Leita í fréttum mbl.is

Stefna og stefnuleysi borgarstjórans

Í drottningarviðtali síðdegisútvarpsins við Jón Gnarr borgarstjóra virtist þess vandlega gætt að tala um allt annað en borgarmál. Jón Gnarr lét móðann mása um eigið ágæti og það að  Besti flokkurinn hefði enga stefnu jafnvel þó hann hefði stefnu sem engin vissi hver væri þó hún væri til en væri samt ekki til.

Þó fór svo að Jón Gnarr gerði grein fyrir þeim atriðum sem virðast inntak í pólitískri hugsun hans. Í fyrsta lagi sagði hann nauðsynlegt að losna við markaðsþjóðfélagið eða kapítalsimann. Í annan stað að fá hingað fleiri ferðamenn og í þriðja lagi að friðarsamningar í millum Ísraelsmanna og Palestínumanna færu fram í Höfða. Jón Gnarr segir að forsenda þess að eitthvað sé hægt að gera sé að losna við markaðsþjóðfélagið.

Andstaða við markaðsþjóðfélagið er merkileg pólitísk yfirlýsing sem felur í sér hinn valkostinn að vilja miðstýringu og áætlunarbúskap. Áætlunarbúskap eins og í Norður Kóreu eða eins og það var í Kína og að hluta til á Indlandi. Sjálfsagt veit Jón Gnarr að fjöldi Norður Kóreubúa deyja úr hungri árlega og þannig var það í Kína og Indlandi. En e.t.v. veit hann ekki að eftir að Kína og Indland markaðsvæddust hefur þjóðarframleiðsla og velmegun aukist í stórum stökkum.

Sá sem segir það forsendu góðra hluta í þjóðfélagsbaráttu að kasta markaðskerfinu burt verður að segja hvaða valkosti hann boðar í staðinn. Ekki verður hjá því komist lengur að taka það alvarlega sem stjórnmálamaðurinn Jón Gnarr segir. Vissulega er það líka nauðsynlegt að fjölmiðlar taki hann sömu tökum og þeir taka aðra stjórnmálamenn og láti hann standa fyrir máli sínu með sama hætti og þeir þurfa að gera.

Meðal annarra orða hefur Jón Gnarr staðið fyrir bættri stjórnun borgarinnar? Hefur hann dregið úr bruðlinu?Hefur hann lækkað laun borgarfulltrúa og varaborgarfulltrúa á krepputímum? Hefur hann fækkað einkabílum og einkabílstjórum borgarfulltrúa á kostnað borgarbúa? Af hverju er hann ekki spurður að þessu af fjölmiðlafólki? 

Bullukollaviðtöl eru ekki boðleg þegar stjórnandi stærsta fyrirtækis landsins Jón Gnarr á í hlut eða að talað sé um allt annað en fyrirtækið Reykjavíkurborg, rekstur þess og stjórnun.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Já kæri nafni, þessir undarlegu tímar hafa kennt okkur það, að lífið er algerlega ófyrirsjáanlegt.

Mér dettur í hug útvarpsgrín sem var mjög vinsælt fyrir nokkrum árum. Þá var það ekkifréttamaðurinn Haukur Hauksson sem flutti ekkifréttir og það var stundum hægt að brosa að þessum þáttum. Enda hélt maður náttúrulega að svona "ekki dæmi" væri bara  útópískt grín.

En svo kemur ekkistjórnmálamaður fram á sjónarsviðið og stofnar ekkistjórnmálaflokk. Hann hlaut meirihluta atkvæða og borgarstjórastóllinn kom í hans hlut. Þá gerðist hann ekkiborgarstjóri, því honum leiðist borgarstjórastarfið.

Ekkiborgarstjórinn vill svo að einhver taki að sér að sinna störfum þeim sem hann var kosinn til að gegna, til þess að hann geti verið skemmtilegur borgarstjóri, svona eins og Sebastían bæjarfógeti í Kardimommubæ, en Sebastían var nú þrátt fyrir allt virðulegur embættismaður ef marka má heimildir Thorbjörns Egners.

Svo vill hann stofna til vináttutengsla við Múmínálfa og gera Múmínbæ að vinabæ Reykjavíkur. Ekki veit ég hvernig hægt er að samræma æfintýrabæ og raunverulegan, en Jón Gnarr ku vera lunkinn við að feta ótroðnar slóðir að sögn stuðningsmanna hans.

Þetta er nú sá veruleiki sem reykvískir kjósendur völdu sl. vor.

Jón Ríkharðsson, 28.12.2010 kl. 07:40

2 identicon

Sæll.

Ég held að við getum að nokkru leyti kennt linkind Sjálfstæðismanna um stöðu mála í borginni. S.flokkurinn hefur færst of mikið á miðjuna að mínu mati. Útþensla ríksins á árunum 1999-2007 er hræðileg og afleiðing miðjumoðs flokksins og fráhvarfs frá frjálshyggjunni. Svipaða sögu má sjálfsagt segja um borgarapparatið. Ætli það hafi ekki líka þanist út undanfarið? Hvers vegna skrifa borgarfulltrúar t.d. ekki reglulega greinar og benda m.a. á það sem þú nefnir? Það verður að gagnrýna það sem betur má fara og treysta því að kjósendur sjái að betur má gera. Annars ættu svona viðtöl ekki að koma á óvart, blaðamenn klikkuðu á árunum fyrir hrun og ef ég man rétt fengu þeir sneið í skýrslu rannsóknarnefndar alþingis en virðast ekki ætla að taka hana til sín og vilja sjálfsagt sem minnst ræða sinn hlut á árunum fyrir kreppu.

Annars hefur S.flokkurinn (þ.e. þingmenn hans) verið hrikalega linur undanfarið. Hvers vegna hefur þessi hrunstimpill ekki verið þveginn af flokknum með almennilegum útskýringum á raunverulegum orsökum hrunsins? Það að kenna einum flokk um hrunið sýnir fullkomið skilningsleysi á orsökum kreppunnar. Þarna sýna vinstri menn glögglega hvað þeir eiga lítið erindi í landstjórn enda sjá allir úrræðaleysið. Ég held að margir myndu íhuga það sterklega að kjósa S.flokkinn ef raunverulegar rætur þessarar kreppu væru útskýrðar fyrir fólki og málflutningur stjórnarliða því afhjúpaður. Stjórnarliðar gefa á sér höggstað við það eitt að opna munninn, svo innantómur er málflutningur þeirra - þetta þarf að nefna reglulega þar til kjósendur átta sig á þessu. Að fjármálaráðherra komist upp með að segja að hagvöxtur ríki þegar í reynd er um samdrátt að ræða er ótrúlegt. Laug maðurinn eða vissi hann ekki betur? Þessu þarf að halda að kjósendum enda segir þetta allt um getu Vg í efnahagsmálum.

Ég sá e-s staðar að S.flokkurinn hefði nú um 40% fylgi sem er í sjálfu sér ágætt en ég held að ef þingmenn flokksins væru duglegri að halda getuleysi stjórnarinnar að kjósendum og benda á betri leiðir mætti hæglega auka fylgið nokkuð vegna þess hve staða mála er slæm.

Ein spurning svona í lokin til þín og annarra sem hafa kannski áhuga á að svara. Í ljósi þess hve ESB er miðstýrt og ólýðræðislegt bákn hvernig getur nokkur hægri maður stutt inngöngu í það? Fyrir nokkru sá ég e-n líkja ESB við USSR sálugu. Er sú samlíking ekki bara nokkuð góð?

Jon (IP-tala skráð) 29.12.2010 kl. 07:45

3 Smámynd: Jón Magnússon

En meiningin er að halda Gnarrismanum áfram inn í Landsmálin nafni minn Ríkharðsson.  Svona framboð og framganga hefði ekki gengið nema fólki hefði ofboðið stjórnunin og/eða stjórnleysið, stefnuleysið og spillingin.

Jón Magnússon, 29.12.2010 kl. 09:23

4 Smámynd: Jón Magnússon

Það er merkilegt nafni minn sem greinir ekki föðurnafn að við skulum vera hér þrír Jónar að ræðast við um þessa færslu. En það er bara betra að vera í góðum félagsskap.  Ég er í meginatriðum sammála þér og þínum greiningum nema hvað varðar Evrópusambandið. Evrópusambandið er bæði miðstýrt og það er líka skortur á miðstýringu. Um er að ræða bandalag ríkja sem deila fullveldi sínu að hluta með öðrum bandalagsríkjum. Stjórnkerfi bandalagsins var upphaflega miðað við aðstæður sem eru ekki lengur fyrir hendi og þó lappað hafi verið upp á það í þrígang þá hefur ekki tekist nógu vel til að mínu mati.  Stóru vandamál Evrópusambandsins byrjuðu þegar allt of mörg fyrrum kommúnistaríki voru tekin inn í bandalagið án þess að nokkur glóra væri í að taka þau inn. Afleiðingin fyrir okkur sem EES þjóð hefur verið skelfileg af því að íslenskir ráðamenn sváfu á verðinum og stóðu ekki að nauðsynlegum breytingum á EES samningnum í kjölfarið auk þess að nýta sér undanþágur við frjálsu flæði fólks frá nýju ríkjunum árið 2006.  En samlíkingin við USSR á ekki við.

Jón Magnússon, 29.12.2010 kl. 09:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 219
  • Sl. sólarhring: 506
  • Sl. viku: 4435
  • Frá upphafi: 2450133

Annað

  • Innlit í dag: 200
  • Innlit sl. viku: 4129
  • Gestir í dag: 196
  • IP-tölur í dag: 194

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband