þeim sem ekki kaus. Ég hef mínar skýringar á því en um leið frábið ég mig frá því að Jónar úti í bæ geri sér upp mínar skoðanir um stjórnlagaþing og það að með minni fráveru þá hafi ég viljað koma þeim skilaboðum á framfæri að stjórnlagaþing væri óþarft. Það er einfaldlega ekki boðið upp á þann möguleika í kosningum almennt.

Síðan gengur þú lengra í ályktunargleði þinni Jón, (og það er reyndar annað dæmigert einkenni á slæglegri rökræðu sem lengi hefur viðgengst) en það er að stilla hlutum upp á móti hver öðrum sem andsstæðum. Í þessu tilviki að þarna sé ríkisstjórn að velja stjórnlagaþing framfyrir, og að því er virðist í staðinn fyrir aðra hluti sem vert væri að gera eins og að fella niður verðtryggingu, virkja o.s.frv. Orsakasamhengið sem þú dregur upp milli þessara mála sem andstæðna finnst mér algjörlega órökrétt. Auðvitað á að vera hægt að framkvæma svona þing án þess að það komi niður á getu eða vilja stjórnvalda til að framkvæma þá hluti sem þú nefnir, enda eru orsakirnar fyrir því allt aðrar, eins og ég held að þú vitir reyndar!

Hermann Ólafsson (IP-tala skráð) 28.11.2010 kl. 14:02

4 identicon

Heill og sæll Jón.

Það er vandmeðfarið að draga ályktanir! Allt of mörg dæmi eru um það í dægurþrasi stjórnmálanna að orsakasamhengið sé slitið í sundur og umræðan afvegaleidd. Gott dæmi um þetta eru þær ályktanir sem stjórnmálaforingjar iðulega draga af skilaboðum kjósenda við kosningar, þar sem svo til allir flokkar verða einhverkonar sigurvegarar, hverning sem fylgið sveiflast! 

Í þessum kosningum var ekki verið að spyrja hvort fólk vildi kosningar til þjóðlagaþings, eins og ráða má af þinni ályktun. Kosningin stóð um hvort þú sem kjósandi vildir hafa áhrif á hver af frambjóðendum myndi sitja þingið! Eins og í öðrum kosningum þá framselur þú, með því að mæta ekki, þitt athvæði til þeirra sem mæta! Ástæðurnar geta verið ýmsar fyrir því vali þínu, oftast þær að þér finns ekki skipta höfuðmáli hver af frambjóðendunum velst. 

Nú er ég einn af þeim sem ekki kaus. Ég hef mínar skýringar á því en um leið frábið ég mig frá því að Jónar úti í bæ geri sér upp mínar skoðanir um stjórnlagaþing og það að með minni fráveru þá hafi ég viljað koma þeim skilaboðum á framfæri að stjórnlagaþing væri óþarft. Það er einfaldlega ekki boðið upp á þann möguleika í kosningum almennt.

Síðan gengur þú lengra í ályktunargleði þinni Jón, (og það er reyndar annað dæmigert einkenni á slæglegri rökræðu sem lengi hefur viðgengst) en það er að stilla hlutum upp á móti hver öðrum sem andsstæðum. Í þessu tilviki að þarna sé ríkisstjórn að velja stjórnlagaþing framfyrir, og að því er virðist í staðinn fyrir aðra hluti sem vert væri að gera eins og að fella niður verðtryggingu, virkja o.s.frv. Orsakasamhengið sem þú dregur upp milli þessara mála sem andstæðna finnst mér algjörlega órökrétt. Auðvitað á að vera hægt að framkvæma svona þing án þess að það komi niður á getu eða vilja stjórnvalda til að framkvæma þá hluti sem þú nefnir, enda eru orsakirnar fyrir því allt aðrar, eins og ég held að þú vitir reyndar!

Hermann Ólafsson (IP-tala skráð) 28.11.2010 kl. 14:17

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég fæ ekki séð að ríkisstjórnin "hafi sett Stjórnlagaþing í forgang".

Að minnsta kosti er ekki að sjá að mikill tími eða fyrirhöfn af hálfu ráðamanna hafi þurft til að koma á fót svo einföldum hlut sem Þjóðfundurinn og Stjórnlagaþingið eru. 

Það er mjög langsótt að kenna Þjóðfundi og Stjórnlagaþingi um hve seinlega gengur að leysa önnur vandamál, sem eru margfalt yfirgripsmeiri og flóknari. 

Ómar Ragnarsson, 28.11.2010 kl. 14:31

6 Smámynd: Hörður Sigurðsson Diego

Það er ekki rétt hjá þér að hinn þögli meirihluti hafi talað. Hann sagði einmitt ekki neitt og hefur með þögn sinni samþykkt að minnihlutinn ákveði hlutina fyrir þá.

Það er ekki kosning að kjósa ekki.

Hörður Sigurðsson Diego, 28.11.2010 kl. 16:07

7 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka þér fyrir Halldór, en ég fór á kjörstað til að kjósa þig þó mér finnsti þessi hugmynd um Stjórnlagaþing alveg fráleit. En þetta hentar ríkisstjórninni vel af því að hún hvorki veit, kann eða getur.

Skrýtið að hlusta á hrokann og afflutninginn í hinum opinbera talsmanni stjórnlagaþingsins og fyrrum forsetaframbjóðanda eftir að vilji hins þögla meiri hluta lá fyrir.

Jón Magnússon, 28.11.2010 kl. 16:40

8 Smámynd: Jón Magnússon

Elín þú telur þá sjálfsagt eðilegt og best að þú ein mætir á kjörstað. Alla vega ræður atkvæði þitt þá mestu. En mundi það endilega endurspegla þjóðarviljann.  Sennilega ekki frekar en mitt ef ég væri í þeirri stöðu.  En þegar um tveir af hverjum þremur mætir ekki á kjörstað í landi þar sem kosningaþáttakann í almennum kosningum er venjulegast um og yfir 80% þá segir það ótvíræða sögu. Þá sögu að fólk hefur ekki áhuga á málinu.

Jón Magnússon, 28.11.2010 kl. 16:42

9 Smámynd: Jón Magnússon

Hermann nú er ég einn af þeim sem kaus þó ég hafi alltaf talið Stjórnlagaþing hið mesta óráð. Ég gerði meira. Ég hvatti fólk til að kjósa og sá til þess að nokkrir sem ætluðu ekki að kjósa gerðu það. Það var einfaldlega vegna þess að mér finnst að fólk eigi að nota kosningaréttinn þegar hann er í boði. það breytir því hins vegar ekki að tveir af hverjum þremur kjósendum sáu ekki ástæðu til að kjósa og það segir ótvíræða sögu Hermann. Varðandi forganginn þá er ljóst að ríkisstjórnni leggur meiri orku í þetta mál en atvinnumálin eða lausn á skuldavanda heimilanna. Er þá forgangsröðunin ekki ljós?

Jón Magnússon, 28.11.2010 kl. 16:46

10 Smámynd: Jón Magnússon

Ómar meðan fólk er upptekið við  Stjórnlagaþing þá gerir það ekki annað á meðan. Það hefur mikill tími farið í málið og það mun kosta um milljarð þegar upp er staðið.  Væri ekki betra að nýta þá peninga til velferðarmála þar sem æ fleiri eru að lenda í erfiðleikum og skuldavanda.

Jón Magnússon, 28.11.2010 kl. 16:48

11 Smámynd: Jón Magnússon

Það er ekki rétt niðurstaða Hörður að það sé ekki afstaða fólgin í því að kjósa ekki.  Það er heilmikil afstaða þegar tveir af hverjum þrem kjósa ekki.

Jón Magnússon, 28.11.2010 kl. 16:49

12 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Ég ætla að láta vera að túlka afstöðu þeirra sem ekki létu sjá sig. En, það getur verið allt frá áhugaleysi yfir í að vera form mótmæla:

  • Ég er aftur á móti annarrar skoðunar en þú ert Jón - að ég tel breytingar á grunnskipan nauðsynlegar.
  • Vandinn við núverandi fyrirkomulag, er að í reynd er engin þrískipting til staðar. Þ.e. hún er formið eitt.
  • Ríkisvaldið drottnar vanalega yfir Alþingi - dómarar vanalega virðast ekki fara á svig við þ.s. ríkisvaldið vill. Forsetinn virðist nánast eina aflið, sem veitir mótvægi.
  • Ég er handviss, að það sé mjög mikilvægt að laga þetta.
  • Það megi ekki bíða.
  • Ég kaus áhugamenn um bindandi þjóðaratkvæða greiðslur.
  • Ég vil að auki verja vald forseta, auka áhrif og vægi þess embættis - alls ekki minnka.
  • Með sterkara embætti forseta - með bindandi þjóðaratkvæða greiðslum - hvort sem er til að krefjast þess að mál séu tekin fyrir / síðan til að taka fyrir mál sem afgreidd hafa verið frá Alþingi.
  • Þá held ég - raunverulega - að líkur á tjóni eins og því, sem ísl. samfélag hefur orðið fyrir minnki.
  • Þ.e. vegna þess, að mín skoðun er að þjóðaratkvæða greiðslu fyrirkomulag, stórlega minnki möguleika fjársterkra aðila úti í samfélaginu til þess, að beita fjármagni sínu í gegnum stjórnmálamenn og flokks, til að lögum, reglum sé hagað skv. þeirra vilja.
  • Það muni minnka pólit. spillingu, vegna þess að þá verði það minna spenndandi, að verja fjármagni í stjórnmálamenn og flokka, því það verði ekki lengur trygging fyrir því, að árangur fylgi þeim fjáraustri.

Aftur á móti grunar mig að hætta sé um að fyrir liggi pöntuð niðurstaða tiltekins hóps kjósenda, þ.e. ESB sinna, sem hópi sér um tiltekna einstaklinga, sem vilja koma í gegn tilteknum breytingum - sem ESB sinnar eru með í pöntun á stjórnarskránni.

Það mun ráðast af samsetningu hópsins. hvort þeir hafa erindi sem erfiði.

En, einmitt hve margir sátu heima - getur aukið líkur þess að þeirra fólk komist að.

En, væntanlega hafa þó ESB andstæðingar einnig kosið sitt fólk. 

Það verður forvitnilegt að sjá, hvort annar hópurinn mun hafa meirihluta eða hvort pattstaða muni koma fram.

En þ.e. einmitt áhættan sem fólk tekur með því að sytja heima, að fram komi niðurstaða sem hugnist því ekki.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 28.11.2010 kl. 17:09

13 Smámynd: GeiriGrimmi

Nú hefur kosning til stjórnlagaþings farið fram. Þeir sem ekki mættu á kjörstað hafa einfaldlega ekkert um málið að segja og mega framvegis þegja. Það verður hins vegar spennandi að sjá hve margir skiluðu auðu.

GeiriGrimmi, 28.11.2010 kl. 17:22

14 Smámynd: Hörður Sigurðsson Diego

Nei, Jón Magnússon, fólk sem mætir ekki á kjörstað og skilar þar með ekki atkvæði sýnir með aðgerðarleysi sínu afstöðuleysi, ekki afstöðu. Það er fáránlegt að halda því fram.

Hörður Sigurðsson Diego, 28.11.2010 kl. 17:32

15 identicon

Það skiptir stóru máli í þessu samhengi að Stjórnlagaþing er bara fallegt nafn yfir valdalausa nefnd með ráðgjafahlutverk. Kostnaðurinn við þessa útfærslu fór líka hressilega úr böndunum.

Að það sé gott og gilt að kalla það Stjórnlagaþing, þar sem ákvörðunarvaldið er ekkert og háð duttlungum þingmeirihluta hvað verður að lögum úr nefndarstarfinu er í hróplegu ósamræmi við það sem flestir þeir sem kröfðust þess að fá Stjórnlagaþing vildu.

Eins og fór þá tel ég réttast að blása stjórnlagaþingið af. Kostnaðurinn er of mikill fyrir eitthvað sem verða aldrei annað en tillögur frá fulltrúum minnihluta kjósenda.

Bragi Jôhannsson (IP-tala skráð) 28.11.2010 kl. 19:05

16 Smámynd: Þórir Kjartansson

Allir þeir fjölmörgu sem hamast hér á blogginu viku eftir viku og skammast út í stjórnvöld og Alþingi meina þá sennilega ekkert með þessu. Allavega getur Alþingi nú gert hvað sem því sýnist í þessu stjórnarskrármáli og bent réttilega á að þjóðin hafi engan áhuga á að hafa þar áhrif.

Þórir Kjartansson, 28.11.2010 kl. 19:28

17 Smámynd: Elín Erna Steinarsdóttir

Takk fyrir svarið Jón.

Þú mátt ekki skilja það svo að ég hafi latt fólk til að taka þátt í kosningunum. Þvert á móti gekk ég um meðal fólks og hvatti það til að nýta atkvæði sitt til að hafa áhrif á mikilvægurstu lög landsins. Ég get hins vega ekki skipað fólki að nýta rétt sinn og treysti það mér og þér betur fyrir atkvæði sínu, þá þakka ég pent fyrir traustið og atkvæði mitt vegur þyngra en ég bjóst við í fyrstu. Niðurstaðan er að við sem kusum, völdum fyrir hina.

Elín Erna Steinarsdóttir, 28.11.2010 kl. 19:52

18 Smámynd: Júlíus Björnsson

Mig grunar að stór hluti þjóðarinnar viti lítið sem ekkert hvað stjórnarskrá er. Í mínum augum er hún grunn rammar um frelsi einstaklinganna til orðs og æðis. Á henni byggja svo öll lög, reglugerðir og tilskipanir síðari tíma.   Öll verða svo að vera í samræmi við hverju einustu grein stjórnarskrárinnar.  Því stærri stjórnarskrá því minna frelsi.

Ég forgangsraða öðruvísi, og vil sjá hér líkt og í öðrum löndum venjulega langtíma jafngreiðslu veðskuldarlánasjóði sem lána milliliðalaust til lántaka. Til að eyða milliliðakostnaðinum.

80% slíkra íbúðveðaskuldar lán með sömu greiðslunni allan lánstíma að meðaltali 30 ár minnst: 360 skipti.

Alþjóðlega langtíma formúla fyrir fyrsta flokks veðskuldar bréfum er að þau séu : Heildar skuld samsett úr lánsupphæð, áætluðum raunvöxtum og áætluð afskriftarvöxtum vegna verðbólgu: það er verðtryggingu sem tryggir Lánsupphæðina og raunvexti: leiguna. Erlendis er algengast að  hámarka þessa verðtryggingu við 2,5% eða 3,5% nafnvexti. Í samræmi við það sem Seðlabanki við komandi ríkis gerir ráð fyrir [expects] í langtíma áætlunum sínum.

Afskriftum er dreift mest á fyrstu greiðslu, því að í raun eru þetta mörg lán, fyrsta lánið er í mánuð, það síðast með með neikvæðum á samsvarandi. 

 Hugmyndin í upphafi er sú að þroskaður sjóður 30 ára láni jafn mörg láni út og greiðast upp.   Þá eru afskriftir nýju lánanna færðar á  þau eldri sem hafa rýrnað vegna verðbólgunnar.

Þannig að jafnvægið fær að njóta sín til fullnustu.  Í USA virkar þetta þannig að 80% sem taka slík lán vænta [expect] þess að verðbólgan vaxi og kippa sér ekki eins mikið upp við verðhækkanir á neyslu vöru.  Negam formin hér  vaxa hinsvegar að raunvirði framreiknað ef verðbólga vex og kynda þess vegna upp launakröfur.  Það er engin tilviljum að búið er banna þetta skammtíma  negam lánsform sem langtíma fasteignalán venjulegra launþega í flestu ríkjum USA nú síðast í Kaliforníu. Upphaflega kom þetta fram í félagsmálgeira USA ætlað um 5% markaðarins sem átti ekki fyrir útborgum eða veðum fyrir henni. Ríkið tók þá ábyrgð fyrstu 5 árin meðan lántaki var að eignast um 20% í fasteinginni og síðan tóku hefðbundnir öryggir séreignar jafngreiðslu lánasjóðir við með hagstæðum langtíma jafngreiðslu lánum. Flestum launþegum kemur það vel að greiðslu byrði stóra lánsins lækki að raunvirði með tímanum, unglingar eru dýrar í rekstri og viðhaldskostnaður minni til  að byrja með, og hann er utan og innan húss um 60% á 30 árum ef eignin á að endurseljast sem ný. Fyrir örugga jafngreiðlulánasjóðin er gott að verðtygging sé mest fyrst.  Þá á hann auðveldra með að lækka til nafnvextina ef samkeppni vex.  Þeir sem búa í eigin húsnæði hugsa betur um það og þeir sem eiga það skuldlaust fyrir töku lífeyris komast af með minni lífeyrissparnað.  

Svo er hátekju markaðir líka yfirleitt ekki nema 10% af lántökum: þar geta menn tekið hærri vexti án áhættu í samræmi við tísku og fasteignir sem seljast hægt.

 Erlendis er húsnæðiskostnað alltaf grunnur heildarlauna efnahagslendunnar.  Lægri húnsæðikostnaður merkir lægri launveltu en ekki óhagstæðri neytendaverðkörfu. Sjá Þýskaland og USA.

Þeir sem telja þess ríki ekki hafa vit á fjármálum er að mínu mati nánast klepptækir. Sömu ríki telja sérfræðinga hér hinsvegar ekki lánshæfa og vegur það þyngra. 

Ég fór að kjósa nauðugur viljugur til að tryggja minnst einum lögfróðum áhrif.  Gæði stjórnarskár vega þyngra en fjöldi lagaramma.   Að mínu mati. Lög sem ekki er hægt að framfylgja grafa undan virðingu við öll önnur lög.

Burt með ráðstjórn og forræðishyggju, upp með mannvit og almennt frelsi einstaklinga til að láta gott af sér leiða í þágu heildarinnar. Sælir eru þeir sem geta bjargað sér sjálfir. Sælla er að gefa en þiggja.

Í USA voru froðubólur vegna fasteigna hækkana bundin við sérstök hverfi : local: Boston enska. Hér er langtímagrunnurinn ennþá 100% negam með kröfu um að allt vaxi hér að raunvirði um 100% á 15 árum í samburði við helstu lánadrottna.  Græðgin er ennþá á fullu á annarra kostnað.  Tyggjó og Húsnæði er ekki alveg það sama.

Júlíus Björnsson, 28.11.2010 kl. 19:54

19 Smámynd: Jón Magnússon

Ég er sammála þér Einar Björn. Ég tel líka nauðsynlegt að greina betur á milli framkvæmdavalds og löggjafarvalds. Einnig um þjóðaratkvæði. Þá tel ég líka mikilvægt að forseti hafi völd með svipuðum hætti og í Bandaríkjunum og Frakklandi. Hins vegar er ég þér ekki sammála um að breytingar á stjórnarskrá hefði getað komið í veg fyrir bankahrunið. Það eru allt aðrir hlutir sem huga þarf að varðandi það og þú skalt ekki gleyma því sem þú hefur iðulega komið inn á í ágætis bloggfærlsum að það varð víðar bankahrun en hér. Þá voru fleiri þjóðir sem tóku verri ákvarðanir en við vegna yfirvofandi bankahruns eins og Írar, Englendingar og Bandaríkjamenn. Evrópa er ekki búin að vinna úr sínum málum vegna ógætilegra lána banka. Franskir og Þýskir bankar eiga t.d. verulega undir neyðaraðstoð til Grikkja og Íra.

Jón Magnússon, 28.11.2010 kl. 20:37

20 Smámynd: Jón Magnússon

Geiri Grimmi. Þeir sem mættu ekki á kjörstað hafa heilmikið um málið að segja og mér segir svo hugur um að þeir muni ekki þegja í framtíðinni. Í fyrsta lagi þá hefur Stjórnlagaþingið ekkert vald og engar breytingar verða á stjórnarskránni nema þjóðin hafi um það að segja eftir að tillaga til breytinga á stjórnarskránni hefur verið samþykkt.

Jón Magnússon, 28.11.2010 kl. 20:39

21 Smámynd: Jón Magnússon

Hörður ekki þegar næstum því 2 af hverjum 3 mæta ekki. Þá sýnir það óneitanlega afgerandi afstöðu.  Þetta er niðurstaða sem hefur aldrei verið uppi hér á landi fyrr. Það segir líka sína sögu. Það er hægt að draga réttar ályktanir af þessum staðreyndum eins og ég geri.

Jón Magnússon, 28.11.2010 kl. 20:40

22 Smámynd: Jón Magnússon

Ég er sammála þér Bragi.

Jón Magnússon, 28.11.2010 kl. 20:41

23 Smámynd: Jón Magnússon

Þórir það hefur Alþingi alltaf getað gert. Alþingi hefur ekki afsalað sér neinu valdi til Stjórnlagaþings. Þeir sem hamast á blogginu eru hins vegar að koma skoðunum sínum og sjónarmiðum á framfæri. Það er allt annað mál.

Jón Magnússon, 28.11.2010 kl. 20:42

24 Smámynd: Jón Magnússon

Nei Elín mér datt ekki í hug að þú hefðir latt fólk til að kjósa enda værir þú þá dapur frambjóðandi. Ég hvatti fólk til að fara og kjósa og fór sjálfur og kaus eins marga og ég má. Ég hvatti fólk einnig til að kjósa ákveðna frambjóðendur.  Allt að einu þá liggur fyrir að aukinn meiri hluti kjósenda telur sig ekki eiga erindi á kjörstað og ég get ekki dregið aðrar ályktanir af því en þær sem koma fram í bloggfærslunni minni.  Síðan vona ég að þér hafi gengið vel í þessum kosningum þrátt fyrir dræma kjörsókn

Jón Magnússon, 28.11.2010 kl. 20:45

25 Smámynd: Jón Magnússon

Já Júlíus þetta var heldur betur langur pistill og að litlu leyti í samræmi við bloggið hér að ofan, en það er rétta athugað að það vinnst ekki allt með stjórnarskrárákvæðum.

Jón Magnússon, 28.11.2010 kl. 20:47

26 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Einnig um þjóðaratkvæði. Þá tel ég líka mikilvægt að forseti hafi völd með svipuðum hætti og í Bandaríkjunum og Frakklandi.

Ég er ekki endilega að tala um forsetaræði. Heldur ívið smærri breytingu en það. Sem dæmi, af hverju ekki að nýta þ.s. ferli, þegar forseti fær lista yfir ráðherra senda, og veita forseta í gegnum það rétt til að krefjast röksemda færslu fyrir því af hverju tiltekin einstaklingur er valinn en ekki annar?

Krefjast röksemdafærslu, af hverju þeir telja þann vera réttann? Að forseti hafi rétt til að hafna einstaka ráðherrum. 

Það má sem sagt, útfæra nokkurs konar aðhalds hlutverk embættisins.

Að auki, mætti færa undir embættið, sameiginlegar stofnanir sem eiga að veita óháða ráðgjöf, t.d. ef Þjóðhagsstofnun væri endurreist - jafmvel FME.

Hugsa embættið, ekki endilega sem valda embætti beint. Það myndi áfram einbeita sér að tiltölulegu hlutleysi. Ekki beinum pólit. afskiptum.

Sem auðvitað væri jákvæður þáttu, í því sambandi sem ég er að tala um, að ef embættið fengi mun stærra vægi.

Hins vegar er ég þér ekki sammála um að breytingar á stjórnarskrá hefði getað komið í veg fyrir bankahrunið.

Það sagði ég aldrei. Heldur, að slík breyting sé nauðsynleg aðgerð, til að komast hjá endurtekningu síðar.

Það eru allt aðrir hlutir sem huga þarf að varðandi það og þú skalt ekki gleyma því sem þú hefur iðulega komið inn á í ágætis bloggfærlsum að það varð víðar bankahrun en hér. Þá voru fleiri þjóðir sem tóku verri ákvarðanir en við vegna yfirvofandi bankahruns eins og Írar, Englendingar og Bandaríkjamenn. Evrópa er ekki búin að vinna úr sínum málum vegna ógætilegra lána banka. Franskir og Þýskir bankar eiga t.d. verulega undir neyðaraðstoð til Grikkja og Íra.

Sko, Írland er líkast okkur. Einna helst Anglo Irish bankinn, sem virðist hafa farið mjög ílla að ráði sínu. Þar má einnig finna stað sambærilega þætti, eins og risalán til útvaldra og svoleiðis. 

En, slík hegðun er undantekning. Hjá okkur gegnsýrði slík hegðun allt kerfið. 

Þ.s. veldur bankakreppum í flestum hinna landanna, er ekki svind heldur einfalt hagkerfis bólu krass, sbr. Spán þ.s. bankar sérstaklega þeir sem bera nöfn er hefjast á "caja". Fasteignabóla veldur miklum usla. Hún felldi Írska bankakerfið. Er sennilega á leiðinni einnig með að fella mikið af spánska bankaerfinu. Þ.s. löndin eru skuldalega svo innbyrðis tengd, getur hrun víxlverkað um bankakerfi álfunnar.

Þ.s. hér var sérstakt, voru þessi gríðarlega umfangs miklu svindl verður að segjast. Það eru einnig vísbendingar þess, að áhrif eigenda í gegnum fjárfamlög hafi verið orðin of mikil á stjórnmál.

Ég held, að ást. þess hve mikið bar á þessu hér, sé smæð landsins. Stjórnmálamenn, eru ekki það margir. Ekki svo mikið fé sem til þarf að kosta, til að gera þá sér þæga. Jafnvel heilu flokkana. 

Fyrir banka sem voru orðnir meira en 10 falt hagkerfið, voru þetta orðnir smápeningar.

Ég sé þjóðar atkvæða greiðslu fyrirkomulag, sem lausn vegna þess einfaldlega að þ.e. ekki eins þægilegt að múta heilli þjóð og 63 einstaklingum.

Það muni minnka til muna líkur á að óeðlileg tengs, leiði til óeðlilegrar stefnumörkunar.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 28.11.2010 kl. 21:33

27 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Ansi er ég nú hræddur um að þetta blessaða stjórnlagaþing hafi lítið að segja.

Þekkt er að stjórnmálamenn halda sinni stefnu mjög á lofti og vissulega er ekkert nema gott um það að segja.

Ef ályktun stjórnlagaþings gengur í berhögg við stefnur og skoðanir ríkjandi valds á alþingi, þá er það alþingi sem ræður að lokum.

Ég leyfi mér að halda því fram að stjórnlagaþingið sé vita gagnslaus samkunda, svo ég endurtaki mig, þá framfylgja stjórnvöld sinni eigin stefnu.

Jón Ríkharðsson, 28.11.2010 kl. 22:09

28 Smámynd: Jón Magnússon

Einar Björn ég er sammála þér varðandi þjóðaratkvæði. En ég tel að það væri gott ef við fengjum forsetaræði eins og í Frakklandi og Bandaríkjunum. Þá yrði meiri ábyrgð og meiri þekking í ríkisstjórn en nú er.  Ef þú horfir á sviðið þá sérðu að stór hluti ráðherrahópsins í hverri ríkisstjórn á fætur annarri hafa enga þekkingu sem réttlætir veru þeirra sem yfirmenn þeirra málaflokka sem þeir eru ráðherrar fyrir.

Jón Magnússon, 28.11.2010 kl. 22:31

29 Smámynd: Jón Magnússon

Já Jón Ríkharðsson þetta eru mikilvægar athugasemdir hjá þér. Því má heldur ekki gleyma að þingmenn eru ekki bundnir af öðru en sannfæringu  sinni samkvæmt stjórnarskránni. Þeir eru hins vegar ekki bundnir af niðurstöðum Stjórnlagaþings.

Jón Magnússon, 28.11.2010 kl. 22:33

30 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

"En ég tel að það væri gott ef við fengjum forsetaræði eins og í Frakklandi og Bandaríkjunum. Þá yrði meiri ábyrgð og meiri þekking í ríkisstjórn en nú er."

Það þarf ekki að vera. Í Bandar. er það algerlega á hendi forseta, hvort sá velur hæfa einst. eða ekki.

Í Frakklandi ræður einnig pólit. yfirleitt.

Munurinn hér og þar, er einkum sá að flokkarnir eru mjög mikið stærri batterý.

Þeir geta því haft á sínum snærum fólk sem sérhæfir sig algerlega í málaflokkum.

Hérna vantar slíka sérhæfinug. 

Það verður ekki auðvelt að skapa hana.

Um það, er smæðin stór hindrun - raunverulega.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 28.11.2010 kl. 23:02

31 Smámynd: Júlíus Björnsson

Ég vil styrkja framkvæmda valdið með Forseta til 6 til 8 ára. Gefa honum sjálfdæmi til að fylla sæti sérhæðra Ráðherra í skilgreind framkvæmdastjóra embætti.  Efla fagstofnanir framkvæmdavaldsins.    

Kjósa fulltrúa almennings og hagsmunasamtaka í persónu kosningu til að gæta hagsmuna skattgreiðenda. Í anda Evrópsku Sameiningarinnar til að koma saman 2 á ári til að segja já eða nei, við fjárlögum.  

Efla sveitastjórnir með styrkja þeirra tekjustofna á kostnað miðstýringar.

Hætta að niðurgreiða laun með persónuafslætti.

Júlíus Björnsson, 28.11.2010 kl. 23:57

32 Smámynd: Ingólfur

Þvert á móti, þá þagði meirihlutinn og lét hinum um að velja fulltrúa á stjórnlagaþingið.

Vissulega rétt að kalla hann hinn þögla meirihluta, en hvað hann vill vitum við ekkert um.

Ingólfur, 29.11.2010 kl. 02:55

33 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Þar sem engin áróður var fyrir því að mæta ekki á kjörstað, né yfirlýsingar fyrir kosningar um að menn ætluðu ekki að mæta til að mótmæla þessum kosninum, þá er þetta marklaust hjal? Það er ekki hægt að túlka eftir á hversvegna menn kusu ekki. Það er að mnnstakosti ekki hægt að líta á það sem mótmæli við einu eða neinu. Þessi hópur fólks sem tók ekki þátt fól okkur sem kusum í raun sitt atkvæi og að velja fyrir það fólk til að vinna að breytingum á stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands. Svo einfallt er það.

Magnús Helgi Björgvinsson, 29.11.2010 kl. 16:10

34 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Og kannski í viðbót:

  • Fólk segir að það hafi ekki kosið vegna kostnaðrar við stjórnlagaþing. En þar sem það verður haldið er það nú út í hött.
  • Fólk segir að önnur mál séu meira áríðandi. En þar sem ekki eru þarna stjórnmálamenn að veljast á Stjórnlagaþing þá trufalar það nákvæmlega ekkert önnur áríðandi störf.
  • Fólk segir að það hafi ekki kosið til að refsa Jóhönnu. það er náttúrulega fáránleg rök þar sem að Stjórnarskráin hefur ekkert með Jóhönnu að gera.
  • Fólk segir að það hafi ekki kosið því þetta væri svo fólkið. En fólk þurfti ekki að muna nema inn frambjóanda ef því fannst þetta fólkið.

Svo ég held að þetta sé aðallega vegna þess að allt of stór hluti Íslensku þjóðarinnar kýs ekki nema að flokkarnir séu að ýta við þeim, keyra þau á kjörstað og fólk þurfi lítið að hugsa

Magnús Helgi Björgvinsson, 29.11.2010 kl. 16:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.1.): 23
  • Sl. sólarhring: 816
  • Sl. viku: 5759
  • Frá upphafi: 2472429

Annað

  • Innlit í dag: 22
  • Innlit sl. viku: 5250
  • Gestir í dag: 21
  • IP-tölur í dag: 21

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband